Morgunblaðið - 12.10.2002, Blaðsíða 22
LANDIÐ
22 LAUGARDAGUR 12. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
HEILSURÆKTIN Styrkur hóf
starfsemi sína í Íþróttamiðstöðinni í
Þorlákshöfn í byrjun september.
Boðið er upp á alla almenna heilsu-
ræktarstarfsemi eins og hóptíma, vel
útbúinn tækjasal, einkaþjálfun, sölu
á fæðubótarefnum o.m.fl. Viðbrögð
íbúa hafa verið mjög góð og það er
greinilegt að fólk kann að meta þessa
þjónustu á staðnum, sagði Þórir Þór-
isson, eigandi og framkvæmdastjóri
Styrks.
Núverandi eigendur Styrks hafa
rekið stöð á Selfossi frá 1996 og í
Hveragerði frá 2001. Þessi stöð er
því sú þriðja og að sjálfsögðu geta
korthafar nýtt kort sín á öllum stöðv-
unum. Ragnar Matthías Sigurðsson,
íþrótta- og æskulýðsfulltrúi sem
jafnframt sér um rekstur Íþrótta-
miðstöðvarinnar í Þorlákshöfn, segir
að fram til þess að Styrkur tók við
rekstrinum hafi Íþróttamiðstöðin
sjálf séð um rekstur þrektækjasalar
og boðið upp á leikfimi. Þessi þjón-
usta var nýtt nokkuð vel en með til-
komu Styrks í reksturinn hefur fjöl-
breytnin aukist verulega og aðsókn
stóraukist.
Morgunblaðið/Jón H.Sigurmundsson
Þórir Þórisson, eigandi og fram-
kvæmdastjóri Styrks, sem hefur
hafið rekstur heilsuræktar-
stöðvar í Íþróttamiðstöð Þor-
lákshafnar.
Heilsuræktarstöðin
Styrkur hefur rekstur
Þorlákshöfn
FÉLAGS- og skólaþjónusta Snæ-
fellinga og Barnaverndarstofa Ís-
lands stóðu fyrir tveggja daga nám-
skeiði á Hótel Framnesi í
Grundarfirði fyrir skömmu.
Fyrri dagurinn var ætlaður nýj-
um fulltrúum í Barnaverndarnefnd
og fulltrúum svokallaðra sam-
starfsaðila, þ.e. frá lögreglu, skól-
um, leikskólum og heilsugæslu á
Snæfellsnesi. Seinni dagurinn var
ætlaður Barnaverndarnefnd og
starfsmönnum hennar. Á námskeið-
inu fóru starfsmenn Barnavernd-
arstofu, þær Helga Friðriksdóttir
lögfræðingur og Anni G. Haugen
félagsráðgjafi, ítarlega yfir þau
störf sem lúta að barnavernd og
kynntu nýjungar í lögum um barna-
vernd sem tóku gildi 1. júní.
Á Snæfellsnesi hefur um nokk-
urra ára skeið starfað ein barna-
verndarnefnd skipuð fulltrúum frá
hverju sveitarfélagi. Frá stofnun
Félags- og skólaþjónustu Snæfells-
ness hefur forstöðumaður hennar
Sigþrúður Guðmundsdóttir jafn-
framt verið starfsmaður Barna-
verndarnefndar Snæfellsness. Á
árinu 2000 voru tilkynnt mál til
nefndarinnar 16 en árið 2001 voru
þau 25.
Morgunblaðið/ Gunnar Kristjánsson
Þátttakendur og fyrirlesarar seinni dags barnaverndarnámskeiðsins
talið frá vinstri. Kári Eiríksson félagsráðgjafi, starfsmaður FSS, Hrefna
Friðriksdóttir frá Barnaverndarstofu, Anni G. Haugen frá Barnavernd-
arstofu, Matthildur Guðmundsdóttir, Sigrún Baldursdóttir, Sigþrúður
Guðmundsdóttir, forstöðumaður FSS, Júníana Óttarsdóttir, Guðrún M.
Ársælsdóttir og Helga Sveinsdóttir.
Námskeið fyrir
barnaverndarnefnd
Grundarfjörður
BARÐI NK 120, skuttogari sem nú
bætist í flota Síldarvinnslunnar,
kom til heimahafnar í dag. Hið nýja
skip kemur í stað gamla Barða sem
nýlega var seldur til Namibíu. Nýi
Barði, sem áður hét Snæfugl SU og
var smíðaður í Noregi 1989, var áð-
ur í eigu Skipakletts á Reyðarfirði.
En Síldarvinnslan eignaðist skipið á
síðasta ári þegar fyrirtækin sam-
einuðust. Barðinn kom til heima-
hafnar frá Póllandi þar sem skipið
var sandblásið og málað. Barði
verður gerður út bæði á ísfisk og
heilfrystingu og er reiknað með að
nauðsynlegum endurbótum á skip-
inu, aðallega á vinnsludekki, verði
lokið um næstu mánaðamót og
skipið geti haldið í fyrstu sína veiði-
ferð í byrjun nóvember.
