Morgunblaðið - 09.10.2005, Side 16
16 SUNNUDAGUR 9. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
Á skrifstofu þingflokks Vinstrigrænna við Vonarstræti í Reykja-vík situr Svandís Svavarsdóttir,framkvæmdastjóri flokksins ognýkjörinn leiðtogi framboðslista
Vinstri grænna í Reykjavík til borgarstjórn-
arkosninga næsta vor. Hún er nýmætt til
vinnu, gangandi úr Vesturbænum, og þrátt
fyrir að hún hafi greinilega nóg að gera er hún
afslöppuð og talar rólega. Þegar Svandís er
beðin að segja frá sjálfri sér horfir hún út um
gluggann og hugsar sig aðeins um áður en hún
byrjar.
„Ég held að oft þegar kona er spurð hver
hún sé byrji hún að skilgreina sig út frá börn-
unum sínum. Ég byrja að segja að ég er fjög-
urra barna móðir. Það tengist sjálfsmyndinni
einhvern veginn svo mikið.“ Svandís er mennt-
uð sem málfræðingur og hefur starfað í rúman
áratug á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og í
Háskóla Íslands, m.a. að rannsóknum og þróun
á námi í íslensku táknmáli og táknmálstúlkun.
Hún segir þau störf hafa verið einstaklega lær-
dómsrík og þá ekki síst að kynnast málsamfé-
lagi heyrnarlausra sem er beint fyrir framan á
nefið á okkur án þess að við veitum því athygli.
En áttu þá ættingja eða eitthvað slíkt sem
eru heyrnarlausir?
„Nei, ég kom inn í þetta umhverfi af áhuga á
málinu fyrst og fremst en ekki á samfélaginu.
Táknmálið er allt annars eðlis en íslenska og
mér þótti það spennandi. Eftir því sem ég
komst meira inn í þennan geira varð ég heill-
aðri af félagslegri stöðu tungumála. T.d. hvern-
ig sjálfsmynd og upplifun einstaklingsins mót-
ast af tungumálinu,“ segir Svandís og bætir við
að táknmál sé ekki viðurkennt tungumál. „En
ef maður viðurkennir ekki tungumál mann-
eskju viðurkennir maður ekki manneskjuna
sjálfa. Heyrnarlausir hafa háð þrotlausa bar-
áttu fyrir réttindum sínum og hafa þurft að
beita samstöðu og miklu þreki til að ná ár-
angri.“
Svandís segir að heyrnarlausir séu minni-
hlutahópur sem er sviptur möguleikanum á að
hafa vald yfir eigin örlögum. „Kannski er það
hlutverk stjórnmálamanna að skapa skilyrði
fyrir alla til þess að hafa áhrif á eigin örlög. Þá
er ég að tala um gamalkunnugt hugtak eins og
frelsi einstaklingsins. Það verður að vera raun-
verulegt og innbyggt í samfélagið en ekki eitt-
hvað sem maður kaupir. Ég vil beina sjónum
að þeim hópum sem hafa ekki vald.“
Geturðu nefnt dæmi um fleiri hópa sem ekki
hafa þessi völd?
„Já, konur hafa t.d. ekki sömu völd og karlar
í samfélaginu. Við sjáum að það er þörf á sér-
tækum aðgerðum til að breyta því hrikalega
misrétti sem konur búa við, þó ekki sé nema
bara tekið dæmi um mælanlega stærð eins og
kynbundinn launamun. Hvað borgina varðar
bitna slök kjör starfsmanna hennar ekki síst á
konum, sérstaklega kjörum ófaglærðra starfs-
manna við umönnunar- og uppeldisstörf,“
bendir Svandís á. „Börn eru líka hópur sem
hefur ekki vald yfir eigin örlögum og þess
vegna þurfa þau að eiga samfélagið að. Svo má
nefna öryrkja og ellilífeyrisþega sem verða
hvað verst úti í markaðshyggjusamfélaginu,
samfélagi þar sem þú kaupir þér lífsgæði en átt
ekki endilega rétt á þeim,“ segir Svandís og
bætir við að stöðu innflytjenda megi líkja við
stöðu heyrnarlausra. Þar sé sama baráttan um
að fá móðurmálskennslu og túlkaþjónustu. „Ég
er samt ekki talsmaður miðstýringar eða mik-
illa afskipta hins opinbera af einstaklingum en
ég er talsmaður þess að stofnanir samfélagsins
axli ábyrgð á því að búa til samfélag þar sem
allir eiga möguleika á reisn. Það gerum við með
því að innheimta skatta og tryggja þannig fjöl-
breytt lífsskilyrði fyrir alla.“
Lífið er pólitík
Hvenær fórst þú að taka þátt í pólitík?
