Morgunblaðið - 23.05.2001, Blaðsíða 54

Morgunblaðið - 23.05.2001, Blaðsíða 54
FÓLK Í FRÉTTUM 54 MIÐVIKUDAGUR 23. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ LESTER Bangs er goðsögn í heimi tónlistarskrifa; þessa starfs- sviðs sem flöktir óþægilega á milli upplýstrar, á stundum akademískrar sagnfræðikunnáttu og svo innblás- ins, ástríðufulls prósa þess sem hrífst með. Rokkfræðin, eða öllu heldur poppfræðin eins og fagið er einatt kallað, er enn sem komið er fremur vanþróuð fræðigrein og helstu post- ulana er hægt að telja á nokkrum fingrum; í fljótu bragði skjóta nöfn eins og Nick Kent, Patrick Hump- ries, Jon Savage, David Fricke, Greil Marcus og Allan Jones upp kollinum. Og eðlilega Lester Bangs, en und- anfarið er maður farinn að sjá þetta nafn æ oftar í samtímadægurtónlist- argagnrýni og það virðist vera orðið svalt að geta skotið tilvísun í Bangs inn í tónlistarumfjallanir. Þessi bók er sú eina sem hýsir texta eftir Bangs en hún var gefin út eftir að hann lést árið 1982, þá 34 ára að aldri, og inniheldur greinar, upp- köst og hljómplötudóma en það eina sem Bangs skrifaði í raun réttri á um 15 ára ferli voru plötudómar og um- fjallanir; fyrir rokkblaðið Creem, Rolling Stone og svo ýmsa aðra. Kraftmikill og persónulegur stíllinn gerði svo Bangs sjálfan að hálfgild- ings rokkstjörnu meðan hann lifði. Það fyrsta sem vekur eftirtekt er að Bangs beitir ekki einum stíl held- ur mörgum í skrifum sínum, og það með mismunandi góðum árangri. Langur bálkur hans um Clash er til að mynda listavel skrifaður og vel ígrundaður en stutt grein um Troggs er í beljandi ruglingslegum beat-stíl. Viðtalsgrein um Kraftwerk er næsta andlaus en greinar um Lou Reed, hans helsta hugðarefni, eru ekkert minna en frábærar; næmar og djúp- hugular um leið og þær eru spreng- hlægilegar. Ástríðufull persóna Lesters Bangs er þó alltaf nálæg; hann er beittur og hugsandi, allra handa samfélagsrýnir og ófeiminn við að trana fram skoðunum sínum á hverju sem er, hvort sem um er að ræða plötudóm um Slade eða grein um Jethro Tull. Og aldrei er hann ófeiminn við að setja sjálfan sig í for- grunn, nokkuð sem, því miður eða sem betur fer, virðist deyjandi stíl- bragð í dag. Og eiturlyfin maður! Bangs talar frjálslega um hvernig hann sótti aðstoð í þau við skriftir, dómgæslu og almennar rokkstjörn- unálganir. Í einum plötudómnum viðurkennir hann t.d. að hann hafi dæmt ákveðna plötu á amfetamíni og þar af leiðandi gefið henni allt of já- kvæðan dóm! Algert rokk og ról semsagt! Bókin er ekki helber og öskrandi snilld frá A til Ö, nokkuð sem maður átti nú hálfpartinn von á, sbr. umtal. En athyglisverð engu að síður; fróð- leg lesning fyrir poppfræðinga, gamla sem nýja. Forvitnilegar bækur Ritað um rokk Arnar Eggert Thoroddsen Psychotic Reactions and Carbur- etor Dung eftir Lester Bangs í rit- stjórn Greil Marcus. 