Skírnir - 01.08.1914, Side 29
Faxi.
253
gegnum hann eins og hnífsoddur — og samstundis tók
hann í fáti höndum um mittið á mömmu sinni, grúfði
höfuðið niður í barm hennar og sagði blíðlega:
— Mamma!
Nú fann hún, að skap hans var að blíðkast og linaði
ósjálfrátt tökin, og óðara smaug hann út og var allur
á burt.
Þá fyrst rann upp fyrir honum að hann hefði gert
ljótt verk, að svíkjast svona frá mömmu sinni. Og hann
grét sáran. —
Guð minn góður, hvað hann vildi bæta fyrir daginn
í gær! Hann hóf upp höfuðið og leit upp eftir brekkunni,
sem hann átti fram undan sér.
Það var spölkorn enn til hestanna. Hann staldraði
við til að kasta mæðinni. Fossinn niðaði á hlið við hann,
fuglarnir sungu í kring um hann, og niður dalinn rann
áin, og upp í ána rann sjórinn, og mættust í breiðu hand-
taki. Þeim friði, sem hann leitaði að, andaði náttúran inn
i sál hans. Og hann fleygði sér niður og faðmaði mold-
ina sem hann gekk á. Og jörðin var mýkri en sængin
hans, og hann lá lengi, því jörðin vildi ekki sleppa hon-
um. Jörðin hélt honum með seiðmagni ilms og lita og
með sjálfri hvíldinni, sem hún veitti honum. Þegarhann
fann þreytuna líða úr limum sínum, var eins og dular-
fullir straumar rynnu milli hans og jarðarinnar og hann
lagði sig fastara að henni, og sjálf tunga hans snart mold-
ina og fann bragðið, og hann fann að jörðin eignaði sér
líkama sinn. Hann lyfti upp höfðinu til að standa upp,
en þá teygði jörðin sig eftir honum, blóm hennar réttust
upp og stórir, fagrir bikarar námu við varir hans, og
nasir hans teiguðu að sér angan þeirra, og hann dreypti
vörum sínum í silfurskærar veigar þeirra og drakk drykk
sólarinnar. En þegar hann hafði drukkið, varð hann
þyrstur. Og hann sleit sig upp og hélt áfram leiðar
sinnar.
Frammi í dalnum voru hestarnir á víð og dreif. Hann
gekk að Grána sínum, klappaði honum og gældi við hann,