Morgunblaðið - 30.04.2002, Side 43
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. APRÍL 2002 43
Sími 562 0200
Erfisdrykkjur
við Nýbýlaveg, Kópavogi
kostir sem áttu sér rætur í endalaus-
um jarðvegi ástar, umhyggju og góð-
vildar. Að Unnur Sara skuli aðeins
hafa fengið að njóta leiðsagnar hans
svo stutt er sárara en orð fá lýst. Eina
huggunin á þessari stundu er að sjá
að hún sjálf er ávöxtur alls þess góða
sem Kristján Eldjárn var.
Ekkert okkar getur sett sig í spor
Kristjáns Eldjárns á þrautagöngu
hans í veikindunum. Að það skuli vera
manns eigin frumur og gleymska
þeirra á því hvernig skuli lifa og
hvernig skuli deyja er þversögn sem
er jafn sönn um lífið og hún er óskilj-
anleg og sár. Við upplifðum veikindi
hans auðvitað á misjafnan hátt. Þau
okkar sem búa erlendis og þurftu að
fylgjast með úr fjarlægð fundu fyrir
vanmætti til þess að gera nokkuð, þau
okkar sem búa á Íslandi fundu fyrir
vanmættinum til þess að gera nóg.
Ekki það að Kristján Eldjárn hafi lát-
ið nokkurn mann finna að hann þyrfti
að gera meira. Það æðruleysi og sú
skynsemi sem Kristján Eldjárn sýndi
gegnum veikindin mun búa í hugum
allra sem fylgdust með þeim. Það er
átakanlegt að horfa á svo ungt fólk
sem Kristján Eldjárn og Eyrúnu
þurfa að kljást við jafn erfitt hlut-
skipti og veikindi hans voru. Sá styrk-
ur sem þarf kemur tæplega þrítugu
fólki hvergi annars staðar frá en
þeirra eigin ást hvors til annars.
Við samhryggjumst Eyrúnu, hans
elskulegu eiginkonu, Unni Söru, litlu
dóttur hans, foreldrum, Unni og Þór-
arni, og bræðrunum, Úlfi, Ara og
Halldóri, og öðrum aðstandendum.
Sú hugsun, að rödd Kristjáns Eld-
járns verði aldrei aftur til þess að
hlátur okkar láti tár renna niður kinn-
arnar, lætur tárin renna í stríðari
straumum en nokkru sinni fyrr. En
þótt röddin fylgi okkur ekki framar
munu minningarnar um hana aldrei
fölna. Við eigum öll uppáhaldsminn-
ingu af einu gítargripi, einni setningu
eða jafnvel einni vísu sem Kristján
Eldjárn skildi eftir. Það eina sem sef-
ar söknuð okkar er að hann á sinni
alltof, alltof stuttu ævi skildi eftir
meiri birtu og gleði fyrir samferða-
fólk sitt en hægt er að ætlast til af
einu lífshlaupi. Það er erfitt að trúa
því og fallast á að hann sé dáinn.
Söknuðurinn sem þegar hefur hreiðr-
að um sig í brjóstum okkar er sár,
óbærilega sár. Það að fá að ekki að
upplifa það sem við áttum eftir að
upplifa saman verður aldrei bætt.
Hvíldu í friði, elskulegi vinur okk-
ar.
Atli Rafn, Bjarni Páll, Einar
Þór, Finnur, Henry, Magnús
Jón, Valdimar og konur.
Kristján Eldjárn vinur minn sagði
einu sinni að það væri betra að hafa
skafís en skafa hafís – í merkingunni
að betra væri að njóta þess sem mað-
ur hefði og væri gott en að ráðast í
erfið og óskemmtileg verkefni. En því
miður er ekki alltaf hægt að velja sér
verkefni – stundum setur lífið mann í
það að skafa hafís, tilgangurinn óljós,
verkefnið óvinnandi. Við Kristján
kynntumst í ræðuliði Menntaskólans
við Hamrahlíð, sátum í stórum vina-
hópi í Norðurkjallara og spiluðum
Tribba, sungum og lékum á hinum
ýmsustu skemmtunum eða bara í
skemmtilegum partíum, og hlógum.
Stundum allan daginn og stundum
var ég enn að hlæja þegar ég kom
heim á kvöldin að einhverju sem
Kristján hafði látið flakka. Kristján
var skemmtilegur, einn skemmtileg-
asti maður sem ég hef nokkurntíma
kynnst. Hann hafði húmor fyrir öllu
og gat gert allt fyndið og skemmti-
legt.