Morgunblaðið/Ágúst Blöndal
Nýi Barðinn siglir inn Norðfjörð í rigningarsúldinni.
Nýr Barði til heimahafnar
Neskaupstaður
VELTA hugbúnaðarfyrirtækja á
Íslandi nam 20 milljörðum króna
árið 2001 og hefur fjórfaldast á
fjórum árum. Á fyrri helmingi
þessa árs jókst veltan um 3,5% frá
sama tímabili í fyrra. Iðngreinin
hefur þó ekki náð hagnaði frá
árinu 1998 og nam heildartap um
23% af rekstrartekjum árið 2000.
Starfsfólki í hugbúnaðariðnaði fer
fækkandi en alls starfa um 2.600
manns í greininni, þar af hafa 65%
háskólamenntun. Hægt hefur á
vexti greinarinnar í ár en hugbún-
aðariðnaðurinn er sú grein sem
hvað hraðast hefur vaxið á und-
anförnum árum. Að sögn Ingvars
Kristinssonar, formanns samtaka
íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja,
hefur krafan um hagnað fyrir-
tækja í greininni aukist og erfitt
reynist að fá fjármagn til nýrra
verkefna.
Framtíðarsýn hugbúnaðariðnað-
ar á Íslandi var til umfjöllunar á
málþingi sem haldið var í
tengslum við Agora-sýninguna í
Laugardagshöll í gær. Þar greindi
Ingvar Kristinsson, formaður sam-
taka íslenskra hugbúnaðarfyrir-
tækja, frá þróun iðnaðarins, ógn-
unum hans og tækifærum. Einnig
voru mættir fulltrúar stjórnamála-
flokkanna til að kynna stefnu
þeirra í uppbyggingu upplýsinga-
og þekkingariðnaðar á Íslandi.
3,3 milljarðar í útflutningi
Í samtali við blaðamann Morg-
unblaðsins sagði Ingvar að helsta
markmið samtakanna væri að efla
útflutning íslensks hugbúnaðar.
„Launakostnaður í greininni er
lágur miðað við önnur lönd, hús-
næði er ódýrt og kostnaður vegna
fjarskipta og orkunotkunar lítill.
Rekstrarumhverfi á Íslandi er því
mjög hagstætt iðngreininni. Þar af
leiðandi eigum við að geta búið til
lausnir fyrr og með minni tilkostn-
aði en annars staðar þekkist.“
Ingvar telur að nýta beri þetta
forskot í samkeppni við erlenda
aðila og til að laða erlenda fjár-
festa að íslenskum hugbúnaðariðn-
aði. Á síðasta ári var fluttur út
hugbúnaður fyrir tæpa 3,3 millj-
arða króna eða sem nemur 1,1% af
heildarútflutningi landsins. Ingvar
segist telja að mesta áherslu eigi
að leggja á að flytja út staðlaðan
hugbúnað en hlutfall hans nam
40% af því sem flutt var út í fyrra.
Hann telur að eftir fjögur ár ætti
útflutningur að geta numið 30% af
veltu fyrirtækjanna í greininni og
Íslendingar verði leiðandi í notkun
upplýsingatækni. Þá segir hann að
SÍH stefni að því að upplýsinga-
tækniiðnaðurinn skili 10% af þjóð-
artekjum árið 2006.
Virðisaukaskattur vandamál
Þótt rekstrarkostnaður iðn-
greinarinnar sé lægri hér en víðast
hvar annars staðar segir Ingvar að
fyrirtæki í hugbúnaðargeiranum
geti ekki keppt við tölvudeildir op-
inberra stofnana og fjármálafyr-
irtækja. Samtök íslenskra hugbún-
aðarfyrirtækja eru afar ósátt við
að tölvudeildir fjármálafyrirtækja,
tryggingafélaga, opinberra fyrir-
tækja og stofnana fái að starfa „í
skjóli skattsvika“, en samtökin
segja það skýrt í lögum að tölvu-
deildir fyrirtækja eins og t.d.
banka séu ekki hluti af kjarna-
starfsemi þeirra og því beri að
greiða virðisaukaskatt. Hins vegar
hafi skattayfirvöld ekki gengið á
eftir því að það sé gert. Ingvar
segir að virðisaukaskattskyld,
einkarekin hugbúnaðarfyrirtæki
séu því í samkeppni við tölvudeild-
ir sem greiði ekki virðisaukaskatt.
Hann bendir á að ríkisskattstjóri
hafi gefið út álit fyrir fjórum árum
að undanþága frá virðisaukaskatti
ætti aðeins við um kjarnastarfsemi
fjármálastofnana. Hann segir ljóst
að þróun hugbúnaðar geti ekki tal-
ist hluti af kjarnastarfsemi og því
beri þessum stofnunum að greiða
virðisaukaskatt. Ingvar segir að í
raun sé um að ræða eins konar
ríkisvæðingu í stað einkavæðingar
þegar stofnanir á vegum ríkisins
séu með fjölda manns í vinnu við
að reka tölvukerfi sem einkarekin
hugbúnaðarfyrirtæki gætu hæg-
lega tekið að sér.
