Morgunblaðið - 20.08.2003, Blaðsíða 20
20 MIÐVIKUDAGUR 20. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
LISTIR
FJÖLBREYTTIR viðburðir og
fjölmörg frábær atriði, sýningar
og tónleikar á Listasumri á Ak-
ureyri nú í sumar hefðu átt skilið
að fjallað væri um þau af gagnrýn-
endum Morgunblaðsins. Listasum-
arsdagskráin hefur spannað marga
tugi listviðburða og marga nýstár-
lega. Ástæðurnar fyrir því að ég
fjalla hér um þessa tilteknu tón-
leika eru fyrst og fremst tvær. Í
fyrsta lagi eru tónleikarnir einir í
röð nokkurra tónleika sem gestum
er boðið að hlýða á í hádegi á
föstudögum, og gefist hefur býsna
vel. Í öðru lagi er efnisskráin
óvenjuleg, þar sem Arna Kristín
velur og teflir fram ljóðum til af-
lestrar samtímis flautuleik sínum.
Í vel hannaðri og ýtarlegri efnis-
skrá leikur Arna sér með orðin
flauta og ljóð, svo úr verður fljóð
og með samþættingu ljóða og laga
langar Örnu til að sjá „hvort ljóðin
bæti einhverju við tónana og hvort
tónarnir slái á dýpri strengi þegar
orðin birtast með“. Að sjálfsögðu
ræður það ljóða- og tónmál sem
valið er miklu um hver áhrifin
verða. Arna velur tónverkin sem
hún flytur úr flokki einleiksverka
fyrir þverflautu sem spanna tím-
ann frá dögum Johanns Sebastians
til okkar daga ásamt einum skosk-
um þjóðdansi. Með vali tónverk-
anna dregur hún fram skemmti-
legar andstæður í blæbrigðum í
formi og túlkun.
Styrkur Örnu Kristínar felst
ekki eingöngu í því að leika for-
kunnarvel á flautu með þéttum og
hlýjum tóni, tækni sem þjónaði
næmri túlkun verkanna fullkom-
lega, styrkur hennar felst líka í
valdi hennar á orðlist og að geta í
senn tengt ljóðmál sitt heimspeki-
legum spurningum um skynjun lífs
og tilveru og fellt það í fáguð og
kliðmjúk ljóð.
Á meðan ljóðunum Blár og Him-
inn og jörð var varpað á vegginn
lék Arna Kristín ofan af svölum
Ketilhússins þann ástaróð um
gyðjuna Syrinx sem Debussy lagði
Pan í munn á reyrflautu, en sam-
kvæmt grísku goðsögninni hafði
Syrinx flúið ást hans og umbreytt
sér í þann reyr. Bæði ljóðin og
flutningur tónverks náðu þeirri
dýpt tilfinninga sem við átti. Ljóð-
in Formföst, er og Að eilífu hæfðu
vel tungutaki a-moll-partítunnar
eftir Bach, sem Arna Kristín flutti
með glæsibrag.
Kvennatónar Atla Heimis tengd-
ust ljóðinu Stærð ágætlega og þar
undirstrikaði Arna Kristín það
sem vel kom fram á tónleikunum
að „fljóð“ fást við margt samtímis
þegar hún samkvæmt kröfum tón-
skáldsins sönglaði og flautaði tví-
radda á hljóðfærið í senn.
Unga breska tónskáldið Ian
Vine átti þarna verk sem er áleitið
og grípandi, sem styrktist með
birtingu ljóðs þess Tans, Todo exc-
iste … Næst „brenndu eldflugurn-
ar gat á drauma“ áheyrenda svo
vitnað sé í ljóð Örnu Kristínar,
Myrkur. Eldflugan kom og flaug í
takt við skoska þjóðdansinn, The
Bank of Hyr, knúin áfram af dill-
andi flautudansi og bassatrommu
sem Arna Kristín sló taktfast með
fótpedal. Bráðskemmtilegur flutn-
ingur á þessari skemmtilegu út-
setningu eftir Janice Boland. Tón-
leikunum lauk svo Arna á flutningi
angurværs verks, Hugleiðing, eftir
Geir Rafnsson, og samtímis birtist
ljóðið Ryk, sem endar á orðunum
„… ævi mín eitt augnablik stjörn-
uryk“. Sífellt umhugsunarefni, en
allavega færðu þessir tónleikar
mér heim sanninn um það að
nema, skynja og njóta nærir lífsins
augnablik. Og enn er af nógu að
taka á Listasumri á Akureyri.
Fljóðleikur á Listasumri
TÓNLIST
Ketilhúsið á Akureyri
Flytjandi: Arna Kristín Einarsdóttir þver-
flautuleikari.
