Morgunblaðið - 29.04.2003, Síða 21
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 29. APRÍL 2003 21
ÁKVEÐIÐ hefur verið að taka upp viðræður um
að Heilsugæslan í Reykjavík (HR) taki tímabundið
að sér, sem verktaki, læknisþjónustu í heilsugæslu
hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Var
þetta tilkynnt á fundi í Keflavík í gær. Við sama
tækifæri undirritaði Jón Kristjánsson heilbrigðis-
ráðherra viljayfirlýsingu um uppbyggingu og þjón-
ustu.
Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri
HSS, kvaðst vonast til að nú sæist lausn á vanda
heilsugæslunnar á Suðurnesjum en sem kunnugt
er hafa ekki fengist heimilislæknar til starfa þar
frá því heilsugæslulæknarnir sögðu upp störfum
og hættu á síðasta ári vegna deilna við heilbrigð-
isráðuneytið. Kvaðst hún vona að starfsfólkið fengi
nú vinnufrið og sagðist viss um að þá myndi það
gera góða hluti.
Jón Kristjánsson fagnaði því sérstaklega við
undirritunina í gær að viðræður skyldu vera tekn-
ar upp á milli Heilsugæslunnar í Reykjavík og
Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og kvaðst vona
að samstarfið yrði farsælt og efldi Heilbrigðis-
stofnunina.
Fastur yfirlæknir
Ekki liggur fyrir hvað margir heimilislæknar
munu koma til starfa á Suðurnesjum. Í viljayfirlýs-
ingu forstjóra HSS og HS kemur fram að viðræð-
urnar muni hefjast á næstu dögum um nánari út-
færslu samstarfsins. Þær muni fela í sér
skilgreiningu á þeirri læknisþjónustu sem HSS
mun kaupa af HR og skilgreind verði ábyrgð
samningsaðila og tímaákvæði.
Sigríður Snæbjörnsdóttir segir að búið sé að
skipuleggja starfið á heilsugæslustöðvunum nokk-
uð fram á sumar og það skýrist í samningunum
hversu margir læknar komi og hvenær. Rætt mun
vera um að þrír komi til starfa til að byrja með og
að þeir verði síðar fimm.
Guðmundur Einarsson, forstjóri HR, segir að
Heilsugæslan í Reykjavík leggi fram yfirlækni sem
verði starfandi í Keflavík allan samningstímann.
Aðrir læknar muni skiptast á um að taka vaktir á
heilsugæslustöðvunum á svæðinu. Býst Guðmund-
ur við að fleiri unglæknar verði ráðnir á heilsu-
gæslustöðvar HR vegna fyrirhugaðs samnings og
vonar að aðstoð HR við Suðurnesjamenn leiði ekki
til lakari þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Guðmundur leggur áherslu á að um sé að ræða
tímabundinn samning og stefnt sé að því að ráða
þangað lækna með venjubundnum hætti og að HR
skili þessu verkefni af sér með 8–10 fastráðnum
læknum.
Teknar upp viðræður um að læknar úr Reykjavík þjóni Suðurnesjamönnum
Reiknað með þremur læknum
úr Reykjavík til að byrja með
Keflavík
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Sigríður Snæbjörnsdóttir og Guðmundur Einarsson takast í hendur eftir undirritun yfirlýsing-
arinnar í gær. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra var viðstaddur.
HEILBRIGÐISRÁÐHERRA hefur skipað nefnd
um framtíðaruppbyggingu, þróun og skipulag
Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, bæði heilsu-
gæslu- og sjúkrahúsþjónustu. Tilkynnti Jón
Kristjánsson þetta þegar hann undirritaði vilja-
yfirlýsingu um uppbyggingu stofnunarinnar.
Fram kom að heilbrigðisyfirvöld telja að með-
al brýnustu aðgerða í frekari uppbyggingu HSS
sé að taka í notkun 2. hæð D-álmu HSS, efla
heilsugæsluna og endurnýja skurðstofur.
Ráðherra tilkynnti að ráðuneytið muni ráð-
stafa 35 milljónum kr. til að styrkja rekstur heil-
brigðisstofnunarinnar á árinu og leita heimilda
til þess að hækka rekstrargrunn hennar sem
þessu nemur á næstu árum. Jafnframt er því lýst
yfir að leitað verði heimildar í fjáraukalögum í
ár til að ljúka frágangi lóðar HSS.
Nefndinni sem ráðherra hefur skipað er ætlað
að koma með tillögur um áframhald fram-
kvæmda við stofnunina. Meðal annars á hún að
skoða sérstaklega hvernig nýta megi sem best
þá hluta D-álmu sjúkrahússins sem ekki hafa
verið innréttaðir. Nefndin á að skila fyrstu
áfangaskýrslu fyrir 1. júlí í sumar.
