Fréttablaðið - 15.02.2006, Page 34

Fréttablaðið - 15.02.2006, Page 34
MARKAÐURINN Nadine Deswasiere á að baki starfsferil sem flestir myndu vera stoltir af. Eftir að hafa lokið háskólanámi varð hún markaðs- stjóri franskrar auglýsingastofu þaðan sem hún landaði fyrsta stóra starfinu sínu hjá einum af kúnnum sínum, matvælaframleið- andanum Campbell Soup. Eftir fjögur ár þar krækti svissneska stórfyrirtækið Nestlé í hana og átti hún eftir að vinna ýmis störf fyrir það á næstu sextán árum. Hún byrjaði í Frakklandi þar sem hún var yfir markaðs- og sölumál- um og fluttist svo í höfuðstöðv- arnar í Sviss þar sem hún varð yfirmaður samrunaferla fyrir sælgætisgerðir í Mið- og Austur- Evrópu. Þegar hún kom til starfa hafði Nestlé 5.000 tonn í útflutn- ingi til þessa svæða. Þremur árum síðar framleiddi Nestlé 150 þúsund tonn á svæðinu. SEX BOÐLEIÐA HERTÆKNIN Eftir þetta góða gengi var Nadine flutt til Kuala Lumpur í Malasíu þar sem hún sá um allar sæl- gætisverksmiðjur á Suðaustur- Asíusvæðinu. Hún byggði upp sex lið skipuð fólki víðs vegar að af svæðinu sem hafði bækistöðv- ar í Malasíu. Liðin sköpuðu „sex boðleiða hertæknina“ með það að markmiði að nýta hverja boðleið sem til væri, ekki bara til stór- verslana. „Þessi leikaðferð geng- ur út á að þú eigir að geta nálgast vöruna hvar sem þú ert, nema kannski á almenningsklósettum,“ segir Nadine hlæjandi. Þessi aðferð gekk vel og Nestlé varð helsti samkeppnisaðili Cadbury’s á svæðinu. „Þetta eru svæði sem heyrðu undir breska samveldið. Súkkulaðibragð er nokkuð sem maður elst upp með. Ef þú ert vanur ákveðnu bragði er mjög erfitt að breyta smekk þínum,“ segir Nadine. „Við náðum góðum árangri og fljótt var ný verksmiðja opnuð. Þetta gerðist allt saman mjög hratt, sem er líka það skemmtilega við Asíu. Fólkið þar er svo vinnu- samt, klukkan 10 á kvöldið þurfti ég nánast að pína það til að fara heim til sín. Okkur tókst að koma hugmyndum á koppinn og sjá árangurinn af þeim mjög hratt,“ segir Nadine. FRÁ MALASÍU TIL BÚLGARÍU Nadine bjó í þrjú ár í Malasíu, þangað til henni var falið að fara til Búlgaríu þar sem Nestlé rak verskmiðju sem til stóð að loka. Hún fékk sex mánuði til að sjá hvort möguleiki væri á að snúa við rekstrinum. Það tókst og þegar hún fór þaðan var Nestlé komið í sextíu prósenta vöxt á svæðinu og verksmiðjan fékk að standa. „Þarna voru 600 manns í vinnu og því gladdi þetta mig mjög mikið,“ segir Nadine og segist láta sig varða hag fólksins þar sem hún er við störf, ekki síst í löndum eins og Búlgaríu þar sem þjóðfélags- aðstæður eru erfiðar. Eftir þessa frammistöðu lá leið Nadine til Rússlands þar sem hún varð framkvæmdastjóri sælgætisgerðar og stjórnaði yfir 1.500 starfsmönnum. Meðal þess sem hún gerði þar var að fækka dreifingaraðilum úr 200 í 70. Það olli mikilli reiði meðal þeirra og þurftu Nadine og samstarfsfólk hennar um tíma að hafa vopnaða verði í kringum sig enda bár- ust þeim reglulega hótunarbréf frá birgjum sem töldu sig hlunn- farna. Þeir sjötíu birgjar sem eftir stóðu voru hvattir til þess að fjárfesta í