En það sem kannski er mest um
vert í fari Kristjáns fyrir þá sem voru
svo lánsamir að teljast vinir hans var
einmitt það hvað hann var góður vin-
ur. Ef Kristján Eldjárn taldi mann til
vina sinna þá var það óafturkræft,
sama hve langur tími leið og hverju
gekk. Við spiluðum síðast saman í
nóvember árið 2000 á Súfistanum á
Laugavegi, hann á gítar og ég á radd-
bönd, lög af Hrekkjusvínaplötunni,
eins og við gerðum hundrað sinnum í
MH. Eins og það hefði verið daginn
áður. Á okkar aldri telur maður sig
alltaf hafa nógan tíma, tíma til að
finna aftur menntaskólavinina sína,
rifja upp hvað var gaman og stundum
erfitt og endurvekja stemminguna
með þeim sem áttu hana með manni.
Ég var búin að hlakka til að hitta
Kristján í sumar, heimsækja hann,
Eyrúnu og Unni Söru og segja gam-
ansögur frá Afríku. En þá frétti ég að
sjúkdómurinn hefði tekið sig upp aft-
ur og enn eru engin ráð til við þeim
forna fjanda.
Einhverntíma kemur sá dagur að
við hin getum aftur farið að hafa okk-
ar skafís – getum notið þess að muna
eftir Kristjáni Eldjárn, brosað út í
annað, hlegið jafnvel upphátt og hlýn-
að um hjartaræturnar af stolti yfir því
að hafa fengið að þekkja hann. Á með-
an sköfum við hafís og reynum að
sætta okkur við það sem við fáum
ekki breytt. Eyrúnu, Unni Söru, for-
eldrum Kristjáns og bræðrum sendi
ég mínar innilegustu samúðarkveðj-
ur.
Brynhildur Björnsdóttir.
Þegar ég frétti að Kristján væri
farinn rúlluðu minningar í gegn eins
og slidesmyndasýning. Kannski ekki
„merkilegustu“ minningarnar, en það
grípur mig góð tilfinning þegar ég
hugsa um þessi augnablik.
Ég var svo lánsamur að vera sam-
ferða Kristjáni til rúmlega tvítugs.
Við gengum í sömu skóla, Vesturbæj-
arskóla, Hagaskóla og svo Mennta-
skólann við Hamrahlíð. Kjallarinn
heima hjá mér á Sólvallagötu og her-
bergið hans á Ásvallagötu fengu allt í
einu allt annað vægi: Ingi Þór frændi
og hann voru að gera mig brjálaðan af
öllu þessu þungarokki. Kiss, Iron
Maiden og Judas Priest voru málið.
Eldjárn, eins og við kölluðum hann,
gat spilað „Two Minutes To Mid-
night“ á rafmagnsgítarinn þegar
hann var 10 ára. Við tókum þessum
hæfileikum hans sem sjálfsögðum
hlut. Eldjárn var snillingur á ein-
hverri annarri bylgjulengd en við hin,
og það var hið besta mál. Við nutum
bara góðs af því. Ég man eftir Sinclair
Spectrum 48K leikjatölvuæðinu sem
greip okkur, við vorum stöðugt að
kópera leiki á kassettur. Eldjárn lék
meira að segja í fyrstu stuttmyndinni
sem ég gerði á Super 8mm kvik-
myndavélina mína: „Flótti Fanganna
Tveggja“. Eina ástæðan fyrir því að
þetta smávaxna barn með englakrull-
urnar fékk að leika strokufanga var
að hann var nógu léttur til skutla yfir
öxl mótleikarans og bera næstum alla
myndina. Ég man eftir skólablöðum,
leikritum og uppákomum á skóla-
skemmtunum, ræðukeppnum sem
Eldjárn vann nær alltaf, og síðast en
ekki síst uppfærslu Leikfélags MH á
„Rocky Horror“. Þar var Eldjárn
mættur sem fullskapaður gítarleik-
ari, sem var auðséð búinn að ná rokk-
inu fyrir löngu og tilbúinn til að leita á
önnur mið. Það borgar sig ekki að
deila við listagyðjuna, og Eldjárn
hlýddi kalli hennar.
Það sem einkenndi Kristján Eld-
járn fyrst og fremst var þessi stór-
kostlegi húmor sem hann hafði fyrir
lífinu. Húmorinn var myndrænn, tví-
ræður, gáfulegur, jafnvel kvikindis-
legur. Hann er ábyrgur fyrir mestu
skaðræðis hlátursköstum sem ég hef
tekið um ævina, og því verð ég að láta
stutta sögu fylgja hér í lok þessarar
slidesmyndasýningar: Við erum
staddir í sjoppu á breiktímabilinu.
