Morgunblaðið - 12.10.2002, Blaðsíða 14
AKUREYRI
14 LAUGARDAGUR 12. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ að missa heilsuna, verða öryrki,
má aldrei verða ávísun á fátækt en
það er allt of algengt í dag,“ sagði
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir al-
þingismaður á fundi í Deiglunni á Ak-
ureyri. Fundurinn var haldinn í til-
efni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins
10. október og bar yfirskriftina;
Horft til framtíðar. Ásta Ragnheiður
var á meðal frummælenda á fundin-
um, þar sem fjallað var um framtíð-
arsýn í málefnum og þjónustu við
fólk með geðraskanir. Að dagskránni
stóðu Laut – athvarf fyrir fólk með
geðraskanir og Geðverndarfélag Ak-
ureyrar.
Ásta Ragnheiður hvatti til þess að
stofnuð yrði deild á Akureyri innan
Klúbbsins Geysis í Reykjavík en
markmið klúbbsins er að bæta mögu-
leika félaga til að taka þátt í sam-
félaginu eftir geðræna meðferð.
„Starfið í Klúbbnum Geysi í Reykja-
vík hefur verið alveg stórkostlegt
fyrir þá sem átt hafa í geðrænum
vandamálum.“
Ásta Ragnheiður sagði að aukin
umræða um þessi mál væri til þess
fallin að eyða fordómum. Því sé mjög
mikilvægt að passað sé upp á þann
árangur sem náðst hefur. Hún sagði
að um allan heim væri verið að ræða
áhrif áfalla og ofbeldis á börn og ung-
linga. Hún sagði mjög mikilvægt að
þessi hópur þyrfti ekki að bíða lengi
eftir þjónustu á barna- og unglinga-
geðdeildum en í dag væru 60–70 börn
að bíða eftir slíkri þjónustu hér á
landi. Ásta Ragnheiður sagði að ein-
elti hefði ennig verið mikið í um-
ræðunni og að einelti kallaði einnig á
aukna geðheilbrigðis- og sálfræði-
þjónustu fyrir börn.
Það kemur ekkert frá
kerfinu af sjálfu sér
Ásta Ragnheiður sagðist ekki vilja
sjá heimilislausa alvarlega geðsjúka
á götunni. „Í Reykjavík, þar sem ég
bý, eru fleiri tugir alvarlegra geð-
sjúkra heimilislausir. Á leið minni í
vinnuna hitti ég nánast á hverjum
degi fólk sem er illa statt vegna geð-
sjúkdóma. Þetta fólk er án þjónustu
og við getum ekki látið þetta viðgang-
ast.“ Ásta Ragnheiður sagði einnig
nauðsynlegt að hugsa um aðstand-
endur, sem eru oft mjög afskiptir,
vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér
og mæti oft úrræðaleysi í heilbrigð-
isþjónustunni.
Hún sagði velferðarkerfið mjög
gott en að það þyrfti endurskoðunar
við. „Almannatryggingakerfið hefur
ekki verið endurskoðað frá árinu
1970, eða í 32 ár og það er orðið eins
og gatslitin flík sem búið er að tjasla í
og nauðsynlegt er að endurskoða.
Það þarf líka að bera sig eftir öllu í
kerfinu – þaðan kemur ekkert af
sjálfu sér. Það þarf að sækja um allar
bætur og kerfið er mjög flókið og erf-
itt að skýra það út. Það er orðið þann-
ig með kerfið í dag að margir af þeim
sem vinna við kerfið eiga erfitt með
að skýra það út. Þessa þjónustu þarf
að einfalda og jafnframt að sjá til
þess að framfærslan frá trygginga-
kerfinu sé þannig að menn þurfi ekki
að leita til líknarfélaga og hjálpar-
stofnana til þess að eiga til hnífs og
skeiðar,“ sagði Ásta Ragnheiður .
Endurhæfing geðsjúkra
hefur gleymst
María Arinbjarnar, félagi í
Klúbbnum Geysi, fræddi fundar-
menn um hvað klúbburinn hafi gert
mikið fyrir sig. Hún sagði klúbbinn
henta mjög mörgum og ætti fullt er-
indi til Akureyrar. María sagði að
vissulega væri boðið upp á góða þjón-
ustu í heilbrigðiskerfinu en hins veg-
ar væri staðan oft erfið þegar fólk
kemur út af stofnunum í Reykjavík.
