Morgunblaðið - 07.07.2002, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 07.07.2002, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7. JÚLÍ 2002 23 Bækur. Þær hefur mig sífellt skort. Svo skrifaði skáldið Stephan G. Stephansson í Drög til ævisögu sem birt er í fjórða bindi Bréfa og ritgerða. Nú er á leiðinni veglegt tveggja binda verk um skáldið, ævisaga og það verða engin drög, heldur á að leysa úr skort- inum á bók um Klettafjallaskáldið. Viðar Hreins- son bókmenntafræðingur hefur frá árinu 1997 ver- ið að afla efnis og skrifa um ævi Stephans G. og verk. Fyrra bindið mun nefnast Landneminn mikli og kemur út hjá Bjarti í haust, en fyrirhugað er að síðara bindið komi út að ári, þegar 150 ár verða liðin frá fæðingu skáldsins. Viðar Hreinsson er vel kunnugur heimi Vestur- Íslendinga, en hann kenndi við háskólann í Winni- peg fyrir um áratug og síðan ritstýrði hann hinni veglegu útgáfu Íslendinga- sagnanna á ensku sem komu út árið 1997. Nú er Viðar ný- kominn úr ferð um þau svæði Bandaríkjanna þar sem Steph- an G. bjó og starfaði fyrst eftir að hann kom til Vesturheims. Á skrifstofu hans í Reykjavík- urakademíunni eru opin kort á borði, hverskyns handbækur og möppur með ljósritum liggja í stöflum; meira að segja bók með kartöfluuppskriftum frá Hall-fjölskyldunni í Norð- ur-Dakóta, en hún er komin af Jónasi Hall, besta og trygg- asta vini Stephans. „Ég fór til að krafsa í mold- ina þar sem Stephan var,“ seg- ir Viðar og sýnir á korti stað- ina þar sem hann bjó. „Ég fór reyndar öfugan hring, byrjaði í Norður-Dakóta, en þar var stórt íslenskt landnám. Þar sýndi Magnús Ólafsson mér allt sem merki- legt má teljast í sambandi við sögu Íslendinganna; það var gaman að upplifa. Ég kom þar sem bær Stephans stóð, þar er eins og smávegis dæld í jörð- ina við brekkurót. Ég rannsakaði þar skjalasöfn og skoðaði ýmsa pappíra. Með viðkomu hjá Bill Holm í Minneota, Minnesota, hélt ég síðan til Wis- consin, en þangað kom Stephan með fjölskyldu sinni árið 1873. Fyrsta árið bjuggu þau nálægt Staughton en síðan námu þau land í skógi í Shaw- ano County. Í dag er þar akur en maður sem átti jörðina sýndi mér hvar bærinn stóð líklega.“ Viðar hefur áður skoðað hús skáldsins og safnið sem í því er, í Markerville í Alberta, og hefur jafn- framt rannsakað ýmis gögn í skjalasöfnum í Ed- monton og Calgary. „Það er eins og leynilögregluleikur að vinna svona verk,“ segir Viðar. „Ég er að snuðra hér og þar, spá í hitt og þetta. Ligg á skjalasöfnum og leita að upplýsingum og heimildum um Stephan sjálfan og umhverfi hans á hverjum tíma. Það er óhemju gaman að reyna að setja sig í hans spor og upplifa sögu þessa stórmerka manns.“ Það var árið 1997 sem hann ákvað að vaða í verkið, en til að byrja með fór meiri tími í að afla fjár til þess en í sjálft grúskið. Ýmsir aðilar styrktu verkið á fyrstu árunum, til dæmis Skagfirðingar og Landafundanefnd. „Vinna við svona bækur tek- ur alltaf nokkur ár og mikilvægt að hafa reglu- bundinn stuðning. Frá 1999 hef ég verið á kafi í þessu og það sem gerði mér það kleift var stuðn- ingur þriggja fyrirtækja, Eimskips, Urðar, Verð- andi, Skuldar og Búnaðarbankans. Það var í raun tímamótasamningur þegar þessi fyrirtæki fengust til að styrkja verkið til loka. Ég fékk líka úthlutun úr Launasjóði fræðirithöfunda, sem munaði mikið um, en þann sjóð má efla til muna.“ Viðar hefur því síðustu árin eytt ótal stundum í félagsskap Klettafjallaskáldsins, en hann segir fé- lagsskapinn hafa verið afskaplega góðan. „Steph- an G. var alveg einstakur maður. Hversdagsmenni á ytra borði, venjulegur, óskólagenginn bóndi, aldrei vel stæður en svo sannarlega andans stór- menni. Í verkinu reyni ég að draga upp víða mynd af fólki, samfélagi og lífsháttum. Ég fæst við karakt- erinn, rek þroskaferilinn, búsetusöguna og þessar ytri aðstæður, en reyni jafnframt að koma hönd- um yfir kveðskap hans, heimssýn og hugsunar- hátt. Saga Stephans G. er afskaplega fjölþætt. Þetta er búskaparsaga sem nær yfir harðindatímabil í íslenskum landbúnaði á 19. öld, þetta er Vestur- farasaga, saga um búskap í tveimur heimsálfum; það er alveg magnað að setja sig inn í þennan heim. Að vera samferða manni sem eignast nýjan jarðskika í september og stendur þar með ekkert nema öxi, reku og 75 sent í vasanum, en verður síð- ar stórskáld sem hefur svo margt að segja heim- inum.