Inn labbar ung stúlka, sem reynist
vera svona líka hrikalega smámælt
þegar hún tekur til máls. Hún segir:
„Ég ætla að fá sþykurlausþa Sþani-
tasþ Appelsþín í dósþ.“ (Sykurlausa
Sanitas appelsín í dós). Þá gellur í
Kristjáni: „Í þínum sporum myndi ég
nú bara biðja um Fanta.“
Ef þú ert að hlæja núna, þá ertu
örugglega að gera nákvæmlega það
sem Kristján Eldjárn vill að þú haldir
áfram að gera. Hláturinn og húmor-
inn var órjúfanlegur partur af per-
sónu hans, og þannig minnist ég
þessa góða drengs.
Elsku Unnur, Þórarinn, Úlfur, Ari,
Halldór, Eyrún og Unnur Sara: Ég
votta ykkur mína innilegustu samúð
og sendi ykkur allar mínar hlýjustu
hugsanir. Elsku Eldjárn, ég syrgi þig
og mun heiðra minningu þína.
Páll Óskar Hjálmtýsson.
Ein magnaðasta tónlistarlega upp-
lifun sem ég hef orðið fyrir var þegar
ég sá hljómsveitina Fyrirbæri á
skátaballi í Hagaskóla. Ég var þrett-
án ára og búinn að vera í hefðbundnu
tónlistarnámi en þetta voru fyrstu
tónleikar með „alvöru“ hljómsveit
sem ég sá með berum augum. Í
hljómsveitinni var ljóshærði gítar-
leikarinn með krullurnar augljóslega
fremstur meðal jafningja en þó
yngstur. Ég kannaðist við hann úr
Tónmenntaskólanum og einhver
hafði sagt mér að hann væri frændi
minn en þarna birtist hann í nýju ljósi
með bláan og hvítan rafmagnsgítar á
maganum. Hann var þá þegar orðinn
sjóaður rafgítarleikari og það kvisað-
ist út að hann hefði jafnvel spilað inn á
plötu! Eftir þetta kvöld var Eldjárn
hetja í mínum huga, eða hvernig er
annars hægt að vera meiri hetja en
þrettán ára gítarstjarna á níunda ára-
tugnum? Það var þó ekki fyrr en
tveimur árum síðar sem ég mannaði
mig upp í að spyrja hann ofur kæru-
leysislega hvort við ættum kannski að
spila eitthvað saman. Ég var þá nýbú-
inn að safna mér fyrir saxófóni og
vildi spila í „alvöru“ hljómsveit. Eld-
járn hugsaði sig dáldið um og bauð
mér, með semingi, að spila með sveit
sem hann var að setja saman fyrir
árshátíð skólans, enda hafði söngvar-
inn forfallast. Þarna var ísinn brotinn
og eftir þetta spiluðum við oft saman í
ýmiskonar hljómsveitum. Eldjárn
var jafnvígur á rafgítar og klassískan
gítar og eftir að hafa útskrifast í
djassfræðum á þann fyrrnefnda frá
Tónlistarskóla FÍH hélt hann til
framhaldsnáms í Finnlandi á þann
klassíska. Eftir að námi lauk gerðist
Eldjárn atvinnutónlistarmaður, lék á
plötum, í leikhúsi og fékkst við
kennslu. Hann gerði einnig útvarps-
þætti um tónlist og var ötull við að
kynna gítarinn fyrir landsmönnum,
m.a. í tengslum við verkefnið „Tónlist
fyrir alla“.
Það var þó ekki bara í tónlistinni
sem Eldjárn var vel að sér, heldur
dáðist ég sérstaklega að því hve gott
vald hann hafði á íslensku og átti auð-
velt með að skrifa. Húmorinn hár-
beittur og oft kaldhæðinn nýttist hon-
um vel til að yrkja tækifærisvísur um
náungann og fannst honum orðið
pirrandi að eina orðið sem hann gat
fundið sem rímaði við nafnið mitt var
„snjóél“. Hann hafði oft sterkar skoð-
anir á mönnum og málefnum og var
ekki banginn við að segja meiningu
sína ef svo bar undir. Það er sárt að
sjá á eftir Eldjárni svona langt fyrir
aldur fram en minningin um góðan og
hæfileikaríkan dreng lifir. Eyrúnu,
Unni Söru, Þórarni, Unni, Úlfi, Ara
og Halldóri sendi ég innilegar sam-
úðarkveðjur.
