Morgunblaðið - 05.12.2001, Qupperneq 53
FÓLK Í FRÉTTUM
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. DESEMBER 2001 53
„HVAÐ er eiginlega að gerast
þarna,“ heyrist loðinni og spyrjandi
röddu á hinum enda línunnar.
– „Nú, þú ert búinn að eiga eina
mest seldu plötu síðustu missera og
sast meðal annars á toppnum um
nokkurra vikna skeið.“
„Það er bara svona! Hvað kemur
eiginlega til? – Af hverju núna?“
– „Þetta er eiginlega búið að liggja
í loftinu allt árið. Platan búin að
krauma undir niðri, hótandi því að
gjósa allt árið, hefur spurst vel út og
fengið jákvæða umfjöllun. Síðan
þegar lagið „Sail Away“ fór í spilum
og myndbandið birtist ítrekað á
skjánum var það eins og við mann-
inn mælt, þriggja ára plata komin á
toppinn sem ný væri.“
Heppni Íra
Íslendingar eru svo sem ekkert
sér á báti hvað þetta varðar. Menn
hafa yfirhöfuð verið alveg ein-
staklega seinir að átta sig á þessum
jarðbundna þrítuga söngvara sem
færa má rök fyrir að sé orðinn ein-
hver sá allra vinsælasti og virtasti á
Bretlandseyjum og jafnvel víðar.
Gray stendur á þrítugu, fæddist í
Manchester í Englandi en ólst upp í
Wales. Hann hafði staðið í ströngu
við að ná til eyrna manna í tæpan
áratug áður en það tókst og það á
fremur sérstakan máta. Þriðja eig-
inlega breiðskífan, White Ladder,
var þá við það að fara sömu leið og
hinar tvær, framhjá öllum og beint á
útsölur. En á ögurstundu komu Írar
ríðandi á hvítum hesti og björguðu
ferlinum. Eftir þrotlausa spila-
mennsku um Bretlandseyjar árið
1999 til að fylgja plötunni eftir
kveikti írska þjóðin skyndilega á
perunni og féll, ef svo má segja,
kylliflöt fyrir þessum geðþekka
tónlistarmanni og reif plötuna út í
metupplagi. Það þarf svo sem ekkert
að koma á óvart að það hafi verið Ír-
ar af öllum sem uppgötvuðu hann
því hann hefur aldrei farið dult með
aðdáun sína á og áhrifamátt sjálfrar
goðsagnar írskrar dægurtónlistar,
Van Morrison.
Ofurvinsældir þessa velska
söngvaskálds á Írlandi þóttu um síð-
ir fréttnæmar á heimaslóðunum og
fyrr en varði var hann farinn að dilla
hausnum á sinn sérstæða hátt í Top
of the Pops og syngja „Babylon“ á
meðan allir kepptust við að telja öðr-
um trú um að þeir væru löngu búnir
að uppgötva hann. Síðan hafa selst
meira en tvær milljónir eintaka af
White Ladder og Gray er orðinn
kyndilberi nýrrar bylgju tónlistar-
manna sem flokka mætti sem
söngvaskáld – einlægir einherjar
sem óhræddir eru við að sýna tilfinn-
ingar sínar.
„Það hefur verið ótrúleg lífs-
reynsla að verða vitni að þessum
hægt vaxandi áhuga. Ég hef marg-
sinnis gert ráð fyrir að toppnum hafi
verið náð og halla taki undan fæti en
þá fæ ég fréttir af því að hinir og
þessir hafi tekið við sér – nú síðast
Íslendingar og nú er ég að spjalla við
íslenskan blaðamann um það. Þetta
endar með því að ég neyðist til að
taka plötuna úr umferð svo að ég
geti snúið mér að einhverju öðru.“
– Ertu farinn að vinna að nýju
efni?
