Morgunblaðið - 23.07.2006, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 23.07.2006, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 23. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ Það hefur verið sagt að kapít-alismi þrífist ekki nema ágrundvelli stjórnkerfissem tryggir stöðugleika ísamfélaginu – kapítalism- inn sjálfur geti aldrei skapað þann stöðugleika sem honum sé þó nauð- synlegur. Kerfin sem skapa þennan stöðugleika eru í grundvallaratriðum tvennskonar: Velferðarkerfi eða ein- ræði af einhverju tagi. Kapítalisminn í Rússlandi varð til að svipaðan hátt og rússneski komm- únisminn, með hruni ríkjandi þjóð- félagsskipanar og ringulreið í kjölfar- ið. Það má að vísu hrósa happi að ringulreiðin við endalok Sovétríkj- anna skyldi ekki leiða til borgara- styrjaldar í landinu eins og gerðist 74 árum áður þegar bolsévíkar tóku völdin. En ringulreið og upplausn ein- kenndi engu síður þessar breytingar með hrikalegum afleiðingum fyrir líf alls þorra almennings. Einhverja hugmynd um ástandið má fá af op- inberum tölum um tekjur, afkomu, lífslíkur, heilsufar, barnadauða, fjöl- skyldur, drykkjuskap, ofbeldi og glæpi sem lýsa á köflum ótrúlegri og skyndilegri afturför. Þeim sem var það ekki ljóst í upp- hafi, hefur orðið það ljóst smám sam- an, að það kerfi sem Rússar tóku upp í orði kveðnu strax eftir hrunið, stjórn- arskrárbundið lýðræði, með sterku forsetavaldi og mikilvægu hlutverki þings, er í grundvallaratriðum óstöð- ugt. Alveg síðan Boris Jeltsín leysti upp Æðstaráð Rússlands 1993, frá fyrstu kosningum til Dúmunnar sama ár og gildistöku stjórnarskrár, hefur rússneskt lýðræði staðið völtum fót- um. Þessi óstöðugleiki er líklega helsta ástæðan fyrir því að Rússum hefur ekki enn tekist að ávinna sér það traust í alþjóðasamfélaginu sem þeir þó telja sig verðskulda. Gagnvart Vesturlöndum er staða Rússlands ennþá óljós og framtíðin óviss hvort sem litið er til stjórnmála, efnahags- mála eða menningarlegrar sjálfs- myndar. Vegna óvissu og óstöðug- leika innanlands er hætt við að stefna Rússlands út á við á næstunni muni mótast mjög af innanlandsástandi – það er að segja stjórnvöld munu láta utanríkisstefnu sína þjóna innan- landspólitískum markmiðum öðru fremur, hún mun mótast af því mark- miði þeirra að sýna eigin þegnum fram á styrk og mikilvægi Rússlands á alþjóðavettvangi. Leiðtogafundur G-8 ríkjanna, sem nú er nýlokið í Pét- ursborg, er ágætt dæmi um þetta: Fyrir rússnesk stjórnvöld fólst meg- ingildi fundarins í því að halda hann og sýna með þeim hætti hvers þau væru megnug. Ólíkt öðrum gestgjöf- um slíkra funda á síðustu árum tókst Rússum næstum alveg að koma í veg fyrir mótmælaaðgerðir á meðan á fundinum stóð. Þær aðferðir sem sjálfsagt þótti að beita til þess gefa vissa vísbendingu um hvaða leið búast má við að Rússar beiti til að gera kap- ítalisma sinn stöðugan til frambúðar: Það er leið einræðisins frekar en leið velferðarkerfisins. Stefna Pútíns og staða hans Alveg frá því að Vladimír Pútín tók við völdum á ársbyrjun 2000 hafa efa- semdir ríkt um lýðræðisvilja rúss- neskra stjórnvalda á Vesturlöndum. Fjölmargt hefur orðið til þess stað- festa þann grun að Pútín og sá hópur sem í kringum hann er, hafi meiri áhuga á að