Morgunblaðið - 07.05.2004, Side 57
ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 7. MAÍ 2004 57
Snorri hefur stimplað sig meðglæsibrag inn í þýsku 1. deild-
ina en hann gekk í raðir Grosswall-
stadt frá Val síðast-
liðið sumar og hefur
staðið sig afar vel í
hlutverki leikstjórn-
anda í sterkustu
deild í heimi. Snorri hefur byrjað
inná í öllum leikjum Grosswallstadt
á leiktíðinni og er næst markahæsti
leikmaður liðsins með 118 mörk í 32
leikjum og aðeins þýski landsliðs-
maðurinn Heiko Grimm hefur skor-
að fleiri, 143. En nú þegar fyrsta
tímabili Snorra í Þýskalandi er að
ljúka leikur manni forvitni á að vita
hvernig honum hafi líkað og breyt-
inguna að spila í þessari sterku
deild?
„Mér hefur líkað mjög vel og
þetta er nánast allt annar heimur ef
ég ber þetta saman við heima. Tíma-
bilið hefur verið mér gríðarlega lær-
dómsríkt. Maður hleypur nánast á
vegg um hverja helgi og ég er að
upplifa, þegar ég spila með Gross-
wallstadt, svipað og þegar ég spilaði
með Val hérna um árið á móti KA í
úrslitaleikjunum um Íslandsmeist-
aratitilinn. Í hverjum leik þarf ég að
að ná fram mínu besta ef ég ætla að
standa mig. Ég get ekki leyft mér að
ætla að leika á hálfum hraða. Ef ég
legg mig ekki 100% fram allan tím-
ann þá er ég bara lélegur.“
Spilað meira en ég bjóst við
Snorri segist ekki hafa reiknað
með að fá að spila jafnmikið og hann
hefur gert á tímabilinu? „Ég er bú-
inn að spila miklu meira heldur en
ég átti von á enda á fyrsta árinu
mínu hérna úti. Ég hef byrjað inná í
hverjum einasta leik og svo fram-
arlega sem ég stend mig þá er mér
ekki skipt út af. Ég get því alveg
verið sáttur við tímabilið þó svo að
maður vilji alltaf gera betur.“
Grosswallstadt er í áttunda sæti
og kemst ekki ofar en Snorri segir
að árangur liðsins á tímabilinu sé
betri en margir reiknuðu með.
„Það reiknuðu sumir með að við
yrðum í fallbaráttu. Við fengum
marga nýja menn fyrir tímabilið og
fyrir vikið vorum við töluvert óskrif-
að blað en þetta hefur bara gengið
ágætlega hjá okkur og það er umtal-
að að við höfum komið á óvart.“
Snorri segist hlakka til að fá Ein-
ar Hólmgeirsson til liðs við Gross-
wallstadt í sumar en stórskyttan
unga úr ÍR gerði í vetur tveggja ára
samning við lið Snorra.
„Það er mikill hugur í forráða-
mönnum Grosswallstadt og þeir
vilja komast ofar á næsta tímabili og
berjast um að komast í Evrópu-
keppnina. Grosswallstadt er forn-
frægt lið og maður finnur fyrir mikl-
um metnaði í röðum félagsins. Það
verður gaman að fá Einar hingað og
einn Íslendinginn til viðbótar í deild-
ina.“
Snorri fær lítið sem ekkert frí eft-
ir tímabilið í Þýskalandi. Þá tekur
landsliðið við en það keppir við Ítali
síðar í mánuðinum um sæti í á HM í
Túnis á næsta ári og í kjölfarið hefst
undirbúningur fyrir Ólympíuleik-
ana.
„Það eru annir fram undan hjá
landsliðinu og það er bara mjög
gaman. Það er alltaf mikið stuð að
æfa og spila með landsliðinu og auð-
vitað er mikill hugur í okkur enda
stór verkefni fram undan.“
Morgunblaðið/Günter Schröder
Snorri Steinn Guðjónsson er hér í leik með TV Grosswallstadt.
Guðmundur
Hilmarsson
skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik,
ánægður með fyrsta tímabil sitt með Grosswallstadt í Þýskalandi
„Ég hleyp á vegg
um hverja helgi“
„ÞETTA eru sem betur fer ekki alvarleg meiðsli. Ég kom illa niður á
mjöðmina og þetta leit, satt best að segja, ekki vel út. Ég er mjög
aumur í mjöðminni en það eru tíu dagar í næsta leik svo ég fæ góð-
an tíma til að jafna mig,“ sagði landsliðsmaðurinn Snorri Steinn
Guðjónsson, leikmaður þýska liðsins Grosswallstadt, við Morg-
unblaðið. Snorri meiddist undir lok leiksins gegn Wallau Massen-
heim í fyrrakvöld, eftir viðskipti við félaga sinn í landsliðinu, Rúnar
Sigtryggsson.