dreifingarleiðunum og leggja sig alla í að ná til kúnn- ans í stað þess að „bíða eins og feitir kettir“ eftir því að varan seldist. GOTT SIÐFERÐI FRAMAR ÖLLU Eftir að hafa lifað og starfað víðs vegar um heim sneri Nadine aftur til Frakklands. Í fyrra ákvað hún svo að söðla um, eftir sextán ár hjá Nestlé, og stofn- aði sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki undir nafninu EthiConseil. Vísar nafnið til góðs siðferðis og legg- ur hún áherslu á að fyrirtæki nái árangri og haldi áfram vexti á ábyrgan og siðferðislegan hátt. „Á þroskuðum mörkuðum er oft erfitt að vaxa en það er vel hægt, bæði með innri og ytri vexti. Með innri vexti er til að mynda hægt að vaxa í gegnum nýsköpun. Algengt er að fólk hafi hugmyndir en nýsköpun snýst ekki bara um það. Hún snýst um að koma réttu ferli í gang til að þróa ákveðið kerfi fyrir næstu árin. Og þarna kem ég að með strategískum leiðbeining- um sem ég þróa með fólki innan fyrirtækisins sem utan þess.“ EthiConseil er jafnframt sérhæft í dreifingunni. Í Frakklandi hafa dreifingaraðilar mikið vald sem getur falið í sér hættur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Ef þú ert með minna þekkt vörumerki og stórir dreifingaraðilar, líkt og Carrefour, ákveða að skilja við þig, þá ertu svo gott sem dauða- dæmdur. Það er algengt að 30 til 40 prósent af sölu séu hjá þessum stóru aðilum.“ Vinna Nadine felst í að minnka áhættu fyrirtækj- anna og finna aðrar dreifingar- leiðir, eins og hún hafði gert í sælgætisgeiranum. EthiConseil veitir líka ráðgjöf varðandi ytri vöxt, til dæmis með landfræðilegum vexti, ekki ein- ungis með útflutningi heldur með því að framleiða erlendis. Nadine leggur áherslu á að hún ráðleggi fyrirtækjum ekki að loka verk- smiðjum sínum í Frakklandi til að flytja annað. Hluti af því að halda áfram að vaxa sé hins vegar að fara inn á nýja markaði. Á þess- um mörkuðum komi fyrirtækin með gæðastaðla og -venjur sem séu viðkomandi landi til góðs og hjálpi þeim í þróun sinni. Þannig skapist aðstæður sem séu báðum til góða. HREIFST AF SKÝRRI STEFNU SÍF En hvernig skyldi það hafa komið til að Nadine gekk til liðs við stjórn SÍF? „Mér var boðið viðtal við forsvarsmenn SÍF varðandi stjórnarsetu þar. Þegar ég hitti Ólaf Ólafsson, stjórnarformann SÍF, sá ég hversu áreiðanlega, sterka og ekki síst skýra hug- mynd stjórnendur höfðu um stefnu fyrirtækisins - að færa sig frá fyrra skipulagi og yfir á arðbærari markaði. Það kveikti hjá mér áhugann. Þetta er líka það sem ég hef verið að gera allt mitt líf og ég hef því ýmislegt til málanna að leggja.“ Nadine tók þátt í hugmynda- vinnu á nýju nafni SÍF, Alfesca. Nýtt nafn félagsins er samsett úr grísku og latínu. Alpha er fyrsti stafur gríska stafrófsins, festiv- us merkir veisla eða hátíð og esca tengist matvælum. Nafnið á að vera táknrænt fyrir sýn fyrir- tækisins, sem er að verða leiðandi fullvinnslu- og markaðsfyrirtæki á tilbúnum neysluvörum. Nadine segir að Íslendingar ættu að vera stoltir af Alfesca. Það hafi komið Frökkum í opna skjöldu þegar þetta íslenska fyrirtæki