Morgunblaðið - 08.05.2001, Page 48
UMRÆÐAN
48 ÞRIÐJUDAGUR 8. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Í KJÖLFAR brotlendingar flug-
vélarinnar TF-GTI 7. ágúst sl. hefur
meðal annars verið rætt um sérstak-
an viðbúnað flugmálastjórnar í Vest-
mannaeyjum vegna þjóðhátíðarinnar
sl. verslunarmannahelgi. Þorgeir
Pálsson flugmálastjóri hefur haldið
því fram að eftirlit þetta hafi verið hið
ágætasta og starfsmenn flugmála-
stjórnar sinnt því af kostgæfni, en við
upplýsingaöflun vegna brotlendingar
TF-GTI fór fljótlega að bera á því að
önnur kynni að hafa verið reyndin.
Í kjölfar ábendinga, m.a. úr hinum
opinbera geira, var með vísan í upp-
lýsingalög farið fram á að fá endurrit
úr dagbókum flugturnsins í Vest-
mannaeyjum og flugturnsins í
Reykjavík. Rétt er að undirstrika að
hér er um að ræða dagbækur sjálfrar
flugmálastjórnar, sem ábyrgir varð-
stjórar flugturnanna færa inn í sam-
kvæmt fyrirfram ákveðnum starfs-
reglum.
Neðangreindar tilvitnanir í dag-
bækurnar vísa því til opinberra
gagna frá flugmálastjórn, sem einna
helst mætti líkja við dagbækur lög-
reglunnar.
„Hvað með öryggis- og
viðbúnaðarþjónustu?“
Í svarbréfi flugmálastjórnar dag-
settu 2. maí sl. vegna ofangreindrar
beiðni og undirritað var af Heimi Má
Péturssyni, starfsmanni flugmála-
stjórnar, segir meðal annars: „Bent
skal á að í dagbók eru einungis skráð
frávik frá hefðbundnum störfum
flugumferðarstjóra.“ Einnig stend-
ur: „„Þorbjörn“ í bókun kl. 7:05 hinn
7. ágúst 2000 er Þorbjörn J. Einars-
son, starfsmaður Flugmálastjórnar í
Reykjavík [trésmiður – innskot
greinarhöfunda]. Hann var við störf í
Vestmannaeyjum um verslunar-
mannahelgina 2000 undir stjórn Jóns
Baldvins Pálssonar, setts fram-
kvæmdastjóra flugvallasviðs og flug-
vallarstjóra í Reykjavík. Jón Baldvin
Pálsson hefði fullt vald til að veita
undanþágu til flugtaks frá flugvell-
inum í Reykjavík, sem annars er lok-
aður fyrir flugtökum frá klukkan
23:30 til klukkan 7:30 um helgar og á
hátíðardögum…“ Rétt er að benda á,
að nafngreiningar í þessari umfjöllun
eru ekki greinarhöfunda, heldur
Heimis Más Péturssonar og varð-
stjóra flugturnanna.
Hér að neðan fer orðrétt endurrit-
un nokkurra færslna úr þessum op-
inberu dagbókum flugturnanna.
Menn geta gert sér í hugarlund hvað
gengið hafi á, áður en varðstjórar
flugturnanna færðu eftirfarandi
texta í dagbækurnar.
Óbreyttur texti úr dagbók flug-
turnsins í Vestmannaeyjum laugar-
daginn 5. ágúst 2000, kl. 13:45:
„Reynt er árangurslaust að ná sam-
bandi við brautarmenn FMS.
Enginn svarar, hvorki uppgefnir
farsímar, innanhússkallkerfi né frek-
ari eftirgrennslan í flugstöð. Á með-
an bíður vél eftir eldssneytisaf-
greiðslu.
