Morgunblaðið - 22.09.2001, Qupperneq 26
LISTIR
26 LAUGARDAGUR 22. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
NIXOS frá Strassborg í Frakklandi
opnar einkasýningu í Galleríi Geysi í
dag, laugardag, kl. 16. Tilgangur
myndverka Nixos er að draga fram
hið ljóðræna í umhverfinu og kallast
þannig á við hina sérstæku veru-
leikaskynjun sem ljóðið færir okkur,
eins og fyrirheit um hamingju.
Sýningin stendur til 13. október.
Nixos sýnir í
Galleríi Geysi
BLÁR Dodge
Ram, númer R
3111, með bát á
toppnum er hluti
verksins Mark-
mið V. Bíllinn
hefur verið stað-
settur hingað og þangað um bæinn
undanfarna daga og verður að hluta
sjósettur við fjöru við Sævarhöfða í
dag, laugardag, kl. 15.
Markmið er samvinnuverkefni
listamannanna Helga Hjaltalíns
Eyjólfssonar og Péturs Arnar Frið-
rikssonar. Þessi sýning er millistig
síðustu sýningar og þeirrar næstu,
en Markmið er nokkurskonar fram-
haldssaga.
Sýningin er hluti vettvangsverk-
efnisins „Listamaðurinn á horninu“
sem er röð sýninga á útilistaverkum
eftir ýmsa listamenn.
Slóð Markmiðs er: http://mem-
bers.netjunk.com/markmid
Markmið V
sjósett við
Sævarhöfða
Gallerí Sævars Karls
Sýning Arngunnar Ýrar verður
framlengd til 27. september. Í dag,
laugardag, verður opið frá kl. 10–16.
Sýning framlengd
Norræna húsið
Sýningunum Nærvera listar og
Forn tré í Eistlandi lýkur á morgun,
sunnudag.
Á sýningunum eru listrænt bók-
band, rafskartgripir, textílar og ljós-
myndir af hinum fornu og sögulegu
trjám í Eistlandi.
Sýningu lýkur
Á MENNINGARMINJADEGI
Evrópu, sem er í dag, kynnir borg-
arminjavörður friðlýstar minjar í
Laugarnesi. Í tilefni dagsins verður
ókeypis aðgangur á sýningu Helga
Gíslasonar myndhöggvara í Lista-
safni Sigurjóns Ólafssonar á Laug-
arnestanga milli klukkan 14 og 17.
Kaffistofa safnsins er opin á sama
tíma.
Menningar-
minjar í
Laugarnesi
EINKASÝNING Bjarna Sigurbjörnssonar stend-
ur yfir í Hafnarborg, menningar- og listastofnun
Hafnarfjarðar. Um er að ræða ný verk eftir
Bjarna sem unnin eru með blöndu af olíulitum og
vatni á plexígler, og ber sýningin yfirskriftina
„Ekkert“. Sýningunni lýkur um helgina.
Bjarni beitir óhefðbundnum aðferðum við
vinnslu málverka sinna, verkin eru unnin beint á
slétta plexiglerfleka, sem eru frá 85 x 60 til 205 x
810 fersentimetrar að stærð. Með því að blanda
saman vatni og olíulitum, þ.e. efnum sem hrinda
hvert öðru frá sér, kemur Bjarni af stað sköp-
unarferli sem vinnur sig að hluta til sjálft og að
hluta til með inngripi listamannsins. Bjarni segist
með þessari aðferð leitast við að aðstoða mál-
verkið við að vaxa og mynda net hreyfinga og
átaka á gegnsæjum fletinum.
Bjarni hefur þróað vinnuaðferð sína um nokk-
urt skeið, en upphaf þess ferlis hófst þegar hann
var við nám í Bandaríkjunum. „Þá var ég að mála
fígúratífar myndir sem einkenndust af mikilli
hreyfingu. Þá spurði einn kennari mig afhverju
ég málaði ekki frekar orkuna sem gerði þetta að
verkum fremur en fígúrurnar sjálfar. Þetta fékk
mig til að endurskoða það að reyna að líkja eftir
veruleikanum og fór ég þá að leita að nýjum að-
ferðum til að vinna. Eitt af því sem ég fór að velta
fyrir mér er hreinlega áferð efnisheimsins, en
reyndin er sú að grunneiningar heimsins, þ.e.
frumeindir, eru í raun ekkert annað en tómir
kjarnar sem einhver spenna hleðst í kringum.
Það er í þennan tómleika sem ég vísa í titli sýn-
ingarinnar, „Ekkert“, og í myndunum er ég ef til
vill að reyna að holdgera þetta tóm, og birta það í
nokkurs konar þverskurði,“ segir Bjarni.