Efnisskrá: Syrinx eftir Debussy, Partita í
a-moll eftir Johann Sebastian Bach,
Kvennatónar úr Mínútuverki Atla Heimis
Sveinssonar, Kon tai né eftir Ian Vine,
skoska þjóðlagið The Bank of Hyr í út-
setningu Janice Boland og Hugleiðing
eftir Geir Rafnsson. Samhliða flautuleik
var sjö ljóðum eftir Örnu Kristínu og einu
eftir Ian Vine varpað upp á vegg. Föstu-
dagur 15. ágúst kl. 12.
FLAUTULEIKUR
Jón Hlöðver Áskelsson
FORSETI Íslands, Ólafur Ragnar
Grímsson, opnar sýninguna Meist-
arar formsins – Úr höggmynda-
sögu 20. aldar, þann 30. ágúst í
Listasafni Sigurjóns. Sýningin, sem
kemur frá Ríkislistasafninu í Berl-
ín, hefur í sumar verið í Listasafn-
inu á Akureyri. Í Sigurjónssafni
verða sýnd verk helstu módernista
Evrópu ásamt höggmyndum eftir
brautryðjendur íslenskrar högg-
myndalistar, þá Einar Jónsson, Ás-
mund Sveinsson, Sigurjón Ólafsson
og Gerði Helgadóttur. Forvörður
frá Ríkislistasafninu í Berlín setur
sýninguna upp en forstöðumaður
Sigurjónssafns hefur valið högg-
myndir eftir m.a. Degas, Archi-
penko, Moore, Marino Marini,
Laurens, Renoir, Hartung, Lörch-
er, Sol LeWitt, Schwegler og Axel
Lischke.
Sýningin verður opin daglega,
nema mánudaga til 28. september.
Sumarsýningu að ljúka
Sumarsýningu Sigurjónssafns
Andlitsmyndir og afstraksjónir
lýkur á morgun. Á þeirri sýningu
er breitt úrtak verka eftir Sigurjón
Ólafsson frá ólíkum tímum starfs-
ferils hans.
Frá sýningunni Meistarar formsins í Listasafninu á Akureyri í sumar. Höf-
uð eftir Rudolf Belling og Flatur bolur eftir Alexander Archipenko.
Helstu módernistar
Evrópu í Sigurjónssafni
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
MENNINGARNÓTTINNI lauk
síðastliðinn sunnudagsmorgun eftir
stanslausa dagskrá frá kl.14 deg-
inum áður. Margt var í boði hjá
myndlistarsöfnum og galleríum
fram undir miðnætti. Aðal fjörið
virtist þó hafa verið í Gallerí Fold.
Þar var sneisafullt út úr dyrum allan
daginn og langt fram eftir kvöldi,
enda margt þar að gerast, lista-
verka-happadrætti, listamenn að
störfum og svo auðvitað stærsta
einkaframtak hátíðarinnar og merk-
asti viðburðurinn, sýning á íþrótta-
myndum bandaríska myndlist-
armannsins Andy Warhols, sem
mun standa til næsta sunnudags
Andy Warhol var einn af frum-
kvöðlum Popplistarinnar í Banda-
ríkjunum. Popplistin á reyndar upp-
tök sín í Bretlandi en fann sér svo
farveg í Bandaríkjunum þar sem
hún blómstraði undir heitinu Neo
Dada. Popplist er margþætt list-
stefna og innan hennar má finna
marga áhrifamenn í myndlistarsög-
unni. Á toppnum trónir þó Andy
Warhol
Ekki epli heldur Campbell’s
Andy Warhol, eða Andrew War-
hola eins og hann hét með réttu,
fæddist árið 1928 í Pittsburg af
tékknesku foreldri. Hann fluttist
snemma til New York borgar þar
sem hann hóf feril sem auglýs-
ingateiknari og var nokkuð vinsæll í
faginu strax á sjötta áratugnum.
Samhliða auglýsingateiknun og
myndskreytingum í glanstímarit
sýndi hann grafík og teikningar í
smærri listsýningarsölum í borginni.
Eftir að hafa kynnst listamönnunum
Jasper Johns og Robert Rauschen-
berg fór hann alfarið að einbeita sér
að myndlistinni og málaði myndröð
af ofurhetjum, Súperman, Batman
o.s.frv. Það var árið 1960. Skömmu
síðar fór hann að mála myndir af
Kóka Kóla-flöskum og á eftir fylgdi
sería af Campbell’s súpudósum sem
er á meðal þekktustu verka War-
hols.
„Cézanne málaði epli en ég mála
Campbell’s“ voru orð Warhols sem
sögðu til um breytt samfélagsleg og
listræn viðhorf á sjöunda áratugnum
þegar popp listin braust í gegn.
Warhol gerði neyslusamfélagið að
sínu helsta viðfangsefni og eru stafl-
ar af handmáluðum Brillókössum
listamannsins af mörgum taldir
tímamótaverk í listasögunni. Hefur
bandaríski listfræðingurinn Arthur
C. Danto talað um Brillókassa War-
hols sem endalok eða dauða mynd-
listarinnar, þar sem listaverkið bæt-
ir engu við veruleikann nema út frá
heimspekilegri kenningu um list.