Hvað með öryggis- og viðbúnaðar-
þjónustu?“
Kl. 13:54: „Loks næst í Jón Bald-
vin.“
„Einhver fyllibytta úti í bæ“
Óbreyttur texti úr dagbók flug-
turnsins í Reykjavík að morgni
mánudagsins 7. ágúst 2000, kl. 7:05:
„Í turn hringdi einhver Þorbjörn,
sagðist vera með símann hans Jóns
Baldvins og veita í hans umboði leyfi
fyrir undanþágu frá lokun flugvall-
arins fyrir brottflugi véla. Viðkom-
andi var beðinn um að framvísa gild-
ara umboði en símanum hans Jóns
Baldvins, sem tókst ekki.“
Kl. 7:10: „Í turn hringir einhver
sem fullyrðir að hann sé Jón Baldvin.
Ekki þekktist maðurinn á röddinni
þar sem hún var bæði mjög hás og ill-
skiljanleg. Þessi torkennilega rödd
sagðist vera í VM og að hann veitti
undanþágu frá reglum um lokun vall-
arins fyrir brottflugi véla. Varðstjóri
lenti í hinni verstu klemmu minnugur
þess að á síðasta varðstjórafundi
hafði hann fengið tilmæli um að taka
við munnlegum fyrirmælum sem
þessum ef þau bærust í gegnum
síma. Þar sem símaskjárinn gaf til
kynna að verið væri að hringja úr
síma Jóns Baldvins og að líkur voru
þar með fyrir því að þetta væri ekki
einhver fyllibytta úti í bæ og jafn-
framt þar sem ekki var mikið í húfi
ákvað varðstjóri að taka orð viðkom-
andi trúanleg.“
Kl. 7:16: GTO fer í loftið kl. 7:16
með leyfi frá „Jóni Baldvini“ [TF-
GTO er flugvél LÍO ehf. (Ísleifs Otte-
sen) – innskot greinarhöfunda].
Lögreglan rannsaki
starfshættina
Það er ljóst af dagbókarfærslum
flugturnsins í Reykjavík, að ef ekki
hefði verið fyrir nútímatækni núm-
erabirtingar hefði varðstjórinn í flug-
turninum í Reykjavík þennan morg-
un afskrifað hringjarann frá Vest-
mannaeyjum sem einhverja „fylli-
byttu úti í bæ“. Þegar varðstjórinn í
flugturninum í Reykjavík heyrði hina
hásu, torkennilegu og illskiljanlegu
rödd er ljóst að hann gat með engu
móti gert sér grein fyrir því að þar
færi hinn háttsetti framkvæmda-
stjóri flugmálastjórnar, sem áður
hafði árangurslaust fengið trésmið til
að tilkynna fyrir sig undanþágu frá
lokunartíma flugvallarins í Reykjavík
vegna flugvélar LÍO ehf.
Sú spurning vaknar hvaða flutning-
ur TF-GTO til eða frá Reykjavík hafi
verið svo mikilvægur að ekki hafi ver-
ið hægt að bíða með flugtak í 14 mín-
útur, eða þar til að eðlilegum af-
greiðslutíma kæmi.
Dagbókarfærslan úr flugturninum
í Vestmannaeyjum lýsir miklum
áhyggjum af framkvæmd öryggis- og
viðbúnaðarþjónustunnar og út af fyr-
ir sig stórmerkilegt að viðkomandi
flugumferðarstjóri skuli hafa séð
ástæðu til að setja þær áhyggjur á
blað.
Dagbókarfærslurnar úr flugturn-
unum í Reykjavík og Vestmannaeyj-
um renna styrkum stoðum undir rétt-
mæti upplýsinga um að um óeðlilegt
„eftirlit“ sumra starfsmanna flug-
málastjórnar hafi verið að ræða – af
hendi einstaklinga, sem fengu greitt
fyrir að gegna eftirlits- og vaktstörf-
um þessa helgi. Þær undirstrika og að
fullyrðingar flugmálastjóra um
fölskvalaus störf eftirlits- og vakt-
manna flugmálastjórnar eru rangar.
