Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1968, Qupperneq 8
12
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
leið þótti þá ekki eins víst og áður hafði verið talið, að myndin væri
í raun og veru af Ólafi helga. Næsta stig rannsóknarinnar hlaut því
að verða að nálgast kvenlíkneskið, sem enn var á Stað, og bera það
saman við Búðardalslíkneskið. í þessu skyni fékk Þjóðminjasafnið
myndina lánaða frá kirkjunni. Þar sem hún er sú eina af Staðarmynd-
unum, sem aldrei fyrr hefur úr kirkjunni farið, skal henni lýst hér
fyrstri.
1. Konumynd úr eik, 44 sm á hæð, 14,5 sm breið neðst, mesta
þykkt um 11 sm. Myndin er flöt og óunnin að aftan, er í rauninni
hátt upphleypt lágmynd, en þó er höfuðið heilskorið og hefur skilið
sig alveg frá bakgrunninum, sem myndin var fest á. Konan er krjúp-
andi, með samanlagða lófa á brjóstinu, þ. e. í tilbeiðslustellingum,
hallar lítið eitt á, en horfir fram, alvarleg í bragði en þó eins og milt
bros á andlitinu. Ennið er einkennilega hvelft, hár slegið og skiptist
til beggja hliða, nær niður á mjaðmir báðum megin. Miklir liðir eru
djúpt skornir í hárið. Konan er í síðum kyrtli með löngum ermum
og á þeim uppslög. Utan yfir, um aðra öxl og niður eftir báðum megin,
er mikil skikkja, sem fellur í stórum djúpum fellingum niður á stall.
Fellingarnar eru vel flestar eðlilegar, en þó eru sumar greinilega um-
fram það sem eðlilegt væri að klæði féllu og til þess gerðar að láta
sér verða sem mest úr fyrirferð skikkjunnar. Myndin er máluð nú,
kyrtill rauðbrúnn, skikkja sterkgræn, hárið svart, andlit og hendur
með hörundslit. Þessi málning er ekki illa gerð, en hún er ekki upp-
runaleg. Enginn undirburður éða undirhvíti er undir málningunni,
og naumast kemur til mála, að hárið hafi verið svart, því að þetta
er María, eins og sumir hafa talið og síðar verður greint. Hún hefur
haft gyllt hár, enda má víða sjá leifar af gyllingu í hárinu, þegar
það er skoðað undir stækkunargleri. Á þessu er því enginn vafi.
Annars verður ekki með vissu sagt, hvaða lit myndin hefur borið í
öndverðu, né heldur örugglega vitað, hvenær hún var málu'ð eins og
hún er nú. Sennilega hefur það verið á 19. öld, en vafalítið hefur hún
verið hartnær sem ómáluð, þegar það var gert. Upprunalega máln-
ingin hefur verið fallin af, þótt enn vottaði fyrir leifum af gyllingu
í hárinu.
Ofan í höfuð myndarinnar er a. m. k. 5 sm djúp hola kringlótt, 1,6
sm í þvermál. Hún mun m. a. hafa átt að koma í veg fyrir að myndin
rifnáði, en einnig hefur hún verið til að festa myndina í vinnubekk,
meðan á smíði hennar stóð. Neðan á stallinum sjást á fjórum stöðum
för eftir sömu bekkhakana, en þeir voru til að festa mvndina í bekkinn.
Þar sjást einnig sagarför og naglaför tvö eftir nagla, sem fest hafa