Morgunblaðið - 04.01.2001, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 04.01.2001, Blaðsíða 36
MINNINGAR 36 FIMMTUDAGUR 4. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Guðrún Guð-bjarnadóttir fæddist í Jafnaskarði í Stafholtstungum í Borgarfirði 7. apríl 1911. Hún lést á sjúkrahúsinu á Ísa- firði 24. desember síðastliðinn. For- eldrar Guðrúnar voru Guðbjarni Guð- mundsson, bóndi í Jafnaskarði, f. 11. október 1872, d. 19. ágúst 1936, og kona hans, Halldóra Þor- steinsdóttir, f. 22. júní 1870, d. 24. nóvember 1959. Systkini Guðrúnar voru: Guð- mundur, bóndi í Arnarholti, f. 20. maí 1896, d. 31. janúar 1951. Ásta húsfreyja á Hreðavatni og síðar í Reykjavík, f. 9. nóvember 1907, d. 1. júlí 1984. Þorsteinn, bóndi í Jafnaskarði, f. 28. ágúst, 1909, d. 28. september 1948. Sigurgeir, starfsmaður hjá Landssímanum, f. 20. september 1912, d. 7. apríl 1990. Guðrún giftist 12. febrúar 1938 Jóhanni Ingibjarti Guðbjartssyni frá Flateyri, f. 20. júní 1907, d. 4. ágúst 1998. Börn þeirra voru: Svanur, skipstjóri, f. 15. júní 1935, Anna, húsmóðir í Reykja- vík, f. 13. október 1937, maki Emil R. Hjartarson kennari, Guðbjarni húsa- smíðameistari, f. 1. desember 1942, kvæntur Báru Guð- jónsdóttur, þau búa á Akranesi. Guð- bjartur f. 12. janúar 1946, fórst af slys- förum 26. október 1949. Þorsteinn, tré- smíðameistari, f. 2. júlí 1952, kvæntur Gunnhildi Brynj- ólfsdóttur, þau búa á Flateyri. Guðrún og Jóhann hófu búskap á Flateyri, bjuggu síðan í Djúpu- vík um tíu ára skeið en árið 1949 fluttu þau aftur til Flateyrar þar sem heimili þeirra var til ársins 1989 er þau fluttu á dvalarheimili aldraðra, Hlíf, á Ísafirði, þar sem þau áttu heima til æviloka. Guðrún tók mikinn og virkan þátt í félagslífi, einkum á Flat- eyri þar sem hún starfaði í kven- félaginu og að slysavarnamálum. Hún var heiðursfélagi í slysa- varnafélaginu á Flateyri. Útför Guðrúnar fer fram í dag frá Ísafjarðarkirkju og hefst at- höfnin klukkan 14. Guðrún, tengdamóðir mín, er látin, stóra kærleiksríka hjartað hennar er brostið og vegferð henn- ar hérna megin grafar er lokið. Sjálf er hún ekki lengur með okk- ur en minningin um hana lifir, minning sem hvergi ber skugga á. Hún var fædd og uppalin í ein- hverju fegursta héraði þessa lands, Borgarfirði, en fór ung að heiman og átti ekki bústað þar síð- an. Hún giftist Jóhanni Guðbjarts- syni, smið, frá Flateyri og þar áttu þau lengst af heimili utan þess að þau bjuggu um skeið á Djúpuvík á Ströndum og síðustu árin á dval- arheimili aldraðra, Hlíf, á Ísafirði. Á Flateyri var ævistarf hennar að mestu unnið. Og hvert var ævi- starfið? Það var ekki starf sem mest er metið í verðgildi peninga eða það starf sem núna er líklegt til að afla sér frama og viðurkenn- ingar. Hún var húsmóðir og hús- móðir var hún í dýpstu og fegurstu merkingu þess orðs. Hún vissi að gott heimili er grunnur allrar far- sældar og hún vissi að gott heimili verður ekki til í eitt skipti fyrir öll heldur er það eilíf og dagleg sköp- un sem miðast að því að gera það að öruggum griðastað fyrir alla fjölskylduna. Í þeim anda vann hún og