Ekki verður komist hjá því að senda
dagbókarfærslur þessar til lögreglu
með kröfu um rannsókn á starfshátt-
um þessara manna. Gera verður
kröfu um að hver og einn hinna
mörgu starfsmanna flugmálastjórnar
í Vestmannaeyjum þessa verslunar-
mannahelgi geri fulla grein fyrir
gjörðum sínum þjóðhátíðardagana.
Hafi þessir menn verið uppteknari af
þjóðhátíðarstemmningunni en af því
að sinna störfum, sem greitt var fyrir,
ber að upplýsa slíkt.
Eftirlit flugmálastjórn-
ar í Vestmannaeyjum
Friðrik Þór
Guðmundsson
Flugslys
Dagbókarfærslurnar úr
flugturnunum í Reykja-
vík og Vestmanna-
eyjum, segja Friðrik
Þór Guðmundsson,
Hilmar Friðrik Foss og
Jón Ólafur Skarphéð-
insson, renna styrkum
stoðum undir fullyrð-
ingar heimildarmanna
um óeðlilegt „eftirlit“.
Hilmar
Friðrik Foss
Jón Ólafur
Skarphéðinsson
Jón Ólafur er prófessor, Friðrik Þór
er blaðamaður og Hilmar Friðrik er
flugmaður.
SAMEINING Ríkis-
spítala og Sjúkrahúss
Reykjavíkur var mjög
umdeild ráðstöfun. Það
sem sætti marga við
þessa leið var sú hugs-
un að möguleiki væri á
að bæta þá aðstöðu sem
starfsemin byggi við í
dag með því að flytja
hana á einn stað og
byggja það húsnæði
sem þarf til að reka
starfsemina miðað við
nútíma kröfur. Nú þeg-
ar er ljóst að það er
sama hvaða leið verður
farin að þessu mark-
miði, hún mun kosta
mikið, nefndar hafa verið tölur upp á
15-20 milljarða króna fjárfestingar á
næstu 10-15 árum. Mjög miklu máli
hlýtur því að skipta hvernig á verður
haldið. Annað atriði sem mönnum
fannst jákvætt er sú afstaða að auka
veg háskólastarfsemi spítalans en
hún hefur hingað til verið hornreka í
heildarstarfseminni.
Mörg stór sjúkrahús
erlendis eru rekin af
háskólum og hafa það
orð að vera eftirsótt-
ustu og bestu slíkar
stofnanir, þar sem
gerðar eru miklar kröf-
ur til gæða þjónustunn-
ar, rannsóknir stund-
aðar og kennsla nema í
heilbrigðisfræðum fer
fram. Og því ekki að
fara þessa leið á Íslandi
og fela Háskóla Íslands
að reka og skipuleggja
Landspítala – háskóla-
sjúkrahús? Þessi leið
hefur fram að þessu
verið talin ófær vegna þeirrar fjár-
mögnunar sem hingað til hefur verið
beitt hér á landi, þ.e. fastra fjárlaga
og eilífs hallareksturs sem fylgir því
fyrirkomulagi.
Rekstur sjúkrahúsa
Undanfarna tvo áratugi hafa flest
sjúkrahús á Íslandi verið rekin í
kerfi fastra fjárlaga. Þessi aðferð var
einnig notuð í mörgum löndum en nú
er svo komið að hún hefur alls staðar
verið lögð af nema á Íslandi. Stað-
reyndin er sú að það getur enginn,
hvorki ríkið sjálft né aðrir rekið spít-
ala í þessu kerfi. Víðast í löndum
Evrópu og t.d. á öllum hinum Norð-
urlöndunum hafa menn tekið upp ný
fjármögnunarkerfi sem byggjast að
hluta á mælingu afkasta þar sem hið
bandaríska mælikerfi DRG er lagt til
grundvallar. Það kallar á að einstak-
ir þættir þjónustunnar verði kostn-
aðargreindir og spítalar því reknir á
sama grundvelli og venjuleg fyrir-
tæki. Þessi aðferð gefur möguleika á
samanburði stofnana milli landa og
auðveldar mjög þeim sem taka
ákvarðanir um nýtingu fjármagns til
heilbrigðisþjónustu. Enda þótt að-
ferðin sé ekki gallalaus hefur hún
breiðst út um allan heim og þróunin
er mjög ör. Rekstur Háskólans á
spítalanum myndi auðvelda mjög
alla vinnu við að koma slíku kerfi á
þar sem spítalinn gæti notið mikils
styrks frá ýmsum öðrum deildum á
viðskipta- og rekstrarsviði við rann-
sóknir á rekstrarþáttum.