Ingvar bendir á að sveitarfélög
og stofnanir fái t.a.m. endur-
greiddan virðisaukaskatt þegar
þau kaupa þjónustu verkfræðinga
eða arkitekta. Telur hann að hið
sama eigi að gilda um hugbún-
aðarfyrirtæki. Hann segir samtök-
in telja mikilvægt að lausn finnist
á virðisaukaskattsmálinu því ís-
lenskur hugbúnaðariðnaður eigi að
snúast um að þróa vörur til út-
flutnings. Það sé ekki verið að
gera innan tölvudeilda stofnana
sem hafi það eitt að markmiði að
halda utan um rekstur tölvukerfis
viðkomandi stofnunar.
Hagstætt rekstr-
arumhverfi
Morgunblaðið/Sverrir
Á síðasta ári nam hugbúnaður 1,1% af heildarútflutningi landsins.
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
MIKIL viðskipti hafa verið að und-
anförnu með hlutabréf í SÍF hf. og
hafa eignarhlutar Fjárfestingar-
félagsins Straums hf. og S-hópsins
svokallaða aukist umtalsvert. Þegar
nýjustu upplýsingar um hluthafa í
SÍF eru bornar saman við hluthafa-
lista frá því í lok september má sjá
að Fjárfestingarfélagið Straumur
hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn, Ker
hf., Íshaf hf. og SÍF sjálft hafa bætt
við hlutabréfaeign sína. Lífeyris-
sjóður verslunarmanna, Íslands-
banki hf. og Búnaðarbanki Íslands
hf. hafa á hinn bóginn dregið úr eign-
arhlut sínum.
Hlutabréfaeign Straums hefur
farið úr tæpum 5% í rúmlega 13% frá
því í lok september og er Straumur
samkvæmt því annar stærsti hlut-
hafinn í SÍF. Burðarás er sem fyrr
stærstur samkvæmt hluthafalista
gærdagsins með ríflega 14% hlut, en
að auki er tæplega 2% hlutur, sem
skráður er á Íslandsbanka, í eigu
Burðaráss og á félagið því 16% í SÍF.
Þórður Már Jóhannesson, fram-
kvæmdastjóri Straums, segir að-
spurður að Straumur standi einn að
kaupum á hlutabréfum í SÍF líkt og í
öðrum fjárfestingum félagsisins.
Hann segir ástæður kaupanna í SÍF
þær, að Straumur sjái ýmis tækifæri
felast í rekstri og framtíð SÍF.
S-hópur með að minnsta
kosti 36% hlut
Fyrirtæki og sjóðir sem tengjast
S-hópnum svokallaða eiga stóra hluti
í SÍF og hafa verið að auka hlut sinn.
Samvinnulífeyrissjóðurinn hefur
aukið hlut sinn úr rúmum 5% í rúm
7% og Ker hefur aukið hlut sinn úr
rúmlega 1% í yfir 6%. Spurður um
aukningu eignarhlutar Kers segir
Geir Magnússon, forstjóri félagsins,
að um sé að ræða innlausn á fram-
virkum samningi sem gerður hafi
verið við Búnaðarbankann í vor. Geir
segir að ekki sé verið að safna bréf-
um í SÍF og að hann viti ekki til að
keppni eða átök eigi sér stað um
bréfin. Fyrir utan Samvinnulífeyris-
sjóðinn og Ker má nefna að Mundill
ehf., sem er í eigu Samskipa, á ná-
lægt 7% í SÍF, Framleiðendur ehf.,
sem er félag fyrrum ÍS-aðila, á svip-
aðan hlut, Vátryggingafélag Íslands
hf. á rúmlega 6%, Mastur ehf., sem
tengist S-hópnum, á 2% og Íshaf hf.,
sem er í eigu Kers, á rúmlega 1%.
Alls eiga þau fyrirtæki sem kennd
hafa verið við S-hópinn því að
minnsta kosti 36% í SÍF.
Straumur og S-
hópur kaupa í SÍF
BRÉF í netfyrirtækinu Yahoo
Inc. hækkuðu um 22% á
fimmtudaginn, í kjölfar upp-
gjörs fyrir þriðja ársfjórðung.
Lokagengi dagsins var 12,27
dollarar, sem var 2,9 dollurum
hærra en við upphaf viðskipta.
Í gær hækkuðu bréfin aftur og
var lokagengi þeirra 13,36 doll-
arar eftir tæplega 9% hækkun
innan dagsis.
Uppgjör Yahoo var mun hag-
stæðara en búist hafði verið við,
og sýndi að tekjur höfðu aukist
um 50%. Þá var hagnaður mun
meiri en vænst hafði verið.
Yahoo hefur að undanförnu
leitað leiða til að auka tekjur
sínar. Markaður fyrir vefaug-
lýsingar hefur dregist mjög
mikið saman, en fyrirtækið hef-
ur nú tekið upp margs konar
þjónustu, eins og aðgang að
netinu, viðbætur við tölvupóst-
þjónustu og smáauglýsingar.
Yahoo fær nú tekjur frá um
einni og hálfri milljón við-
skiptavina.
Yahoo
vegnar
vel