Morgunblaðið - 06.08.1998, Síða 32

Morgunblaðið - 06.08.1998, Síða 32
32 FIMMTUDAGUR 6. ÁGÚST 1998 MORGUNB LAÐIÐ LISTIR Portrett af einni persónu sem og heilli þjóð Morgunblaðið/Golli KVIKMYNDAGERÐARMENNIRNIR Petter Wallace og Ragnar Hall- dórsson sem hyggja á gerð heimildarmyndar um Island þar sem gest- gjafinn verður Vigdís Finnbogadóttir. „ÞETTA verður engin glans- mynd af íslandi heldur rauna- sönn mynd um náttúru og menn- ingu landsins og fólkinu sem hér býr séð með augum Vigdísar Finnbogadóttur, - einstakrar konu sem hefur starfsreynslu sinnar vegna öðlast dýpri skiln- ing en flestir aðrir á því hvað það er sem felst í því að vera Islendingur," segja þeir Ragnar Halldórsson og Petter Wallace. Kvikmyndagerðarmennirnir tveir frá Noregi og íslandi hyggja á samvinnu um gerð heimildarmyndar um Island þar sem fyrrverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, leiðir. áhorfend- ur í ferð um landið. Gert er ráð fyrir að myndin verði sýnd í sjónvarpi á Norður- löndum um jólin 1999 og síðar víðar í Evrópu og jafnvel utan hennar. Fyrr í sumar funduðu þeir Petter og Ragnar með Vig- dísi hér á iandi og unnu drög að handriti fyrir myndina auk þess að skoða tökustaði víða um land- ið. Áætlað er að tökur hefjist síð- ar á árinu og fari fram með hlé- um langt fram á næsta ár. Mynd- in sem er 50 mínútna löng verður tekin upp í danskri og enskri út- gáfu en samtöl Vigdísar við heimafólk fara fram á íslensku. Petter Wallace er kvikmynda- framleiðandi og leikstjóri í Nor- egi og framkvæmdasljóri alþjóð- legra verkefna hjá sjónvarpsfyr- irtækinu Metronome, dótturfyr- irtækis Schibsted fjölmiðlasam- steypunnar sem m.a. gefur út Verdens Gang og Aftenposten í Noregi og Svenska Dagbladet og Aftonbladet í Svíþjóð. Samsteyp- an á jafnframt þriðjung í TV2, stærstu sjónvarpsstöð Noregs í einkaeign, og TVNorge, aðra stærstu einkastöðina, auk fleiri sjónvarps og kvikmyndafyrir- tækja á Norðurlöndum. Petter hefur frá 1982 átt þátt í fram- leiðslu meira en þúsund sjón- varpsþátta, bæði leiknu efni og heiinildarmyndum. Hann kom fyrst til íslands fyrir þremur árum og heillaðist mjög af landi og þjóð. Þá vann hann að þátta- röð fyrir norska sjónvarpið um þekkta einstaklinga víða um heim og fulltrúi íslands var Vigdís Finnbogadóttir. Ragnar Halldórsson hafði fengist við þáttagerð fyrir sjónvarp og kvikmyndagerð hér á landi þegar hann hóf meistaranám í sjónvarpsstjórnun í Sviss en frá því að námi lauk hefur hann starfað í Noregi við gerð sjón- vai'psefnis þar sem Ieiðir hans og Petters lágu fyrst saman þegar Ragnar hóf störf hjá Schibsted samsteypunni. „Einstök reynsla einstakrar konu“ „Fólk frá hinum Norðurlönd- unum veit ekki nóg um Island,“ segir Petter. „Flestir þekkja hins vegar til Vigdísar og vilja, - að ég tel, gjarnan fá að kynnast henni betur. Með gerð heimildar- myndar þar sem Vigdís er í hlutverki gestgjafans má því segja að við séum að slá tvær flugur í einu höggi og útkoman verður vonandi fersk og spenn- andi sýn á land og þjóð þar sem hæfileikar og reynsla Vigdísar fá að njóta sín.