þannig unnu þau saman í einlægni hún og Jóhann. Með um- hyggju sinni og iðjusemi bjuggu þau sér og sínum heimili þar sem ríkti friður og forsjálni og allt var til reiðu án nokkurs íburðar eða fordildar. Við tengdabörnin fund- um þetta glöggt og börnin þeirra og seinna barnabörnin vissu að hjá pabba og mömmu og afa og ömmu var öruggt skjól og huggun hvað sem á bjátaði og hver sem vandinn var en um leið uppörvandi hvatn- ing til að standa sig og skila sínu hlutverki. Utan heimilis lét Guðrún líka myndarlega til sín taka í vinnu, en hún var orðlagður dugnaðarforkur og einnig í félagsstörfum. Í hverri byggð á Íslandi starfa félög manna og kvenna sem láta sig allt varða sem lýtur að bættu mannlífi, meira öryggi og yfirleitt öllu sem horfir til heilla. Kvenfélagið á Flateyri lét afar margt gott af sér leiða. Ég starfaði dálítið í kirkjunni og oft varð mér hugsað til þess hvernig þetta hlýlega hús liti út ef allt væri borið út sem konur gáfu því. Tóm- legt yrði það þá. En það var ekki bara kirkjan. Skólinn og sjúkra- húsið auðguðust af gjöfum félags- ins og það reisti og rak um árabil dagheimili handa börnum í þorp- inu. Allt þetta kostaði mikla vinnu, þar lagði Guðrún dygga og örugga hönd á plóginn. Mér var kunnugt hve mikið hún lagði á sig oft á tíð- um og með hve glöðu geði það var gert. Hún starfaði einnig mikið að slysavarnamálum, með þeim ágæt- um, að hún var gerð að heiðurs- félaga slysavarnafélagsins, svo mikils var hún metin þar. Guðrún var kirkjurækin kona en henni var líka ljóst að þegar klukkurnar hringja til útgöngu er guðsþjónustunni ekki lokið, þá er hún kannski fyrst að byrja. Í vísu sem ort var til Guðrúnar á áttræð- isafmæli hennar sagði: „smælingj- arnir allir áttu umhyggju þína vísa“ og þá er komið að þeim þætti í lífi hennar sem hún hafði aldrei hátt um en maður hefur komist að smám saman. Hann er hjálpsemi hennar og alúð sem hún sýndi mörgum sem erfitt áttu, allt unnið í kyrrþey. Ekkjan, einstæðingurinn, ein- stæða móðirin, ógæfumaðurinn sem ekki kunni fótum sín forráð og fleiri og fleiri geta borið vitni um það. Kærleikur hennar og hressandi uppörvun var mörgum ómetanleg. Og hún hafði lag á að gera þetta án þess að þiggjanda fyndist hann taka við ölmusu, það getur verið erfitt að þiggja hjálp. Aðstoðin var ekki veitt með for- málanum „þú átt bágt, ég skal hjálpa þér“ heldur miklu fremur „við eigum samleið, við skulum leiðast“ þannig hjálpaði hún mörg- um bæði á veraldlega vísu og með hressilegu viðmóti og uppörvun, þannig var hennar guðsþjónusta. Og svo var eitt enn. Hún var svo skemmtileg, það var svo gaman að vera í návist hennar. Hún var ung í anda og jákvæð allt til hins síð- asta og var þó oft þreyttari og lasnari en maður gerði sér grein fyrir. Hún lifði lífinu lifandi allt fram undir það síðasta og sátt gat hún litið yfir farinn veg. Hún hafði skilað sínu hlutverki með sæmd, engan hafði hún hrakið úr götu en hjálpað mörgum á rétta leið. Hún lést á aðfangadaginn þegar sólin er aftur að hækka á himni. Guð snart hana með hönd sinni og hún sofnaði. Ég trúi því að hún sé nú þar sem birtan