386 síðna kilja. Vintage gefur út 1988. Kostar 1995 kr. í Eymundsson. THELONIOUS Sphere Monk er mörgum aðdáendum sveiflunnar að góðu kunnur, að minnsta kosti tón- listin hans sem er svo sérstök og engu öðru lík. Maðurinn sjálfur var ekki síður einkennilegur, einrænn og félagslega heftur og sást aldrei öðru- vísi en með skrýtið höfuðfat, sólgler- augu og hökutopp. Það er margt á huldu um ævi þessa sérkennilega listamanns, en árið 1987 kom út í Þýskalandi bók um ævi hans og tón- list, skrifuð af Thomasi Fitterling. Bókin var svo þýdd yfir á ensku auk- in og endurbætt og gefin út af Berke- ley Hills Books í Kaliforníu árið 1997 undir nafninu „Monk, his life and music“. Þetta er kærkomin lesning og Fitterling hefur vandað sig við verkið. Bókinni er skipt í þrjá hluta, í þeim fyrsta er ævisaga Theloniusar, í öðrum kafla eru tónlist hans gerð skil og í þeim síðasta er listi yfir allar hljóðritanir hans og það sem til er af myndbandsupptökum. Þessi bók ætti að vera kærkomin hverjum þeim, sem áhuga hefur á djassi, því þarna er dregin upp skýr mynd af Monk, samferðamönnum og vinum. Þeim, sem ekki hafa kynnt sér Monk og tónlist hans, ætti að vera leikur einn að kynnast honum með því að hafa bókina sér til hliðsjónar. Bókin fæst í bókabúð Máls og menningar og kost- ar 2.795 krónur. Æskuárin Thelonious Monk fæddist hinn 10. október árið 1917 en ekki 1920 eins og lengi var talið. Hann hefur líklega kært sig kollóttan um aldur sinn, því hann hirti aldrei um að leiðrétta þann misskilning sjálfur, þótt honum væri það í lófa lagið. Hann fæddist í Norð- ur-Karólínu og átti þar heima til sex ára aldurs. Þá tóku foreldrar hans sig upp, rétt eins og fleiri fátækir blökkumenn í suðurríkjum Banda- ríkjanna og fluttu til New York í von um betri daga og bættan hag. Fyrra stríði var lokið og næga vinnu var að fá fyrir norðan. Fjölskyldan settist að í lítilli þriggja herbergja íbúð í San Juan Hill-hverfinu. Skömmu síðar dó faðir hans og móðir hans stóð ein uppi með börnin sín þrjú. Þau liðu þó ekki skort, því hún hafði fengið ágæta vinnu hjá borginni. Í hverfinu bjó margt fólk frá Vestur-Indíum og tónlist hljómaði úr hverju húsi. Það þótti jafnsjálfsagt að börn lærðu á hljóðfæri og að þau lærðu að lesa. Móðir hans hafði ágæta söngrödd og söng gospel-söngva. Á heimilinu var píanó og systir hans var í píanótím- um, sem henni reyndar leiddist mjög. Thelonious átti að læra á fiðlu, en hann harðneitaði því og var því settur í trompetnám, en lungun voru veil og því var það, að hann hætti tromp- etnáminu, en tók við af systur sinni í píanótímunum. Hann hélt því síðar fram að hann hefði alltaf haft mestan áhuga á hljómnum, sem kom úr pí- anóinu og fundist að það yrði að hljóma „rétt“. Það hefur líka verið haft eftir honum, að hann væri að mestu sjálflærður. Móðir hans studdi hann með ráðum og dáð og fjórtán ára var hann farinn að spila á ýmsum samkomum. Hann spilaði einnig und- ir hjá móður sinni þegar hún söng í kirkjunni. Hann hafði áhuga á djassi, sem kemur ekki á óvart, því á þessum árum var New York ómótmælanlega miðstöð djassins. Djass var spilaður í klúbbum og í útvarpinu spiluðu stór- sveitirnar og síðar, þegar tækninni hafði fleygt fram, varð New York miðstöð hljómplötufyrirtækjanna. Einu sinni í viku var haldin hæfi- leikakeppni fyrir tónlistarmenn í Apollo-klúbbnum í Harlem. Thelon- ious tók margsinnis þátt í henni og hann fór svo oft með sigur af hólmi, að það endaði með því, að honum var bannað að taka þátt í henni. Ný stefna Árið 1933 markar að vissu leyti þáttaskil í lífi Monks. Hann hætti í skólanum og réð sig sem hljóðfæra- leikara hjá konu sem hélt kristilegar kraftaverka- og