Hver einstaklingur sé misjafn og því
henti ekki sama úrræði öllum. Geysir
bjóði upp á úrræði fyrir þá sem vilji
vinna saman að því að komast út á
vinnumarkaðinn. „Þar eru hafin til
vegs og virðingar manngildi sem við
vorum öll alin upp við – mannvirðing,
tillitssemi og að bera virðingu fyrir
náunganum, meta hæfileika hans og
kosti og hætta að einblína á fólk sem
sjúklinga fyrst og persónu svo.“
María sagði íslenska velferðar-
kerfið væri að mörgu leyti gott en þó
hafi einn málaflokkur gleymst – end-
urhæfing geðsjúkra. Að komast frá
stofnuninni út í samfélagið – að vera
álitin manneskja þrátt fyrir að hafa
fengið geðsjúkdóm, eiga batavon og
vera ekki ýtt til hliðar.
„Það eru fáir sem rísa upp og berj-
ast fyrir hönd geðsjúkra og þeir geð-
sjúku eiga erfitt með að blanda sér í
umræðuna og þeim er ýtt til hliðar,
vegna þess að þeir eru jú geðveikir.
Ef við berjumst saman og hjálpumst
að getum við komið í veg fyrir að
þessum málaflokki sé ýtt til hliðar.
Við getum breytt þessu, við erum það
mörg, eða fjórðungur þjóðarinnar,“
sagði María.
Guðbjörg Sveinsdóttir, forstöðu-
kona í Vin í Reykjavík, sagði mik-
ilvægt að þeir sem komi að þessum
málum vinni saman. „Það er ekki nóg
að setja nefndir á laggirnar og
mynda þrýstihópa, rödd notenda í
þessum hópum þarf líka að heyrast
og þeir þurfa að koma að stefnumót-
un í þessum málaflokki. Geðheil-
brigðismál kalla á annars konar úr-
ræði en önnur heilbrigðismál,“ sagði
Guðbjörg.
Einstaklingarnir þurfa að
vera sýnilegir og virkir
Ólafur Torfason, forstöðumaður
áfangaheimilis og þjónustuíbúða á
Akureyri, sagði frá þeim úrræðum
sem eru í boði í bæjarfélaginu fyrir
einstaklinga með geðsjúkdóm. Akur-
eyrarbær rekur áfangaheimili sem er
í eigu Geðverndarfélags Akureyrar,
þar sem að jafnaði búa sjö manns
sem eru að koma undir sig fótunum
eftir veikindi. Einnig sér bærinn um
rekstur sex þjónustuíbúða við Skúta-
gil, sem eru í eigu Þroskahjálpar.
Boðið er upp á þjónustu frá heima-
þjónustu og heimahjúkrun. Á Plast-
iðjunni Bjargi/Iðjulundi er rekin at-
vinnuleg endurhæfing og hjá bænum
starfar atvinnuleitarfulltrúi sem lið-
sinnir fötluðum einstaklingum í at-
vinnuleit.
Ólafur sagði að markmið bæjarins
væru að veita andlega veikum ein-
staklingum eins góða þjónustu og
kostur er. Í samningi félagsmála-
ráðuneytisins og bæjarins frá í vor er
ákvæði um að opnað verði búsetuúr-
ræði fyrir geðsjúka árið 2005 og
strax á næsta ári verður hafist handa
við undirbúninginn. „Til að tryggja
að þjónustan verði sem best þurfa
einstaklingar í þessum málaflokki að
vera sýnilegir og virkir og koma sjón-
armiðum sínum á framfæri. Hags-
munir geðsjúkra og geðfatlaðra hald-
ast í hendur við hagsmuni
samfélagsins í heild,“ sagði Ólafur.
Ríki og sveitarfélög nái
gagnkvæmum skilningi
Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir
á FSA, sagði að sjónarmið neytenda
og starfsmanna ættu að fallast í
faðma en gerðu það því miður ekki
alltaf. Brynjólfur sagði að þegar
hann hóf störf fyrir 30 árum hafi geð-
þjónustan verið einn maður en frá
þeim tíma hafi margt breyst til batn-
aðar. „Gullna reglan er sú að gæði
hvers þjóðfélags eru metin eftir því
hvernig búið er að þeim sem minnst
mega sín.“
Brynjólfur sýndi fram á að eftir að
þjónustuíbúðir við Skútagil voru
teknar í notkun 1997 hafi innlögnum
á P-deild FSA fækkað mikið og að
sparnaður FSA frá þeim tíma væri
yfir 50 milljónir króna. Hluti þess
kostnaðar hefði þó færst yfir á Ak-
ureyrarbæ, sem reki þjónustuíbúð-
irnar. Því væri mjög mikilvægt að
ríki og sveitarfélög nái gagnkvæmum
skilningi til þess að árangur náist.
Fundur um framtíðarsýn í málefnum fólks með geðraskanir
Það að missa heilsuna má
aldrei verða ávísun á fátækt
Fjölmenni var á fundinum í Deiglunni þar sem fjallað var um framtíðarsýn og þjónustu fyrir fólk með geðraskanir.