Í viljayfirlýsingunni segir að stefnt verði að
því að fólk komist samdægurs að á heilsugæslu-
stöð HSS og miðað við að biðtími á biðstofu, þeg-
ar tími hefur verið pantaður, sé að jafnaði ekki
lengri en 30 mínútur.
Þá er kveðið á um að sjúkrahússvið stofnunar-
innar greinist í lyflækningar og handlækningar.
Þar er slysamóttaka, bráðavakt, fæðingardeild
og skurðstofa. Stofnunin skuli hafa á að skipa
sérfræðingum í skurðlækningum, lyflækningum,
kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og svæf-
ingum, auk fjölbreyttari sérfræðiþjónustu sem
sinnt verði með reglubundnum komum eða hlut-
aráðningum sérfræðinga. Stefnt skal að því að
sjúkrahússviðið geti sinnt í framtíðinni um 80%
af þörf Suðurnesjamanna fyrir sérhæfða sjúkra-
húsþjónustu. Þar er einnig deild fyrir aldraða
sjúklinga.
Nefnd um uppbyggingu og þróun
LÖGREGLUMENN um allt land
héldu upp á 200 ára afmæli lög-
reglunnar um nýliðna helgi. Lög-
reglan í Grindavík lét sitt ekki
eftir liggja og tók á móti öllum
með kleinu og einhverju að
drekka.
„Við höfum fengið mikið af
heimsóknum í dag. Allir gestirnir
hafa auk þess að fá eitthvað í
gogginn fengið barmmerki.
Þá hafa þeir sem vilja getað
fengið fingrafarið sitt tekið á sér-
stakt blað til að taka með sér
heim.
Lögreglubíllinn fær alltaf mikla
athygli en mest spennandi er þó
að skoða fangaklefana,“ sagði
Sigurður Ágústsson, aðstoðaryf-
irlögregluþjónn í Grindavík.
Morgunblaðið/Garðar Páll Vignisson
Ungmennin skoðuðu lögreglubílinn af miklum áhuga.
Spennandi
að skoða fangelsið
Grindavík
LÖGREGLAN í Keflavík hefur um
þessar mundir sérstakt eftirlit með
aksturshraða bifreiða á Kirkjuvegi
í Keflavík og á Garðvegi. Mikið
hefur verið kvartað undan hrað-
akstri á þessum stöðum.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir
of hraðan akstur á Garðvegi síðast-
liðið sunnudagskvöld, annar mæld-
ist á 136 km hraða og hinn
skömmu síðar á 131 km hraða.
Mikið hefur verið kvartað undan
hraðakstri á Garðvegi og mun lög-
reglan sinna því verkefni sérstak-
lega.
Í dagbók lögreglunnar kemur
fram að í vikunni var kvartað und-
an miklum umferðarþunga og
hraðakstri á Kirkjuvegi í Keflavík
þar sem er 30 km hámarkshraði.
Tilkynnandi sagðist uggandi þar
sem mikill fjöldi barna væri þarna
við götuna. Lögreglan gerði fyrst
könnun með ómerktri bifreið í
klukkutíma síðdegis og á þeim tíma
fóru 128 bifreiðar um þennan kafla
Kirkjuvegar á milli Vesturgötu og
Vesturbrautar.
24 bifeiðum var ekið undir 30 km
hraða, 53 bifreiðum á 31–40 km
hraða, 42 á hraða 41–50 og 9 bif-
reiðum var ekið yfir 50 km hraða.
Hraðamælt var síðan daginn eft-
ir með ómerktri lögreglubifreið og
voru þá 3 ökumenn kærðir fyrir of
hraðan akstur á þessum kafla.
Einn var kærður á 50 km hraða,
annar á 51 km hraða og sá þriðji
var á 60 km hraða. Lögreglan segir
að umferð á þessum kafla sé ótrú-
lega mikil sé litið til þess að þarna
er gatan hönnuð sem vistgata með
tveimur þrengingum. Þá aki menn
þarna of hratt og kemur fram að
lögreglan muni gefa þessu sérstak-
ar gætur.
Lögreglan vill vekja athygli fólks
á því að víða í Keflavík hefur há-
markshraði í íbúðarhverfum verið
lækkaður í 30 km. Fólk getur átt
von á að lögreglan verði við hraða-
mælinar á þessum götum á
ómerktum lögreglubifreiðum.
Ekið of
hratt á
Kirkjuvegi
og Garðvegi
Keflavík/Garður