Morgunblaðið - 20.08.2003, Blaðsíða 31
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. ÁGÚST 2003 31
sem allir voru velkomnir og alltaf
nóg til að bjóða gestum og gangandi.
Þegar börn Ingu og Jóns, barnabörn
og barnabarnabörn koma saman er
hávaðinn oft ærinn, allir vilja komast
að og hafa skoðanir á öllu og engu,
hlæja dátt og hátt. Mér skilst að
skarkalinn úr Bjarkarstígnum hafi
borist niður á höfn þegar allir voru
saman komnir.
Með Ingu hverfur svo margt, hún
hélt fjölskyldunni saman og var
þungamiðja hennar. Hún var sú sem
allir heimsóttu og hittu þá í leiðinni
hver annan. Höfðingleg og stórbrot-
in kona er horfin. Hennar verður
sárt saknað en sem betur fer eru
minningarnar margar og góðar til að
orna sér við þegar söknuðurinn gerir
vart við sig.
Bergdís Ellertsdóttir.
Inga ólst upp í Reykjavík en flutt-
ist til Akureyrar árið 1935 og reisti
þar bú með eiginmanni sínum, Jóni
G. Sólnes, fyrrverandi bankastjóra
Landsbankans á Akureyri. Hún bjó
þar til dauðadags.
Við systkinin kynntumst Ingu í
bernsku en móðir okkar, Valgerður
Björnsdóttir, var fóstursystir Jóns.
Alla tíð voru einstök tryggðabönd
milli Ingu, Jóns og barna þeirra og
fjölskyldu okkar og voru Inga og Jón
ávallt aufúsugestir á heimili foreldra
okkar. Jafnframt stóð heimili hennar
á Akureyri fjölskyldu okkar ætíð op-
ið. Inga var einkar skemmtileg kona,
ræðin og glaðlynd, opinská og einörð
í skoðunum. Hún var mikil húsmóðir
með næmt fegurðarskyn og bar
heimili hennar þess óspart vitni.
Dagsdaglega rak hún heimili sitt af
stakri prúðmennsku og festu, skilaði
dagsverki sínu með sóma og bar
ávallt mikla umhyggju fyrir sínum
nánustu, vinum og vandamönnum.
Hún hafði unun af heimilisstörfum
og matargerð og allt lék í höndum
hennar. Inga hafði mikla ánægju af
að bjóða gestum á heimili sitt og eld-
aði hún alltaf góðan mat. Hún var
sannkallaður höfðingi heim að sækja
og ávallt var glatt á hjalla í návist
hennar. Það var ávallt mikið til-
hlökkunarefni að heimsækja Ingu.
Inga hélt nánu sambandi við fjöl-
skyldu sína, börn, tengdabörn og
barnabörn og aðra venslamenn enda
félagslynd að eðlisfari. Kærleiksríkt
samband var milli Ingu og eigin-
manns hennar en eftir andlát Jóns
flutti Inga heimili sitt í minna og
þægilegra hús og bjó þannig í haginn
fyrir efri árin.
Með Ingu er gengin óvenjuleg
merkiskona sem allir í fjölskyldu
okkar munu sakna og minnast með
þakklæti og hlýjum huga. Síðustu
æviárin naut Inga frábærrar umönn-
unar barna sinna og barnabarna.
Blessuð sé minning hennar.
Helga Hannesdóttir.
Inga Sólnes var mér mjög kær.
Hún var vinkona mín og mágkona.
Ég fór ung til Akureyrar til að heim-
sækja hálfbróður minn, Jón Sólnes,
eiginmann Ingu, og upp frá því urð-
um við öll vinir. Vinátta okkar
styrktist þegar ég giftist og í ljós
kom að minn maður og Jón áttu
ákaflega vel saman og urðu mestu
mátar. Í gegnum árin áttu svo börn-
in okkar athvarf á heimilunum fyrir
norðan og sunnan. Dætur mínar
vildu helst vera í fríum hjá Ingu
frænku.
Við, þessi tvenn hjón, fórum fjöl-
margar ferðir saman til sólarlanda
og voru minningarnar frá þeim gleði-
stundum okkur Ingu dýrmætar.
Karlarnir spiluðu golf og við sátum í
sólinni og spjölluðum og hlógum.
Síðustu árin urðu samtöl okkar dýpri
og persónulegri. Þó að okkur þætti
gaman að tala um veðrið og Leið-
arljós þá töluðum við meira um heill
og hamingju barna okkar og þau at-
vik sem mótuðu ævileið okkar.
Það sem einkenndi Ingu var lífs-
gleði og atorka. Hún stýrði stóru
heimili af miklum myndarskap, ól
upp fimm börn og studdi mann sinn
bæði opinberlega og í einkalífi.
„Hvar er Inga?“ sagði Jón, og
Inga bjargaði málunum.