er eilíf. Hún var einhver ágætasta manneskja sem ég hef kynnst og ég kveð hana með djúpri virðingu og þakklæti fyrir allt sem hún var mér. Emil Ragnar Hjartarson. Látin er á Ísafirði ein af mínum bestu vinkonum, sem jafnframt var tengdamóðir mín. Í huga mér er bæði depurð og gleði. Depurð yfir missi tryggrar vinkonu, en líka gleði yfir stundunum sem við áttum saman og líka því að nú þarf hún ekki að þjást meir. Við kynnt- umst fyrir tæpum 26 árum, er við Þorsteinn, yngsti sonurinn, tókum saman. Ég var bara 17 ára, en strax náðum við mjög vel saman, þó á milli okkar væru 46 ár. Við áttum sömu áhugamál og það tengdi okkur strax og síðan óx vin- áttan alltaf og aldrei hefur slest upp á vinskapinn. Auðvitað vorum við ekki alltaf sammála, en virtum hvor aðra , hvor á sinn hátt. Ýmislegt brölluðum við saman eins og flissandi smástelpur. Guð- rún hafði yndi af stofublómum alla tíð og óspör á að ég fengi líka ef hún fékk nýjan græðling. Meðan hún bjó á Flateyri unni hún garð- inum sínum og fylgdist grannt með er við hófum að laga garð við okkar hús á Flateyri, eftir að þau voru flutt til Ísafjarðar. Þá var sagt: „Nú þurfum við að skreppa yfir og skoða garðinn ykkar.“ Hún vissi manna best hve erfitt var að rækta í sjávarkambinum á Brimnesveginum og gladdist hverri plöntu er sjóböðin gátu ekki grandað. Guðrún hafði mjög gaman af að lesa góðar bækur, las ekki hvað sem er. Er sjónin skertist fékk hún hljóðsnældur og hafði af þeim gaman og hvatti óspart aðra aldr- aða að fá sér svona til að stytta daginn. Þeir voru ófáir er fengu sér „vasadiskó“ til að hlusta á sög- ur, að áeggjan Guðrúnar. Svona var Guðrún, alltaf að hugsa um aðra. Hannyrðirnar voru okkar stóra áhugamál, það var alveg ótrúlegt magn af hanndavinnu er hún vann eftir að þau fluttu á Hlíf, fyrir ut- an allt annað er búið var að gera öll búskaparárin þeirra. Hún hafði, held ég, jafn gaman af að sauma, mála á tau eða keramik, prjóna og hekla. Henni fannst gott að geta skipt til að hvíla sig. Það er svo ótrúlegt sem búið er að hekla úr hárfínu garni, öll milliverkin og konan að verða níræð. Er hún var flutt út á spítala núna í desember, vegna mjaðma- grindarbrotsins, varð eftir á nátt- borðinu nýbyrjað milliverk, heklað til þess síðasta. Alla tíð var Guðrún dugleg að fara í göngutúra, best man ég eftir þeim Jakobínu, Guðríði, Geirþrúði, Hallfríði og Guðrúnu, er þær gengu daglega saman, það var sko þyrlusveit, gengið af miklum krafti. Eftir að til Ísafjarðar kom, gengu þær Guðríður áfram saman en hún flutti líka með sínum manni, Bjarna Þórðar, og svo líka gamla góða vinkonan, er áður var líka á Flateyri, hún Jóhanna Frið- riks. Þessar drifu hver aðra áfram. Þó einhver væri slöpp var alltaf sagt: „Uss, þú hefur gott af þessu.