SASA Komlenic, bosníski knattspyrnumarkvörðurinn sem
hefur verið í herbúðum Keflvíkinga síðustu þrjár vik-
urnar, verður að öllu óbreyttu ekki með liðinu í sumar.
„Þetta er ágætismarkvörður og við hefðum vel getað
notað hann. Ólafur Gottskálksson hefur hins vegar staðið
sig mjög vel og verður að öllu óbreyttu í markinu hjá okk-
ur í sumar. Auk þess hefur Magnús Þormar leikið vel með
okkur þannig að við erum vel settir hvað markverði varð-
ar. Ef önnur íslensk lið hafa áhuga á Komlenic er þeim
velkomið að setja sig í samband við okkur,“ sagði Rúnar
Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, við
Morgunblaðið í gær.
Rúnar sagði ennfremur að ekki hefði borist formlegt
tilboð frá Zürich í Sviss í Harald Frey Guðmundsson, að-
eins munnlegt, og á meðan svo væri yrði því ekki svarað.
„Haraldur er væntanlegur heim í lokaundirbúninginn
með okkur fyrir Íslandsmótið og svo kemur framhaldið í
ljós hjá honum,“ sagði Rúnar.
Komlenic ekki í
marki Keflavíkur
ÞÓRA B. Helgadóttir, landsliðsmarkvörður í knatt-
spyrnu, hefur ákveðið að taka boði norska félagsins
Kolbotn og fara þangað síðar í þessum mánuði – eftir
landsleik Englands og Íslands í Peterborough hinn 14.
maí. Kolbotn bauð Þóru til sín fyrir nokkru en hún
hefur ákveðið að reyna fyrir sér erlendis, eins og áður
hefur komið fram.
„Ég reikna með því að koma heim í nokkra daga
eftir landsleikinn í Englandi en fara síðan til Kolbotn
og líta þar á aðstæður. Annars hef ég lítinn tíma haft
til að vinna í öllum þessum málum að undanförnu,“
sagði Þóra við Morgunblaðið í gær en hún útskrifast
frá háskóla í Bandaríkjunum um næstu helgi og er þá
á heimleið.
Þóra hefur leikið með KR undanfarin tvö ár. KR
hefur fengið til sín tvo markverði í staðinn fyrir hana,
Maríu B. Ágústsdóttur, varamarkvörð landsliðsins,
frá Stjörnunni og Petru F. Bragadóttur frá ÍBV.
Þóra til Kolbotn
eftir landsleikinn
Þrjár þjóðir keppa
um EM 2006 og 2008
ÞRJÁR þjóðir keppast um að fá að halda Evrópumeistaramótið í
handknattleik karla árið 2006 og 2008. Þetta eru Danir, Norðmenn
og Svisslendingar.
Ákveðið verður hvar þessi mót verða haldin á þingi Handknatt-
leikssambands Evrópu sem fram fer á Nikósíu á Kýpur um helgina.
Til stóð að Þjóðverjar yrðu gestgjafar EM 2006 en eftir að þeim var
úthlutað HM 2007 ákváðu Þjóðverjar að gefa mótshald EM 2006 upp
á bátinn.
Auk þess að sækja um að halda EM karla 2006 og 2008 stefna Dan-
ir einnig á að fá annað EM kvenna annað hvort árið, en gríðarlegur
áhugi er fyrir kvennahandknattleik í Danmörku auk þess sem móta-
hald og framkvæmd EM 2002 í kvennahandknattleik tókst vel hjá
Dönum.
Til stendur að EM 2006 fari fram frá 26. janúar til 5. febrúar. Dan-
ir bjóða eftirtalda keppnisstaði; Árósar, Álaborg, Farum, Kolding og
Herning. Norðmenn bjóða upp á Þrándheim, Drammen, Stavangur,
Bergen og Lillehammer og Sviss uppá Basel, Bern, St. Gallen,
Sursee og Zürich. Ráðgert er að EM 2008 í karlahandknattleik
standi yfir frá 17. til 27. janúar.
