Morgunblaðið - 24.03.2001, Page 16
FRÉTTIR
16 LAUGARDAGUR 24. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ
DAGBLÖÐ í skólum er sam-starfsverkefni Morgun-blaðsins, DV og Fræðslu-miðstöðvar Reykjavíkur
þar sem dagblöð eru notuð sem
kennsluefni í eina viku. Á hverjum
degi þá vikuna fá tólf ára gömul börn
hvert sitt eintak af blöðunum sem síð-
an eru notuð til margvíslegrar verk-
efnavinnu og er Fossvogsskóli einn
þeirra fjögurra skóla sem taka þátt í
verkefninu í ár.
Aðalheiður Bragadóttir er kennari
krakkanna í hópi 15 en auk þeirra hef-
ur hópur 14 tekið þátt í verkefninu
undir handleiðslu Kristjönu Halldórs-
dóttur. Aðalheiður segir verkefnið
vera töluverða tilbreytingu frá dag-
legu skólastarfi enda fylgi því mikil
fjölbreytni. „Þau hafa verið svo mikið
í bókunum að undanförnu þannig að
okkur fannst þetta vera góður tíma-
punktur til að gera eitthvað nýtt,“
segir hún.
Hún segir dagblöðin hafa verið
einskonar þema vikunnar og hefur
mestur tíminn með umsjónarkennur-
unum farið í verkefni þeim tengdum.
„Það eru yfirleitt svona tvær kennslu-
stundir á dag sem fara í þetta en að
auki samþættum við þetta við ís-
lenskukennsluna og samfélagsfræð-
ina þar sem þau eru núna að læra um
Evrópu. Við höfum látið þau skoða
fréttir frá mismunandi löndum þann-
ig að einn hópurinn hefur safnað öll-
um fréttum þar sem minnst er á Bret-
land, annar hópur er með Frakkland
og svo framvegis. Þannig að gin- og
klaufaveikin hefur ekki farið framhjá
þeim,“ segir hún og hlær.
Barnablaðið og
íþróttirnar vinsælar
Hún segir dagana þessa viku hafa
byrjað á því að krakkarnir lesi blöðin.
„Við gerðum könnun áður en þau
byrjuðu á þessu og þá kom í ljós að
þau eru aðallega að lesa stjörnu-
spána, fólk í fréttum, barnablaðið og
íþróttirnar sem eru mjög vinsælar.
Þau lásu ekki svo mikið af frétta-
tengdu efni. Eins kom í ljós að flest
þeirra hafa verið að lesa blöðin svona
þrisvar, fjórum sinnum í viku þó að
sum lesi þau daglega. Þess vegna höf-
um við tekið svolítið góðan tíma í að
afhenda þeim blöðin og leyfa þeim að
lesa áður en farið er að klippa út eða
vinna í blaðapassanum.“
Blaðapassi þessi er lítil verkefna-
bók sem börnin fá í tengslum við
verkefnið en kennsluefnið í honum er
ættað frá Hollandi. Eftir blaðalestur-
inn segist Aðalheiður oft spyrja börn-
in hvað hafi verið merkilegast í frétt-
um og leiðir það oft til fjörugra
umræðna.
Aðspurð segir Aðalheiður að henni
finnist börnin almennt skilja það sem
þau eru að lesa um. „Mér finnst
krakkar í dag ákaflega vel upplýstir
og þeir fylgjast vel með yfir heildina.
Eins lesa þau blöðin á gagnrýninn
hátt og koma með athugasemdir. Til
dæmis hafa þau verið að gagnrýna
íþróttablaðið vegna þess að þeim
finnst of lítið skrifað um börn og krak-
kaíþróttir,“ segir hún og bætir hlæj-
andi við að þau vilji greinilega fá svo-
lítið meiri athygli í fjölmiðlum. Hún
segir íþróttirnar mjög vinsælt lesefni
meðal krakkanna og íþróttahetjur á
borð við Jón Arnar verða gjarnan fyr-
ir valinu þegar kemur að því að klippa
myndir af fólki úr blöðunum.
Verkefnin sem unnin hafa verið
þessa viku hafa verið fjölbreytt og má
þar nefna auglýsingaverkefni þar
sem börnin könnuðu hvað var verið að
auglýsa í blöðunum, hvernig það var
auglýst og hverjum auglýsingunum
var beint að. „Svo hafa þau verið að
taka viðtöl við hvert annað og unnið
þessi verkefni í blaðapassanum sem
eru mjög skemmtileg. Í þeim erum
við að skoða blöðin mjög markvisst og
leita að einhverju ákveðnu. Til dæmis
áttu þau í einu verkefninu að skrifa
niður þrjár fyrirsagnir sem höfðuðu
til þeirra eða þeim fannst merkilegar
svo eitthvað sé nefnt.“
Dagblöð sem byggingarefni
Þetta eru þó ekki einu dagblaðs-
verkefnin sem unnin hafa verið í
Fossvogsskóla í ár því í allan vetur
hafa nemendur verið að nota dagblöð
sem byggingarefni í mismunandi
þarfa hluti. „Það vill svo til að á föstu-
dögum erum við með valsvæði þar
sem dagblöðin hafa verið notuð og
þess vegna höfum við verið að safna
dagblöðunum heima hjá okkur og
koma með þau í bunkum í skólann.