„Það er erfitt að segja það. Fyrir mér er lífið
pólitík. Ég veit ekki hvernig er hægt að vera
með pólitískar skoðanir sem eru ekki nátengd-
ar lífsskoðunum manns. Í mínum huga eru allir
í pólitík á hverjum degi. Við erum í pólitík þeg-
ar við veljum hvort við notum einkabíl eða al-
menningsvagn, þegar við veljum hvort við
kaupum lífrænar eða ólífrænar vörur og þegar
við tökum þátt í foreldrastarfi í grunnskólun-
um. Mér finnst ég beita sömu hugmyndafræði
og nálgun þegar ég ræði við börnin mín og vini
mína eins og þegar ég er að takast á við pólitísk
viðfangsefni.“
Þú hlýtur að vera alin upp á pólitísku heimili
þar sem faðir þinn, Svavar Gestsson, var
stjórnmálamaður. Hvernig horfði það við þér
þegar þú varst barn?
„Við pabbi töluðum mikið saman frá því ég
man eftir mér um allt milli himins og jarðar og
smám saman meira um pólitík. Mamma mín,
Jónína Benediktsdóttir, var líka mjög pólitísk
og sannfærður sósíalisti. En ég man þegar
pabbi varð á einum degi þingmaður og ráð-
herra og ég 14 ára. Mér fannst það ekkert
skemmtilegt þegar hann varð skyndilega þessi
opinbera fígúra. Það hitti mig illa fyrir á þeim
aldri sem ég var þá. Mér fannst hallærislegt að
hann skyldi allt í einu þurfa að kaupa sér
jakkaföt og aka um á ráðherrabíl,“ segir Svan-
dís brosandi. „Auðvitað var hann mikið að
heiman og oft á fundum. Pabbi er einn af mín-
um bestu vinum enda hefur mér alltaf þótt
hann einstaklega skemmtilegur maður.“
Hvernig líst börnunum þínum á að nafnið
þitt sé orðið áberandi í stjórnmálaumræðunni?
„Þau eru auðvitað á mismunandi aldri, frá
fimm ára til 21 árs. Ég held að sú yngsta sé
ekki mjög upptekin af þessu. Henni finnst nátt-
úrlega gaman að sjá fólk sem hún þekkir í blöð-
unum. Það finnst manni þegar maður er fimm
ára. Að öðru leyti standa þau með mér, sér-
staklega stóru börnin, eins og ég stend með
þeim í því sem þau eru að gera.“
En maðurinn þinn, Torfi Hjartarson?
„Ég verð alltaf svo væmin þegar ég tala um
hann,“ segir Svandís og brosir. „Hann stendur
með mér þegar ég er að vaxa og þroskast og
bæta við mig. Hann ræður mér heilt og er frá-
bær bandamaður, bæði málefnalega og sem
vinur og félagi,“ segir Svandís og bætir við að
hún hafi einstaklega sterkt bakland.
„Það er kannski ekki vélin sem ræsir allt upp
en það er rafgeymirinn.“
Snúum okkur aftur að stjórnmálunum, hef-
urðu áður verið á framboðslista Vinstri
grænna?
„Já, ég var á lista fyrir þingkosningarnar
2003, í sæti forsætisráðherraefnisins, fimm-
tánda sæti,“ segir Svandís hlæjandi. „Annars
hef ég alltaf verið mjög upptekin af grasrótinni
og tengslum hennar við fulltrúana. Það hefur
verið mitt aðalviðfangsefni undanfarin tvö ár
sem formaður Reykjavíkurfélags Vinstri
grænna að finna leiðir frá baklandinu í kjörna
fulltrúa. Tilhneigingin í félagsstarfi hefur verið
sú að láta hlutina reka á reiðanum en svo kem-
ur krísa og þá er haldinn fundur. Fólk passar
ekki nógu vel upp á að hafa samráð þótt það sé
sammála,“ útskýrir Svandís.
Nú er VG kannski frekar lítill flokkur, en er
hann í sókn?
„Ég held því fram að VG sé 25% flokkur,
þ.e.a.s. í sínum málefnum og sinni tilhöfðun úti
í samfélaginu. Ég held að allir hafi heyrt fólk
segjast vera vinstri grænt í hjartanu en svo kýs
fólk stundum öðruvísi af einhverjum tæknileg-
um ástæðum. Það er okkar verkefni að ná í
þetta fylgi,“ segir Svandís.
Vindum okkur að borgarmálunum, er eitt-
hvað sérstakt sem þú ætlar að beita þér fyrir ef
þú kemst í borgarstjórn?
„Það eru tveir höfuðmálaflokkar þar sem við
greinum okkur sérstaklega frá öðrum flokk-
um. Annars vegar erum við eini skýri kost-
urinn fyrir umhverfissinna og hins vegar eini
skýri kosturinn fyrir kvenfrelsissinna. Hvað
þetta varðar erum við ekki flokkur tækifær-
islausna og uppákoma. Við erum sjálfum okkur
samkvæm, allt frá stefnuskránni og yfir í úr-
lausnarefni frá degi til dags.“
Erum við aftarlega á merinni hvað umhverf-
ismál varðar?