Inga lifði mjög skemmtilegu og
viðburðaríku lífi og það ekki hvað
síst vegna þess hvað hún var jákvæð
og bjartsýn. Hún átti sér ótal áhuga-
mál, las mikið fram til síðustu stund-
ar og fylgdist af áhuga með mönnum
og málefnum. Hún fór aldrei í hátt-
inn án þess að vera búin að skrifa í
dagbók sína. Hún gladdist yfir
hverri tilbreytingu og elskaði að
vera á mannamótum en var jafn-
framt sjálfri sér nóg og sagði að sér
leiddist aldrei. Hún náði háum aldri
en það var lítið verið að hugsa um
það, allir vildu vera hjá henni sjálfum
sér til skemmtunar.
Inga þurfti að fá aðstoð við ýmsa
hluti síðustu árin og voru börn henn-
ar boðin og búin til að rétta henni
hjálparhönd. Ég hef sjaldan vitað
unglinga eins og sonardætur hennar
í næsta húsi, þær Valgerði og Krist-
ínu, sem komu daglega til ömmu
sinnar og liðsinntu henni. Söknuður
þeirra er sár eins og okkar allra sem
kynntumst Ingu Sólnes.
Ég sendi börnum hennar og öðr-
um ættingjum mínar innilegustu
samúðarkveðjur.
Ásta.
Látin er góð vinkona mín, daginn
fyrir níutíu og þriggja ára afmælis-
daginn sinn.
Ég man alltaf þegar hún flutti í
götuna mína sem síðar varð sameig-
inleg gata okkar, þá þekkti ég hana
ekki nema af afspurn. Sérstaklega
man ég þegar Inga dóttir hennar
kom norður í heimsókn og ég heyrði
hláturgusurnar í þeim yfir götuna til
mín.
Síðar fékk ég tækifæri til að taka
þátt í gleðinni sem alltaf ríkti á þessu
heimili. Maður kom alltaf léttari í
lund frá henni Ingu minni.
Ég hef aldrei á ævi minni kynnst
konu sem hefur haft uppbyggilegri
áhrif. Farið var til hennar þegar eitt-
hvað mikið stóð til, eða lesa þurfti yf-
ir ritað mál, þá lagði hún blessun
sína yfir það. Handavinnu mína fór
ég með yfir til hennar að fá ráðlegg-
ingar og ekki stóð á þeim en Inga
hafði lagt mikla stund á prjónaskap
og útsaum meðan getan leyfði.
Hún vann til verðlauna hjá Leik-
félagi Akureyrar fyrir klukkustreng
í keppni sem haldin var í tengslum
við sýningu á leikritinu Klukku-
strengir eftir Jökul Jakobson. Það
var stolt kona sem fór upp á svið fyr-
ir hönd Ingu og tók á móti verðlaun-
unum.
Það er gaman að minnast þess
þegar Inga var að kenna mér að
strauja stutterma blússu í stóru
strauvélinni sinni og fórst mér það
frekar óhönduglega, ég stoppaði í
miðju kafi og sagði.
„Hvernig fórstu að því að strauja
allar skyrturnar af Jóni þínum?“
,,Ég lærði þetta allt af bæklingnum
sem fylgdi vélinni,“ svaraði Inga, síð-
an var hlegið.
Allt var svo auðvelt í orði hjá Ingu
og þvílík kæti og gleði sem umvafði
hana alla tíð og þau ár sem við áttum
samleið. Ég bið til guðs að þessi létt-
leiki fylgi mér þegar aldurinn færist
yfir. Þá er allt svo miklu auðveldara.
Hafðu þökk fyrir allar gleðistund-
irnar okkar saman, ég vildi bara að
þær hefðu orðið fleiri og ég kynnst
þér fyrr á ævinni.
Hildur Helgadóttir
(Hilla).
Þegar leið fram á vorið 1960 var
ljóst að ég þurfti að fá mér annað
herbergi, sem var verulega bagalegt
því stúdentspróf var framundan. Þá
varð mér það til happs að ég kynntist
þeim sæmdarhjónum Jóni og Ingu
Sólnes, en við Gunnar sonur þeirra
vorum bekkjarbræður. Þau tóku
mér opnum örmum og buðu mér að
búa á heimili þeirra að Bjarkarstíg 4
á Akureyri án nokkurs endurgjalds.
Frá fyrsta degi var eins og ég væri
kominn heim. Hjónin voru afar ólík
og þess vegna kannski gekk þetta
allt upp þrátt fyrir mikil umsvif
Jóns, sem var allt í öllu á Akureyri
og hafði mikilvæg verkefni víðar. Við
Gunnar vorum ekki endilega ætíð
reglusamir, iðnir eða agaðir náms-
menn, sem settust snemma að lestri
og stóðum seint upp frá honum.
Óþreyjan og vorgalsinn höfðu yfir-
höndina yfir skynsemi og skyldu-
rækni, þótt allt gengi þetta upp að
lokum. Inga hafði það á orði eitt sinn
hlæjandi er við birtumst syfjulegir
við morgunverðarborðið, eða var það
kannski í hádegismat, að það yrði
bara gaman að hafa okkur annan
vetur hjá sér. Engar ávítur eða for-
tölur, heldur gamansöm ísköld
áminning.
