Morgunblaðið - 08.05.2001, Page 43
MENNTUN
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 8. MAÍ 2001 43
STÚLKUR á höfuðborgar-svæðinu eru líklegastar tilað taka stúdentspróf, enlíklegra er að piltar á lands-
byggðinni ljúki námi í verknáms-
greinum. Þetta er meðal þess sem
fram kom í erindi Jóns Torfa Jón-
assonar, prófessors í uppeldis- og
menntunarfræði við félagsvísinda-
deild Háskóla Íslands, en hann
kynnti rannsókn sem hann og Krist-
jana Stella Blöndal hafa gert á
námsferli í framhaldsskóla og við-
horfi ungs fólks til náms á ráðstefnu
í Stórutjarnaskóla nýverið.
Yfirskrift ráðstefnunnar var
Menntun í dreifbýli. Flutt voru fjöl-
mörg erindi, ýmist um leikskóla,
grunnskóla, framhaldsskóla eða há-
skóla og tengsl menntunar og
byggðaþróunar.
Rannsókn Jóns Torfa og Krist-
jönu Stellu snerist um námsferil
fólks í framhaldsskóla og viðhorf
ungs fólks til náms, en skoðaður var
bakgrunnur, viðhorf og ferill fólks
sem fætt er árið 1975. Alls var um að
ræða tæplega 4.200 manns. Niður-
staðan er sú að 46,2% hópsins höfðu
lokið stúdentsprófi, 11% höfðu lokið
prófi úr verkgreinum, 42,8% höfðu
ekki útskrifast í árslok 1999, en sum
þeirra sáu fram á að slíkt myndi ger-
ast innan tíðar.
Hópurinn sem ekki hafði útskrif-
ast skiptist þannig að 6,6% voru enn
í námi haustið 1999, tæp 29% höfðu
hætt í skóla án prófs og 7,3% höfðu
aldrei skráð sig í nám eftir grunn-
skóla.
Hvað varðar skiptingu milli karla
og kvenna varð niður-
staða rannsóknarinnr sú
að 55% kvenna í þessum
árgangi höfðu lokið stúd-
entsprófi, en 37% karla.
Hvað verklega námið
varðar höfðu 15% pilta lokið slíku
námi og 7% kvenna og þá kom einnig
í ljós að 48% karla í árgangnum
höfðu ekki útskrifast en 38% kvenna.
Sterk ítök iðnnáms á
landsbyggðinni
Fram kom í máli Jóns Torfa að
margvíslegum gögnum var safnað til
að átta sig á hverjir lykju námi og
hverjir ekki, hverjir skráðu sig í
framhaldsskóla og hverjir ekki. Í því
skyni var m.a. safnað saman ein-
kunnum á samræmdum prófum og
skólaeinkunnum. Enginn munur
reyndist á kynjum í þeim hópi sem
hafði hæstu einkunn á samræmdu
prófi í íslensku. Þannig voru líkur á
útskrift á stúdentsprófi óháðar kyni
og þessi hópur valdi að jafnaði ekki
verknám.
Mikill munur reyndist aftur á
móti á þeim hópi sem fékk 5–6,9 í ís-
lensku á samræmdu prófi en hægt er
að ímynda sér að sá hópur eigi ekki
eins auðvelt með nám og þeir sem
fengu hæstu einkunnirnar.
Fram kemur í rannsókninni að
þessi hópur stendur frammi fyrir
raunverulegu vali um námsbraut.
Stúlkurnar eru þó líklegri til að velja
stúdentsprófið en piltarnir verk-
námið. Fremur lágt hlutfall þeirra
sem voru með 3–4,9 á samræmdu
prófi í íslensku valdi nám til stúd-
entsprófs og fyrir þann hóp sem læt-
ur bóklega námið lakast er stúdents-
námið ekki raunverulegur kostur og
raunar standa stúlkurnar fyrst þá
verulega höllum fæti.
Þegar útskrift úr skóla og búseta
var skoðuð í rannsókninni kom í ljós
að mest ásókn virðist í stúdentspróf-
ið hjá íbúum þéttbýlissvæða, en iðn-
námið átti sterkust ítök í dreifbýlinu.
Þannig hafa 52% þeirra sem bjuggu
í Reykjavík lokið stúdentsprófi, 50%
þeirra sem bjuggu á höfuðborgar-
svæðinu utan Reykjavíkur og 40%
þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni
höfðu lokið stúdentsprófi.
Hvað varðar próf úr verkgreinum
var um að ræða 7% hópsins sem bjó í
Reykjavík og 14% á landsbyggðinni.
Fáir með hæstu einkunn
sækja í verknám
Loks má nefna að skoðaður var
munur á útskrift eftir búsetu með
tillliti til einkunna á samræmdu
grunnskólaprófi í íslensku og þá
kom í ljós að því hærri sem einkunn-
in var því meiri eru líkurnar á að fólk
hafi lokið stúdentsprófi og það á
bæði við um höfuðborgarsvæðið og
landsbyggðina. Fáir í þessum hópi
hafa útskrifast úr verknámi, en í ljós
kom að næstum þrefalt hærra hlut-
fall útskrifast úr verknámsgreinum
utan höfuðborgarsvæðisins í hæsta
einkunnaflokknum.
