Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1955, Page 120
120
BALDUR ANDRÉSSON
Ég býst við, að mörgum muni þykja það merkilegt, að öll sönglög Sveinbjarnar fram
að finnntugsaldri eru sarnin við útlenzka texta, að undanteknum þjóðsöngnum. En það
mun þó engu síður vekja furðu margra, að allar tónsmíðar hans frá þessum tíma eru
enn í dag, að heita má, ókunnar almenningi á Islandi.
Það mun hafa verið um og upp úr aldamótunum, að Sveinbjörn fór að leggja rækt við
kvæði eftir íslenzku skáldin. Fram til þess tíma hafði hann ekki lifað í tengslum við ætt-
jörðina, en úr því fóru Islendingar á ferðurn sínum um Leith að leggja leið sína á heim-
ili hans, og hafa sumir þeirra sjálfsagt hvatt hann til að semja lög við íslenzk kvæði. Ef
til vill hefir það meðfram ráðið nokkru um, að hann hafði valið ensk kvæði, að honum
hefir þótt það vænlegra til sigurs. Upp úr aldamótunum urðu lögin við íslenzku kvæðin
fljótt alkunn hér á landi, eins og „Vetur“, „Sverrir konungur“ o. fl. Ferðalangurinn.
sem ég minntist á hér að framan, gat þess, að þjóðsöngurinn einn mundi nægja til að
halda nafni hans uppi með þjóðinni. Um það efast enginn. íslendingar hafa litið á
Sveinbjörn sem öndvegistónskáld. Þjóðsöngurinn einn nægir ekki til þess að skipa hon-
um þann sess í vitund þjóðarinnar. Það þarf meira til þess. Þjóðsöngur Dana: „Det er
et yndigt Land,“ er eftir Hans Ernst Kröyer (1798—1879), og ættjarðarsöngurinn
„Danmarks dejligstVang ogVænge“er eftirPoul Edvard Rasmussen (1776—1860),eina
sönglagið, sem þessi sérvitringur samdi um ævina. (Hann fyrirfór sér af lífsleiða eftir
dáðlaust líf.) Því fer fjarri. að þessir menn séu taldir í fremstu röð danskra tónskálda.
Síður en svo. — Tónskáldsfrægð Sveinbjarnar hér á landi byggist auðvitað á þeim tón-
smíðum eftir hann, sem þjóðin þekkir, en það eru fyrst og fremst sönglögin, sem hann
samdi við íslenzk kvæði, og svo þau sönglög við enska texta, sem snarað hefir verið á
íslenzka tungu, eins og t. d. „Huldumál“ (,,Echo“). Það er staðreynd, að þjóðin hefir
ekki tileinkað sér enn sönglög hans við enska texta, þótt mörg hafi þau um áratugi verið
til sölu hér í bókabúðum, eins og „The Viking’s Grave“, „The Challenge of Thor“ og
fleiri, sem höfundurinn taldi með fegurstu sönglögum sínum. En það eru ástæður til
allra hluta. Hér er ástæðan sú. að fólkið þarf að skilja kvæðin til að geta notið laganna
við þau. Hugsum okkur „Sverri konung“ sunginn fyrir útlendinga, sem ekki þekkja hið
áhrifamikla kvæði Gríms Thomsens. Hætt er þá við, að sá söngur mundi ekki snerta
strengi í hjörtum þeirra á sama hátt og okkar Islendinga. Hér á eftir þessari grein er
prentuð skrá yfir allar tónsmíðar Sveinbjarnar. Af henni má sjá, hversu lítill hluti tón-
smíða hans er enn kunnur þjóðinni.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld er fæddur 28. júní 1847 að Nesi við Seltjörn,
skammt frá Reykjavík. Faðir hans var Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómari í Lands-
yfirréttinum. Að loknu háskólaprófi var Þórði veitt Árnessýsla. Hann þótti skörungur
mikill. Tólf árum síðar varð hann dómari í Landsyfirréttinum og tveim árum síðar varð
hann háyfirdómari. Hann var konungkjörinn þingmaður á fyrsta þingi hins endurreista
Alþingis og forseti þess. Honum var boðin stiftamtmannsstaðan, sem þá var mesta virð-
ingarstaða hér á landi, en skoraðist undan að taka hana.
Þórður var tvíkvæntur. Síðari kona hans, móðir Sveinbjarnar tónskálds, var Kirstín,