Í minningunni geymi ég mynd af
Ingu sem glæsilegri og einstaklega
glaðværri konu, sem geislaði af já-
kvæðri lífssýn. Mér leið ákaflega vel
í nærveru hennar og sóttist eftir því
að koma niður þegar ég vissi af henni
í eldhúsi eða í stofunni. Samræður
við hana kölluðu alltaf fram í mér
léttleika hugarfarsins, sem ekki var
mér alltaf sjálfgefinn. Eitt sinn benti
hún mér á hljómplötu sem lá inní
hillu og sagði að platan væri nýkom-
in til landsins og hún væri ekki frá
því að ég myndi hafa gaman af.
Þarna heyrði ég meðvitað sinfóníu
eftir Beethoven í fyrsta sinn.
Það var reyndar löngu kominn
tími til að ég þakkaði almennilega
fyrir þetta langa og gjöfula vor. Nú
þegar Inga hefur kvatt læt ég verða
af því. Þökk fyrir þá góðu alhliða að-
hlynningu og þá alúð sem ég naut hjá
Jóni og Ingu. Þetta var ógleyman-
legur tími.
Ég votta aðstandendum samúð
mína.
Þröstur Ólafsson.
Hvenær sem kallið kemur
kaupir sig enginn frí,
þar læt ég nótt sem nemur,
neitt skal ei kvíða því.
(Hallgrímur Pétursson.)
Sigurlaug Pétursdóttir.
HINSTA KVEÐJA
Ástkær faðir okkar, tengdafaðir og afi,
VILHJÁLMUR EMILSSON,
Laufási 7,
Egilsstöðum,
lést á Landspítalanum í Fossvogi, fimmtu-
daginn 14. ágúst.
Útförin fer fram frá Egilsstaðakirkju, laugar-
daginn 23. ágúst kl. 14.00.
Björg Vilhjálmsdóttir,
Emil Vilhjálmsson, Sigríður Bragadóttir,
Inga Emelie Deilein,
Jón Robert Deilein,
Sara Björk Emilsdóttir,
Eyrún Hlökk Þórhallsdóttir,
Steinunn Björk Þórhallsdóttir.
Elskulegur eiginmaður minn, faðir, afi og langafi,
ODDGEIR SIGURBERG JÚLÍUSSON,
andaðist laugardaginn 16. ágúst.
Útförin auglýst síðar.
Guðbjörg Bryndís Sigfúsdóttir,
Sigrún Júlía Oddgeirsdóttir,
Ágúst Oddgeirsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
Okkar ástkæri
ÓLAFUR KRISTINN SVEINSSON,
Sellátranesi,
sem lést fimmtudaginn 14. ágúst, verður
jarðsunginn frá Sauðlauksdalskirkju laugar-
daginn 23. ágúst kl. 14.00.
Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir, en
þeim, sem vilja minnast hans, er bent á Þyrlu-
sjóð Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitirnar Bræðrabandið, Blakk
og Tálkna.
Guðni Ólafsson, Inga Jóhannesdóttir,
Kristín Ólafsdóttir,
María Ólafsdóttir, Guðjón Bjarnason,
Sveinn Ólafsson, Steinunn Rán Helgadóttir
og aðrir aðstandendur.
Móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang-
amma,
MARGRÉT INGVARSDÓTTIR,
Hrafnistu,
Hafnarfirði
lést mánudaginn 18. ágúst.
Jarðarförin auglýst síðar.
Kristján Kristjánsson,
Vilborg Inga Kristjánsdóttir,
Ingvar Kristjánsson, Erla Nielsen,
Gíslína S. Kristjánsdóttir, Guðjón Oddsson,
Unnur Þ. Kristjánsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir, amma og langamma,
INGA ANNA GUNNARSDÓTTIR,
Arnarhrauni 18,
Hafnarfirði
lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi
sunnudaginn 17. ágúst sl.
Útförin fer fram frá Fossvogskirkju föstudaginn
22. ágúst kl. 10.30.
Benedikt Guðmundsson
og aðrir aðstandendur.
JÓHANN OLSEN
fyrrv. sjómannatrúboði,
andaðist á heimili sínu í Færeyjum mánudag-
inn 18. ágúst.
Jarðarförin fer fram í Rituvík fimmtudaginn
21. ágúst kl. 14.00.
Færeyska sjómannaheimilið.
Elskulegur eiginmaður minn, stjúpfaðir, faðir
okkar, tengdafaðir, afi og langafi,
JÓN AXELSSON
kaupmaður,
Nónvörðu 11,
Keflavík,
lést á hjartadeild Landspítalans Háskólasjúkra-
húss þriðjudaginn 19. ágúst.
Jarðarförin auglýst síðar.
Bergþóra Þorbergsdóttir,
Guðmundur Jóelsson, Anna Margrét Gunnarsdóttir,
Axel Jónsson, Þórunn Halldórsdóttir,
Vignir Jónsson, Marteinn Tryggvason,
Þorsteinn Jónsson, Katrín Hafsteinsdóttir,
Íris Jónsdóttir, Gylfi Kristinsson,
barnabörn og barnabarnabörn.