Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 03.01.1987, Síða 98
118
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Þorvaldur er á ferðinni á árunum 1882—1898 og þá er nýbúið að
leggja niður eitt af fáum þekktum þurraböðum og gera kálgarð í þess
stað. Þetta er dæmi þess að notkun þurrabaða sé á undanhaldi á 19. öld.
Auk ofangreindra staða er kunnugt um fleiri svipaða staði, svo sem
á Baðsheiði, í Hrafnkelsdal, að Sturlureykjum og að Laugarvatni.
Tímasetning
Um aldur stokksins er ekki gott að segja út frá þeim takmörkuðu
rannsóknum sem gerðar voru. Afþykkt mannvistarlaganna sem mynd-
ast hafa ofan á það yfirborð sem stokkurinn er grafinn í, má draga þá
ályktun að hann sé nokkuð gamall. Tilvitnanir hér að ofan í ferðabækur
frá 18. og 19. öld, þar sem gufuleiðslunnar í Reykholti er hvergi getið,
benda til þess, að hún hafi ekki verið þekkt á þeim tíma. Telja má full-
víst að jafn-merkilegt mannvirki hefði verið tíundað rækilega af ferða-
bókahöfundum, ef það hefði þá verið í notkun.
Þannig má kannski segja, að skortur á heimildum frá þessum tíma
bendi frekar til þess að stokkurinn sé mun eldri en ferðabækurnar. Án
frekari rannsókna á staðnum, þar sem m.a. afstaðan til bæjarins yrði
vandlega könnuð, er ekki hægt að setja mjög þröng tímamörk á þetta
mannvirki.
Það að notkun gufubaða hafi farið minnkandi frá 14. öld hefur verið
sett í samband við eyðingu skóga og þar með eldsneytisskort. E.t.v. má
einmitt sjá gufuleiðsluna í Reykholti í því samhengi.
Af jarðlögunum umhverfis stokkinn mátti ráða, að hann tilheyrir ekki
elsta byggingarskeiði Reykholts, og flest virðist benda til að hann sé
eldri en frá 17. öld. Freistandi er að álykta að gufuleiðslan sé lögð á svip-
uðum tíma, eða eldri, en önnur sams konar mannvirki á staðnum, sem
eru vatnsleiðslurnar að Snorralaug og talin eru frá miðöldum. Þannig
benda flest rök til þess að hægt sé að tímasetja gufustokkinn með
nokkrum rétti til miðalda og fátt sem mælir gegn því.
Eftirmáli
Það vekur jafnan furðu okkar sem vinnum að umsjón og verndun
menningarsögulegra minja hér á landi, hve kærulausir og sljóir íslend-
ingar virðast vera fyrir fornminjum sínum. Gildir einu hvort um er að
ræða skipulagsyfirvöld, bæjar- og sveitarfélög, vegagerð, verktaka,
bændur eða aðra einstaklinga. Með fáeinum undantekningum virðast
flestir telja það sjálfsagt að vaða með gröfur sínar og ýtur yfir hvað sem
er, jafnvel yfir friðlýstar minjar. Framkvæmdir í Reykholti undanfarna
áratugi eru að mörgu leyti dæmigerðar fyrir þetta kæruleysi.