Morgunblaðið - 22.02.2004, Page 31
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. FEBRÚAR 2004 31
svonefndum hryðjuverkahópi sem
kenndur var við Erich Wollenberg
og Max Hoelz. Meðal þeirra var
Abram Rosenblum.
Ofsóknaræði
Reinhard Müller byggir verk sitt
að langmestu leyti á rússneskum
skjalasöfnum, og vega þar söfn
NKVD og Komintern, alþjóðasam-
bands kommúnista, þyngst. Þessi
söfn opnuðust að verulegu leyti eft-
ir upplausn Sovétríkjanna 1990/91,
og vörpuðu þá nýju og skýrara ljósi
á örlög þúsunda útlaga í Sovétríkj-
unum á fjórða áratugnum; að sögn
Müllers er þó verið að takmarka að-
gang að þessum söfnum aftur og
áframhaldandi rannsóknir geta orð-
ið erfiðari. En hann hefur komist í
mjög mikið af skjölum við rann-
sóknir sínar á afdrifum Wollenberg-
Hoelz-hópsins. Til skýringar er rétt
að geta þess að Erich Wollenberg
var þýskur vinstriandstöðumaður
sem tókst að flýja frá Sovétríkjun-
um 1934, og beindi harðri gagnrýni
að stjórnarháttum Stalíns frá ýms-
um stöðum útlegðar sinnar, en Max
Hoelz var afar óstýrilátur þýskur
byltingarsinni sem fórst við dular-
fullar kringumstæður í Sovétríkj-
unum 1933. Þessir menn, og þó
einkum Wollenberg, komu sér vel
þegar smíða þurfti samsæriskenn-
ingar til réttlætingar ofsóknum á
hendur löndum þeirra meðal útlaga
í Moskvu. Þeir voru sagðir hafa
myndað „trotskíískan hryðjuverka-
hóp“, sem m.a. hefði ætlað sér að
myrða yfirmann þungaiðnaðarins í
Sovétríkjunum, Grigori Ordsoni-
kidse. Það var mjög til siðs hjá
NKVD að kenna hryðjuverkamenn
við frægasta andstæðing Stalíns í
hópi fyrrum kommúnistaleiðtoga,
þ.e. Leon Trotskí sem hrakist hafði
í útlegð seint á þriðja áratugnum;
síðar bættist Sinovév við, og var þá
einatt talað um „trotskíísk-sinovév-
íska skemmdarverkahópa“, og loks
Búkarín sem dæmdur var í þriðju
Moskvuréttarhöldunum, og voru þá
„búkarínistar“ orðnir skelfilegustu
menn sem vitað var um. Samsær-
ishóparnir voru nefndir eftir þess-
um foringjum, og jafnan sakaðir um
að undirbúa atlögur að þeim for-
ystumönnum sem voru Stalín ennþá
þóknanlegir, svo lengi sem það
varði.
Wollenberg-Hoelz-hópurinn var
einsog aðrir slíkir hreinn tilbúning-
ur. Staðfestingar tilvistar hans var
aflað með yfirheyrslum, pyntingum,
fölskum játningum og gagnkvæm-
um kærumálum. Aðilar hópsins
vissu yfirleitt ekki nokkurn skap-
aðan hlut í upphafi, en voru ýmist
hræddir eða píndir til sagna sem
búið var að semja áður. Það er hægt
að geta sér til um það andrúmsloft
sem myndast þegar hópur manna í
útlegð frá heimalandi sínu á stöðugt
yfir sér handtökur byggðar á ger-
samlega tilhæfulausum kærum, og
eru svo um leið hvattir til þess með
linnulausum áróðri að segja til fé-
laga sinna, vina og fjölskyldu.
Alls staðar voru óvinir Sovétríkj-
anna á sveimi. Það varð glæpur að
hafa hitt Wollenberg í útlegðinni í
Prag, eða hafa hitt mann sem hitti
hann, eða vera tengdur fjölskyldu-
böndum manni sem hitti mann sem
kannaðist við Wollenberg.
Tökum dæmi af Hans Schiff.