treysta eigin völd en að treysta lýðræðið. Pútín hefur aukið áhrif ríkisins í efnahagsmálum og að vissu marki snúið við stefnu áratug- arins á undan. Undir stjórn Pútíns hafa völd og áhrif öryggisstofnana ríkisins vaxið aftur í átt að því sem tíðkaðist í Sovétríkjunum. Stjórnvöld hafa markvisst dregið úr félaga- og fundafrelsi, nú síðast með löggjöf sem gerir þeim kleift að banna eða stöðva starfsemi frjálsra félagasamtaka nán- ast að vild. Með þessu hefur tekist að draga mjög úr áhrifum hópa á borð við þá sem gagnrýna hnattvæðingu og sama gildir um mannréttindasam- tök. Þó að Pútín tali fjálglega um mik- ilvægi lýðræðis og segist vilja auka aðgengi frjálsra félagasamtaka að pólitískum ákvörðunum er reyndin önnur, enda geta stjórnvöld sjálf ákveðið hvaða gagnrýni eigi að telja málefnalega og mikilvæga og hvaða gagnrýni teljist neikvæð eða skaðleg. Skömmu eftir að Pútín tók við emb- ætti, fékk hann samþykkta lagabreyt- ingu sem afnam kosningar um emb- ætti landsstjóra og forseta einstakra héraða og lýðvelda innan Rússlands. Þess í stað skipar forsetinn einstak- linga til að gegna þessum embættum að eigin geðþótta. Jafnframt var al- mennum kosningum til efri deildar Rússlandsþings hætt en þingmenn verða þess í stað tilnefndir til setu eða kosnir af heimaþingum. Þetta auð- veldar forsetanum mjög að stýra af- greiðslu mála í þinginu. Þá eru áhrif forsetans og manna hans á fjölmiðla óþægilega áberandi. Allir helstu fjöl- miðlar eru taldir lúta beinni eða óbeinni stýringu frá Kreml. Það er einnig sláandi að umsvif for- setaembættisins hafa vaxið ótrúlega og um margt svipar forsetaskrifstof- unni nú til miðstjórnar Kommúnista- flokksins sáluga eins og hún var á síð- ustu árum Sovétríkjanna. Starfs- menn forsetaembættisins eru á þriðja þúsund talsins og allt það húsnæði í miðborg Moskvu á milli Gamla torgs og Rauða torgsins sem áður tilheyrði miðstjórninni heyrir nú undir forseta- embættið, sem segir sína sögu um umsvifin. Rússnesk þjóðernishyggja og umheimurinn Pútín hefur beitt fyrirsjáanlegum aðferðum við að treysta völd sín og festa sig í sessi í kerfi þar sem völd fylgja embættum aldrei sjálfkrafa. En þessar aðferðir einar og sér skýra þó ekki styrka stöðu hans og nokkuð stöðugar vinsældir. Honum hefur einnig tekist móta stefnu og stjórn- arstíl sem vekur tiltrú stórs hluta landsmanna. Það er ekki alveg einfalt að skýra nákvæmlega í hverju þessi árangur hans felst, en þó má segja að Pútín hafi tekist að spila á helstu strauma rússneskrar þjóðernis- hyggju, sem hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Á sama tíma hefur honum tekist að halda þolanlegri ímynd út á við og, að minnsta kosti í orði kveðnu, vinna að bættu umhverfi viðskipta og fjárfestinga, um leið og hagur fólks hefur farið batnandi. Það mætti einnig halda því fram að undir stjórn Pútíns hafi Rússar endurheimt sjálfstraustið sem hrun Sovétríkjanna fór illa með. En það hefur sínar dökku hliðar: Krafan um endurheimt áhrif á alþjóðavettvangi er rík í rússnesku þjóðarsálinni og virðist miklu sterkari en krafa um réttlæti, mannsæmandi lífskjör, einfaldað regluverk hins op- inbera, betri og meiri almannaþjón- ustu, lýðræðislegri stjórnarhætti og trúverðuga baráttu gegn spillingu. Um