“ Þeir benda á að mynd sem þessa hefði ekki verið hægt að gera á meðan Vigdís var enn for- seti en nú þegar hún hefur látið af embætti sé henni aftur fijálst að tala í eigin nafni og lýsa per- sónulegum skoðunum og hug- myndum sínum um land og þjóð. „I raun hefur Vigdís gengið í gegnum þijú mjög ólík tímabil í lífi sínu, - árin áður en hún varð forseti, á meðan á forsetatíð hennar stóð og nú þegar hún hef- ur horfið til annarra, og ekki síð- ur merkilegri, starfa," segir Ragnar. „Reynsla hennar er ein- stök og við erum henni vitaskuld afskaplega þakklátir fyrir að hafa látið til leiðast og gengið til samstarfs við okkur uni að draga upp „hennar" mynd af íslandi." Hin tvöfalda sýn gests og heimamanns Petter bendir jafnframt á kosti hinnar óliku sýnar sem hann og Ragnar hafi á landið. „Fyrir nokkru vann ég heimild- armynd um Noreg og núna vildi ég óska þess að ég hefði haft út- lending mér til halds og trausts í þeirri vinnu,“ segir Petter. „Fjarlægðin á viðfangsefnið er ekki síður mikilvæg en hitt og í samstarfi okkar Ragnars höfum við báðir hagnast á þessari tvö- földu sýn „gestsaugans" og heimamannsins." Framundan er erfiðasti og tímafrekasti hluti forvinnu við kvikmyndagerð, að sögn Petters og Ragnars, og það er fjármögn- un. „Mynd þessi er stór á mæli- kvarða sjónvarpsefnis og þörfn- umst alls þess íjárhagslega stuðnings sem við mögulega get- um fengið bæði hér á landi og í Noregi,“ segir Ragnar. Einsöngstón- leikar í Borg- arneskirkju THEODÓRA Þorsteinsdóttir sópransöngkona og Ingibjörg Þor- steinsdóttir píanóleikari halda ein- söngstónleika í Borgarneskirkju fóstudagskvöldið 7. ágúst og hefjast þeir kl. 21.00. Þar munu þær flytja fjölbreytta dagskrá. Meðal þess sem er á efnisskránni er ljóðaflokk- urinn „Liebeslieder“ eftir Dvorák, lög eftir Pál ísólfsson, Karl 0. Run- ólfsson og Jón Þórarinsson og ítalskar aríur. Theodóra Þorsteinsdóttir lauk söngkennaraprófi 1987 og stundaði framhaldsnám í Vínarborg og á Italíu. Hún er nú skólastjóri og söngkennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Hún hefur víða kom- ið fram sem einsöngvari hérlendis og erlendis og hefur auk þess sung- ið með kór Islensku óperunnar í mörgum uppfærslum. Að loknu kennaraprófi stundaði Ingibjörg Þorsteinsdóttir fram- haldsnám við Guildhall School of Music and Drama í London og lauk þaðan einleikaraprófi (LGSM) árið 1981. Hún er skólastjóri og kennari við tónlistarskólann í Stykkishólmi og hefur komið fram sem píanóleik- ari með einsöngvurum, kórum og hljóðfæraleikurum, auk þess að halda píanótónleika. Þetta er í þriðja skipti sem þær stöllur halda saman sjálfstæða tón- leika. Veröld sem var BÆKUR íslensk fra;ði SAMRÆÐUR VIÐ SÖGUÖLD. FRÁSAGNARLIST ÍSLENDINGASAGNA OG FORTÍÐARMYND eftir Véstein Ólason. Mál og menning. Há- skólaforlag Máls og menningar, 1998, 257 síður. ÍSLENDINGASÖGURNAR eru sú bók- menntagrein frá miðöldum sem jafnan hefur notið mestrar athygli þeirra fræðimanna sem glíma við fornnorrænar bókmenntir. Þær hafa rótfest sig betur í vitund þjóðarinnar en aðrar frásagnarbókmenntir miðalda (samanber til dæmis nýútkomið rit Jóns Karls Helgasonar) enda verður sérstaða þeirra í gjörvallri sögu heimsbókmenntanna ekki frá þeim tekin. Það er ekki síst þessi sérstaða Islendingasagn- anna sem tekin er til umfjöllunar í einkar læsilegu riti Vésteins Ólasonar, Samræður við söguöld þar sem meðal annars er leitað svara við spurningunum: „Um hvað eru Islendinga- sögur og hvemig eru þær sagðar? Hvað segja þær okkur um tímann þegar þær voru samdar og um lífið yfirleitt? Hvar eiga þær heima í bókmenntasögu Vesturlanda?