Skógræktarritið - 15.10.2010, Page 74

Skógræktarritið - 15.10.2010, Page 74
73SKÓGRÆKTARRITIÐ 2010 Ágrip af sögu skógræktar í Færeyjum Skógrækt í Færeyjum á sér aðeins lengri sögu heldur en skógrækt hér á landi, en margt er líkt með lönd- unum tveimur. Fornleifa- og plöntusögurannsóknir hafa sýnt að áður fyrr óx skógur og kjarr víða um Færeyjar, með ýmsum tegundum – birki, víði, reyni, elri, álmi, furu og fleirum. Stór hluti þeirra hvarf hins vegar fyrir löngu vegna loftslagsbreytinga. Birkiskógur óx hins vegar til landnáms norrænna manna um 800, en hvarf á 200–300 árum. Dæmi eru um tilraunir einstaklinga til að setja niður tré í Færeyjum aftur á 18. öld, en fyrstu opinberu skógræktartilraunir hófust í Færeyjum 1885 þegar gróðursett var við Þórshöfn, en þá höfðu nokkrar umræður verið um skógrækt á færeyska lögþinginu í nokkur ár. Eins og var hér á landi þá komu Danir töluvert að trjáræktartilraunum í Færeyjum og kem- ur þar fljótlega upp kunnuglegt nafn úr skógrækt hér á landi, Christian E. Flensborg, en hann sá um faglegar leiðbeiningar í skógrækt í Færeyjum fyrir hönd Danska heiðafélagsins. Flensborg hafði ávallt mikil tengsl við Færeyjar, enda var eiginkona hans færeysk, og kom hann margsinnis til eyjanna til að fylgjast með framgangi trjá- og skógræktar þar. Þegar á leið var skipuð nefnd til að hafa umsjón með skógræktinni. Til að byrja með komu trjáplönturnar sem gróðursettar voru frá Danmörku. Það var svo árið 1907 að komið var á fót gróðrarstöð, að undir- lagi Flensborg og Trond Hansen, þáverandi skógar- varðar, en hann var fyrsti Færeyingurinn til að vinna að fullu að skógrækt. Sú stöð lagðist af árið 1938 vegna fjárskorts og hófst þá aftur innflutningur plantna frá Danmörku. Liðu þrír áratugir áður en aftur var komið upp gróðrarstöð og þá í Hoydal í útkanti Þórshafnar. Árið 1952 voru sett ný lög um málaflokkinn, sem settu Skógfriðingarnevnd yfir hann. Lögunum var svo breytt árið 1975, þannig að nefndina skipa fimm pólitískt kosnir meðlimir. Árið 1987 var komið á fót sér stofnun, Skógrøkt Landsins, undir eftirliti Skóg- friðingarnevndarinnar og stýrt af landsskógarverði. Skógræktina er nú búið að sameina við fleiri stofn- anir í Umhvørvisstovan, í deild er heitir Viðarvøkst- ur og frílendi. Aðstæður til skógræktar í Færeyjum Færeyjar eru ekki stórar að flatarmáli, eingöngu um 1400 km2, og skiptist flatarmálið á milli átján eyja. Loftslag er mjög hafrænt og mildara en búast mætti við miðað við hnattstöðu, en eins og Ísland njóta eyjarnar áhrifa Golfstraumsins. Sumur eru svöl, vetur mildir og úrkoma töluverð, eða að meðaltali um 1400 mm á ári (800 – yfir 3.000 mm). Nokkur munur er þó á milli eyjanna, t.d. getur verið allt að 1°C heitara á syðstu eyjunni, Suðurey, heldur en í Þórshöfn, er liggur norðar. Eyjarnar eru vel grónar yfirlitum, með grænan lit upp á hæstu fjöll. Nánari skoðun leiðir hins vegar í ljós fábreytt gróðurfar, en graslendi er algengast, með mosa er ofar dregur. Á einstaka stað má sjá bletti með lyngi og í hamrabrúnum og öðrum óað- gengilegum stöðum finnast leifar af fjölbreyttari gróðri. Jarðvegur er víða frekar þunnur, eins og greinilega má sjá á bökkum hinna fjölmörgu smá- lækja og áa sem renna niður brattar hlíðarnar. Ástæða þessarar fábreytni í gróðurfari er einföld – í eyjunum er mikil sauðfjárbeit. Til skamms tíma var engin hefð fyrir því að taka fé á hús og fóðra. Því var og er vetrarbeit mikil á eyjunum, meira að segja í bæjunum. Sem dæmi má nefna að það var ekki fyrr en árið 1979 sem vetrarbeit var bönnuð innan höfuðstaðarins Þórshafnar. Almennt gildir að sauðkindin á fyrsta rétt á landinu og er það staða sem skógræktarfólk hérlendis kannast býsna vel við. Opinberar tölur um sauðfé í Færeyjum eru um 70.000 fjár, en það er nokkuð örugglega vantalið. Vegna þess hve eyjarnar eru ásettar fyrir beit eru dæmi um að fé, sem sloppið hefur inn fyrir skóg- ræktargirðingar, hafi að vetri til bitið allt sem tönn á festi, meira að segja sitkagreni. Sauðkindin er hálfgert einkennisdýr Færeyja og áberandi hátt hlutfall af hrútum, miðað við það sem við eigum að venjast hér á landi.

x

Skógræktarritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skógræktarritið
https://timarit.is/publication/1996

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.