Eitt skrefið í áttina að þessum tilraunum
Bjarna var að notast við plexígler í stað striga.
„Mér fannst striginn fela allt of mikið, og fannst
allt í einu eitthvað falskt við það að nota striga
sem strengdur er á blindramma, þetta minnti
mig á einhvers konar leikmynd.“ Með því að mála
þunn litalög á plexíglerið nær Bjarni fram því
gagnsæi sem hann leitar eftir, og undirstrikar
það með því snúa hinum málaða fleti myndanna
að veggnum á sýningunni. „Þetta er það næsta
sem ég kemst því að mála á ósýnilegan flöt og
með þessu móti er málverkið algerlega nakið. Ég
get ekkert falið eða leiðrétt, því það sést þá öðr-
um hvorum megin. Þannig endurvarpar tómur
og hlutlaus veggurinn birtu í gegum hálf-
gegnsæja myndina og verður hún því eins konar
skuggi á þetta gagnsæi. En þetta tóm er kannski
sá grunnkjarni efnisheimsins sem ég leitast við
að fanga,“ segir Bjarni.
Bjarni nam myndlist við San Francisco Art
Institute í Kaliforníu og hefur hann haldið átta
einkasýningar hér á landi, auk þess að hafa tek-
ið þátt í fjölmörgum samsýningum, m.a. í Banda-
ríkjunum og á Norðurlöndum. Hann var einn níu
listamanna sem valdir voru til samsýningar á ís-
lenskri samtímalist í Henie-Onstad-listasafninu í
Ósló nú í sumar. Sýningu Bjarna í Hafnarborg
lýkur á sunnudag en hún verður sett upp Nor-
ræna húsinu í Færeyjum á næsta ári.
Nakin málverk
sem ekkert fela
Bjarni Sigurbjörnsson, 2001. Án titils, 85x60.
MENNINGARHÁTÍÐ Eystra-
saltsríkjanna stendur þessa dagana
yfir í Norræna húsinu þar sem getur
að líta fjölbreytileg viðfangsefni land-
anna þriggja – raf, textíl og bókband.
Sýningarskráin er þá ekki síður fjöl-
breytileg, en í henni hefur jafnt verið
lögð áhersla á að fræða gesti um lönd-
in, siði þeirra og menningu og munina
sjálfa.
Rafmunir, framleiðsla þeirra og
það náttúrulega ferli sem umbreyting
trjákvoðunnar í raf felur í sér eru
þannig framlag Litháa til sýningar-
innar. Rafið á nefnilega sinn þátt í
menningu þjóðarinnar og er að finna
jafnt í fornminjum sem þjóðbúning-
um landsmanna. Vinsældir þess hafa
þá farið vaxandi á ný undanfarin ár og
er sérstakt rafsafn til að mynda að
finna í borginni Vilnius.
Stórum glerskápum með rafhnull-
unga, perlur og skart hefur því verið
komið fyrir í Norræna húsinu og sýna
munirnir í glerskápunum rafið á hin-
um ýmsu vinnslustigum og í sínum
fjölbreytilegu litbrigðum. Matt,
hrjúft og óunnið raf og tærar og slíp-
aðar rafperlur, sem sumar hverjar
hafa auk þess verið skornar út í ýmiss
konar skartgripi, veita skemmtilega
breidd og upplýsingaspjöld á veggj-
um sýningarsalarins eru þá vel til
þess fallin að fræða gesti frekar. Að
ósekju hefði text-
inn þó mátt vera
ítarlegri, þannig
að unnt hefði ver-
ið að fræðast bet-
ur um munina
sjálfa, jafnt
skartgripi sem
óslípað rafið.
Skartgripirnir,
sem sýna
skemmtilega
breidd hefðbund-
innar og óhefð-
bundinnar hönn-
unar, eru til að
mynda ekki eign-
aðir neinum,
heldur hönnuð-
irnir aðeins nefndir á nafn í mynd-
lausri sýningarskránni sem óneitan-
lega dregur nokkuð úr vægi annars
áhugaverðrar samsetningar.
Listrænt bókband er þá framlag
Eista til sýningarinnar, en það hefur
undanfarið gengið í endurnýjun líf-
daga í landinu og tekið miklum
stakkaskiptum á undanförnum árum.
Aðferðirnar sem sýndar eru í Nor-
ræna húsinu eru líka mjög svo fjöl-
breytilegar – allt frá hinum sígilda
franska stíl leðurbókbandsins til aust-
urlenskra hefða á borð við japans-
pappír. Mikil fjölbreytni einkennir
auk þess efnisval margra handverks-
mannanna – japanspappír, grænmet-
islitir, leður, málmur og jafnvel gervi-
hár gera kápur
bókanna að sjálf-
stæðum lista-
verkum.