lækningasamkomur víða um Bandaríkin. Hann og þrír aðrir spiluðu eitthvað í líkingu við rokk eða blús undir guðsorðinu. Við þetta vann Monk í tvö ár og ekki er hægt að segja annað en að sá tími hafi nýst honum vel, því hann kynnt- ist fjölmörgum djassleikurum á ferð- um sínum. Þeir komu reyndar ekki á samkomurnar, heldur hitti hann þá á klúbbunum, sem hann hafði tækifæri til að heimsækja. Er ekki að efa, hver áhrif það hefur haft á hann, að kynn- ast þeim og tónlist þeirra og fá að spila með þeim og útfæra hugmyndir sínar, en hann var þá þegar farinn að spila í sínum persónulega stíl. Hann kom aftur til New York 1936. Hann bjó hjá móður sinni og sá sér far- borða með því að spila á krám. Árið 1941 var klúbburinn Minton’s Play- house opnaður. Klúbburinn var í Harlem og eigandinn, Henry Minton, hafði áhuga á að endurskapa það sem hann hafði kynnst á árum áður á klúbbum í Kansas City, þar sem klúbburinn var eins konar félags- miðstöð á daginn, matsölustaður fyrri part kvölds og svo djass- klúbbur fram á nótt. Hugmynd Mint- ons var sú, að gefa svörtum tónlist- armönnum tækifæri til að koma sér á framfæri og spila með hljómsveit hússins, en í henni voru Monk á pí- anó, Kenny Clarke á trommur, Dizzy Gillespie og Joe Guy á trompet og Charlie Christian á gítar. Þetta var örlagarík ákvörðun, því þarna varð beboppið til, en Monk og Clarke hafa oft verið kallaðir feður þess. Það var þó ekki heiglum hent að vinna með Monk. Hann var sérkennilegur mað- ur, svo ekki sé meira sagt og al- veg óútreiknanlegur. Hann hirti lítt um að mæta á réttum tíma og þótti ekk- ert athugavert við að vera óáreiðanlegur. Hann var erfiður í samvinnu og krafðist afar mikils af þeim sem hann spil- aði með. Hann drakk ótæpi- lega og trúlega neytti hann annarra efna en alkóhóls, eins og fjölmargir aðrir koll- egar hans gerðu. Það var ýmislegt fleira sem gerði Monk erfitt fyr- ir. Hann lenti stundum í útistöðum við lögregluna, eins og reyndar fleiri svartir tónlist- armenn, en lög- reglan hafði al- mennt horn í síðu þeirra og kom iðu- lega illa fram við þá. Eftirfarandi saga segir allt sem segja þarf um það. Í janúar 1945 hafði Monk verið að með Max Roach í Fíladelfíu. Þegar hljómsveitin var að pakka saman eftir tónleikana, kom lögreglan á vettvang og krafðist þess að Monk sýndi þeim persónuskilríki sín. Hann neitaði því og þeir réðust að honum og handtóku hann. Þegar þeir voru á leið með hann út, stóð vin- ur hans og einlægur aðdáandi í dyr- unum og reyndi að varna þeim út- göngu. Hann var þá barinn í höfuðið með kylfu, dreginn út í lögregubíl og endaði í fangelsinu með Monk. Sá sem kom þarna Monk til varnar var Bud Powell píanóleikari. Höf- uðhöggið hafði afdrifaríkar afleið- ingar fyrir hann, því hann átti við mikla andlega erfiðleika að stríða upp úr þessu. Það kann að þykja und- arlegt að þessir tveir ólíku píanóleik- arar hafi verið vinir. Powell rennir sér upp og niður nótnaborðið af ótrú- legri fimi, en Monk stiklar yfir nót- urnar stirðbusalegur og snúinn. Betri dagar Árið 1947 komst Monk loks á plötusamning hjá Blue Note- útgáfunni. Þetta sama ár kvæntist hann stúlku úr nágrenninu, Nellie, og hún flutti inn til hans, þar sem hann bjó í íbúðinni hjá mömmu sinni. Þar bjó líka systir hans með