Hann var fæddur í Karlsruhe 1896,
barðist í fyrri heimsstyrjöldinni,
gekk í samtök spartakista, forvera
þýska kommúnistaflokksins, 1918;
sat inni í þrjú ár í Þýskalandi fyrir
byltingarstarfsemi, fékk svo starf
við blöð kommúnista, kom til
Moskvu 1930 og vann fyrir Kom-
intern og gerðist einnig leynilegur
starfsmaður NKVD, 1935 starfaði
hann við blað í borginni Kharkov,
og 1937 var hann ráðinn að
Deutsche Zentral-Zeitung í
Moskvu. Schiff reyndi sitt besta til
að bjarga eigin skinni með því að
„koma upp um“ samsærismenn allt
í kringum sig, og sendi margar
skýrslur um starfsemi óvinanna til
NKVD. Samviskusemi hans leiddi
hann á æ fáránlegri brautir og
þannig sendi hann inn mikla skýrslu
um geðveika konu sem var betlari í
Simferopol. Þar sagði m.a. að vissu-
lega væri konan brjáluð, „en mér
virðist eftir sem áður að ekki aðeins
hjá þessari konu, heldur líka hjá
nokkrum öðrum betlurum, sem
betla eða öllu heldur heimta fé við
pósthúsið og í stórverslunum, sé
líka um ákveðinn pólitískan gagn-
byltingarsinnaðan áróður að ræða“.
Schiff benti ennfremur á ýmsar at-
lögur skólanemenda að kennurum
sem hann frétti af í næsta nágrenni
sínu, og tortryggði mjög „borgara-
legan bróður“ sinn, Peter, sem bjó
líka í Sovétríkjunum. Hann fékk
stöðu á ritstjórn DZZ í júlí 1937,
þar sem Vera Hertzsch var þá að
vinna, en þrátt fyrir árvökult starf
sitt var hann handtekinn aðeins
nokkrum vikum síðar, sakaður um
að vera félagi í „hinum trotskíiska
hryðjuverkahóp Wollenberg“.
Schiff trúði ekki sínum eigin aug-
um, og tveimur dögum eftir hand-
tökuna sendi hann Ésov innanrík-
isráðherra skilaboð um að hér hlyti
einhver misskilningur að vera á
ferðinni. 12. september skrifaði
hann úr yfirfullum fangaklefa But-
yrskaja-fangelsisins, þar sem hann
mátti dúsa með 110 öðrum föngum,
bréf sínum „kæra félaga Stalín“,
þar sem hann leitaði ásjár hans og
hjálpar. Bréfinu lýkur á orðunum:
„Ég bið yður félagi Stalín, hjálpið
þér mér, þjóðhollum flokksfélaga
sem fram til hinsta andardráttar er
trúr flokknum og yður, minn tryggi
félagi Stalín, og hjálpið þér þar með
flokknum okkar.“
En slíkar beiðnir komu fyrir lítið,
og það hófust margra vikna yfir-
heyrslur yfir Hans Schiff með til-
heyrandi pyndingum, þar sem
endalaust var reynt að þvæla hon-
um inn í að játa á sig og fjölmarga
kunningja sína áform um hryðju-
verk að undirlagi Wollenbergs.
Hans Schiff hafði ekki undan að játa
og var dæmdur til dauða fyrir aðild
að hryðjuverkahóp; hinn 8. desem-
ber 1937 var hann leiddur fyrir af-
tökusveit á sérstöku svæði sem
NKVD hafði til umráða í úthverfinu
Butovo við Moskvu. Nú er vitað um
20.765 manns sem teknir voru af lífi
á þessu torgi frá 8. ágúst til 19.
október 1937. Þennan desemberdag
sem Hans Schiff lauk lífi sínu voru
473 manns skotnir í Butovo.