Bókarkápan
verður til að
mynda að eins
konar skúlptúr
hjá Kristel Õun-
apuu sem mótar
upphleyptar
hendur á forsíðu
Kui üldse olla eft-
ir Kareva J. Kapl-
inski og eins kon-
ar lágmynd
mótast á kili og
kápu bókanna
Armuaeg eftir D.
Kareva og Kui üldse olla eftir Kapl-
inski, sem Silvi Kalda hefur bundið
saman í hvítt leður með málmskreyt-
ingu og klippimyndum á kili. Bæk-
urnar tala þannig sínu eigin máli, og
þótt vissulega hefði verið akkur í
texta á veggjum sýningarsalarins er
útskýrði vægi bókbandsins í eist-
neskri menningu breytir það því ekki
að hér er um bæði vandað og fjöl-
breytilegt handverk að ræða.
Líkt og áður sagði er óneitanlega
fjölbreytilegt yfirbragð á þessari
menningarhátíð Eystrasaltslandanna
og eru textílverk Letta enginn und-
antekning þar á. Verkin í Norræna
húsinu eru hluti sýningarinnar Ríga
800 – Þræðir nútímans, en um er að
ræða eins konar textílskúlptúra sem
byggja á fjölbreytilegu efnisvali lista-
mannanna.
Petens Sidae notar til að mynda
lamineruð snákaskinn, sem komið er
fyrir í bogadreginni, glærri plastplötu
er nær að kalla fram í hugann hlykkj-
óttar hreyfingar snáksins. Skýja-
myndir Barbara Ãbele byggjast þá á
samvinnu efnis, rýmis og skugga, en í
verkinu Kvöldský ná rauðir og bláir
efnisfletir að mynda roðagyllt ský
kvöldsólarinnar. Það er þó Stysta
nóttin eftir Atis Lusis sem hefur hvað
sterkust sjónræn áhrif. Glitrandi
glerperlur á dökkbláum bómullar-
vefnaði mynda skemmtilega myndlík-
ingu í verki sem nær að vera bæði
áhrifamikið og sterkt í einfaldleik sín-
um.
Efri hæð Norræna hússins geymir
þá sýninguna Forn tré Eistlands og
telst hún fróðleg viðbót við menning-
arhátíðina. Ljósmyndir af frægum og
fornum trjám Eistlands, sem ljós-
myndarinn Hendrik Relve er höfund-
ur að, prýða veggina ásamt textum
með sögum trjánna. Má þannig sjá
Eikar-Lárusar eikina, sem eldguðinn
Laurits bjó í, og Rifrildiseikina er
ósátt hjónakorn áttu að dvelja í næt-
urlangt til að draga úr deilum sínum,
en þessar sögur eru bara tvö fjölda
annarra skemmtilegra dæma sem þar
er að finna.
Ljósmyndirnar nytu sín þó að
ósekju betur í stærri útgáfu og eins
geymir skemmtilegur og fræðandi
textinn fullmargar stafsetningar- og
málfarsvillur. Þetta breytir því þó
ekki að menningarhátíð Eystrasalts-
landanna er ágætis tilbreyting í sýn-
ingaflóru höfuðborgarinnar og fróð-
leg skemmtan um lönd og þjóð.
Þjóðlegur
fróðleikur
MYNDLIST
N o r r æ n a h ú s i ð
Menningarhátíð Eystrasaltsríkj-
anna á Norðurlöndum. Sýningin
stendur til 23. september og er opin
alla daga nema mánudaga frá kl.
12–17
NÆRVERA LISTAR
Anna Sigríður Einarsdótt ir
Stysta nóttin eftir Atis Lusis.
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦
ÞAÐ kom nokkuð á óvart, þegar
lesin var efnisskrá tónleika Romans
Rudnytskys, að megintexti hennar
var á ensku og ekki eitt aukatekið orð
um verkin á efnisskránni, t.d. um
verk eftir Antin Rudnytsky, Tilbrigði
yfir einfalt stef, op. 38. Tónleikarnir
hófust á umritun Busoni á C-dúr
tokkötunni (BWV 564), eina þríþætta
orgelverki J.S. Bach, og var tokkatan
og hægi þátturinn mjög vel leikinn og
sömuleiðis fúgan framan af. Það brá
heldur til tíðinda, þegar annað verkið
á efnisskránni var leikið, sónata op
109, eftir meistara Beethoven. Þá
sannaðist það, að ekki er nóg að ráða
yfir mikilli hraðatækni því að tónlist
er ekki síður skáldskapur og op. 109
er eins konar svar Beethovens við op.
