Morgunblaðið - 31.05.2001, Blaðsíða 29
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 31. MAÍ 2001 29
KOSNINGABARÁTTAN í Bret-
landi tók á sig persónulegan blæ í
gær þegar Verkamannaflokkurinn,
sem er í ríkisstjórn, afhjúpaði vegg-
spjald þar sem blandað var saman
mynd úr fortíðinni – Margréti
Thatcher – og aðvörun um framtíð-
ina. Myndin á spjaldinu var í öllum
dagblöðum Bretlands í gær, en á
henni má sjá William Hague, leið-
toga Íhaldsflokksins, og hafði vöru-
merki Thatchers, hárgreiðslan, ver-
ið sett inn á myndina.
„Förum og kjósum – annars kom-
ast þau að,“ segir í aðvöruninni á
spjaldinu. Tilgangurinn með því er
að sýna að Hague hafi ekki tekist að
sleppa úr skugga forsætisráð-
herrans fyrrverandi, ekki náð að
móta sína eigin stefnu og veita
flokknum sjálfur forystu. Thatcher
var forsætisráðherra Bretlands frá
1979 til 1990.
Talsmaður Tonys Blairs forsætis-
ráðherra, Alastair Campbell, sagði
að forysta, efnahagsmál og opinber
þjónusta yrðu nú að þungamiðjunni
í kosningabaráttu Verkamanna-
flokksins. Hann gagnrýndi Hague
fyrir að skorta framtíðarsýn og vera
eini maðurinn í Bretlandi sem ekki
vissi að tími Thathchers væri liðinn.
Íhaldsmenn svöruðu fyrir sig með
því að gagnrýna Verkamannaflokk-
inn fyrir að falla í gryfju „persónu-
dýrkunar“ með stanslausri upphafn-
ingu á Blair.
Mikil áhrif Thatchers
Thatcher hefur haft mikil áhrif á
baráttuna fyrir kosningarnar, sem
fram fara 7. júní. Í síðustu viku,
þegar hún kom fyrst fram, lýsti hún
því yfir að hún myndi aldrei taka
upp hinn sameiginlega gjaldmiðil
Evrópusambandsríkja. Er þetta
mun sterkari afstaða en opinber
stefna Íhaldsflokksins varðandi evr-
una.
Þetta dró fram í dagsljósið óein-
ingu innan Íhaldsflokksins um
stefnuna í Evrópumálum og gaf
Verkamannaflokknum líka kjörið
tækifæri til að spyrja hver sé eig-
inlega við stjórnvölinn. John Major,
sem tók við forsætisráðherraemb-
ættinu af Thatcher, sagði í gær að
veggpsjaldið væri „bæði barnalegt
og óheiðarlegt“. Blair hefði sagt að
hann vildi einbeita sér að málefnum
„og það væri svo sannarlega hress-
andi ef hann myndi í rauninni gera
það,“ sagði Major í viðtali við BBC.
Thatcher sagði sjálf í viðtali, sem
tekið var upp í fyrradag, að Íhalds-
menn ættu enn möguleika á að sigra
í kosningunum, þrátt fyrir að skoð-
anakannanir sýni að þeir hafi allt að
19% minna fylgi en Verkamanna-
flokkurinn. „Allar kosningar eru
býsna erfiðar. Ég hef barist í þeim
mörgum og tapað fáum ... Ég held
að við eigum góða möguleika núna.
Við höfum stórkostlegu fólki á að
skipa.“
Reuters
Kosningaveggspjald Verkamannaflokksins sett upp í London í gær.
Kosningabaráttan í Bretlandi
Thatcher skýtur
upp kollinum
London. AFP.
SVISSNESKA lyfjafyrirtækið Hoff-
mann La Roche tilkynnti í gær, að
það hygðist segja upp 3.000 starfs-
mönnum í lyfjaframleiðsludeildum
sínum í nokkrum löndum.
Fækkunin verður mest í Palo Alto
og Nutley í Bandaríkjunum; í Wel-
eyn í Englandi og í Basel í Sviss. Í
fréttatilkynningu frá fyrirtækinu
segir, að stefnt sé að því að auka söl-
una og lækka kostnað með það fyrir
augum að tryggja aukinn hagnað í
framtíðinni. Fyrirhugað er, að fækk-
un starfsmanna komi til fram-
kvæmda á næstu tveimur eða þrem-
ur árum. Hjá fyrirtækinu starfa alls
um 65.000 manns víða um heim.
Eins og kunnugt er hefur Hoff-
mann La Roche verið í samstarfi við
deCODE, móðurfélag Íslenskrar
erfðagreiningar.
Hoffmann
La Roche
fækkar fólki
SAMKOMULAG náðist í gær í
deilunni innan Evrópusambands-
ins um tillögu Þjóðverja þess efn-
is að í aðildarsamningum við Mið-
og Austur-Evrópuríki yrði kveðið
á um allt að sjö ára aðlögunar-
tíma frjálsra flutninga vinnuafls
milli þeirra og núverandi aðild-
arríkja ESB.
Þjóðverjar kröfðust slíks aðlög-
unartíma þar sem þeir óttast að
ódýrt vinnuafl streymi inn á
vinnumarkað þeirra frá Austur-
Evrópu. Spánverjar höfðu hins
vegar lýst því yfir að þeir gætu
ekki stutt tillöguna nema þeir
fengju tryggingu fyrir því að fjár-
styrkir ESB til fátækra héraða í
Suður-Evrópu yrðu ekki skertir
eftir að Mið- og Austur-Evrópu-
ríkin fengju aðild að Evrópusam-
bandinu. Spænskir embættis-
menn sögðu þó í gær að þeir
myndu styðja tillöguna og kváð-
ust hafa fengið vilyrði fyrir því að
hinar aðildarþjóðirnar tækju til
athugunar ósk þeirra um að
styrkir verði ekki skertir.
Ólíklegt að sam-
komulag náist um tíma-
áætlun stækkunar
Óttast hefur verið að deilan um
aðlögunartímann stofni áformun-
um um stækkun Evrópusam-
bandsins í hættu. Mið- og Austur-
Evrópuríki hafa lagst gegn tillögu
Þjóðverja og segja að aðlögunar-
tíminn sé of langur.
Göran Persson, forsætisráð-
herra Svíþjóðar, hóf í gær tíu
daga ferð til höfuðborga ESB-
ríkjanna til að undirbúa leiðtoga-
fund sambandsins í Gautaborg
15.–16. júní. Persson vonast til
þess að geta leyst ýmis deilumál
sem tengjast áformunum um
stækkun ESB, meðal annars deil-
una um aðlögunartímann.
Sænskir embættismenn sögðu
þó í gær að ólíklegt væri að
leiðtogar ESB-ríkjanna myndu
samþykkja skýra áætlun um
hvenær ríkin í Mið- og Austur-
Evrópu fengju aðild að sam-
bandinu.
Ungverjar, Slóvenar, Tékkar
og Pólverjar vonast til þess að fá
inngöngu í sambandið árið 2004.
Deila þýskra og spænskra stjórnvalda um stækkun Evrópusambandsins
Spánverjar féllust á tillögu
Þjóðverja um aðlögun
Berlín, Stokkhólmi. Reuters, AFP.