sínum manni og frændi þeirra. Fjölskylduböndin voru afar sterk og konurnar sinntu Monk vel og sáu algjörlega um hann. Monk átti alltaf erfitt með félags- leg samskipti. Margir gáfust upp á að ráða hann til að spila, enda var hann með eindæmum óstundvís. Hann var einrænn og sérkennilegur og átti það jafnvel til að ganga út af sviði í miðjum konsert, ef sá gállinn var á honum. Það duldist eng- um að hann átti við einhverja geðveilu að stríða. Monk vildi helst ekki ferðast út fyrir New York, en hann neyddist þó oft til þess. Þá lenti hann stundum í vandræðum og týnd- ist og einu sinni fannst hann á geð- sjúkrahúsi eftir margra daga leit. Eftir það fór Nellie alltaf með honum í ferðalögin. Þótt Monk hafi verið erf- iður í samskiptum við samferðamenn sína, þá var hann mikill fjöl- skyldumaður og sinnti börnum sínum vel og hafði gaman af að leika við þau. Þegar Monk var á samningi hjá Ri- verside-útgáfunni og platan Monk’s Music var tekin upp, lenti hann í smáútistöðum út af plötualbúminu. Riverside vildi fá að taka mynd af honum í prédikunarstól, klæddan munkakufli og með viskíglas í hönd. Það vildi hann ekki, en sagðist vilja láta taka mynd af sér sitjandi í kerru sonar síns, enda hefði hann samið nokkur lög í henni. Það var látið eftir honum. Þess má geta að á umræddri plötu spilar John Coltrane með band- inu, en hans sé ekki getið á plötu- umslaginu vegna þess að hann er þá nær óþekktur. Lagasmiðurinn og píanóleikarinn Eins og fyrr sagði lærði Monk á pí- anó á hefðbundinn hátt, þótt hann hafi alltaf haldið því fram, að hann hafi frá upphafi haft mestan áhuga á hljómi hljóðfærisins. Síðar, er hann hafði þróaði sinn eigin stíl, hafði hann einnig sagt skilið við hefðbundna fingrasetningu og má segja að hann hafi spilað á píanóið eins og spilað er á trommur og slagverk, því hann barði með beinum fingrunum á nót- urnar. Thelonious Monk er þekktur fyrir lagasmíðar sínar og sérkenni- legan píanóleik. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós, að hann semur nánast öll lög sín á 10 ára tímabili, frá ’45–’55. Þessi lög, sem ekki eru mörg að tölu, spilar hann aftur og aftur, ýmist einn eða með misstórum hljóm- sveitum og stundum bætir hann inn í prógrammið nokkrum standördum eftir aðra. Þegar litið er yfir ævi Monks má segja, að allt hans líf hafi verið í mjög þröngum skorðum. Hann bjó nánast alla sína ævi í íbúð- inni í San Juan Hill og vildi helst ekki fara út fyrir borgina sína. Hann átti afar fáa vini og var einrænn og félagslega heftur og hefði hann ekki átt góða móður, systur, eiginkonu og vinkonu, sem sáu um hann, hefði hann líklega ekki getað gefið okkur hlutdeild í list sinni. Árið 1976 spilaði hann síðast opinberlega, þá hafði hann misst alla lífslöngun og síðustu árin lá hann að mestu fyrir þjakaður af þunglyndi þar til hann dó af völd- um heilablóðfalls árið 1982. Monk, his life and music eftir Thomasi Fitterling fæst í Máli og menningu og kostar 2.795 kr. Sérkennilegur snillingur Thelonious Sphere Monk var einkennilegur í háttum, einrænn og félagslega heftur og sást aldrei öðruvísi en með skrýtið höfuðfat, sólgleraugu og hökutopp. Ingveldur Róbertsdóttir rýndi í bók um ævi þessa sérkennilega listamanns.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.