“ Fór þá viljinn oft á undan búknum. Félagsstarfið var stórt áhuga- mál. Kvenfélagið Brynja og Slysa- varnadeildin Sæljós á Flateyri nutu krafta hennar og mikils áhuga, síðan var á Hlíf krafturinn notaður í föndrið, kórinn, spiladag- ana, bingóin, leikfimina á morgn- ana, að ógleymdum samkomum fólksins á sama gangi í sólstofunni þeirra, nýtínd ber og nýsoðið slát- ur, tilefni til veislu. Hún var óþreytandi að leiðbeina mér um gamla matargerð og allan íslenskan mat og hæla þegar það átti við, en matargerð og hefðir voru eitt af okkar mörgu áhuga- málum. Guðrún hafði sterkan vilja, það dreif hana upp úr öllum hennar veikindum og trúin og bænin hélt henni gangandi. Erfiðar æfingar og þjálfun eftir liðskiptaaðgerðirn- ar og krabbameinsmeðferð og geislar, allt komst hún yfir á vilj- anum og gleðinni, gerði grín að sjálfri sér og létti þar með lund annarra er önnuðust hana. Það var bæði gott og gaman að hjálpa Guð- rúnu, hún var alltaf svo þakklát GUÐRÚN GUÐBJARNA- DÓTTIR E r mikill fjöldi Ís- lendinga sinnulaus um mikilvæg mál- efni og lætur ber- ast sofandi að feigðarósi án þess til dæmis að veita stjórnmálamönnum nauð- synlega gagnrýni og aðhald? Eða er það bara pólitískur áróður að halda slíku fram, líkt og einn af óteljandi álitsgjöfum í áramóta- uppgjöraþáttum sjónvarpsstöðv- anna gerði á gamlársdag? Til er gamalt máltæki sem segir að fávísi sé sæluvíma. Er það í sókn eftir slíkri sæluvímu sem stór hluti Íslendinga lætur sig stjórnmál engu varða? Nei, auðvitað er fráleitt að segja það til marks um sinnuleysi að mað- ur hafi ekki áhuga á pólitík og þjóðmálum. Það eru til önnur mik- ilvæg mál. Til dæmis fjöl- skyldan manns og vinnan manns. Þetta er flókið mál og hægt að fara fjölmargar leiðir í leit að svari. En það er hægt að ein- falda málið dálítið strax í byrjun með því að samþykkja þá full- yrðingu sem forngríski speking- urinn Aristóteles setti fram í sið- fræði sinni fyrir um það bil 2500 árum, að allir menn leiti ham- ingjunnar, og að vera hamingju- samur sé að lifa góðu lífi. Ætli geti ekki allir verið sammála um það sem byrjunarreit, að ham- ingjan sé tilgangur lífsins? Síðan getur maður þá spurt þar í framhaldi, hvort það sé nauðsynlegt að hafa sinnu á þjóðmálum og pólitík til þess að geta orðið hamingjusamur. Einn- ig má spyrja að því, hvort ham- ingjan sé fólgin í því að fá nautn- um sínum svalað sem oftast og mest. Þessi síðarnefnda spurning varðar þá kenningu sem er í sið- fræði nefnd nautnahyggja, og kveður á um að uppfylling nautna, líkamlegra og andlegra, sé hið eiginlega markmið mann- lífsins. Breski heimspekingurinn John Stuart Mill lagði svo mikla áherslu á að maður ætti að vera skynsamur – og þá ekki sinnu- laus – að hann fullyrti að það væri betra að vera óánægður Sókrates en ánægt svín. Sókrat- es leitaði æðri gilda og svara við grundvallarspurningum á borð við það hvað réttlæti sé, og hann fórnaði mörgum efnisgæðum til að geta sinnt þessari leit. En svínið veltir sér í flórnum og „nýtur lífsins“. Svínið er sinnu- laust um æðri gildi og mikilvæga hluti á borð við pólitík og þjóð- mál. Og er það ekki einmitt þetta sem ónefnda álitsgjafa kann að gruna að geri fólk að sinnulaus- um fórnarlömbum auglýs- ingaskrums og áróðurs? Að sá hafi sitt fram er hæst lætur og er í flottustu fötunum, en hinn hógværi, rökfasti og skynsami verði ósýnilegur þeim sem í sinnuleysi sjá ekkert nema yf- irborðið og taka bara það auð- meltasta