María Arinbjarnar flutti framsögu á fundinum en gaf sér þó tíma til að
gefa dóttur sinni, Valgerði Fríðu, sopann sinn.
Morgunblaðið/Kristján
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ræðir við Ólaf H. Oddsson héraðslækni.
NORÐURORKA verður með opið
hús fyrir gesti og gangandi laugar-
daginn 12. október frá kl. 13.00–
16.00 en tilefnið er þrefalt afmæli
veitna bæjarins. Á þessu ári eru 100
ár liðin frá stofnun fyrstu vatnsveitu
bæjarins, 80 ár frá stofnun rafveitu
og 25 ár frá stofnun hitaveitu. Norð-
urorka verður með opið hús að
Rangárvöllum, í aðveitustöð 1 í Þing-
vallastræti, dælustöð í Þórunnar-
stræti og vatnsgeymum að Rangár-
völlum. Afmæliskaffi verður í
höfuðstöðvum Norðurorku að Rang-
árvöllum.
Rafveita Akureyrar og Hita- og
vatnsveita Akureyrar voru samein-
aðar í eitt öflugt orkufyrirtæki 1.
ágúst árið 2000, Norðurorku. Fyrsta
vatnsveita á Akureyri var vatnsveita
innbæinga, stofnuð 1902. Um svipað
leyti hófu Oddeyringar vatnsveitu-
framkvæmdir en báðar þessar veitur
voru einkaveitur. Árið 1904 tók bæj-
arfélagið við Oddeyrarveitunni og
árið 1914 við innbæjarveitunni. Árið
1914 er því talið stofnár Vatnsveitu
Akureyrar. Vatnsnotkun Akureyr-
inga er mikil eða um 4,5 milljónir
tonna á ári en ekki er vandamál að
afla þess magns. Vatnsveitan varð
hluti af Hita- og vatnsveitu Akureyr-
ar 1. janúar 1993.
Fyrsta verkefni Rafveitu Akur-
eyrar var að virkja Glerá en Gler-
árvirkjun var byggð í landi Banda-
gerðis á árunum 1921 og 1922. Á
þeim tíma voru starfræktar þrjár
rafstöðvar í bænum og fengu 36 hús
rafmagn frá þeim. Rafmagnsfram-
leiðsla í Glerárvirkjun hófst 30. sept-
ember 1922 en þá var straumi fyrst
hleypt á nýbyggt dreifikerfi Rafveit-
unnar í bænum. Síðar virkjaði Raf-
veitan Laxá í Aðaldal og tók fyrsta
virkjunin til starfa árið 1939. Nýtt
fyrirtæki, Laxárvirkjun, tók til
starfa með tilkomu virkjunar 2 í
Laxá árið 1954. Síðan hefur megin-
verkefni Rafveitu Akureyrar verið
að kaupa og selja raforku og dreifa
henni til viðskiptavina á Akureyri.
Stofndagur Hitaveitu Akureyrar
hefur verið talinn 27. nóvember 1977
þegar fyrsta húsið, Dvalarheimilið
Hlíð, var tengt við veituna en forsaga
stofnunar hitaveitunnar er löng.
Heitavatnsnotkun er nú svipuð og
kaldavatnsnotkunin eða um 4,5 millj-
ónir tonna á ári. Veitan nýtir vatn úr
10 borholum, rekur varmadælur,
dælir niður vatni og nýtir raf- og ol-
íukatla þegar þess er þörf.
Opið hús hjá
Norðurorku vegna
afmælis veitna
100 ár liðin
frá stofnun
fyrstu vatns-
veitu bæjarins
Skákæfingar Barna- og unglinga-
æfingar hjá Skákfélagi Akureyrar
hefjast formlega í dag, laugardag,
kl. 13:30. Aðalumsjónarmaður þeirra
verður Stefán Bergsson. Æfing-
arnar eru að venju í húsnæði félags-
ins í Íþróttahöllinni, gengið inn um
aðalinngang, fyrstu dyr til vinstri.
Eina skilyrðið fyrir þátttöku á æf-
ingunum, sem eru ókeypis, er að
kunna mannganginn.
Í DAG
Akureyrarkirkja Sunnudaginn 13.
október að lokinni messu kl. 11 í Ak-
ureyrarkirkju mun Jóhanna Krist-
jónsdóttir, rithöfundur og blaðamað-
ur, tala um menningarheim Araba í
Safnaðarheimili kirkjunnar. Jó-
hanna hefur undanfarin ár lagt
stund á nám í íslömskum fræðum og
arabísku og er brátt á förum til Sýr-
lands til MA náms. Án efa hefur Jó-
hanna frá mörgu áhugaverðu að
segja og er erindi hennar öllum opið.
Konur úr Kvenfélagi Akureyr-
arkirkju selja kakó og kleinur á
vægu verði.
Á MORGUN