Þau hafa til dæmis verið að byggja
turna úr þessu, kannski fjögur saman
og þá er markmiðið að raða þessu
skipulega upp. Turninn verður að ná
alveg upp í loft þegar tíminn er úti og
þetta þarf að tolla saman þannig að
það er voðalega gaman að sjá þau
hjálpast að við þetta. Svo vildu turn-
arnir hrynja þegar tók að líða á vik-
una og þá fóru þau að búa til stóla úr
blöðunum.“ Aðalheiður bendir á fag-
urlega hannaðan hægindastól með
áklæði úr Bónusplastpokum og stað-
hæfir að hann sé hinn besti til að sitja
í.
Aðalheiður segir að krakkarnir hafi
notið vikunnar og greinilegt að þeim
finnist mjög gaman að lesa blöðin.
„Maður veit ekki af þeim þegar þau
eru byrjuð að vinna því þau sökkva
sér alveg ofan í þetta. Þannig að þetta
hefur gengið mjög vel í báðum hóp-
unum.“ Hún telur ekki ólíklegt að
verkefnið sé til þess fallið að örva
blaðalestur hjá krökkunum. „Eftir
þessa viku held ég að þau lesi blaðið
kannski svolítið öðruvísi en í upphafi,
til dæmis eru þau farin að taka meira
eftir fyrirsögnunum og fréttunum.
Maður vonar að þetta hafi þau áhrif
að þau fari að lesa blöðin á gagnrýn-
inn og opinn hátt, en ekki bara létt-
metið í þeim.“
Rannveig Lára Sigurbjörnsdóttir
og Sigrún Tinna Gunnarsdóttir, sem
báðar eru í hópi 15, segja vikuna vera
búna að vera rosalega skemmtilega
enda hafi hún liðið hratt. Að þeirra
sögn hefur hún þó gengið út á annað
og meira en blaðalestur eingöngu:
„Við erum búin að gera fullt af verk-
efnum og klippa út úr blöðunum og
búa til auglýsingar og taka viðtöl,“
segir Rannveig og Sigrún heldur
áfram: „Svo er búin að vera keppni
sem heitir maður dagsins. Þar höfum
við klippt út og raðað bútum saman
og svo er valið hvaða fígúra er flott-
ust. Og það kemur svolítið fyndið út
úr því.“
Þær vinkonur líta kímnar hvor á
aðra og það er greinilegt að ímynd-
unaraflið hefur fengið að njóta sín í
þessu verkefni.
Þær segjast halda að þær eigi eftir
að lesa blöðin meira eftir þessa viku
en áður enda segir Sigrún þær vera
búnar að kynnast því betur hvernig
eigi að lesa blöðin. Rannveig útskýrir
þetta: „Ég vissi til dæmis ekkert hvar
mismunandi hlutir voru en núna er ég
búin að fatta hvar erlendu fréttirnar
eru í blaðinu og svoleiðis.“
Þær segja þó ýmislegt skrýtið í
blöðunum. „Til dæmis var verið að
banna fólki að gefa öndunum og mér
finnst það nú alveg fáránlegt,“ segir
Sigrún með þunga. „Það var einhver
maður sem keyrði alltaf fram hjá og
gaf öndunum vínarbrauð af því að
hann var að keyra út fyrir eitthvað
bakarí. Síðan var honum bannað það
af því að konur voru að kvarta undan
miklum andaskít. Mér fannst það
mjög skrítið,“ bætir hún við og það er
greinilegt að skítfælnu konurnar eiga
enga samúð hjá þeim stöllum.
Þá segja þær of mikið af fréttum af
stjórnmálum í blöðunum, að minnsta
kosti fyrir þeirra smekk. „Sumir hafa
kannski mikinn áhuga á þessu en okk-
ur finnst þetta ekkert merkilegt,“
segir Rannveig. „Það mætti kannski
bæta við einhverju öðru.“ Sigrún tek-
ur heilshugar undir þetta og segir að
lokum að meira mætti vera í blöðun-
um um það sem er að gerast í þjóð-
félaginu.
Rússneska mafían
og stjörnurnar
Í hópi 14 hafa Pétur Mikael Guð-
mundsson og Unnur Flemming Jens-
en verið meðal ákafra blaðalesenda
þessa vikuna. Fyrir verkefnið voru
þau vön að glugga í blöðin heima áður
en þau fóru í skólann á morgnana en
þau segjast ekki hafa lesið blöðin jafn-
mikið áður. Unnur hefur þó helst lesið
teiknimyndasögurnar og um stjörn-
urnar en áhugasvið Péturs er á öðrum
sviðum. „Ég les íþróttirnar og sumar
greinar sem eru skemmtilegar eins
og um rússnesku mafíuna og svona,“
segir hann og glottir.