Mörgum hefur þótt Danto gera
Warhol að full heimspekilega þenkj-
andi listamanni og benda á að hann
hafi einfaldlega verið yfir sig num-
inn af yfirborðs-menningunni sem
hann bjó við og endurspeglaði hana
eins og hún lá fyrir honum.
Goðsagnir líðandi stundar voru
Warhol hjartkærar og árið 1962
gerði hann myndraðir af Marilyn
Monroe, Elvis Presley, Marlon
Brando o.fl. dáðum persónum. Þá
lagði Warhol jafnframt niður pens-
ilinn og fór að nota ljósmyndir og
silkiþrykk.
Warhol tók ekki bara fyrir glans
og glamor samfélagsins heldur líka
dekkri hliðar þess í svokölluðum
„Dauða og ógæfu seríunum“ (Death
and disaster series), en það eru
myndir af sjálfsmorðum, bílslysum,
atomsprengju, rafmagnstól, kyn-
þáttafordómum o.fl. sem hann vann
eftir fréttaljósmyndum.
Fígúran Andy
Þótt Andy Warhol hafi heyrt und-
ir popplist þá er oft litið á hann sem
frum-hugmyndalistamann (Proto-
conceptual artist), í líkingu við Yves
Klein og Piero Manzoni. Hann er
dæmi um listamann sem gaf listinni
hug sinn og líkama, líkt og hann
væri ekki til nema sem fígúran Andy
Warhol. Hann bar ávallt hvíta hár-
kollu og var með margskonar uppá-
tæki sem gerðu hann að goðsögn.
Warhol fékkst við kvikmyndagerð
og gerði mikinn fjölda kvikmynda og
eru sumar þeirra, s.s. „Trash“,
„Face“ og „Chelsea Girls“, nú sígild-
ar „költ“-myndir.
Vinnustofa Warhols var heimur
útaf fyrir sig og líktist helst
skemmtistað eða klúbbi. Hún var
kölluð „Verksmiðjan“ (Factory) og
sóttu þangað fjöldi manns dag
hvern, myndlistarmenn, rithöf-
undar, leikarar, poppstjörnur og svo
þeir sem vildu ganga í augun á War-
hol. Skapaðist m.a. sá siður á meðal
gesta Verksmiðjunnar að kalla
hvern þann sem var í uppáhaldi hjá
Warhol, „Súperstjörnuna“. Raun-
verulegar súperstjörnur urðu líka til
í verksmiðju Warhols. Hljómsveitir
tróðu þar upp og var ein þeirra The
Velvet Underground, með Lou Reed
og John Cale í fararbroddi, sem
Warhol tók undir sinn verndarvæng
og framleiddi þeirra fyrstu og bestu
breiðskífu.
Á áttunda áratugnum tók lista-
maðurinn upp pensilinn á ný og
gerði myndröð af Maó formanni.
Viðfangsefnið þótti ekki sérlega við
hæfi í Bandaríkjunum, ekki frekar
en „Sex parts“ serían þar sem lista-
maðurinn tók fyrir klám og samkyn-
hneigð.
Myndröðin af íþróttamönnum sem
er til sýnis í Fold kom í kjölfar „Sex
parts“ myndanna. Þetta eru 12
myndir, allar í eigu Bandaríkja-
mannsins Richards Weismans sem
ku hafa hvatt Warhol til að gera ser-
íuna. Þetta eru myndir af Muham-
mad Ali, Kareem Abdul Jabbar,
Jack Nicklaus, Pele o.fl. íþrótta-
goðsögnum sem stóðu upp úr á átt-
unda áratugnum. Myndirnar eru
þrykktar og handmálaðar, en mal-
eríið varð Warhol æ kærara upp úr
þessu.
Andy Warhol lést árið 1987 eftir
misheppnaðan uppskurð. Hann var
þá nýbúinn með sjálfsmyndaröð og
seríu af Kristmyndum. Áhrif War-
hols á samtímalistir eru gífurleg.
Hann gerði dægurmál að efniviði í
myndlistinni og opnaði þar með nýj-
ar gáttir í módernískri nálgun. Hann
var frjór og tilraunasamur myndlist-
armaður allt til hins síðasta og leyfi
ég mér að fullyrða að Andy Warhol
sé, ásamt samlanda sínum Jackson
Pollock og Þjóðverjanum Joseph
Beuys, einn af þremur mikilvægustu
myndlistarmönnum sem hafa komið
fram á sjónarsviðið síðan heims-
styrjöldinni síðari lauk.
Litið yfir
Warhol
Andy Warhol árið 1986.
Sýning á verkum Andy Warhols í Galleríi Fold vakti forvitni margra á Menningarnótt.
Eftir Jón B. K. Ransu
Morgunblaðið/Sverrir