Mynstrið snýst svo við
þegar kemur að þeim
sem voru með lægstu ein-
kunnirnar, þar höfðu nær
þrefalt fleiri á höfuðborg-
arsvæðinu lokið verknámi miðað við
þá sem bjuggu utan þess.
Þegar hópnum var skipt í tvennt,
annars vegar þá sem höfðu útskrif-
ast og hins vegar þá sem það höfðu
ekki gert, í ljósi einkunna kom í ljós
að þeir sem búa utan höfuðborgar-
svæðisins standa ekki verr að vígi en
þeir sem á því búa nema í þeim fá-
menna hópi sem lægstar hefur ein-
kunnirnar.
Háskólafólki hefur fækkað á
landsbyggðinni
Bjarki Jóhannesson, forstöðu-
maður þróunarsviðs Byggðastofnun-
ar, fjallaði um þátt menntunar í
byggðaþróun og kom fram í máli
hans að víða á landsbyggðinni er
ekki aðstaða til að taka við mennt-
uðu fólki þannig að það fái störf við
hæfi.
Hann nefndi að háskólafólki hefði
fækkað um 100 á landsbyggðinni á
sama tíma og því hefði fjölgað um
3.000 á höfuðborgarsvæðinu. Einnig
kom fram í máli hans að 13% íbúa
höfuðborgarsvæðisins greiða af
námslánum en hlutfallið er 3–8% eft-
ir landshlutum á landsbyggðinni,
hæst á Norðurlandi eystra en lægst
á Reykjanesi og Vestfjörðum. Stað-
an er því nokkuð misjöfn eftir svæð-
um.
Hann nefndi einnig að sú hætta
væri fyrir hendi að skólahald legðist
af í fámennum byggðarlögum og að
brottfall væri meira úr litlum fram-
haldsskólum en stórum.
Búseta að loknu háskólanámi
Ingi Rúnar Eðvaldsson, dósent
við Háskólann á Akureyri, greindi
frá rannsókn á háskólamenntun og
búsetu sem unnið er að við Háskól-
ann á Akureyri, en hún snýst um að
kanna áhrif háskólamenntunar á bú-
setuval að námi loknu.
Rannsóknin nær til hjúkrunar-
fræðinga og þeirra sem hafa próf úr
rekstrar- og viðskiptagreinum frá
Háskólanum á Akureyri og Háskóla
Íslands. Fram kemur í rannsókninni
að 91% þeirra sem alist hafa upp á
höfuðborgarsvæðinu velja Háskóla
Íslands og 83% Akureyringa velja að
setjast í Háskólann á Akureyri.
Skýrt kemur fram í rannsókninni
að háskólanám hefur áhrif á búsetu.
Þannig búa 80% þeirra sem lokið
hafa prófi í hjúkrunarfræði frá Há-
skóla Íslands á höfuðborgarsvæðinu
en 20% dreifast víða um landið. Þeg-
ar búseta þeirra sem lokið hafa sama
prófi frá Háskólanum á Akureyri er
skoðuð kemur í ljós að 45% búa á
Akureyri, 30% annars staðar á
landsbyggðinni og 25% búa í
Reykjavík eða nágrannabyggðarlög-
um. Sama mynstur er uppi á ten-
ingnum þegar viðskiptagreinar eru
skoðaðar.
Ingi Rúnar greindi frá því að fjöl-
skyldutengdir þættir skýrðu val á
búsetu eftir háskólanám í um helm-
ingi tilfella. Það sýndi hversu sterka
stöðu fjölskyldan hefði á Íslandi, en
starf og starfsframi vega mun
þyngra víða erlendis þegar kemur að
því að velja búsetu eftir háskólanám.
Þóra Björk Jónsdóttir, kennslu-
ráðgjafi við Skólaskrifstofu Skaga-
fjarðar, greindi á ráðstefnunni frá
rannsókn sem hún vann á hugmynd-
um grunnskólakennara í dreifbýli
varðandi stuðning í starfi.
Helstu niðurstöður hennar voru
þær að mikilvægt væri að samstarf
innan skólans væri gott sem og sam-
vinna milli skóla og eins nefndu
kennararnir að þeir fengju stuðning
á námskeiðum og með endurmennt-
un svo og með því að hafa góðan að-
gang að skólaskrifstofum. Helst
þótti þeim skorta á stuðn-
ing varðandi aðstoð við
nema sem eiga við náms-
örðugleika að stríða sem
og varðandi samkennslu.
Kennararnir nefndu að
bæði þegar byrjað væri að kenna
nýjum aldurshópi og eins nýtt fag
væri afar mikilvægt að geta leitað til
kennara með reynslu. Auk þess leita
kennarar stuðnings hjá ráðgjöfum
og skólaskrifstofum og einnig hjá
fjölskyldu og vinum.
