Skógræktarritið - 15.05.2011, Page 9

Skógræktarritið - 15.05.2011, Page 9
7SKÓGRÆKTARRITIÐ 2011 og tegundaauðugu umhverfi. Lagði því garðyrkju- stjóri Reykjavíkur til að ekki yrði hreyft við hinu raskaða svæði að öðru leyti en því að malbiksflögur, spýtnabrak og járnarusl yrði fjarlægt og göngustígar lagfærðir. Borgaryfirvöld féllust á þessar tillögur. Frumgróður Haustið 2001, að þremur sumrum liðnum frá því að flóðið átti sér stað, var kominn töluverður gróður í flóðfarið. Mátti þá enn greina hvað af gróðrinum hafði komið upp af fræjum og hvað hafði vaxið upp af gömlum rótum, ýmist undan þekju af framburði, út frá rofbökkum í jöðrunum eða lifað af í jarðvegs- torfum sem rifnað höfðu upp og borist niður eftir flóðfarinu. Var þá fyrst gerð athugun á gróðurfari til að kanna hvað af eldra gróðri lifði af hamfarirnar, hvaða tegundir hefðu orðið fyrstar til að nema land og í hve miklu mæli. Við þessa fyrstu athugun fundust 96 tegundir æðplantna (þ.e. blómplöntur og byrkningar) í flóð- farinu. Af þeim voru 24 tegundir eingöngu gamall gróður, þ.e. plöntur vaxnar upp af gömlum rótum undir setinu eða jarðvegstorfum. Fræplöntur fundust af 72 tegundum, þar af voru 34 tegundir eingöngu sprottnar upp af fræjum en af 38 tegundum fundust bæði gamlar plöntur og fræplöntur. Rúmlega fjórðungur af þeim tegundum, sem höfðu einungis komið upp af fræi, voru einærar eða skammlífar tegundir sem auðveldlega nema land í röskuðu landi en hverfa fljótlega á næstu stigum gróðurframvindunnar. Þarna fundust einnig nokkr- ar tegundir sem um fram allt eru garðplöntur þó að þær hafi ílenst á nokkrum stöðum hér á landi, en það voru vatnsberi (Aquilegia vulgaris), síberíu- valmúi (Papaver croceum) og garðarifsber (Ribes x pallidum). Ekki er vitað til þess að nokkrar þeirra vaxi í næsta nágrenni flóðfarsins. Einn athyglisverðasti fundurinn var nokkrar plöntur af blóðkolli (Sanguisorba officinalis). Blóð- kollur er innlend tegund sem vex á nokkrum stöðum á Suðvestur- og Vesturlandi. Hann vex næst Elliða- árdalnum í Gufunesi en er stundum ræktaður í görð- um. Ekki eru þekkt dæmi þess að hann hafi slæðst út frá ræktun. Hugsanleg skýring á því að svo margar plöntur fundust þarna gæti verið að áður fyrr hafi blóðkollur vaxið þarna í brekkunni og flóðið rofið fræbanka sem varðveittist niðri í sverðinum. Mikill fjöldi trjáplantna var kominn upp í flóðfarinu. Sumar voru gamall gróður sem lifði í jarðvegstorfum eða óx upp úr malarsetinu niðri á sléttunni. Einnig spruttu víða upp rótarteinungar af reyniviði (Sorbus aucuparia) og alaskaösp (Populus trichocarpa) út frá rofbökkunum í jöðrum flóðfars ins. Langmest var þó af litlum sjálfsáðum plöntum. Var þar aragrúi af víðiplöntum, sem voru sumar hverjar það ungar að illmögulegt var að greina þær til tegunda, einnig var mikið af birkiplöntum (Betula pubescens), nokkrar sjálfsáðar plöntur af reyniviði, tvær stafafurur (Pinus contorta) og fjöldinn allur af sitkagreni (Picea sitchensis), sem bendir til þess að haustið 1999 hafi verið einstaklega mikil fræseta hjá sitkagreni. Mest var af greniplöntunum í brúnjörðinni í rofbökkunum og voru það nánast einu fræplönturnar sem fundust í þeim jarðvegi. Líklegt var að plöntunum í brúnjörðinni væri hætta búin af völdum holklaka, enda hurfu þær fljótlega allar með tölu. Gróðurframvinda Endurgræðslu raskaðs lands má skipta í þrjú megin- skeið. Á því fyrsta, frumherjaskeiðinu (colonization), Sjálfsáinn alaskavíðir.

x

Skógræktarritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skógræktarritið
https://timarit.is/publication/1996

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.