Jóel Pálsson.
Það er undarlegt að það tvennt
sem kemur hvað mest á óvart í þess-
um heimi er það sem markar skil þess
sem við köllum lífið; fæðing og dauði.
Þegar nýtt líf kemur í heiminn verð-
um við yfir okkur undrandi, þrátt fyr-
ir mikinn undirbúning og stórar
væntingar. En þegar líf tekur enda,
verðum við harmi slegin, finnum til
bjargleysis og fyllumst djúpum sökn-
uði og eftirsjá, jafnvel þótt aðdrag-
andinn hafi verið langur og við þykj-
umst hafa undirbúið okkur vel.
Það er svo yfirþyrmilega sorglegt
að Kristján Eldjárn sé dáinn. Hjört-
un verða döpur og útlimir missa mátt.
Skyndilega skilur enginn neitt í
neinu. Hvað gerðist? Voru vonir okk-
ar síðastliðið eitt og hálft ár bara út í
buskann? Nei, líklega ekki. Við von-
uðum, vegna þess að okkur þótti vænt
um hann. Og okkur þótti vænt um
hann, vegna þess að hann var Krist-
ján Eldjárn; hjartahreinn, hæfileika-
ríkur, húmoristi og hetja. Þessar til-
finningar hverfa ekki, þótt hann sé
farinn í aðra heima. Minningin kveik-
ir hlýju í sorginni.
Okkur, sem horfum á eftir honum
með söknuði, verður að nægja sú
góða tilhugsun að hafa notið þeirra
forréttinda að fá að kynnast Kristjáni
Eldjárn um stund. Eins og við undr-
umst að hann sé farinn, undrumst við
líka að slíkur maður hafi verið til.
Fjölskylda mín vottar aðstandend-
um Kristjáns; ekkju og dóttur,
dýpstu samúð í þeirri sorg sem þau
þurfa að takast á við vegna fráfalls
ástvinar.
Bergur Þór Ingólfsson.
Fleiri minningargreinar
um Kristján Eldjárn bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.
✝ Sigrún DagmarSigurbergsdóttir
fæddist í Reykjavík
1. maí 1926. Hún
lést á líknardeild
Landspítalans í
Kópavogi þriðju-
daginn 23. apríl síð-
astliðinn. Foreldrar
hennar voru Sigur-
berg Einarsson mál-
ari, f. 9.10. 1897, d.
16.1. 1974, og Guð-
rún M. Gamalíels-
dóttir húsmóðir, f.
15.9. 1898, d. 15.2.
1985. Systkini Sig-
rúnar voru þrjú: Ólína Sóley, f.
15.11. 1919, d. 3.8. 1976, Skarp-
héðinn, f. 27.4. 1922, d. 3.2.
2000, og Sveinn, f. 27.9. 1934, d.
30.11. 1947.
Börn Sigrúnar
eru þrjú: 1) Sveinn,
f. 7.1. 1946, kvænt-
ur Sigurbjörgu
Guðjónsdóttur og
eiga þau þrjú börn,
Brynjar Örn, Evu
Björk og Önnu
Rún. 2) Jóhanna, f.
30.7. 1951, gift Ray
Ed Johnston og
eiga þau þrjú börn,
Þóru Björk, Angelu
Dagmar og Krist-
ofor Ray. 3) Guð-
rún, f. 2.4. 1968,
gift Aroni Árnasyni
og eiga þau tvo syni, Bjarka
Frey og Jón Orra.
Útför Sigrúnar fer fram frá
Laugarneskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.30.
Nú er elsku amma okkar dáin
eftir langa og erfiða baráttu við ill-
vígan sjúkdóm. Á stundu sem þess-
ari koma margar minningar upp í
hugann en erfitt er að koma þeim
frá sér. Amma var oft að passa
okkur þegar við vorum lítil,
mamma og pabbi voru þá að vinna
úti á landi og hún sá um heimilið.
Þá var oft fjör og mikið brallað
saman.
Ógleymanlegar voru stundirnar
á jólunum á Sundlaugaveginum,
Ameríkuferðirnar, en þá fengum
við að fara með ömmu að heim-
sækja Hönnu frænku, og svo Nor-
egsferðin í fyrra. Þar naut hún sín
vel, enda í heimsókn hjá lang-
ömmubörnunum sem henni voru
svo kær.