„Já, ég get varla ímyndað mér að Reykvík-
ingar monti sig af því á alþjóðavettvangi að
vera með mestu bílaeigendum í heimi,“ segir
Svandís og bætir við að umtalsverð loftmengun
sé í Reykjavík við ákveðin skilyrði. „Mér finnst
við verða að stíga róttæk skref til að sporna
gegn því. Almenningssamgöngur og reiðhjóla-
leiðir þurfa að vera raunverulegur valkostur en
ekki eitthvað sem maður gerir af því að maður
hefur ekki efni á að eiga bíl. Það á að vera betra
að skilja bílinn eftir heima.“
Nú standa menntamálin og börnin í borginni
þér eflaust frekar nærri, eru einhverjar sér-
stakar breytingar sem þú vilt sjá þar?
„Ég er búin að vera með barn í grunnskóla
síðan 1990 og verð með barn í grunnskóla til
ársins 2016. Fyrsta barnið mitt byrjaði í leik-
skóla þegar leikskóli var félagslegt úrræði fyr-
ir háskólanema og einstæða foreldra,“ bendir
Svandís á og segist hafa upplifað byltinguna í
leikskólamálum á eigin skinni. „Þetta hefur
áhrif á allar fjölskyldur í borginni meira eða
minna. Það er auðvitað stórkostlegt að nú sé
það komið í farveg að leggja af gjaldtöku á leik-
skólastiginu. Leikskólinn er viðurkenndur sem
fyrsta skólastigið í plöggum yfirvalda en þegar
kemur að því að umgangast hann sem slíkan er
það ekki alltaf raunin. Það loðir við að fólki
finnst menntun ekki byrja fyrr en maður tekur
upp bók.“
Handbækur í uppáhaldi
En aðeins aftur að sjálfri þér, áttu þér ein-
hver sérstök áhugamál?
„Fyrst og fremst hef ég ofsalega gaman af
fólki. Ég á mikið af góðum vinum á öllum aldri
og það er mér mjög mikilvægt. Ég held að ég
hafi það kannski frá móðurömmu minni að hafa
einstaklega gaman af ungu fólki. Ég man eftir
því að hún var orðin svo skökk í mjöðminni að
hún var farin að ganga við göngugrind þegar
við keyrðum framhjá Ingólfstorgi og hún
sagði: „Ef ég væri ekki orðin svona stirð þá
væri nú gaman að prófa hjólabretti.“ Hún hef-
ur kannski verið mér fyrirmynd í því að taka
ungu fólki af fordómaleysi.“ Svandís hefur líka
sérlega gaman af tónlist enda er siður í hennar
fjölskyldu að spila og syngja þegar fólk kemur
saman. „Mér þykir líka skemmtilegt að lesa og
les mjög mikið af fánýtum hlutum. Ég er ekki
mjög spennt fyrir skáldsögum en ég get
gleymt mér í handbók veiðimannsins af ein-
skærri forvitni. Handbækur, ljóðabækur og
matreiðslubækur eru í uppáhaldi hjá mér,
bækur sem er hægt að grípa inn í en hafa ekki
endilega upphaf og endi,“ segir Svandís og
bætir við að hinum megin í hjónarúminu sé öllu
menningarlegri stemning.
Nú verður þú væntanlega mikið í sviðsljós-
inu í komandi kosningabaráttu, hvernig leggst
það í þig?
„Ég er ekki mikið fyrir sviðsljósið en ég
tekst á við það eins og annað. Mér líður miklu
betur sem strái í grasrótinni. Það var afskap-
lega mikil kúvending fyrir mig að fara úr mál-
efnum heyrnarlausra og yfir í stöðu fram-
kvæmdastjóra flokks og þingflokks VG. Það
má eiginlega segja að með því að koma hérna
inn sé ég orðin lengsta stráið í grasrótinni,“
segir Svandís brosandi. „Ég veit að stjórnmál
snúast að miklu leyti um fólk og það er mitt
hlutverk að flytja stefnumál VG til fólks.“
Lengsta stráið í grasrótinni
Svandís Svavarsdóttir var um síð-
ustu helgi kjörin í fyrsta sæti fram-
boðslista Vinstri grænna í Reykja-
vík. Halla Gunnarsdóttir hitti þessa
kröftugu konu að máli og komst að
því að henni líður best í grasrót-
arhreyfingum og hefur einstaklega
gaman af hvers kyns uppflettiritum.
Morgunblaðið/Kristinn
Svandís Svavarsdóttir: „Fyrir mér er lífið pólitík. Ég veit ekki hvernig er hægt að vera með pólitískar
skoðanir sem eru ekki nátengdar lífsskoðunum manns.“
halla@mbl.is
’Ég held að allir hafi heyrtfólk segjast vera vinstri
grænt í hjartanu en svo
kýs fólk stundum öðruvísi
af einhverjum tæknilegum
ástæðum. Það er okkar
verkefni að ná í þetta
fylgi.‘
’Í mínum huga eru allir ípólitík á hverjum degi. Við
erum í pólitík þegar við
veljum hvort við notum
einkabíl eða almennings-
vagn, þegar við veljum
hvort við kaupum lífrænar
eða ólífrænar vörur og
þegar við tökum þátt í for-
eldrastarfi í grunnskól-
unum.‘