DANÍEL Þór Midgeley, sem er á
sextánda ári, varð á dögunum meist-
ari í körfuknattleik með skóla sínum
í Kanada þar sem hann býr. Daníel
Þór er frá Ísafirði og varð Ný-
fundnalands- og Labradormeistari
með Booth Memorial skólanum sem
hann gengur í. Drengirnir sem
keppa í þessari deild eru 17 ára og
eldri og keppir pilturinn því upp fyr-
ir sig í aldursflokki.
STEFÁN Logi Magnússon knatt-
spyrnumarkvörður er genginn til
liðs við 1. deildar lið Þróttar í
Reykjavík. Stefán Logi var í herbúð-
um Víkinga um skeið í fyrra en
hætti. Áður var hann víða erlendis,
lék m.a. með unglingaliði Bayern
München og var síðan hjá Öster í
Svíþjóð, Farum í Danmörku og
Bradford í Englandi.
HOLLENSKUR umboðsmaður
Hen Van Ginkel segir við netmið-
ilinn calciomercato.com að hollenski
landsliðsmaðurinn Jaap Stam verði
leikmaður ítalska meistaraliðsins AC
Milan á næstu leiktíð.
STAM er í herbúðum Lazio og hef-
ur verið þar frá því að hann var
keyptur frá enska liðinu Manchester
United. „Það er búið að ganga frá
tveggja ára samingi við leikmanninn
og félögin hafa komist að samkomu-
lagi,“segir Ginkel en Lazio hefur átt
í gríðarlegum fjárhagserfiðleikum
undanfarin ár og félagið hefur
ákveðið að selja Stam í stað þess að
hann fari frá félaginu á næsta ári án
þess að Lazio fái greitt fyrir leik-
manninn.
STAM vakti fyrst athygli sem leik-
maður PSV í heimalandi sínu en
hann fór til Manchester United árið
1998 þar sem hann vann m.a. Meist-
aradeildina árið 1999 en hann átti
síðan í útistöðum við Alex Ferguson
knattspyrnustjóra liðsins og var
seldur til Lazio árið 2001.
JACKSON Ricdardson, hand-
knattleiksmaður kunni, verður fána-
beri Frakka við setningarathöfn Ól-
ympíuleikana í Aþenu í sumar.
Ridhardson á að baki 383 landsleiki
fyrir Frakka og er orðinn 35 ára
gamall. Hann hyggst hætta að leika
með franska landsliðinu eftir Ólymp-
íuleikanna.
JERMAIN Defoe, miðherji Tott-
enham, segir að forráðamenn liðsins
eigi að ræða við Claudio Ranieri,
knattspyrnustjóra Chelsea, ef þeir
vilja fá góðan starfskraft á White
Hart Lane. Þetta sagði hann í gær í
útvarpsviðtali við BBC í London.
„Það er hreint ótrúlegt að hann sé á
förum frá Chelsea, hann er góður
knattspyrnustjóri, sem hefur gert
góða hluti hjá Chelsea, en þar hafa
menn á bæ vegið ódrengilega að hon-
um. Ef Tottenham fengi Ranieri yrði
það frábært fyrir liðið þar sem hann
er frábær knattspyrnustjóri,“ sagði
Defoe sem er framtíðarleikmaður
með enska landsliðinu.
FÓLK
GUÐJÓN Valur Sigurðsson, lands-
liðsmaður í handknattleik, þarf að
gangast undir aðgerð á fæti en hef-
ur frestað henni um óákveðinn
tíma. Essen, félag hans í Þýska-
landi, vildi ekki að hann færi í hana
strax og sleppti þremur síðustu um-
ferðunum í þýsku 1. deildinni, eins
og hann óskaði eftir. Í framhaldi af
því ákvað Guðjón Valur að fara ekki
í hana fyrr en í fyrsta lagi í haust,
eftir Ólympíuleikana í Aþenu.
„Þetta er ekki stórmál og truflar
mig ekkert, og læknarnir segja að
aðgerðin megi bíða. Æð í fætinum
tútnar út við álag, æðalokurnar
stöðva ekki blóðflæðið eins og þær
eiga að gera, en þetta skiptir engu
máli varðandi mín hlaup, stökk eða
hraða. Ég vildi ekki missa af leikj-
unum við Ítalíu í undankeppni HM
í vor, og ekki fórna mínu stutta
sumarfríi í þetta, en svona aðgerð
kallar á 10-14 daga hvíld,“ sagði
Guðjón Valur við Morgunblaðið í
gær.
Guðjón frestaði aðgerð