Yfirheyrsluaðferðir
Oft hefur þeirri spurningu verið
velt upp hvernig á því stendur að
harðsvíraðir byltingarmenn, sem
tekið höfðu margan slag í sínu lífi,
játuðu á sig fjarstæðukenndustu
glæpi, sem þeir gátu sannanlega
ekki hafa framið, við yfirheyrslur í
Moskvu. Og vissulega voru þeir til
sem fórnuðu sjálfum sér vegna þess
að þeir trúðu á málstað flokksins
sem hlyti að hafa rétt fyrir sér. En
einatt voru játningar líka fengnar
fram með því að hóta föngum eða
fjölskyldum þeirra, eða bara pynda
þá. Margt er vitað um þessa ógn-
vekjandi tíma vegna þess að stund-
um féllu böðlarnir sjálfir í ónáð; þá
þurfti að safna glóðum elds að höfði
þeim og þær skýrslur liggja nú fyrir
í skjalasöfnum. Þannig fór um sjálf-
an Ésov sem handtekinn var síðla
árs 1938, og þannig fór um annan
háttsettan yfirmann NKVD, Frin-
ovski, sem tekinn var höndum 6.
apríl 1939.
Frinovski skrifaði Bería bréf
tveim vikum seinna, og lýsti meðal
annars aðferðum við að berja fanga:
„Barsmíðasveitirnar voru samsett-
ar úr tæknilegum starfsmönnum.
Þessir menn þekktu ekki til yfir-
heyrsluefnisins, heldur voru þeir
sendir í Lefortovo-fangelsið, náðu í
fangana og tóku til við að berja þá.
Haldið var áfram að berja gæslu-
varðhaldsfangann þar til hann lýsti
sig reiðubúinn að leysa frá skjóð-
unni.“ Þá voru þeir leiddir fyrir
rannsóknarmenn sem tóku af þeim
skýrslur. Sjá má að þetta samspil
milli harðsvíraðra barsmíðamanna
og skilningsríkra rannsóknardóm-
ara er ekki ósvipað því sem lýst er í
verki Arthurs Koestlers, Myrkur
um miðjan dag.
Meðal þess sem fundist hefur í
skjalasöfnum er átakanlegur vitn-
isburður um yfirheyrsluaðferðirnar
frá Hugo Eberlein, sem skrifaði
konu sinni bréf úr fangelsi 1939,
sem Reinhard Müller birti fyrstur
manna. Hugo Eberlein var fæddur
1887, gekk í flokk þýskra sósíal-
demókrata 1906, í spartakussam-
bandið 1916, gerðist einn af stofn-
endum þýska kommúnistaflokksins
og Komintern og kom til Sovétríkj-
anna 1936. Hann var handtekinn 26.
júlí 1937, skv. „þýsku tilskipuninni“.
Í bréfi hans segir: „Eftir handtök-
una sat ég inni til 19.1. 1938 án þess
að vera yfirheyrður. 19. janúar 1938
hófst yfirheyrslan sem stóð án af-
láts í tíu daga og nætur. Ég var lát-
inn standa allan tímann án svefns
og nánast án matar. Yfirheyrslan
fólst í því að á mig voru bornar fá-
ránlegustu sakir og um leið var ég
barinn eða sparkað í mig, svo ég gat
aðeins staðið með skelfilegum
verkjum. Húðin sprakk og blóð
safnaðist í skóna. Nokkrum sinnum
leið yfir mig. Þá hneig ég niður og
var fluttur á brott. Um leið og ég
rankaði við mér varð ég að standa
aftur. Krafist var að ég undirritaði
játningu þess efnis að ég sé njósnari
og hryðjuverkamaður og að ég hafi
skipulagt bandalag hægri aflanna
og trotskíista fyrir Pjanitzki. Það er
ekki orð satt af þessu. Ég neitaði að
skrifa undir þessi kæruatriði.“
Yfirheyrslur héldu áfram, Eber-
lein neitar enn, og í apríl er hann
fluttur í Lefortovo-fangelsið, þar
sem skelfilegar barsmíðar hefjast
að nýju uns öll húð var farin af bak-
inu: „Vikum saman gat ég ekkert
heyrt með öðru eyranu og ekkert
séð með öðru auganu (…) Það komu
dagar, þar sem mér voru gefnar
þrjár til fjórar morfínsprautur á
dag, en síðan var haldið áfram að
berja mig.“ Veikleiki fyrir hjarta
gerði vart við sig og astma úr æsku
tók sig upp að nýju. Í slíku ástandi
byrjaði Eberlein að skrifa undir
sum ákæruatriðanna, en þó vildi
hann ekki játa á sig njósnir og
hermdarverk, og hann reyndi að
afturkalla játningarnar þegar bráði
af honum á sjúkrahúsi. Í maí 1939
var hann dæmdur í fimmtán ára
fangabúðavist, en tveimur árum síð-
ar var hann fluttur aftur í Butyrka-
fangelsið, „mál“ hans tekið fyrir að
nýju og hann dæmdur til dauða. 16.