það leyti sem Sovétríkin liðu undir lok var mikið talað um hættuna af herskárri þjóðernishyggju og stundum litið til upphafs nasismans í Þýskalandi til samanburðar. Á þess- um árum var þó í raun aldrei nein hætta á því að þjóðernissinnar kæm- ust til valda. Í fyrsta lagi tókst þeim ekki að höfða til nema takmarkaðs hóps kjósenda og í öðru lagi voru þjóðernissinnar sundruð fylking og markmið þeirra og hugmyndafræði af ýmsu tagi. En þetta hefur breyst. Á síðustu árum hefur þjóðernisöflum vaxið mjög ásmegin og áhrif þeirra á stjórnmálaumræðuna verða stöðugt meiri. Þetta setur Pútín í afar sérkenni- lega stöðu og getur ógnað stöðu hans, þó að þessi þróun sé að vissu leyti af- leiðing stefnu stjórnar hans. Pútín hefur frá upphafi vísað sterkt til rúss- nesks þjóðernis og þjóðernislegra gilda í öllum málflutningi sínum, þó aldrei hafi verið hægt að kalla hann þjóðernissinna í neinum venjulegum skilningi þess orðs. Stefna og stjórnarhættir Pútíns síðustu tvö árin eða svo sýna að hann gerir sér vel grein fyrir því hvað er að gerast í Rússlandi. Hann er ekki veruleikafirrtur í sama mæli og leið- togar Sovétríkjanna voru iðulega, sem kann að stafa af bakgrunni hans í KGB. Margt af því sem Pútín gerir um þessar mundir hefur ekki síst þann tilgang að stilla þá viðkvæmu og ólg- andi þjóðerniskennd sem nú kraum- ar. Ef Pútín glatar þeirri ímynd sinni að hann standi uppi í hárinu á vest- rænum leiðtogum og sé ekki minni maður en þeir, glatar hann vinsæld- um sínum um leið. Sé hægt að saka hann um hik eða ráðaleysi gagnvart nágrannaþjóðum, eða um að fórna rússneskum hagsmunum, er hann í verulegri hættu. Það er til marks um árangur hans í forsetastóli að honum hefur tekist að halda andlitinu innan- lands í samskiptum við nágrannaríki þó að aðgerðir Rússa og afstaða gagn- vart til dæmis Georgíumönnum og Úkraínumönnum hafi vakið gremju og mikla tortryggni á Vesturlöndum. Frá vestrænu sjónarmiði virðist af- staða Pútíns til þeirra ríkja sem áður voru hluti af Sovétríkjunum og ann- arra svæða nálægt Rússlandi þar sem Rússar telja sig eiga sérstakra hags- muna að gæta, oft furðuleg. Menn grípa til þeirra skýringa að rússnesk stjórnvöld geti ekki rifið sig út úr Þjóðernishyggja, lýðræði og valdstjórn í Rússlandi Pútín á mörkunum Fyrir rússnesk stjórnvöld fólst megingildi G-8 fund- arins, sem nú er nýafstað- inn, í Pétursborg, að sýna eigin þegnum fram á styrk og mikilvægi Rússlands á alþjóðavettvangi. Jón Ólafsson fjallar um þjóð- félagsþróunina í landinu þau rúmu sex ár sem Vla- dimír Pútín hefur gegnt embætti forseta. ’Í rauninni má skýra þann stöð- ugleika sem nú ríkir í Rússlandi með tvennu: Olíuverði og valdstjórn. ‘ REUTERS Pútín forseti á leiðtogafundi G-8 ríkjanna í Pétursborg. Fyrir rússnesk stjórnvöld fólst megingildi fundarins í því að halda hann til þess að sýna hvers þau væru megnug. AP Rússneskir hermenn í Tétsníu. Frá vestrænu sjónarmiði virðist afstaða Pútíns til þeirra ríkja sem áður voru hluti af Sovétríkjunum oft furðuleg. Reuters Í gasdeilunni við Úkraínumenn sást vel hvernig Pútín var miklu mikilvægara að tryggja að forsetinn virtist sterkur innanlands en að halda trúverðugleika út á við.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.