Velferðarkerfi
En getur nokkur annar aðili en
ríkið rekið slíka stofnun sem margir
telja hluta af okkar velferðarkerfi?
Við þær miklu breytingar sem orðið
hafa í heilbrigðisþjónustu í allri Evr-
ópu og víðar er einn rauður þráður.
Gerður er greinarmunur á trygg-
ingaþættinum annars vegar og
rekstrarþættinum hinsvegar. Vel-
ferðin felst auðvitað í trygginga-
þættinum, þ.e. hver greiðir kostnað-
inn af þjónustunni. Rekstur þjón-
ustunnar hefur auðvitað ekkert með
velferð að gera. Það hlýtur hins veg-
ar að vera skylda þeirra sem stjórna
landinu að sjá til þess að það fé sem
tryggingaþátturinn hefur yfir að
ráða nýtist sem best og skjólstæð-
ingar kerfisins njóti réttar síns, sem
skapast hefur með greiðslum til
kerfisins árum saman. Það er t.d.
ekki velferð að hætta að greiða fyrir
ákveðna lyfjaflokka, t.d. sýklalyf,
sveppalyf og gigtarlyf. Það er ekki
velferð að láta sjúklinga með ónýta
liði bíða mánuðum og árum saman
með slæma verki og skerta hreyfi-
getu eftir því að fá úrlausn sem
læknar þeirra mein.
Rekstur þjónustunnar
Því hefur verið farin sú leið að
greina á milli þeirra sem kaupa þjón-
ustu og þeirra sem veita hana. Jafn-
vel þar sem ríkið sér um báða þætt-
ina hafa stofnanir verið aðskildar.
Það mætti til dæmis ímynda sér að
Tryggingastofnun ríkisins fengi það
hlutverk að semja við spítala og aðr-
ar heilbrigðisstofnanir um magn og
verð þjónustunnar, eftir þeim línum
sem heilbrigðisráðuneyti og ríkis-
stjórn legðu. Ýmsir aðilar gætu séð
um reksturinn, t.d. háskólinn, sveit-
arfélög, félagasamtök og einkaaðil-
ar. Menn hljóta að vera búnir að
læra það að ríkið er ekki besti aðilinn
til þess að standa í rekstri og gera
kjarasamninga við starfsfólk. Hlut-
verk ráðuneytis og Alþingis yrði því
að marka stefnuna og gæta hags-
muna þeirra sem rétt eiga á þjónust-
unni. Reykjavíkurborg hefur því
miður dregið sig út úr rekstri spítala
og því er Háskólinn eini aðilinn hér á
landi sem gæti tekið verkefnið að
sér.
Framtíðin
Til þess að markmið Landspítala –
háskólasjúkrahúss náist þarf mikla
fjármuni. Þörf fyrir nýbyggingar á
næstu árum er eins og áður sagði
ekki undir 15-20 milljörðum króna.
Til þess að tryggja gæði þjónustunn-
ar og kennsluhlutverk er ekki nóg að
staðsetja sjúkrahúsið landfræðilega
nálægt aðalbyggingu Háskólans.
Það verður einfaldlega að láta þessar
stofnanir renna saman í eina heild.
Lykilatriðið er að breyta núver-
andi fjármögnunarkerfi sem fyrst.
Allar þjóðir Evrópu eru þegar búnar
að því.
Háskólasjúkrahús
Ólafur Örn
Arnarson
Heilbrigðismál
Lykilatriðið er, segir
Ólafur Örn Arnarson,
að breyta núverandi
fjármögnunarkerfi
sem fyrst.
Höfundur er læknir.