október 1941 var þessi frumkvöðull
þýskra byltingarsinna skotinn.
Herbert Wehner
Til er margvíslegur vitnisburður
um það vaxandi andrúmsloft ótta,
tortryggni, einangrunar og raunar
„félagslegs dauða“ sem breiddist út
meðal útlaganna í Moskvu þegar
leið á fjórða áratuginn. Menn þorðu
ekki út fyrir hússins dyr, sjálfsmorð
voru algeng og til voru þeir sem
sóttu jafnvel um að fá að snúa til
Þýskalands aftur, þótt Gestapo biði
þeirra þar. Í bernskri von um að
leiðtogar Sovétríkjanna vissu ekki
um ástandið skrifuðu sumir útlag-
anna þeim og leituðu ásjár. Þannig
skrifaði þýski kommúnistinn Franz
Schwarzmüller 23. apríl 1939 bréf
stílað á Stalín, Molotov, Bería, Dim-
itrov og fleiri og sagði meðal ann-
ars: „Þýska útlagasamfélagið hér er
algerlega sundrað. Hver maður lifir
fyrir sig innan sinna fjögurra
veggja af ótta við að vera dreginn
inn í handtökur í kunningjahópnum
eða vera rægður“; tómarúm mynd-
aðist í kringum þá sem menn áttu
von á því að yrðu handteknir næst,
annað fólk umgekkst þá einsog
smitbera.
Í þessu andrúmslofti voru þeir
líka til sem reyndu að treysta eigin
tilveru með því að segja til annarra,
koma upp um samsærismenn í hópi
útlaganna. Meðal þeirra var Her-
bert Wehner, sem á Moskvuárum
sínum var kominn í forystusveit
þýska kommúnistaflokksins. Wehn-
er komst til Svíþjóðar á styrjald-
arárunum, og þar sagði hann skilið
við kommúnista og gekk í raðir sósí-
aldemókrata. Á sjöunda og áttunda
áratugnum var Wehner einn helsti
forystumaður þýskra sósíaldemó-
krata, ásamt Willy Brandt og Helm-
ut Schmidt; meðal annars var hann
lengi formaður þingflokks þeirra.
Hann dró ekki fjöður yfir fortíð sína
sem kommúnisti, en það er ekki
fyrr en með opnun skjalasafnanna í
Rússlandi sem komið hefur í ljós
hversu handgenginn hann var
NKVD. Að sönnu er vitað að fjöldi
manna sagði til félaga og vina við
yfirheyrslur hjá sovésku leynilög-
reglunni, einfaldlega til að bjarga
lífi sínu, og enginn verður meiri
maður af því að setja sig í móralsk-
ar stellingar yfir slíku fólki, sem
einatt var sjálft fórnarlamb of-
sókna.
Deilur sem orðið hafa um hlut
Wehners í Þýskalandi á síðustu ár-
um, ekki síst eftir sjónvarpsþátt
sem sýndur var hjá ARD-stöðinni
haustið 2002 og byggður var á rann-
sóknum Müllers, snúast um það
hvort hann hafi fremur verið ger-
andi en fórnarlamb. Reinhard Müll-
er aðhyllist hið fyrrnefnda. Hann
bendir á að Wehner hafi fjórum
sinnum árið 1937 farið á fund
NKVD-manna í hinni illræmdu
Ljubanka-byggingu til að gera
grein fyrir starfsemi trotskíista og
búkarínista meðal róttækra þýskra
útlaga. En mikilvægasta sönnur-
gagn Müllers er skýrsla sem We-
hner samdi fyrir Komintern í lok
janúar 37, „Framlag til rannsóknar
á moldvörpustarfsemi trotskíista í
þýsku andfasísku hreyfingunni“,
sem hann jók við annarri skýrslu 9.