þar sem þeir velta sér í neysluflórnum? Er það þá nautnahyggja sem veður uppi í íslensku samfélagi (og sennilega vestrænum sam- félögum yfirleitt) og birtist í taumlausri neyslu og græðgi? Hefur hún leitt af sér sinnuleysi um önnur verðmæti, eins og til dæmis réttlæti, sannleika og jöfnuð? Hefur kapphlaupið í neysluflórnum eftir flottum hlut- um og miklum jeppum gert stór- an hluta Íslendinga sinnulausan um þjóðfélagsmál og pólitík? Ekki endilega. Það má ekki líta framhjá því, að það er sumu fólki gífurleg nautn að vasast í þjóðmálum og pólitík. Þess vegna getur nautnahyggja og krafan um að maður hafi sinnu á þessum hlutum vel farið saman, og má meira að segja halda því fram, að það sé einmitt beinlínis til að svala nautn sem spekingar velta sér upp úr þjóðþrifamálum, réttlæti og öðru því sem manni ber sem upplýstum einstaklingi að hafa sinnu á, að mati sumra álitsgjafa. Ef maður fylgir áðurnefndum greinarmun Mills á milli Sókrat- esar og svínsins má því auðveld- lega komast að þeirri niðurstöðu að svínsleg nautnahyggja geti leitt af sér mikla sinnu á pólitík og þjóðmálum rétt eins og óheft- an áhuga á glæsikerrum og lúx- usíbúðum. Því verður ekki séð að það sé réttmæt ásökun að stór hluti Ís- lendinga sé fórnarlömb skrums og yfirborðsmennsku þótt hann hafi ekki áhuga á pólitík. Varla ætla menn að fara að halda því fram, að þótt bæði þjóðmál og flottir jeppar séu nautnir þá séu þjóðmálin nú samt „æðri“ nautn og skipti meira máli? Þar af leiðandi virðist sem nið- urstaðan sé sú, að áhugi og sinna á pólitík og þjóðmálum sé ekki nauðsynleg forsenda þess að maður geti verið hamingju- samur. Þessir hlutir eru ekki augljóslega óhjákvæmilegir þættir í hinu góða lífi sem Arist- óteles taldi að hamingjan væri fólgin í. (Mætti jafnvel ganga svo langt að segja að pólitík og þjóð- málasinna hafi áreiðanlega svipt marga menn hamingjunni). En ekki svo að skilja að pólitík og þjóðmál séu þá þvert á móti eitthvað sem engu skiptir. Þau, líkt og góðir bílar, vel hönnuð hús, vel uppalin börn, fagur skáldskapur, ljúfur matur og mikil vísindi, og svo ótal margt annað, skipta máli til þess að samfélagið virki og mannlífið sé fagurt. Þess vegna er það ekki til marks um að maður sé sinnulaus og ginnkeyptur fyrir auglýs- ingaskrumi að maður hafi ekki einlægan áhuga á þjóðmála- umræðu og pólitík. Þvert á móti mætti halda því fram, að það hljóti jafnvel að vera markmið samfélagsins að einstaklingarnir geti verið frjálsir að því að rækta hver um sig eigin garð – það er að segja, sinna því sem gerir líf þeirra gott og þá sjálfa þar með hamingjusama, hvort heldur þeir eru Sókrates eða svín. Og þótt áhugamönnum um pólitík kunni að finnast það skrítið og jafnvel óskiljanlegt, þá er alls ekki gefið að djúphugul þjóðmálaumræða geri mann hamingjusaman. Sókrates og svínið Auðveldlega má komast að þeirri nið- urstöðu að svínsleg nautnahyggja geti leitt af sér mikla sinnu á pólitík og þjóð- málum rétt eins og óheftan áhuga á glæsikerrum og lúxusíbúðum. VIÐHORF Eftir Kristján G. Arngrímsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.