Morgunblaðið - 10.06.2005, Page 10
10 FÖSTUDAGUR 10. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Hæstiréttur
ógilti úrskurð
ráðherra
Reyðaráls og taka með allt öðrum hætti á meng-
andi útblæstri frá verksmiðjunni. Þá var útlit
verksmiðju Alcoa öðruvísi en fyrirhugaðrar
verksmiðju Reyðaráls. Því hafi ekki verið hægt
að líta á byggingu álvers Alcoa sem sömu fram-
kvæmd og áður hafði verið fengið umhverfismat
um.
Hæstiréttur komst því að þeirri niðurstöðu að
ekki hefðu verið uppfyllt formskilyrði til að fara
eftir ákvæði 6. gr. laga um mat á umhverfis-
áhrifum um það hvort framkvæmd skuli háð
umhverfismati og því hafi nýtt umhverfismat
þurft að fara fram.
Hæstiréttur hafnaði kröfum Hjörleifs um
ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar um
útgáfu starfsleyfis. Umhverfisstofnun veitti 14.
mars 2003 starfsleyfi vegna álvers með 322 þús-
und tonna ársframleiðslu í landi Hrauns í
Reyðarfirði. Hjörleifur kærði þá ákvörðun til
umhverfisráðherra sem vísaði kærunni frá 14.
júlí 2003. Einnig hafnaði Hæstiréttur þeirri
kröfu Hjörleifs að ógilda ákvörðun umhverfis-
ráðherra um að vísa frá kæru hans vegna útgáfu
starfsleyfisins.
Lögmaður íslenska ríkisins var Skarphéðinn
Þórisson hrl.. Lögmaður Alcoa á Íslandi ehf. og
Fjarðaáls sf. var Hörður Felix Harðarson hrl.
og lögmaður Hjörleifs Guttormssonar var Atli
Gíslason hrl. Málið dæmdu hæstaréttardómar-
arnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason,
Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og
Hrafn Bragason.
HÆSTIRÉTTUR Íslands staðfesti í gær nið-
urstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 12. jan-
úar í vetur, og ógilti úrskurð umhverfisráðherra
frá 15. apríl 2003 varðandi ákvörðun Skipulags-
stofnunar frá 20. desember 2002 um að ekki
þyrfti umhverfismat vegna álvers Alcoa í
Reyðarfirði.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi al-
þingismaður og ráðherra, stefndi á sínum tíma
Reyðaráli, Alcoa á Íslandi, Fjarðaráli, fjármála-
ráðherra og umhverfisráðherra. Í málinu var
m.a. deilt um lögmæti umhverfismats og veit-
ingu starfsleyfis fyrir álver í Reyðarfirði. Hjör-
leifur hélt því m.a. fram að fara þyrfti fram sér-
stakt umhverfismat vegna álvers Alcoa
Fjarðaráls í Reyðarfirði, sem á að framleiða 322
þúsund tonn af áli á ári. Fyrir lá mat á umhverf-
isáhrifum 1. og 2. áfanga álvers Reyðaráls með
420 þúsund tonna ársframleiðslu auk rafskauta-
verksmiðju á sama stað.
Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að mat á um-
hverfisáhrifum hafi farið fram vegna fyrirhug-
aðs álvers Reyðaráls. Tillögur að starfsleyfi
þess voru auglýstar til athugasemda, en athuga-
semdir höfðu ekki verið afgreiddar og ekki tekin
ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins áður en fall-
ið var frá framkvæmdinni. Starfsleyfi fyrir áður
fyrirhuguðu álveri var því ekki fyrirliggjandi
þegar Skipulagsstofnun ákvað að ekki þyrfti að
koma til nýs umhverfismats vegna álvers Alcoa.
Við álver Alcoa hafi átt að nota að einhverju
leyti aðra tækni við álframleiðsluna en í álveri
„ÞAÐ er skilningur okkar og
þeirra sem við höfum leitað til að
dómurinn hafi ekki áhrif á fram-
kvæmdir,“ sagði Tómas Már Sig-
urðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls
sf. Hann segir fyrirtækið ávallt
hafa farið eftir lögum um mat á
umhverfisáhrifum.
