Skógræktarritið - 15.05.2011, Blaðsíða 12
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201110
Sjálfsáinn reyniviður.
Um miðja öldina sem leið áleit mikill hluti þjóðar-
innar að tré gætu ekki vaxið á Íslandi, nema ef til
vill í görðum og þá helst þar sem skjóls og yls nyti
frá húsveggjum. Langt fram eftir öldinni var kennt
í helstu skólum landsins að íslenskur jarðvegur væri
ófrjór, vegna þess að veðurfar hér á landi væri svo
kalt að lítil sem engin efnaveðrun ætti sér stað í
berginu og auk þess rotnuðu lífrænar leifar plantna
og dýra seint, en hvort tveggja er nauðsynlegur
undanfari jarðvegsmyndunar. Það gróðurfar sem
víðast hvar blasti við, eyðisandar, melar, rofabörð,
lyngmóar og, þar sem best lét, kræklóttur kjarr-
gróður, kom vel heim við þessar kenningar og enn
telja margir þetta óspillta íslenska náttúru. Nú hafa
nýjustu rannsóknir aftur á móti sýnt fram á að ís-
lenski eldfjallaberggrunnurinn veðrast hratt og ber-
ist honum nægilegt magn lífrænna leifa og súrefnis
sjá örverur, sveppir og smádýr jarðvegsins um að
byggja upp frjósama gróðurmold.
Ekkert er vitað með vissu um uppruna flóru Ís-
lands. Annars vegar eru kenningar um að allt landið
hafi verið hulið jökli á seinasta jökulskeiði ísaldar
og að allur gróður hafi borist hingað eftir að hlýna
tók í veðri. Hins vegar benda ýmis rök til þess að
hluti flórunnar hafi hjarað á jökulskerjum og öðrum
íslausum svæðum. Raunar skiptir þetta litlu máli því
að vitað er að landið greri hratt upp þegar jökull-
inn hörfaði og varð snemma algróið, nema hæstu
fjöll. Þessi frumgróður landsins var svalviðrisgróður
og enn er meginhluti flórunnar svalviðristegundir.
Töluvert af varmakærari tegundum hefur síðar
borist til landsins, en hvort tveggja er að landið er
einangrað langt úti í hafi og það er erfitt fyrir nýjar
tegundir að setjast að og breiðast út í fullgrónu
landi. Flóra landsins er því mun fábreyttari en land-
kostir bjóða upp á.
Nú er ekkert vafamál lengur að fjölbreyttir skógar
geta vaxið á Íslandi. Margar þeirra trjátegunda sem
reynst hafa best þroska hér fræ og sjálfsáðir afkom-
endur þeirra eru víða að komast á legg. Enn vitum
við ekki hvernig náttúrulegir framtíðarskógar lands-
ins munu verða. Vafalaust verða þeir margskonar,
allt eftir aðstæðum á hverjum stað, en í ungskóg-
inum, sem er að vaxa upp í flóðfarinu í Elliðaárdal,
má eygja vísi að því gróðurfari sem íslensk náttúra
kýs sjálf að skrýðast.
hvað sem uppgræðslu þess líður þá er fjölbreyttur
runna- og trjágróður að vaxa þarna upp og allt
stefnir í þá átt að innan örfárra áratuga verði það
vaxið samfelldum skógi. Hér verður hægt að fylgjast
með hvernig náttúrulegur skógur vex upp á stað þar
sem bæði innlendar og flestar algengustu innfluttu
trjátegundirnar leggja til fræ. Trjáplönturnar standa
víða mjög þétt og hefst því fljótlega hörð samkeppni
milli bæði einstaklinga og tegunda. Aldrei áður
hefur verið unnt að fylgjast með samkeppni í fjöl-
breyttum ungskógi þar sem trjáplöntunum var ekki
komið fyrir af yfirlögðu ráði heldur hafa þær vaxið
upp ýmist af rótarsprotum eða þar sem fræ féllu af
tilviljun á staði þar sem ungplöntur áttu möguleika á
að vaxa úr grasi. Hér verður hægt að fá ómetanlegar
vísbendingar um hvers konar skógar geta vaxið hér
upp við þær aðstæður sem íslensk náttúra býður
upp á.