Fram kom í könnuninni að kenn-
arar fá oft litlar sem engar upplýs-
ingar um störf sín og þeir geta helst
lesið út úr líðan nemenda sinna og af
viðbrögðum kennara hver árangur
þeirra er í starfi. Fram kom einnig
að lítið er um að kennurum sé hrósað
fyrir starf sitt. Þótti kennurunum
mikilvægt að fá meiri faglega svörun
á störf sín.
Litlir skólar hafa síður
tök á að bjóða verknám
Helga M. Steinsson, skólameistari
Verkmenntaskóla Austurlands í
Neskaupstað, fjallaði í sínu erindi
um hlutverk framhaldsskóla í dreif-
býli.
Hún fór yfir stöðu slíkra skóla, en
fámennir skólar teljast þeir sem
hafa færri en 300 nemendur. Hún
sagði litla landsbyggðarframhalds-
skóla koma illa út úr svonefndu
reiknilíkani sem tekið var í notkun
árið 1998. Skólarnir væru bæði í
samkeppni sín á milli sem og við hina
stóru framhaldsskóla landsins. Fáir
litlir skólar hefðu tök á að bjóða upp
á verknám, slíkt væri afar dýrt þeg-
ar nemendur eru fáir.
Þetta væri bagalegt því hugur
margra nemenda af landsbyggðinni
stæði til verknáms, en aðgengi
þeirra til starfs- og verknáms væri
takmarkaður í heimabyggð. Þá sagði
hún brottfall nemenda hafa slæmar
afleiðingar fyrir skólana, en rekstr-
arframlag hvers skóla lækkaði um
100 þúsund krónur fyrir hvern nem-
anda sem hætti námi. Loks nefndi
Helga að erfiðara væri að halda úti
öflugu félagslífi í fámennum skólum
en fjölmennum.
Kostir fámennra skóla væru þó
margir, m.a. persónulegri tengsl en
tíðkast í stærri skólum og minni lík-
ur á að nemendur týndust í fjöldan-
um, þá væri ráðgjöf aðgengilegri og
umsjón með nemendum meiri.
Meðal þess sem Helga nefndi í er-
indi sínu var að námsframboð minni
skólanna á landsbyggðinni væri
minna en stóru skólanna í þéttbýlinu
og eins kom fram í máli hennar að
víða á landsbyggðinni er viðhorf til
menntunar neikvætt. Það má m.a.
skýra með hræðslu fólks heimafyrir
við að missa frá sér unga fólkið, færi
það burt til náms væru litlar líkur á
að það skilaði sér til baka aftur.
Anna Kristín Gunnarsdóttir,
framkvæmdastjóri Farskóla Norð-
urlands vestra, sagði frá Leonardo
da Vinci-starfsmennta-
verkefni sem stendur yf-
ir á Hofsósi. Alls hafa 62
stundað námið sem boð-
ið er upp á og eru þeir á
aldrinum 18 til 73 ára.
Verkefnið hefur gengið vel, að sögn
Önnu Kristínar.
Fjarnámið hefur gefist vel
Anna Bergsdóttir, skólastjóri
Grunnskólans í Grundarfirði, sagði
frá fjarnámi þar, en boðið hefur ver-
ið upp á það í samvinnu við Verk-
menntaskólann á Akureyri síðastlið-
in tvö ár. Nemendum á framhalds-
skólastigi stendur námið til boða og
þurfa þeir því ekki að yfirgefa
heimabyggð sína að loknu grunn-
skólanámi.
Anna sagði marga kosti við fjar-
námið sem almennt hefði gengið vel.
Það örvaði nemendur og styrkti þá í
sjálfstæðum og markvissum vinnu-
brögðum og þá væri einnig mun
minni pappír kringum slíkt nám sem
að mestu færi fram um tölvur.
Að auki greindu tveir leikskóla-
stjórar, þær Hólmfríður Árnadóttir
á leikskólanum Krummafæti á
Grenivík og Kristín Eiríksdóttir á
leikskólanum Brimveri á Eyrar-
bakka, frá starfsemi leikskólanna og
þeim verkefnum sem þar er unnið að
með yngstu börnunum.
Menntun í dreifbýli/ Ráðstefna um menntun í dreifbýli haldin í apríl á Stórutjörnum. Markmiðið er að skapa
samband milli skólamanna hvarvetna á landinu, skiptast á skoðunum og ráðum. Margrét Þóra Þórsdóttir segir
hér frá ráðstefnunni og mörgum athyglisverðum niðurstöðum sem kynntar voru í fyrsta sinn.
Morgunblaðið/Margrét Þóra
Menn komu víða að á ráðstefnuna. Hér er Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, og samstarfsmenn.
Iðnnám
vinsælt í
dreifbýli
Kennurum
sjaldan hrósað
fyrir starf sitt
Kostir fá-
mennra skóla
eru dýrmætir
Nemendur með hæstu einkunn-
irnar velja síður verknám
Fjölskyldan ræður búsetu fremur
en háskólapróf einstaklingsins
Morgunblaðið/Margrét Þóra
Jón Torfi Jónasson prófessor sagði frá nýjum niðurstöðum rannsóknar
um viðhorf ungs fólks til náms og námsferil þess.