Morgunblaðið - 24.03.2001, Page 78
FÓLK Í FRÉTTUM
78 LAUGARDAGUR 24. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ
FYRSTU tvö kvöld Músíktilrauna
þetta árið hafa einkennst af talsvert
mikilli fjölbreytni og ekki hvað síst
þetta kvöld sem hér er til umfjöllunar.
Minnisstæðar eru t.d. tilraunirnar ár-
ið 1993 en þá lék lunginn af sveitunum
dauðarokk. Í dag er flóran að mun
fjölskrúðugri og síðasta fimmtudag
var í boði m.a. melódískt nýbylgj-
urokk, hefðbundið þreskiþungarokk
(e. thrash), myrk trommu- og bassa-
tónlist, súrt tölvupopp og „aðallega
geimtónlist“.
Harðkjarnasveitin Snafu hitaði sal-
inn upp og fórst það vel úr hendi.
Sveitin hafnaði í öðru sæti tilraun-
anna í fyrra og gaman að sjá hversu
firnaþétt sveitin er orðin en ný lög á
tónleikadagskrá hennar voru hrein-
asta afbragð.
Halim voru fyrstir keppnissveita á
svið. Mátti þar þekkja kunnugleg
andlit þar sem Rafnssynir, Jónsson-
ar, fóru. Söngvari og gítarleikari
sveitarinnar, Ragnar Sólberg, tók
þátt í keppninni árið 1998 með sveit-
inni Rennireið, en hún var þá kosin
bjartasta von tilraunanna. Bróðir
hans, Egill, barði bumbur en hann tók
sömuleiðis þátt í keppninni árið þar á
undan með sveitinni Woofer.
Halim (slappt nafn) lék melódískt
nýbylgjurokk í anda Ash, Maus og
200.000 naglbíta. Án efa þéttasta sveit
kvöldsins, prýdd fyrirtaksgítarleik og
greinilegt að mikið stjörnuefni býr í
Ragnari. Söngur hans þótti mér þó
vera uppburðarlítill og eins gerðu
lagasmíðarnar sig ekki alveg þótt um
sýnilegan metnað væri að ræða.
Akurnesingarnir í Hemru voru
næstir. Síðasta haust sigraði sveitin í
hljómsveitakeppni Fjölbrautaskólans
þar í bæ, Glysrokki, og sýndi þar mik-
inn þéttleika og kraft. Sveitin leikur
nokkuð hefðbundið keyrslurokk af
þreskiætt með sterkar tilvísanir í
Sepultura og ámóta sveitir. Lög sveit-
arinnar þetta kvöld skriðu líkt og
skriðdrekar áfram; þung bæði og
kröftug. Best var síðasta lagið, hvar
þeir félagar gáfu nokkuð duglega í.
Fake Disorder lék að heita má ung-
kjarnarokk og sveitin er nokkuð
greinilega ný og fersk úr skúrnum.
Töluvert vantaði upp á samhæfingu
og kraft hjá sveitinni af þeim sökum,
meðlimir óstyrkir og lagauppbygg-
ingar oft og tíðum vafasamar. Það
sem upp úr stóð var söngvarinn sem
stóð sig með mikilli prýði.
Síðust fyrir hlé var eins manns
sveitin Hemúll. Til þessa bæði nýstár-
legasta og skemmtilegasta „sveit“ til-
raunanna. Meðlimurinn, nafni minn
Jónsson, lék hugrakkur öllum góðum
látum, lexíaði af mikilli ástríðu yfir
fólki um pólitík, flutti gjörning og
söng angurvær vísukorn. Undir buldi
furðulegt og vélrænt rafpopp í anda
nýrómantísku stefnunnar sem hátt
fór á níunda áratug síðustu aldar.
Súrrealískt í meira lagi og salurinn
vel með á nótunum.
Heróglymur lék varlegt, pínku
sætt nýbylgjurokk, sem minnti nokk-
uð sterklega á bandarísku sveitina
Seam og jafnvel líka á hina alíslensku
Suð. Hljóðfæraleikur var í slakara
lagi en melódíur og lagasmíðar al-
mennt voru hins vegar í góðu lagi.
Söngvari sveitarinnar söng og af mik-
illi innlifun og tilfinningu.
Sensor lék óskilgreinda raftónlist,
eða „aðallega“ geimtónlist eins og
talsmaður sveitarinnar lýsti henni.
Fyrsta lagið var til að mynda
trommu- og bassalag að hætti ársins
1996, svo kom rapplag sem var lítið að
virka. Síðasta lagið var til muna best;
skemmtilegur samhræringur af
trommu- og bassa og tæknói. Síðastur
var trommu- og bassalistamaðurinn
Skam. Ólíkt Sensor var hér heilsteypt
efni á ferðinni, Elvar Skamliði greini-
lega búinn að þróa sinn stíl nokkuð.
Ágætlega vel unnin „myrkra“-
trommu- og bassatónlist með flottum
og skítugum, næsta undarlegum
hljóm. Sérstaklega var síðasta lagið
gott, í raun frábært. Á meðan talning-
armeistararnir unnu sitt verk og
dómnefndin réð ráðum sínum lék
þungkjarnasveitin Vígspá og gerði
allt vitlaust, í jákvæðum skilningi.
Úrslit voru svo kunngjörð. Fóru
leikar þannig að salurinn valdi Halim
áfram og dómnefndin hleypti tveimur
sveitum áfram: Skam og Heróglymi.
Hitt og þetta og
ansi mikið af H-um
TÓNLIST
T ó n a b æ r
Annað tilraunakvöld Músíktilrauna
Tónabæjar, haldið í félagsmiðstöð-
inni Tónabæ 22. mars 2001.
Fram komu Halim, Hemra,
Fake Disorder, Hemúll,
Heróglymur, Sensor og Skam.
MÚSÍKTILRAUNIR
Arnar Eggert Thoroddsen
Söngvari Fake Disorder, Páll Ingi Guðmundsson (lengst til hægri),
var með lungun í lagi.
Morgunblaðið/Björg Sveins
Hemúll þrumar yfir lýðnum.Hemra spilaði þungt og kraftmikið rokk. Sensor lék „aðallega geimrokk“.
Sofíu, Búlgaríu, 22. mars 2001. Þessi kona var að kveikja á kerti í St. Alexander Nevskí-kirkjunni, þar sem koma
tugir manna dag hvern til þess að biðjast fyrir og kveikja á kertum en þessi kirkja er ein merkasta byggingin í Búlg-
aríu. Ljósmyndari var rétt búinn að taka þessa einu mynd þegar vörður kom hlaupandi og sagði að stranglega væri
bannað að taka myndir inni í kirkjunni.
Dagbók ljósmyndara
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Kertaljós í merkri kirkju