Morgunblaðið - 05.08.1992, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 05.08.1992, Blaðsíða 26
26 MÖRGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. ÁGÚST 1992 FJjórða kjör- tímabil for- seta hefst FRÚ Vigdís Finnbogadóttir var sett í embætti forseta Islands sl. iaugardag, fjórða kjörtímabilið í röð. Athöfnin fór fram í salar- kynnum Alþingis, að viðstöddum handhöfum forsetavalds, ríkis- stjórn ásamt fleiri gestum. Fyrir athöfnina hlýddu gestir á guðþjónustu í Dómkirkjunni. þar sem biskup íslands, séra Ólafur Skúlason, prédikaði. Að henni lok- inni var gengið fylktu liði yfir í Al- þingishúsið, undir forystu forsetans og handhafa forsetavaldsins. Þetta var í fyrsta sinn við slíka athöfn að tveir af þremur handhöf- um forsetavalds eru konur, Guðrún Erlendsdóttir, forseti Hæstaréttar, og Salóme Þorkelsdóttir, forseti Al- þingis. Það var forseti Hæstaréttar sem mælti fram eiðstaf til undirrit- unar forseta íslands til næstu fjög- urra ára, og lýsti kjöri Vigdísar til embættisins. Að embættistöku lokinni gekk forsetinn fram á svalir Alþingis- hússins og bað fólk að minnast fóst- uijarðarinnar, en nokkur mannfjöldi hafði safnast saman á Austurvelli í tilefni að athöfninni. Því næst flutti forsetinn ávarp sitt í Alþingishúsinu. Gengið frá Dómkirkjunni til Alþingishússins. Innsetningarávarp forseta íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, í Alþingishúsinu: Auðlindir eru ekki einungis í djúpi hafs og víðáttu lands Hér sést Guðrún Erlendsdóttir, forseti Hæstaréttar, mæla fram eiðstaf, sem forseti íslands undirritaði við athöfnina. Að baki Guðrúnar sitja Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Saióme Þorkelsdóttir, for- seti Alþingis. Hér fer á eftir ávarp forseta íslands, frú Vigdísar Finnboga- dóttur, eftir að hún hafði verið sett inn í embætti fjórða sinni: Góðir íslendingar. Ein dýrmætasta gjöf sem hægt er að hljóta er traust þjóðar. Sá sem þiggur á að vera í senn auðmjúkur og þakklátur og honum ber að eiga þá ósk heitasta að geta endurgoldið slíka gjöf. Mér hefur nú verið færð sú gjöf í fjórða sinn og bið forsjón- ina um styrk til að endurgjaida hana eftir mætti. Hver örfleyg stund er áður en varir horfín í tímanna safn. Þegar skyggnst er fram á við virðist eitt ár óralangur tími. Sé litið um öxl er sem árin hafi flogið hjá á ógnar- hraða, — inn í tímann, sem aldrei lætur á sér standa. Tímann sem ögrar til afreka því hann endist skammt og hegnir án miskunnar fyrir hangs og tómlæti. Við erum ein þjóð, íslendingar, — ein fjölskylda. Til þess fmnum við á stundum sorgar og gleði; ann- ars vegar er eitthvað bjátar á, hins vegar á dögum sigra og velgengni. Fjölmörgum hefur okkur verið falið að fara með umboð þjóðarinnar í margvíslegum málefnum er varða hana miklu. Og skylda okkar hlýtur það ætíð að vera að líta framhjá einkahagsmunum, en gæta að hagsmunum heildarinnar, — íslend- inga sem þjóðar. Starf okkar er þó til lítils ef sérhver þegn þessa lands leggur ekki sitt af mörkum til þess að þjóðinni þoki fram á við. Það sem við hvert og eitt gerum í þágu heild- arinnar kemur okkur sjálfum að gagni. Við Islendingar erum frjáls þjóð í góðu landi. Sú kynslóð sem nú vex úr grasi telur frelsið sjálft jafn sjálfsagt og loftið sem við öndum að okkur. Frelsisbarátta þjóða í heimshluta okkar hefur engu að síður minnt alla á að ekkert sem íslensk þjóð hefur öðlast er sjálfgef- ið né heldur víst að við höfum það í hendi er fram líða stundir. Enginn veit á hvern veg forlagahjól okkar snýst né hvemig okkur vegnar á þjóðlífsins braut. íslenskt lýðveldi hefur aðeins lif- að tæpa hálfa öld. Mælt á kvarða heimssögunnar er það því eins og komabam. Það þarf alúð og aðgát. Það þarf stoð og það þarf styrk. Að því þarf að hlynna af dómgreind og styðja það af ástúð. Það er fjör- egg okkar. Til þess