Morgunblaðið - 15.02.2005, Blaðsíða 18
18 ÞRIÐJUDAGUR 15. FEBRÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNSTAÐUR
SUÐURNES
LANDIÐ
Reykjanesbær | Konur í stjórnunar-
og áhrifastöðum á Suðurnesjum
lýsa sig reiðubúnar til að takast á
hendur störf í stjórnum fyrirtækja
og samtaka. Kemur það fram í
ályktun ráðstefnunnar Konur –
aukin áhrif á vinnumarkaði sem
efnt var til í Reykjanesbæ. Þar var
tekið undir gagnrýni á það hversu
fáar konur eru í stjórnum fyr-
irtækja og samtaka, ekki síst lífeyr-
issjóða.
Ráðstefnan var haldin að frum-
kvæði nokkurra kvenna á Suð-
urnesjum. „Hugmyndin kom frá
einni úr hópnum, eftir að hún las
bókina Undir glerþakinu. Karlmenn
eru duglegir að búa til sitt tengsl-
anet og það hjálpar þeim að ná
frama. Það þarf að vita eitthvað um
viðkomandi til að mæla með honum
í nefnd eða stöðu. Hugmynd okkar
var að búa til tengslanet fyrir konur
og um leið að styrkja þær til að
koma á slíkum tengslum við karla.
Nota þannig aðferðir karlanna til
að ná árangri,“ segir Hjördís Árna-
dóttir, félagsmálastjóri Reykjanes-
bæjar. Hún sat í undirbúnings-
hópnum ásamt Unu Steinsdóttur,
útibússtjóra Íslandsbanka og Huldu
Björk Þorkelsdóttur, forstöðu-
manni Bókasafns Reykjanesbæjar.
Þær fengu Guðbjörgu Jóhanns-
dóttur, atvinnuráðgjafa Sambands
sveitarfélaga á Suðurnesjum, til að
annast framkvæmd ráðstefnunnar
og halda utan um tengslanetið.
Konum í stjórnunar- og áhrifa-
stöðum á Suðurnesjum var sér-
staklega boðið til ráðstefnunnar
sem var opin öllum. Svafa Grön-
feldt, lektor við Háskóla Íslands og
framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs
hjá Actavis, Kristín Pétursdóttir,
framkvæmdastjóri fjárstýringar
hjá KB banka, og Guðrún Péturs-
dóttir, forstöðumaður Sjáv-
arútvegsstofnunar Háskóla Íslands,
fluttu erindi. „Mér fannst ráð-
stefnan takast vel. Fyrirlestrarnir
voru ólíkir en allir mjög áhugaverð-
ir enda eru þetta allt konur sem
hafa náð upp úr glerþakinu,“ segir
Hjördís.
Konur standi saman
Á ráðstefnunni var stigið fyrsta
skrefið til að koma upp tengslaneti
kvenna í stjórnunar- og áhrifastöð-
um á Suðurnesjum. Guðbjörg mun
halda utan um það. Það verður
ræktað með tölvupóstsendingum og
áframhaldandi fundum og jafnvel
námskeiðum. „Reynslan sýnir að
karlar hafa verið duglegri við að
rækta tengslin en konur,“ segir
Guðbjörg. Hún vísar til umræðna að
undanförnu um litla þátttöku
kvenna í stjórnum fyrirtækja og
segir að ein ástæða þess sé að
tengslanetið hafi ekki virkað hjá
konum og því sé verið að byggja það
upp. „Ráðstefnan var fyrsta skrefið.
Hún tókst mjög vel. Við sjáum það
fyrir okkur að eftir eitt til tvö ár
verði slík ráðstefna haldin með báð-
um kynjum. Þar gætum við rætt
saman og fundið sameiginlegan
ávinning af því að styrkja samvinnu
kynjanna,“ segir Guðbjörg.
Hjördís vonast til að unnt verði að
halda námskeið eða fræðslufundi í
framhaldi af ráðstefnunni, til þess
að styrkja konur í viðleitni þeirra til
að ná frama. „Vonandi leiðir þetta
til þess að konur efli tengsl sín í
milli og standi saman þegar á þarf
að halda,“ segir hún.
Hlutfall kvenna síst betra
Athugun sem Guðbjörg gerði fyr-
ir ráðstefnuna sýnir að hlutur
kvenna er rýr í æðstu stjórn-
unarstöðum á Suðurnesjum sem og
í stjórnum fyrirtækja og sjóða. Tel-
ur Guðbjörg að hlutfallið sé ekki
betra en á landsvísu, jafnvel frekar
rýrara ef eitthvað er. Hins vegar er
hlutur kvenna betri í daglegri
stjórnun og í sumum fyrirtækja er
hlutfall kynja tiltölulega jafnt.
Í ályktun sem samþykkt var í lok
ráðstefnunnar er tekið undir mál-
flutning forystukvenna ýmissa
starfsstétta sem hafa að undan-
förnu gagnrýnt hversu fáar konur
eru í stjórnum fyrirtækja og sam-
taka, einkum lífeyrissjóða. Fund-
urinn krefst þess að konum verði
þegar fjölgað í stjórnum lífeyr-
issjóðanna, í samræmi við fjölda
kvenna í viðkomandi sjóðum. Fram
kom að þær sextíu konur sem sóttu
ráðstefnuna eru reiðubúnar að tak-
ast á stjórnunarstörf í fyrirtækjum
og samtökum, þar sem reynsla
þeirra og þekking gæti nýst. Í fram-
haldi af þessu vakti Guðbjörg at-
hygli á því að hún hefði lista yfir
konurnar sem voru á ráðstefnunni
og væri fyrirtækjum velkomið að
leita eftir upplýsingum hjá sér.