“ (44). Einn helsti kostur þessa rits er sá að í því er'að finna einkar vænlega heildarsýn, full- mótuð viðhorf sem Vésteinn hefur þroskað í hálfrar aldar ástarsambandi sínu við sögurn- ar. Bókin einkennist af vandvirkni og ekki síð- ur varfærni þess sem gerir sér grein fyrir stöðu sinni sem nútímamanns andspænis framandi textum; höfundur líkir sjálfum sér við fjarskyldan ættingja eða barn sem stend- ur álengdar og hlustar „á samtal tveggja ná- kominna öldunga" og reynir „að átta sig á merkingu þess með því að skjóta að fáeinum spumingum" (210). Þetta viðhorf felur bæði í sér kosti og galla. Það felur sjálfkrafa í sér virðingu fyrir textunum en á hinn bóginn kemur það í veg fyrir að höfundurinn reyni að setja sig í spor „öldunganna“ og ganga inn í þeirra heim. Við fyrstu sýn virðist þessi var- fæmi brjótast út í nokkurri íhaldssemi sem þó er ætíð vel rökstudd. Víst er að Vésteinn læt- ur póstmódemískar efasemdir um stærðir á borð við „verk“ og „höfund" ekki slá sig út af laginu, þótt hann bendi á að slíkar efasemdir geti átt vel við í tilfelli hinna höfundarlausu Islendingasagna. Vésteinn fjallar um hverja sögu sem „afmarkað verk“ og ræðir um höf- unda þeirra (enda á hann ekki aðeins í sam- ræðum við textana heldur þá sem færðu sög- umar til bókar) en tekur réttilega fram „að slík hugtök merkja ekki nákvæmlega það sama þegar talað er um íslendingasögu og nútímaskáldsögu" (11). Stór hluti af bók Vé- steins inniheldur lýsandi orðræðu þar sem gerð er grein fyrir þeim jarðvegi sem sögurn- ar era sprottnar úr. Hér er fjallað ítarlega um frásagnarlist sagnanna og merkingarheim, menningarlegan bakgrunn þeirra, sömuleiðis hefðbundin viðfangsefni á borð við hetjuí- mynd, manngerðir og siðferðishugmyndir sem grundvallast að mati Vésteins öðra frem- ur á hugtaki sæmdarinnar og samfélagi hefndarskyldunnar. Hér er sömuleiðis fjallað um bókmenntasögulega stöðu sagnanna, merkingu þeirra og túlkun í víðu samhengi, og síðast en ekki síst erindi þeirra við nútlm- ann. Vésteinn fjallar almennt um bókmennta- greinina og notar einstakar sögur sem dæmi. Hann beitir þar ákveðinni flokkun enda sög- umar margbreytilegar og verða til að mynda ekki steyptar í fast mót eins og undraævin- týri, eins og bent er á; raunar varar Vésteinn við því að fella allt sem í texta sagnanna stendur inn í fastmótaða frásagnargerð sem kemur „að litlu haldi við að skynja listræn ein- kenni einstakra sagna“ (71). Hann fæst þannig við margbreytileika sagnanna og leyfir þeim að njóta sín í fjölbreytni sinni, enda ljóst að það er ærið langt á milli sagna á borð við Eyrbyggju annars vegar og Valla-Ljóts sögu hins vegar, svo dæmi sé tekið. Vésteinn slær meginkenningu sinni fram strax á fyrstu síðu bókarinnar: „í þessu riti er því haldið fram að íslendingasögur í heild fjalli um missi, ekki missi lífs eða lima ein- stakra manna, þótt slíks sé víða getið, heldur missi heillar veraldar eða heimsmyndar“ (9). Vésteinn stofnar til samræðu við höfunda sem einnig stóðu í samræðu við sína fortíð; menn sem á umbrotatímum 13. aldar og á 14. öld horfðu aftur til samfélags hefndarskyldunnar og færðu í orð sögur sem gengið höfðu manna á milli um langan tíma. Hugmyndin um fortíð- armynd sagnanna kemur einna skýrast fram í vænlegri túlkun Vésteins á Njáls sögu sem að hans mati „fjallar um veröld sem var, heim sem er hoifinn og kemur aldrei aftur“ (171). Þessi „heimur hvfldi á undirstöðu sem var ósamrýmanleg friði, hugmyndafræði sæmdar og hefndarskyldu" (170); „Nærtækt er að lesa þessa sögu um mót forns og nýs heims og fall þess forna, rétt eftir að kristni var í lög tekin, sem sögu um þær tilfinningar sem fall þjóð- veldisins hafði vakið hjá þeim sem það kom til þroska og lifðu nýja tíma. Sagan er samtal ís- lendings nærri aldamótum 1300 við forfeður og formæður