Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 03.01.1987, Page 94
114
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Niðurstöður og umræða
Eins og fram hefur komið hér að ofan er það skoðun höfunda, að
nyrsti stokkurinn hafi verið gufustokkur, en ekki vatnsleiðsla, eins og
hinir stokkarnir tveir. Sterkasta röksemdin fyrir því er sú, að hann
liggur til vesturs frá hvernum Skriflu upp á hólinn. Ekki voru heldur
nein merki þess að vatn hefði nokkurn tíma runnið í honum. Eins og
fram kom hér að ofan mun þetta vera eina gufuleiðslan sem enn hefur
fundist hér á landi og er því býggingarsögulega einstakt mannvirki.
Reynum nú að gefa hlutverki gufuleiðslunnar nokkurn gaum. Engar
heimildir eru um að hverahiti hafi verið leiddur í stokkum eða leiðslum
langar leiðir fyrir tíma þeirrar hitaveitu sem við njótum í dag og hófst
1930—40. Augljóslega er gufuleiðslan í Reykholti miklu eldri og hefur
vitaskuld verið lögð í einhverjum ákveðnum tilgangi. Ekki verður í dag
skorið úr um með fullri vissu hver tilgangurinn var með lagningu gufu-
stokksins upp á hólinn. Verksummerkin við enda stokksins voru því
miður of óljós til að óyggjandi niðurstaða fengist um hvernig umbún-
aður hefði verið þar. T.d. var ekki hægt að sjá að hús hefði staðið við
enda gufuleiðslunnar, eins og mátt hefði ætla. Hugsanlega hefur verið
tjaldað yfir opið.
Hér á eftir verður gerð nokkur grein fyrir helstu notkunarmögu-
leikum gufuleiðslunnar og leitt getum að því sem helst getur komið til
greina.
Soðhús
Hugsanlegur möguleiki á notkun gufuleiðslunnar er sá, að hún hafi
verið notuð í sambandi við matargerð. Við þekkjum þess dæmi frá
þessari öld, að brauð hafa verið bökuð við hverahita. Getur verið, að
menn hafi soðið við gufuhita fleira en brauð hér áður fyrr, og þá jafnvel
leitt gufuna inn í hús? Ymsar heimildir eru til um soðhús á miðöldum,
þar sem matur var soðinn. Til dæmis má nefna eftirfarandi frásögn
Kormáks sögu (1946), 4. kafla bls. 309: „Sá hann Steingerði í soðhúsi.
Narfi stóð við ketil, ok er lokit var at sjóða, vá Narfi upp mörbjúga ok
brá fyrir nasar Kormáki..."
í öllum fornbæjum hafa verið seyðar, þ.e. holur sem matur var
eldaður í. Þegar talað er um soðhús, er að öllum líkindum átt við
eldhús, þar sem maturinn var soðinn yfir eldi. í dæminu hér að ofan úr
Kormáks sögu er ekkert sem bendir til þess að átt sé við gufusuðu. Ekki
eru heldur neinar aðrar heimildir sem geta orðið okkur að frekara liði.
Það er því vafasamt að gufustokkurinn hafi tengst nokkru slíku húsi.