að varðveita þetta fjör- egg er okkur falin sú skylda að kenna sem best þeirri kynslóð sem mun erfa landið. Sem siðmenntaðri þjóð ber okkur þar að leggja áherslu á varðveislu og vemdun umhverfís og virðingu og rækt við sögu og menningu. Á okkar tímum, þegar ijarlægðir nálgast fyrir tilverknað margs konar tækni, og erlendar tungur ferðast skilríkjalaust yfír landamæri og álfur, verður það keppikefli sérhverrar sjálfstæðrar þjóðar að varðveita og hlúa að móðurmáli sínu og menningu. Menntun barna okkar og þroska má aldrei fóma fyrir hagsmni hrað- fleygrar stundar. Þeirra er framtíð- in, þeirra vegna eigum við í amstri dagsins og þeirra vegna ber okkur að ávaxta menningu hugar og handa. Við erum á það minnt nú, þegar afla brestur, hversu djúptæk áhnf sveiflur í náttúrunni hafa á líf Is- lendinga og hve vandamikið reynist að taka ákvarðanir um nýtingu auðlinda okkar. En auðlindir eru ekki einungis í djúpi hafs og víðátt- um iands. Fá verðmæti munu skipta jafn miklum sköpum þegar fram líða stundir og mannvit okkar, menntun og kunnátta. Samastaður okkar í félagi þjóð- anna er breytingum undirorpinn en engin þjóð fær yfirgefið fjölskyldu mannkyns. Við munum þó einungis njóta virðingar í samskiptum við þjóðir heims, ef við höldum á loft menningu okkar okkar og sögu af einurð og hógværð í senn. Evrópu- þjóðir hafa nú lengi alið þann draum að efla samvinnu sína og samstöðu og hafa þegar stigið stór skref í þá átt. Senn verðum við íslendingar að marka afstöðu okkar til efna- hagssambands þjóðríkja Evrópu. Við þurfum að skyggnast vel um á næstu vikum og mánuðum, líta til austurs og vesturs, suðurs og norð- urs og leita svara við þeim spurn- ingum sem svara þarf, fullvissa okkur um að við öll, hvert okkar og eitt, skiljum til hlítar hvað felast muni í þessari samfylkingu þjóða. Við brýnum fyrir börnum okkar að gaumgæfa námsefni sitt áður en gengið er að prófborði. Þá muni þeim famast vel. Nú stendur íslensk þjóð frammi fyrir prófraun sem mun ekki einungis skipa okkur á reit í nánustu framtíð heldur einnig um ókomin ár. Mikið er því í húfi að við göngum til prófs á sama hátt og við kennum þeim ungu sem enn eiga ýmislegt ólært, — fullviss um að við skiljum í þaula hvað í ákvörð- un okkar felst og hvar og hvernig við ætlum að skipa sæti okkar í byggingu heims. Eins og stundum áður hvet ég enn til þess að landsmenn láti ekki stundaráföll hrekja sig af leið. Við vitum að sífellt skiptast á skin og skúrir. En minnumst þess að sá er eingöngu beinir sjónum niður fyrir fætur sér kemur ekki auga á það sem framundan er. Og verum þess líka minnug að það andstreymi er við búum við nú um stundir kann að vera hjóm eitt hjá alvariegum þrengingum forfeðra okkar og mæðra. Æska þessa lands á það síst skilið að alast upp við úrtölur og barlóm. íslenskt þjóðlíf breytist frá ári til árs, frá öld til aldar. Sagt er að tímamir breytist og mennimir með, en gleymum ekki að tímamir breyt- ast fyrir tilverknað mannanna. Á íslandi býr dugmikil þjóð. Hún hef- ur harðnað í frosti og fönnum og eflst í glímu við að rækta og eija akurlendi okkar, haf og harðbýlt land. Nú er þessari þjóð brýnt að virkja afl handanna og auðlegð andans og tryggja þannig að hér komi betri tíð með blóm í haga — öflugt at- vinnulíf og hagsæld á heimilum landsins. Ekkert fæst fyrir ekkert. Engu verður áorkað með úrtölum og doða og eftirsjá eftir glingri. Ekkert ætti að vera íslendingum jafn fjarri og Iáta sér fallast hendur. Aldrei má það gerast. Aldrei mun það eiga sér stað. Megi íslensk þjóð marka sér framtíð með festu og seiglu og minningu um upphaf sitt. Megi hún alla tíð hafa fegurð og einurð, auðmýkt og mannúð visk- unnar í för með sér. Megi henni farnast vel á öllum stundum framtíðar. Guð blessi ísland og íslenska þjóð.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.