sem lifðu aldamótin 1000“ (171). Það sem er athyglisverðast í þessari bók er ekki síst sú staða sem Vésteinn tekur sér í túlkunarsögu íslendingasagna. Af bókinni má dæma að honum finnst fræðimenn sumir hverjir hafa.gengið fulllangt í túlkunum sínum á sögunum, og jafnvel haft textana að „leiksoppi" í leik sínum með fræðikenningar sem henta illa þegar sérkenni Islendinga- sagnanna eru annars vegar (228). Vésteinn leggur áherslu á að sýna textunum fulla virð- ingu, eins og hann kallar það, og hann vill fremur ganga of skammt en of langt í túlkun sinni. Hann litur til að mynda svo á að ekki beri að lesa íslendingasögur sem launsögur og telur að leitinni að merkingu sé „mörkuð sýnileg stefna i textunum"; verkefni túlkand- ans sé „að skýra og dýpka þá merkingu sem við blasir" (10); „Frásagnarefni íslendinga- sagna er svo máttugt og sérkennilegt í sjálfu sér að tilraunir til að snúa þeim upp í eitthvað annað, t.d. dæmisögur eða siðapredikanir, þyrla einatt ryki yfir það sem mestu máli skiptir og rýra listræn og tilfinningaleg áhrif sagnanna" (10). Þessu viðhorfi tengist vitan- lega sú áhersla sem Vésteinn leggur á sér- stöðu Islendingasagna sem bókmenntagrein- ar. Þótt bent sé á að sögurnar eigi á mörgum sviðum samleið með ýmsum greinum afþrey- ingarbókmennta þá er munurinn á þeim og öðrum greinum frásögubókmennta mikill og sá „munur á sér dýpstu rætur í þeim einstöku sögulegu og menningarlegu aðstæðum sem sögurnar era sprottnar úr“, en þessum rótum er lýst á afar sannfærandi hátt í bókinni (201). Eins og Vésteinn bendir á þá era sögurnar „ritlist á grunni arfsagna", og sú staða setur „túlkanda þeirra ákveðnar skorður í samræmi við þær skorður sem aðstæðumar settu höf- undum sagnanna“ (184). Sögurnar era sér- stæðar meðal evrópskra miðaldabókmennta og því verður viðurkenndri túlkunarfræði miðaldafræðinga ekki beitt gagnvart Islend- ingasögunum án íyrirvara; túlkandinn verður því „að nálgast þær með tækni sem þeim hæf- ir en ekki með lánuðum verkfæram" (185). Að öllu saman teknu er hér á ferðinni rit sem hvorki fræðafólk né áhugafólk um íslend- ingasögurnar má láta fram hjá sér fara, og því vænlegt að ensk þýðing bókarinnar skuli koma út samtímis íslensku gerðinni. Þótt sumsstaðar megi setja spurningarmerki við þá hófsömu stöðu sem höfundurinn tekur sér andspænis sögunum sem áheyrandi að sam- tali fremur en þátttakandi þá er sú heildar- mynd sem dregin er upp af merkingarheimi og baksviði sagnanna einkar greinargóð, og reyndar eitt mikilvægasta framlag þessarar bókar. Samræður við söguöld fjallar reyndai’ ekki síst um þá stöðu sem fræðimaðurinn tek- ur sér gagnvart viðfangsefni sínu en hún hlýt- ur ávallt að vekja fleiri spumingar en hún svarar, ekki síst þegar glímt er við miðalda- bókmenntir, og það á við í þessu tilfelli; ef til vill gengur Vésteinn til dæmis fulllangt í að lesa nútímalegan mannskilning inn í túlkun sína á þeirri mynd sem sögurnar draga upp af persónum á borð við Gísla Súrsson og Egil Skallagrímsson þar sem talað er um djúpar tilfinningar, ástríður og þunglyndi, svo dæmi séu tekin. Niðurstaða bókarinnar verður þó hvorki dregin í efa né gagnrýnd að sinni: „Áhugi á framandi heimi nærist ekki á fánýt- um draumi eða ósk um að hverfa burt úr sam- tímanum aftur í tímann, en hann getur skapað nýjan skilning á okkar heimi, sýnt að til eru fleiri hættir á að vera í heiminum en sá háttur sem við höfum fæðst til“ (209). Eiríkur Guðmundsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.