106, Hammerklavier-sónötunni, og á
sama hátt og í Tunglskinssónötunni
var yfirskrift höfundar „quasi una
fantasia“ enda er verkið ein samfelld
fantasía sem á köflum minnir á prel-
údíur frá barokktímanum. Þá er það
sérkennilegt að þetta er fyrsta sónata
Beethovens sem endar á Andante-
þætti. Því miður var fingralipur leik-
ur Rudnytskys ekki sannfærandi
túlkun á Beethoven og t.d. voru til-
brigði lokaþáttarins leikin eins og
fingraæfingar, yfirkeyrðar í hraða.
Næsta viðfangsefni var umritun
Bernsteins á hljómsveitarverkinu El
salón Mexico, eftir Copland, er hann
samdi á árunum 1933–36. Þetta verk
var mjög vel flutt og alls ekki
óskemmtilegt áheyrnar, þar má
heyra ýmis mexíkönsk stef en nafnið
er dregið af vinsælum dansi sem heit-
ir El salón Mexico.
Umritunin á Rhapsody in Blue, eft-
ir Gershwin, var ekki skemmtileg
áheyrnar, því samskipan hljómsveit-
ar og píanós hefur sérstaka merkingu
og án þessara andstæðna rennur
verkið út í eitt. Það var aftur á móti í
píanóverkinu Gaspar de la Nuit eftir
Raval þar sem Rudnytsky fór á kost-
um og var leikur hans á köflum magn-
aður og tæknilega glæsilega útfærð-
ur. Ballaðan, sú fjórða, í f-moll eftir
Chopin byrjaði vel en er á leið fór að
„sjóða á keipum“ og var allt of mikill
fyrirgangur í leik Rudnytskys undir
lokin. Tilbrigðin eftir Antin Rudn-
ytsky eru sérlega einföld, áheyrileg
en ekki meira og voru mjög vel flutt.
Það var sérkennilegt hjá píanist-
anum að spyrða saman umritun Liszt
á Valhallarstefinu eftir Wagner og
stefjaleik Moszkowskis á stefum úr
Carmen eftir Bizet en lokaverk tón-
leikanna var umritun Liszt á forleikn-
um að Vilhjálmi Tell eftir Rossini.
Sagt er að Franz Liszt hafi haft það
fyrir sið, eftir að hafa sótt óperusýn-
ingu eða hljómsveitartónleika, að
leika af fingum fram sína píanóútgáfu
af því sem fyrir eyru bar og undr-
uðust viðstaddir óskeikult minni hans
og óhemju leiktækni í viðmiklum út-
færslum, svo glæislegum að höfund-
um sjálfum þótti nóg um. Fræðimenn
eru ekki sammála um listrænt gildi
slíkra umritana og varla að þær séu
meira virði en skemmtilegur tækni-
leikur, þegar best lætur, frekar en að
vera merkileg heimild um píanósnill-
inginn Franz Liszt. Forleikurinn var
glæsilega fluttur og mörg píanó-
tæknileg atriði frábærlega útfærð.
Roman Rudnytsky er mikill tækni-
leikari en þó með þeim annmörkum,
að ofgera og oftast undir lok verk-
anna, þannig að hraðinn bar þá verk-
in ofurliði. Svona ofurhraði er án und-
antekninga til þess eins að tónræn
framvinda verkanna týnist í flaust-
urslegum hraðanum. Hraði er einn
þáttur í spennumögnun tónverka en
má samt aldrei yfirgnæfa verkið. Það
sem var athyglisvert við leik Rudn-
ytskys var frábærlega vel útfærð
pedalnotkun hans, sem er mikilvægt
atriði í mótun tónhendinga, en of-
notkun pedals getur þurkað út allar
„fraseringar“, sléttað tónmálið út í
eina flatneskju. Roman Rudnytsky er
teknískur píanóleikari sem lætur vel
að leika svonefnd „píanistaverk“ þar
sem skáldað er aðeins í tæknina
tækninnar vegna en á samt til að
leika fallega rómantískar tónhend-
ingar eins og í upphafi ballöðunnar
eftir Chopin.
Tæknin tækninnar vegna
Jón Ásgeirsson
TÓNLIST
S a l u r i n n
Roman Rudnytsky lék
verk eftir Beethoven, Ravel,
Chopin, Rudnytsky og
Moszkowski og umritanir eftir
Busoni, Bernstein og Liszt. Þriðju-
dagurinn 18. september 2001.
PÍANÓTÓNLEIKAR