yfirtók Labeyrie, sem var meðal annars númer eitt í Evrópu í foie gras og laxi. Það hafi ef til vill verið fyrsta skref SÍF í þá átt að vera leiðandi á völdum sviðum mat- væla. KONUR ÞURFA AÐ BERJAST GEGN STAÐALÍMYNDUM Engum hefur dulist að hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja er heldur rýr. Sama er uppi á ten- ingnum hvar í heiminum sem mann ber niður. „Konur þurfa að berjast,“ segir Nadine þegar hún er spurð um hug sinn til þessa málefnis. „Það er ekki boðlegt hversu fáar konur eru í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum fyrir- tækja, ekki síst þegar litið er til þess hversu ráðandi konur eru í kaupum á flest- um neysluvörum. Konur eiga ekki að sætta sig við staðhæfingar á borð við að þetta sé til komið af því við þurfum að eiga og sjá um börnin.“ Hún bendir á að í dag hafi konur alla burði til að takast á við sömu störf og karlar. Þær hafi réttu gráðurnar og rétta bakgrunninn og um leið og þær heyri staðhæfingar af þessu tagi þurfi þær að rísa gegn þeim. „Þetta er bara spurning um skipulagningu, það er til dæmis hægt að hafa fóstru á heimilinu. Það þýðir ekki að þú sért slæm móðir,“ segir Nadine, sem sjálf á tvær dætur með búlgörskum eiginmanni sínum. Hefur hún sjálf fundið fyrir fordómum af þessu tagi? „Já, auðvitað, ég hef barist gegn þess- um hugmyndum allt mitt líf. Það er sérstaklega svo margt sem ekki er sagt og það er það versta. Það er svo erfitt að eiga við það sem liggur undir niðri,“ segir Nadine. Svo er hún þotin á kynn- ingu nýja nafnsins en bætir við að lokum að það sé mikilvægt fyrir alla að vera vel á verði gagnvart umhverfi sínu. Þetta sé bara eitt atriði í viðbót sem konur þurfi að taka með í reikninginn. 15. FEBRÚAR 2006 MIÐVIKUDAGUR10 � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � � F R É T T A S K Ý R I N G ÓLAFUR ÓLAFSSON, AÐALSTEINN INGÓLFSSON, NADINE DESWASIERE, GUÐMUNDUR HJALTASON OG HARTMUT M. KRÄMER Í STJÓRN ALFESCA Nadine Deswasiere og Hartmut M. Krämer voru kosin í stjórn SÍF í mars 2005 en bæði hafa þau mikla reynslu af sölu- og markaðsmálum á smásölumarkaði víðs vegar um heim. JAKOB ÓSKAR SIGURÐSSON, FORSTJÓRI SÍF SEM NÚ HEITIR ALFESCA SÍF fékk nýtt nafn á föstudaginn. Nafnið er táknrænt fyrir sýn fyrirtækisins, sem er að verða leiðandi full- vinnslu- og markaðsfyrirtæki á tilbúnum neysluvörum. Franska ofurkonan í stjórn Alfesca Í stjórn hins nýnefnda Alfesca situr franska athafnakonan Nadine Deswasiere. Hún var stödd hér á landi í vikunni sem leið til að vera viðstödd stjórnarfund og kynningu á nýju nafni fyrirtækisins. Hólmfríður Helga Sigurðardóttir krækti sér í spjall við konuna sem státar af glæstum starfsferli. Nadine bjó í þrjú ár í Malasíu, þangað til henni var falið að fara til Búlgaríu þar sem Nestlé rak verksmiðju sem til stóð að loka. Hún fékk sex mánuði til að sjá hvort möguleiki væri á að snúa við rekstrin- um. Það tókst og þegar hún fór þaðan var Nestlé komið í sextíu prósenta vöxt á svæðinu og verksmiðjan fékk að standa.

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.