„Við gerðum á sínum tíma, í
samræmi við lögin, samanburð-
arskýrslu [við umhverfismat Reyð-
aráls] sem var mjög ítarleg og
nálgaðist mat á umhverfisáhrifum
að mörgu leyti. Við munum að
sjálfsögðu láta framkvæma nýtt
mat á umhverfisáhrifum. Ég get
ekki sagt á þessu stigi hvað það
kostar, en það er ekki ódýrt. Aðal-
atriðið er að við munum skila inn matsáætlun
á næstu vikum og láta framkvæma mat á um-
hverfisáhrifum.“
Tómas Már sagði að niðurstaða Hæsta-
réttar hefði komið sér á óvart, en Alcoa yrði
að lúta henni. „Við hófum undirbúning að nýju
umhverfismati þegar niðurstaða héraðsdóms
lá fyrir. Ferlið hjá okkur hefur hingað til verið
í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrif-
um. Við keyptum mat af Reyðaráli og létum
gera samanburðarskýrslu sem var í samræmi
við lögin. Með þetta í höndum og niðurstöður
rannsókna sem við höfum látið gera teljum við
að það verði ekki tímafrekt ferli að fara í mat
á umhverfisáhrifum.“
Umhverfisvernd forgangsmál
Alcoa Fjarðaál hf. sendi frá sér yfirlýsingu í
gær vegna dóms Hæstaréttar. Þar segir m.a.
að allt frá því að undirbúningur fyrir starf-
semi álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði hófst
árið 2002 hafi fyrirtækið kapp-
kostað að eiga náið samstarf
við stjórnvöld og stofnanir hér
á landi með það fyrir augum að
tryggja að eðlilega og löglega
væri staðið að öllum fram-
kvæmdum.
„Alcoa Fjarðaál hefur m.a.
lagt ríka áherslu á að afla og
miðla til stjórnvalda ítarlegum
upplýsingum um ætluð um-
hverfisáhrif álversins, enda er
umhverfisvernd eitt af for-
gangsmálum fyrirtækisins.
Dómur Hæstaréttar felur í
sér að framkvæma verður nýtt
mat á umhverfisáhrifum álvers
Alcoa Fjarðaáls. Hafin er vinna
á vegum fyrirtækisins við að undirbúa mat á
umhverfisáhrifum en ekki var unnt að hefja
framkvæmd matsins meðan málið var fyrir
dómstólum. Alcoa Fjarðaál mun starfa náið
með Skipulagsstofnun til að tryggja að eðli-
lega og löglega verði staðið að framkvæmd-
inni.
Enda þótt dómur Hæstaréttar komi á óvart
og valdi vonbrigðum, leggur Alcoa Fjarðaál
áherslu á að starfa í einu og öllu í samræmi við
lög og reglur, samkvæmt ákvörðunum stjórn-
valda og niðurstöðum dómstóla. Það er engum
mikilvægara en fyrirtækinu sjálfu að óvissu
um lögmæti framkvæmdanna verði eytt.
Ítarlegar upplýsingar um umhverfisáhrif ál-
vers Alcoa Fjarðaáls, sem staðfestar voru af
sérfræðingum, lágu fyrir þegar Skipulags-
stofnun tók sína ákvörðun. Fyrirtækið gerir
því ekki ráð fyrir að nýtt mat á umhverfis-
áhrifum muni tefja framkvæmdir á Austur-
landi.“
Undirbúningur haf-
inn vegna nýs mats
Tómas Már Sigurðsson
HJÖRLEIFUR Guttormsson telur
dóm Hæstaréttar afar mik-
ilvægan. Hann hafi verulega þýð-
ingu fyrir stöðu umhverfisréttar í
landinu, með tilliti til almenns
samhengis málsins. Hæstiréttur
hafi staðfest niðurstöðu héraðs-
dóms. „Meira gat ég nú eiginlega
ekki vænst í sambandi við þetta
mál,“ sagði Hjörleifur í samtali
við mbl.is í gær.
Hann kveðst á sínum tíma hafa
talið niðurstöðu héraðsdóms
mjög mikilvæga og það hafi fleiri
gert. „Lagalega séð vantar
grunninn undir þetta álver. For-
senda þeirra framkvæmda sem
nú standa yfir er lögum sam-
kvæmt mat á umhverfisáhrifum.
Það mat er ekki til staðar. Lög voru brotin
með því að ekki var látið fara fram sjálfstætt
mat. Hæstiréttur tekur nú skýrt fram að slíkt
mat beri að fara fram og það hefur að sjálf-
sögðu sínar lögfylgjur.“
Hjörleifur segir að falli niðurstaða um-
hverfismatsins Alcoa í hag verði að úthluta
fyrirtækinu nýju starfsleyfi á grundvelli mats-
ins. „Forsendurnar fyrir því starfsleyfi sem
fyrirtækið fékk frá Umhverfisstofnun í mars
2003 eru brostnar. Það blasir við.“
Hjörleifur Guttormsson telur að Alcoa
Fjarðaál verði að gera breyt-
ingar á fyrirhuguðum meng-
unarvörnum álversins í Reyðar-
firði eigi það að komast í gegnum
væntanlegt umhverfismat, í kjöl-
far niðurstöðu Hæstaréttar í
gær. „Ég ætla bara að vona það,
Alcoa vegna, að þeir endurskoði
málið frá grunni.“
Hjörleifur undraðist það í
samtali við Morgunblaðið ef
menn ætluðu að halda áfram
framkvæmdum eins og ekkert
hefði í skorist. „Mat á umhverfis-
áhrifum er grundvallarplagg. Í
þessu tilviki, og þá miða ég við
mengunarvarnir eins og þeir
hafa ætlað sér að haga þeim,
ætla menn ekki að beita bestu fá-
anlegri tækni.“ Hjörleifur nefnir að fyrir-
huguð verksmiðja muni losa 26-falt meira
brennisteinsdíoxíð á hvert framleitt tonn af áli
til andrúmsloftsins en verksmiðja Reyðaráls
hefði gert. Segist Hjörleifur þó ekki hafa verið
neitt ánægður með þá verksmiðju í meng-
unarvörnum. Í flúor er mengunin 50% meiri en
gert var ráð fyrir hjá Reyðaráli.