febrúar um „klofningshópa“ í sömu
hreyfingu, og má nærri geta að þar
lék Wollenberg stórt hlutverk og
ímyndaðir sendiboðar hans í
Moskvu. Müller telur að skýrslur
Wehners hafi beinlínis lagt grunn
að tilskipun Ésovs frá 14. febrúar
1937 um þvingunaraðgerðir gegn
„þýskum trotskíistum“, enda voru
partar úr þeim notaðir orðréttir í
fylgiskjali með fyrirskipuninni, sem
aftur leiddi til þess að fjöldi þýskra
útlaga var handtekinn í framhald-
inu.
Í umfjöllun þýskra stórblaða og
tímarita einsog Der Spiegel um
sjónvarpsþáttinn var talið að Müller
hefði fært sterk rök fyrir því máli
sínu að Wehner hafi í raun stuðlað
að handtökum, fremur en að vera
aðeins verkfæri leynilögreglunnar.
Víst er að bókar sem Müller hefur
boðað í haust, og heitir einfaldlega
„Herbert Wehner Moskva 1937“, er
beðið með eftirvæntingu meðal
áhugamanna um þýska stjórnmála-
sögu. Þess má geta að í desember
1937, þegar sú píslarganga Hugo
Eberlein sem að ofan er rakin var
rétt byrjuð, taldi Wehner ástæðu til
að heimsækja Ljubanka-stöðvarnar
að nýju og gefa ítarlega skýrslu um
skemmdarverkastarfsemi „Eber-
lein-hópsins“.
Deutsche Zentral-Zeitung
Allmörg blöð og tímarit voru gef-
in út á þýsku í Sovétríkjunum á
fjórða áratugnum. Eitt það þekkt-
asta var Deutsche Zentral Zeitung,
sem stofnsett var 1926, meðan enn
gætti áhrifa frá hinni upphaflegu
hugmynd rússnesku byltingar-
mannanna um að efla starf meðal
þjóðernisminnihluta. Þannig var
blaðið hugsað sem málgagn þýsku-
mælandi minnihlutans í Rússlandi;
eða öllu heldur málgagn stjórnar-
innar handa þessum minnihluta, því
blaðið fylgdi í hvívetna línu stjórn-
valda, og undirtitill þess var „mál-
gagn aðalskrifstofu þýsku deildar-
innar við miðstjórn Kommúnista-
flokks Sovétríkjanna“. Þegar kom
fram á fjórða áratuginn varð blaðið í
vaxandi mæli vettvangur þýskra út-
laga, reyndi að höfða til þýskra iðn-
aðar- og verkamanna sem störfuðu í
Rússlandi og birti einnig tvisvar í
mánuði sérblað um bókmenntir;
margir þýskir útlagar fengu þarna
vinnu um skeið. Slíkt var öðru frem-
ur atvinnu- og afkomukostur, því
blaðið hélt auðvitað fast við hina op-
inberu línu, og hvatti þannig einatt
til harðra aðgerða gegn „gagnbylt-
ingarsinnuðum hryðju-
verkasamtökum“ einsog Wollen-
berg-hópnum. Engu að síður
tortryggðu sovésk stjórnvöld blaðið
og það fór ekki varhluta af hand-
tökum og brottrekstrum þegar leið
á fjórða áratuginn.
Sagnfræðingurinn Oleg Dehl hef-
ur fjallað um örlög blaðsins og
starfsmanna þess og bendir m.a.
Carola Neher á sovéskri fangamynd.
Vera Hertzsch. Leikhússtjarnan Carola Neher.
Herbert Wehner.
’ Alls staðar voruóvinir Sovétríkjanna
á sveimi. Það varð
glæpur að hafa hitt
Wollenberg í
útlegðinni í Prag,
eða hafa hitt mann
sem hitti hann. ‘