Eins og skólafélagar þeirra fannst
þeim skemmtilegast að vinna að úr-
klippunum en fleiri verkefni hafa vak-
ið áhuga. „Það var líka gaman að
skrifa greinar og taka viðtölin,“ segir
Unnur og Pétur kinkar kolli.
Þeim finnst ekkert sérstakt vanta í
blaðið en Pétur segir þó að meira
mætti vera um handboltann. „Svo er
allt of lítið um krakkaíþróttir,“ segir
hann og vildi gjarnan sjá meir um
þær í blaðinu. „Mér finnst bara að
barnablaðið mætti koma oftar út,“
segir Unnur.
Aðspurð segja þau ekkert erfitt að
skilja það sem er í blaðinu þó að hlut-
irnir séu svolítið öðruvísi í útlöndum
en hér heima. Og fræga fólkið fær all-
an skilning þeirra bekkjarsystkyn-
anna eða eins og Pétur orðar það:
„Fræga fólkið er bara venjulegt fólk
sem gerir óvenjulega hluti og nýtur
þess vel.“
Stjórnmálin og prósentur
erfiðasta lesefnið
Gylfi Jón Ásbjörnsson, Hlynur
Þráinn Sigurjónsson og Svavar Kon-
ráðsson, sem allir eru í hópi 15, segja
að það sé búið að vera fínt og gaman
að lesa blöðin þessa vikuna. Mest hafa
þeir lesið myndasögur, auglýsingar
og útlendar fréttir en heima hafa þeir
þó aðallega lesið myndasögurnar.
Þeim finnst ekki mikið mál að skilja
það sem er í blöðunum, nema stund-
um og þá eru það helst stjórnmálin og
prósentur sem vefjast fyrir þeim.
Þrátt fyrir það eru þeir nokkuð sáttir
við efnið í blöðunum. „Þó mætti
kannski vera meira af myndasögum í
þeim,“ segir Hlynur.
Mismunandi blaðahlutar virðast
vera í uppáhaldi hjá þeim. Til dæmis
nefnir Gylfi sjónvarpsdagskrána en
Svavar sérblaðið Netið. „Þar er um-
fjöllun um leiki og tækninýjungar,“
segir hann og félagar hans taka heils-
hugar undir ágæti þess blaðs enda
kemur í ljós að þeir leika sér allir tölu-
vert í tölvuleikjum. Þeir eru þó nokk-
uð öryggir um að þeir eigi eftir að lesa
blöðin meira eftir verkefnið en áður.
Til dæmis búast þeir við að eiga eftir
að lesa meira um útlönd en áður enda
er margt öðruvísi þar en hér heima.
Svavar nefnir menninguna og fólkið
en fleira kemur til. „Stundum er
fjallað um flóð og svona,“ segir Hlyn-
ur og það er greinilegt að það er eitt-
hvað sem piltarnir tengja við útlönd-
in.
Eins og bekkjarfélagar þeirra hafa
þeir verið að vinna fjölbreytt verkefni
í vikunni. „Við höfum verið að búa til
kalla, klippa þá út og líma saman og
það hefur verið mjög skemmtilegt,“
segir Svavar og strákarnir taka undir
það. Þá nefna þeir verkefnin í blaða-
passanum og erlendu fréttirnar frá
Evrópu.
Í sumum verkefnunum hafa þeir
þurft að setja sig í spor blaðamanna.
„Við höfum gert auglýsingar og verið
að taka viðtal við einhverja menn sem
eru í blaðinu og búa til spurningar og
svona,“ segir Gylfi. Hann segist alveg
geta hugsað sér að verða blaðamaður
í framtíðinni og félagar hans sam-
sinna því.
Samstarfsverkefni Morgunblaðsins, DV og Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur um dagblöð í skólum
„Meiri krakka-
íþróttir, takk!“
Morgunblaðið/Þorkell
Pétur (t.v.) og Unnur segja að fræga fólkið sé ósköp venjulegt.
Aðalheiður Bragadóttir gluggar í blöðin
með nemendum sínum.
Svavar, Gylfi og Hlynur (lengst til hægri) ásamt félaga sínum í hópi 15. Þeir
segjast vera nokkuð sáttir við efni blaðanna.
Rannveigu (t.v.) og Sigrúnu finnst stjórnmálin ekkert
merkileg og of margar fréttir af þeim vettvangi.
Þessa vikuna hafa tólf ára börn í Fossvogs-
skóla byrjað hvern dag á því að glugga í
dagblöðin og í framhaldinu unnið fjölda
verkefna úr þeim. Bergþóra Njála Guð-
mundsdóttir heimsótti þá í gær og komst
m.a. að því að dagblöð má hæglega nota
sem hægindastóla ef viljinn er fyrir hendi.