“ Stephan G. byggði sér þrisvar bú vestanhafs en Viðar segir að hann hafi ekki fundið sig fyrr en hann var kominn norður til Kanada, kannski hafi honum leiðst flatneskjan suðurfrá. Skáldskapur- inn tók virkilega að blómstra þegar hann kom til Alberta. Viðar efast um að fólk geri sér grein fyrir því hvað skáldskapur Stephans var víðfeðmur. „Hann var ekki hálfsnöktandi ættjarðarskáld sem sakn- aði heimalandsins. Þegar hann orti „Langförul“, eins og hann kallar það vel þekkta kvæði í bréfum, var hann búinn að finna sinn stað í lífinu. Nátt- úrukveðskapur blundaði alltaf í honum, en Steph- an orti líka um söguleg efni frá ýmsum tímum, um ýmsa viðburði, hann tíndi upp yrkisefnin úr sínu nánasta umhverfi og viðraði lífsspeki sína í ljóðum, pólitík og heimspeki, svo ekki sé minnst á öll fínu erfiljóðin. Það hefur verið sagt að ekkert íslenskt skáld hafi verið jafn víðfeðmt í skáldskapnum og hann. Já, þessi sjálfmenntaði bóndi nær bæði hátt og vítt. Mig hálflangar til að halda því fram að hann sé einsdæmi í bókmenntasögu heimsins – en ég þekki bara ekki allar heimsins bókmenntir,“ segir Viðar og brosir. „Í Kanada var sagt fyrir miðja síðustu öld að ekkert annað kanadískt skáld hafi dregið upp jafn góða mynd af lífinu í Vestur- Kanada. Og prófessor við Harvard hafði um hann mjög stór orð; sagði Stephan vera stærsta skáld Vesturheims, og bar hann þá saman við skáld á borð við Whitman og Poe.“ Viðar segir ágætar þýðingar hafa verið gerðar á sumum kvæða Stephans yfir á ensku en mikið vanti uppá að nóg hafi verið þýtt. Hinsvegar hafi Stephan notið þess að vera vel gefinn út hér heima, og skipu- lega. Ljóðasöfnin og einnig stór hluti þeirra bréfa og ritgerða sem eftir hann liggja. Samt segist Viðar hafa fundið ýmislegt sem ekki hefur ennþá ratað á prent en á fyllsta erindi fyrir augu lesenda. Hann hampar lítilli en nokkuð þykkri, innbundinni kompu og segir margt merkilegt leynast í henni. „Ég er hér með kver sem Guðni Jónsson, frændi og vinur Stephans í Bárðardal, skráði í æskukveð- skap eftir Stephan og einnig ljóð sem hann samdi á fyrstu árum sínum fyrir vestan og sendi heim. Nán- ast ekkert af þessu hefur verið prentað. Fyrstu 200 síðurnar í kverinu eru með skáldskap Stephans héðan frá Íslandi og svo eru um fimmtíu síður í við- bót með kveðskap frá Wisconsin. Þetta er ákaflega dýrmætt efni sem hefur verið vel haldið uppá og er í einkaeigu. Stephan segist sjálfur hafa brennt ein- hverju af þessu æskuefni en hafi þá verið búinn að gefa vini sínum afrit af því. Þessi kvæði eru fínasta heimild um æskuárin hér og líf hans vestra. Hann slarkaði þá víða og var meðal annars í skógarhöggi, sem virðist hafa verið eitthvað svipað og þegar menn voru að fara á vertíð á mínum ungdómsár- um,“ segir Viðar og glottir við tönn. „En það er ekki bara þetta sem er óbirt af skrifum Stephans; á Landsbókasafninu er eitt heilt leikrit eftir hann og brot úr öðrum, handskrifað sveitablað frá Norður- Dakóta og margt smálegt. Það er þannig ýmislegt sem ekki hefur verið prentað en er mikilvægt í heildarmyndinni af lífi hans.“ Hann segir það kunna að koma á óvart að þetta viðamikla verk komi út hjá Bjarti, sem hingað til hefur einkum gefið út skáldskap. „Þeir eru orðnir félagar og leiðist vonandi hvorugum, Stephan G. og Harry Potter! Bjartur hefur gert marga góða hluti, gefið út góðar og fallegar bækur. Þá gerir útslagið að Jón Karl Helgason er að vinna þar; betri yfirles- ara er ekki hægt að hugsa sér.“ Viðar segir að seinna bindið komi út 3. október á næsta ári, en þá eru 150 ár liðin frá fæðingu Steph- ans G. „Ég vildi óska þess að veglega verði haldið upp á afmæli karlsins. Svo væri gaman að heyra Þiðrandakviðu flutta. Það er kvæði sem hann orti síðasta árið sem hann lifði fyrir Björgvin Guð- mundsson tónskáld. Björgvin samdi svo við það kantötu sem hann kallaði Örlagagátuna. Þá var Stephan orðinn mjög sjúkur og það var afrek hjá honum að ljúka verkinu.“ Ekkert nema öxi, reka og 75 sent í vasanum FÓLK Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is VIÐAR HREINSSON blaðar í kompunni með óbirtum æskukveð- skap eftir Stephan G. Stephansson.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.