Konur í stjórnunar- og áhrifastöðum á Suðurnesjum koma saman til að mynda tengslanet
Bjóðast til að
taka að sér
stjórnarstörf
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Tengslanet Um sextíu konur úr stjórnunarstöðum í stofnunum og einkafyrirtækjum komu saman í Duushúsum.
Hér eru á fremsta bekk þær Sigríður Jóna Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi og Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri.
Mývatnssveit | Sniðill hf. hefur hafið bygg-
ingu raðhúss með tveimur íbúðum við
Birkihraun í Reykjahlíð í Mývatnssveit.
Um fimmtán ár eru liðin frá því síðast var
byggt íbúðarhús í Reykjahlíð.
Að sögn Brynjars Sigtryggssonar hjá
Sniðli eru báðar íbúðirnar seldar og verða
afhentar snemma í sumar. Fyrirtækið hef-
ur tryggt sér lóðir fyrir fjórar íbúðir á þess-
um stað og reiknar Brynjar með að seinni
tvær íbúðirnar verði byggðar í beinu fram-
haldi af þeim sem byrjað er á.
Flestar íbúðir verksmiðjunnar seldar
Mikið hefur annars verið að gerast á
íbúðamarkaði í upphafi ársins. Við lokun
Kísiliðjunnar var þeim starfsmönnum sem
búið höfðu í húsnæði verksmiðjunnar boðið
að kaupa húsin á fasteignamatsverði. Hafa
flestar íbúðir sem áður voru í eigu verk-
smiðjunnar þannig verið seldar starfs-
mönnum.
Morgunblaðið/BFH
Íbúðarhús í Mývatnssveit Þeir voru að
mæla fyrir raðhúsi í Reykjahlíð, Gaukur
Hjartarson byggingafulltrúi og Ingólfur
Jónasson hjá Sniðli hf.
Hús byggð á
ný í Reykjahlíð
Rangárþing eystra | Ákveðið hefur verið að
hefja veðurathuganir í Tindfjöllum með það
fyrir augum að kanna möguleika á að koma
þar upp skíðasvæði. Reynist þetta vænlegt
skíðasvæði er hugsanlegt að þeir sem standa
að skíðasvæðunum á Suðvesturlandi komi að
uppbyggingu þess og rekstri.
„Það hefur lengi verið í hugskoti manna
hér í sýslu að koma þarna upp skíðasvæði,“
segir Haukur G. Kristjánsson á Hvolsvelli
en hann er áhugamaður um málið og situr í
sveitarstjórn. Hann segir að fyrir tveimur
árum hafi verið gerð sölu- og markaðs-
áætlun fyrir skíðasvæðið og en gera þurfi
athuganir á veðri áður en lengra yrði haldið.
Sveitarstjórn samþykkti að leggja eina millj-
ón króna í verkefnið og eru viðræður í gangi
við Veðurstofuna um að hún aðstoði við að
vakta veðurstöðina. Stefnt er að því að setja
upp stöðina með vorinu. Haukur segir að
hugmyndin sé að safna upplýsingum um
hitastig og vindhraða í Tindfjöllum í tvö ár
til að byggja á ákvarðanir um framhaldið.
Veður geta verið válynd
Þrír skálar eru í Tindfjöllum, tveir í eigu
einstaklinga og sá þriðji í eigu björg-
unarsveita. Hefur verið farið talsvert á
svæðið á jeppum og snjóbílum. Haukur segir
að þeir sem til þekki segi að veður geti verið
válynd á þessum slóðum. Reiknað er með að
skíðalyfturnar yrðu frá sex hundruð og upp í
ellefu hundrað metra hæð en þar tekur
Tindfjallajökull við en hann er liðlega 1.460
metra hár. Einnig er hægt að fara neðar.
Óttast Haukur helst að stormar geti komið í
veg fyrir að áformin verði að veruleika. Veð-
urathuganirnar beinast einnig að því að at-
huga snjóalög en hlýnandi veðurfar hefur
bitnað mjög á skíðasvæðum landsins, eins og
kunnugt er.
Vegarslóði er upp brattann frá Fljótsdal
sem er innsti bær í Fljótshlíð. Haukur segir
að athuga þurfi lagfæringar á veginum og
hugsanlega nýja leið, í samráði við landeig-
endur.
„Auðvitað vonar maður það. Ég veit að
þeir sem standa að skíðasvæðunum á Suð-
vesturlandi horfa til þessa möguleika. Þeir
munu hugsanlega koma inn í þetta með okk-
ur á einhverju stigi málsins enda er svona
verkefni ekki á færi eins sveitarfélags,“ segir
Haukur Kristjánsson.
Morgunblaðið/Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir
Á jökli Víða er hægt að komast í snjó á sunnlenskum jöklum þegar menn hafa nógu góð farar-
tæki. Hér aðstoðar Haukur G. Kristjánsson Ágúst bróður sinn við að komast úr klossunum.
Áhugi á
að koma
upp skíða-
svæði
Sveitarfélagið og áhugamenn hefja veðurathuganir í Tindfjöllum
Flúðir | Hreppsnefnd Hrunamanna-
hrepps hefur samþykkt að kanna mögu-
leika á því að setja upp sjálfvirka veð-
urathugunarstöð á Flúðum. „Það er
alkunna að veðursæld hér er einstök og
segja vísir menn að hitastig hafi komist
upp í 32,5°C sl. sumar. Þetta er í rauninni
nægjanleg ástæða til þess að koma hér
upp sjálfvirkri veðurathugunarstöð. Slík
stöð getur haft mikil áhrif á ferða-
mennsku hér í hreppnum,“ segir í Pés-
anum, fréttabréfi Hrunamannahrepps.
Vilja hefja athugun
á veðri á Flúðum