„Ég er a.m.k. að reyna að byrja á
næstu plötu – en það gengur hálf-
brösulega. Ég hef fyrst núna verið
að fá tækifæri til þess að setjast nið-
ur og semja nýtt efni en það er allt á
byrjunarstiginu og ekki nærri því
tilbúið til útgáfu. Sem betur fer er ég
ekki undir hælnum á neinu útgáfu-
fyrirtæki, er minn eigin herra. War-
ner hefur einfaldlega forkaupsrétt á
efni frá mér þegar það er í boði.“
– Og hvenær má vænta næstu
plötu?
„Seint á næsta ári.“
– Það hlýtur að vera sérstök til-
finning fyrir mann sem staðið hefur
svo lengi í stappi við að ná til eyrna
fólks að fá fregnir af að vera kominn
á toppinn í Íslandi, landi sem hefur
sjaldan eða aldrei komið upp í hug-
ann.
„Ísland hefur margsinnis komið
upp í hugann, get ég sagt þér. Mig
hefur lengi dreymt um að heim-
sækja það, upplifa þetta stórbrotna
landslag, norðurljósin og heitu
hverina. Landið er því alls ekki svo
fjarri huga mínum og ég fagna því
mjög að tónlist mín höfði til íbúa
þess.“
– Er ekki pirrandi að hafa ekki
eins mikinn tíma aflögu og forðum til
að semja tónlist?
„Jú, svolítið. Ég er að reyna að
venja mig á að slökkva á far-
símanum.“
Byrði Dylans
– Hvernig lagasmiður ertu – koma
lögin af sjálfu sér eða þarftu að setj-
ast niður og ákveða að nú ætlirðu að
semja eins og eitt stykki?
„Það er mjög misjafnt. Sum
þeirra koma allt í einu og fullsköpuð.
Það eru lög að mínu skapi. Oftast
þarf ég að setjast niður með gítar
eða við píanó og einbeita mér að því
að vinna úr einhverri hugmynd sem
ég fæ.“
– Lætur samviskusamur textahöf-
undur eins þú fara í taugarnar á sér
þegar hlustendur gefa textunum
ekki nægilegan gaum?
„Alls ekki, því tónlistin ein og sér
er magnað fyrirbæri. Þegar ég
hlusta á tónlist þá gef ég textunum
ekki gaum fyrr en tónlistin hefur
unnið mig á sitt band. Fyrir utan það
að mér finnst textasmíðar mínar
ekkert svo merkilegar.“
– Joan Baez sagði snemma á ferli
þínum að þú værir besti textahöf-
undur sem komið hefur fram síðan
Bob Dylan.
„Það var hræðilegt fyrir ungan
textahöfund að fá slíka byrði á herð-
arnar.“
– Hefurðu ákveðið með hverjum
þú ætlar að vinna næstu plötu?
„Það er kannski fullsnemmt að
fara að tala um það en ég geri samt
ráð fyrir að vinna hana með sama
fólki og small svo vel saman við gerð
White Ladder.“
– Ætlarðu ekki að kalla til ein-
hvern eftirsóttan upptökustjóra?
„Það stórefa ég. Hinsvegar hef ég
mikinn áhuga á því að vinna hluta
tónlistarinnar með einhverjum öðr-
um listamönnum. Ég er bara svo
feiminn að ég held ég nái ekki að
herða mig upp í að biðja neinn um að
vinna með mér. Mig langar til að
vinna með einhverjum á borð við
Jonny Greenwood úr Radiohead og
Mark Linkous, forsprakka Sparkle-
horse, sem hefur fádæma gott eyra
fyrir tónlist. Það væri samt magnað
að geta notið hæfileika slíkra
manna.“
– Ertu hrifinn af daðri rokksins
við sveitatónlistina, sem nokkuð hef-
ur borið á undanfarið?
„Ég veit það ekki. Ég kann a.m.k.
að meta Sparklehorse og Gillian
Welsh er einhver skemmtilegasti
tónlistarmaður sem ég hef heyrt í
lengi. Samt hef ég ekkert verið að
eltast við þessa senu. Hlusta á hvað
sem er, sveitir á borð við Flaming
Lips, Mercury Rev og Eels.“
– Þetta eru allt Kanar – er ekkert
áhyggjuefni að megingróskan og ný-
breytnin virðist núorðið vera í
Bandaríkjunum fremur en Bret-
landi?