„Lykillinn að þessu er að þeir fara ekki út í
að beita vothreinsun á þessa verksmiðju, sem
hafði verið talið sjálfsagt á hina verksmiðj-
una.“ Þau efni sem þar átti að leiða til sjávar,
með milliþrepi í hreinsun, áttu ekki að valda
skaðlegri mengun í sjó, að sögn Hjörleifs.
„Þetta er aðalundrunarefnið varðandi meng-
unarmál verksmiðjunnar. Ef menn ætla að
taka málin eðlilegum tökum þá þurfa þeir að
vera undir það búnir að breyta um stefnu að
þessu leyti. Ég ætla rétt að vona að þeir geri
það og umfram allt að ætla sér ekki að fara
bara í einhvern þykjustuleik.“
Alþingi þarf að breyta lögum
Hvað varðar kröfu Hjörleifs um ógildingu
starfsleyfis vegna framkvæmdanna sagði
hann það hafa legið í niðurstöðu héraðsdóms
að það mál hefði þurft að nálgast með öðrum
hætti en gert var. Kröfu Hjörleifs varðandi
starfsleyfið var vísað frá fyrir héraðsdómi.
„Það kom ekki á óvart að niðurstaða Hæsta-
réttar var hliðstæð,“ sagði Hjörleifur.
„Héraðsdómur bar fyrir sig að það hefði átt
að stefna Umhverfisstofnun sérstaklega vegna
starfsleyfisins, en ekki ráðherra eða ráðuneyt-
inu eins og við gerðum.“
Hjörleifur sagðist hafa vonað að Hæstirétt-
ur myndi breyta niðurstöðu héraðsdóms varð-
andi kærurétt sinn til ráðherra vegna starfs-
leyfisins. „Heimild mín sem einstaklings til
þess að kæra niðurstöðu Skipulagsstofnunar
um starfsleyfið til ráðherra var túlkuð af
Hæstarétti, eins og af héraðsdómi, afar
þröngt.“ Hjörleifur segir héraðsdóm hafa
komist að þeirri niðurstöðu að nógu skýr fyr-
irmæli varðandi kærurétt vantaði í lögin um
hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
„Það er ekki sagt í lagatextanum berum
orðum að allir eigi kærurétt. Hins vegar lá í af-
greiðslu Alþingis, að mínu mati og míns lög-
manns og ég held alþingismanna, að þeir væru
að veita þennan rétt þó að það hafi ekki verið
tekið inn í lagatextann. Ég skilaði minni-
hlutaáliti varðandi afgreiðslu laganna, því ég
var ekki sáttur við þau að öllu leyti, en meiri-
hlutinn og talsmaður hans – formaður um-
hverfisnefndar og reyndar ráðherrann að
vissu leyti líka – höguðu orðum sínum þannig
að það varð ekki öðru vísi skilið en að það væri
verið að veita þarna fyllsta rétt og einnig
kærurétt. En þetta dugði ekki dómstólunum
sem réttarskýring.
Eftir stendur þessi þrönga túlkun, sem er
allt önnur en í sambandi við mat á umhverfis-
áhrifum. Þar er tekið fram að allir hafi kæru-
rétt. Að mínu viti þarf Alþingi að leiðrétta
þetta með einfaldri lagabreytingu, því það eru
engin efnisleg rök fyrir því að halda almenn-
ingi frá að kæra starfsleyfi. Með þessari nið-
urstöðu dómstólanna er verið að gefa Um-
hverfisstofnun nánast sjálfdæmi. Hún tekur við
athugasemdum fólks. Þær gerði ég. Síðan gef-
ur hún út starfsleyfi og þú getur ekki kært það
til næsta stjórnvalds! Þessi þrönga túlkun hjá
báðum dómstólunum kemur verulega á óvart.“
Lagalegan grunn álversins vantar
Hjörleifur
Guttormsson