Amma var búin að berjast við
krabbamein í rúmlega tíu ár. Allan
þennan tíma var hún jákvæð og
ákveðin í að sigrast á þessum ill-
víga sjúkdómi. Við erum viss um
það að þessari baráttu hefði lokið
fyrir löngu ef hún hefði ekki verið
svona jákvæð og sterk.
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn,
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði’ er frá.
Nú héðan lík skal hefja,
ei hér má lengur tefja
í dauðans dimmum val.
Úr inni harms og hryggða
til helgra ljóssins byggða
far vel í Guðs þíns gleðisal.
(Valdimar Briem.)
Við þökkum fyrir þær stundir
sem við áttum saman og kveðjum
þig með miklum söknuði í hjarta.
Blessuð sé minning þín.
Þín barnabörn
Brynjar, Eva og Anna Rún.
Þá muntu, sál mín, svara,
syngjandi fögrum tón:
lof sé mínum lausnara,
lamb Guðs á hæsta trón
sigur gaf sínum þjón;
um blessaðar himnahallir
honum segjum vér allir
heiður með sætum són.
(Hallgrímur Pétursson.)
Andlát Sigrúnar Sigurbergsdótt-
ur kom okkur vinum hennar og
vandamönnum ekki að óvörum.
Sigrún var búin að stríða við hinn
illvíga sjúkdóm krabbamein í ellefu
ár. Á þeim langa tíma hafði Sigrún
fengið að reyna allar þær þrautir
sem þessum sjúkdómi fylgja. En í
gegnum hverja þraut gekk Sigrún
æðrulaus og kvartaði aldrei. Sýndi
hún í þessari baráttu dugnað sinn
og þrautseigju.
Dugnaður, þrautseigja og létt
lund voru þeir eiginleikar sem ein-
kenndu hana, enda reyndi oft á
þessa eiginleika hennar, þegar á
móti blés í lífi hennar, en úr erf-
iðleikunum kom hún alltaf sterkari.
Enda kom það best í ljós í löngu og
erfiðu sjúkdómsstríði hennar.
Foreldrar hennar voru sæmdar-
hjón Sigurbergur Einarsson mál-
arameistari og Guðrún Gamalíels-
dóttir. Þau Sigurbergur og Guðrún
voru frumbyggjar í Laugarnes-
hverfinu og þar ólst Sigrún upp og
bjó svo lengst af ævi. Hún byrjaði
snemma að vinna fyrir sér, vann
ung í mjólkurbúð hverfisins.
Sigrún var trygglynd vinum sín-
um, enda var það gleðiefni okkar
vina hennar og vandamanna að
koma saman hjá henni 1. maí, á af-
mælisdegi hennar. Móðir mín og
móðir hennar voru sem systur,
samband þeirra var mjög innilegt,
enda var móðir mín til heimilis hjá
þeim frá unglingsárum og þar til
hún giftist. Hélst þó náið samband
milli heimilanna og var eins og um
eina stórfjölskyldu væri að ræða.
Sigrún og móðir mín voru ekki síð-
ur góðar vinkonur. Sýndi það sig
best hve innilega og vel hún hugs-
aði um móður mína er elli og veik-
indi sóttu hana heim.
Sigrún átti þrjú börn, þau Svein,
Jóhönnu og Guðrúnu, sem nú
syrgja sína góðu móður. Afkom-
endur hennar eru orðnir margir og
er það myndarlegur hópur. Jó-
hanna dóttir hennar er gift Banda-
ríkjamanni og hefur búið þar í
meira en þrjátíu ár. Var það Sig-
rúnu mikið gleðiefni að heimsækja
hana, en það gerði hún oft.
Sigrún var vinnusöm. Eftir að
húsmóðurhlutverki hennar lauk
vann hún á Dvalarheimili aldraðra
sjómanna. Var hún þar vel liðin og
eignaðist starfsfélaga að vinum.
Sigrún unni landinu mikið og
ferðaðist mikið um það, alin upp í
aðdáun á fegurð þess. Ótalin eru
þau ferðalög sem við fórum saman
með foreldrum hennar og mínum.
Var þá öllu tjaldað til, þótt bifreiða-
kosturinn væri rysjóttur, eins og
gerðist á eftirstríðsárunum.
Ég vil að lokum samhryggjast
systkinunum þrem og afkomendum
þeirra við fráfall Sigrúnar og bið
góðan Guð að blessa þau öll og vera
sálu Sigrúnar líknsamur.
Hörður Arinbjarnar.
SIGRÚN DAGMAR
SIGURBERGSDÓTTIR