„Þetta hefur alltaf sveiflast til. Nú
er mikil gróska í bandarísku tónlist-
arlífi og fullt af sveitum þaðan að
heilla heimsbyggðina. Sannaðu til,
það mun ekki líða á löngu fyrr en allt
snýst í kringum einhverja senu sem
á rætur sínar í Bretlandi.“
Of þolinmóður
– Eftir að White Ladder hafði
slegið í gegn tókstu þig til og tókst
upp eldri lög sem orðið höfðu út-
undan og gafst út undir nafninu Lost
Songs. Hvers vegna?
„Tilgangurinn var eiginlega að
bjarga þessum lögum frá glötun.
Það var ljóst að þau myndu engan
veginn eiga heima með því efni sem
ég hafði samið síðan og því taldi ég
rétt að gefa þau út í réttu samhengi
og í þeirri berstrípuðu útsetningu
sem ég hafði gert ráð fyrir þegar ég
samdi þau.“
– Krefst það ekki mikillar þolin-
mæði að þurfa að bíða svo lengi eftir
að ná athygli fólks?
„Jú, vissulega. En ég er eiginlega
kominn á þá niðurstöðu að maður
geti verið of þolinmóður.“
– Hvað heldurðu að hafi gert það
að verkum að þú náðir loksins til
fólks?
„Þegar ég viðurkenndi fyrir sjálf-
um mér að ég hafði ekki hugmynd
um hvað ég var að gera. Áttaði mig á
því að ég varð að gefa mig allan í
tónlistina.“
– Varstu kannksi að reyna of mik-
ið að falla öðrum í geð?
„Já og ég vissi hreinlega ekki
nægilega mikið um tónlist – hversu
nauðsynlegt það væri að hleypa öðr-
um að mér, hlusta á þá og læra.“
– Finnst þér þú hafa þroskast
mjög sem tónlistarmaður þegar þú
hlustar á eldri plöturnar?
„Já, mér finnst satt að segja mjög
óþægilegt að hlusta á þær. Sumt er
mjög gott en allt of oft hafði ég bara
ekki glóru hvað ég var að gera.“
Leikari
góður
– Er erfiðara að semja tónlist nú
þegar eftirvæntingin er orðin meiri?
„Já, að sumu leyti. Það er und-
arleg tilfinning að búa til melódíu
sem líklegt er að annar hver maður
muni raula fyrir munni sér.“
– Saknarðu þess að geta samið
tónlist án pressunnar – geta hugsað
með þér: „Ég geri bara það sem ég
vil því það hefur enginn áhuga hvort
eð er“?
„Ég man eftir þessari tilfinningu
og ég sakna hennar ekki baun, get
ég sagt þér.“
– Varstu í alvöru drukkinn í Sail
Away myndbandinu eða ertu svona
góður leikari?
„Ég var búinn að fá mér nokkrar
ölkollur en ætli ég sé ekki bara
svona góður leikari,“ segir söngv-
arinn að lokum og hlær.
Söngvarinn
sem næstum
týndist
Hinn þolinmóði David Gray er þessa dagana að semja lög fyrir nýja
plötu sem vænta má seint á næsta ári.
David Gray á eina af mest seldu plötum landsins síðustu misseri
PLÖTUR DAVID GRAY
Century Ends (1992)
Flesh (1994)
Sell, Sell, Sell (1996)
White Ladder (1998)
Lost Songs 1995–98 (2000)
The E.P. ’92–’94 (2001)
skarpi@mbl.is
Ferill hans er einn sá undarlegasti sem um getur
síðastliðin ár. Í hartnær áratug reyndi hann árang-
urslaust að ná eyrum fólks en um það bil sem hann
var að týnast fundu Írar hann og kynntu fyrir
heimsbyggðinni. Skarphéðinn Guðmundsson
ræddi við velska söngvarann David Gray um ný-
fengna frægð, vinsældir á Íslandi og þolinmæði.