Morgunblaðið - 16.11.2006, Page 41
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. NÓVEMBER 2006 41
MINNINGAR
✝ Daníel Daní-elsson fæddist í
Hlíðarhúsum í
Reykjavík 18. mars
1924. Hann lést á
heimili sínu, Þing-
holtsbraut 35 í
Kópavogi, 7. nóv-
ember síðastliðinn.
Foreldrar hans
voru Daníel Krist-
ján Oddsson loft-
skeytamaður, f. í
Hlíðarhúsum í Rvík
21. júlí 1890, fórst
með togaranum
Reykjaborg 10. mars 1941, og
Jóhanna Júlíana Friðriksdóttir,
húsfreyja í Rvík, f. 4. júlí 1895, d.
20. júní 1979. Systkini Daníels
eru: Friðrik, Oddur, Kristín og
Jóhanna, öll látin, en á lífi eru
Ágústa, Anna og Guðbjörg.
Fyrri kona Daníels var Helga
Pétursdóttir frá Tungukoti í V-
Húnavatnssýslu, d. 4. október
1971. Sambýliskona
Daníels var Helga
Geirsdóttir frá
Hallanda í Hraun-
gerðishreppi, f. 16.
ágúst 1923. For-
eldrar hennar voru
Margrét Þorsteins-
dóttir, f. í Lang-
holti 28. ágúst
1896, d. 1986, síðar
húsmóðir í Hall-
anda, og Geir Vig-
fússon bóndi í Hall-
anda, f. á
Eyrarbakka 3. júlí
1900, d. 1975. Systkini Helgu,
látin, eru: Karítas Geirsdóttir;
Karítas Geirsdóttir; Óskar Geirs-
son; og Reynir Geirsson (hálf-
bróðir). Á lífi eru Sólveig, Sig-
urbjörg, Margrét og Hörður
Hansson (uppeldisbróðir).
Útför Daníels verður gerð frá
Kópavogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Þar sem ég sit við tölvuna og skrifa
um þig, afi, á ég erfitt með að trúa því
að þú sért farinn. Það er engu líkara
en að þú hafir bara skroppið út í búð
eða upp í sumarbústað, en það er ekki
raunin, þú ert víst farinn fyrir fullt og
allt.
Þær voru ófáar góðu stundirnar
sem við áttum saman í gegnum tíðina,
hvort sem það voru ferðir í kolaport-
ið, ísbúðina eða upp í sumarbústað
með þér og ömmu. Það verður tóm-
legt og skrítið að koma á Engjarnar
og þú verður ekki þar, að slá og dytta
að í bláa samfestingnum með derhúf-
una góðu. Við eyddum líka ófáum
stundum í kjallaranum á Þinghóls-
braut sem var eiginlega þitt afdrep í
húsinu, þar kennir ýmissa grasa og
allt í drasli, en þó vissir þú hvar allt
var, allt hafði sinn stað. Þar fékk mað-
ur að smíða og mála eins og maður
vildi, enda ógrynni af timbri í þessum
blessaða kjallara, þetta eru minning-
ar sem aldrei gleymast.
Það er því með mikilli sorg og
trega í hjarta sem ég kveð þig, afi
minn. Takk fyrir allt sem þú kenndir
mér, ég á eftir að sakna þín.
Baldur Sævarsson.
Kynni okkar hjóna af Daníel hófust
fyrir um 30 árum, um svipað leyti og
við vorum að kynnast, að hann og
móðir mín Helga Geirsdóttir frá Hall-
anda í Hraungerðishreppi kynntust.
Það var ljóst frá fyrsta degi að þar fór
ljúfur og traustur maður. Reyndist
hann okkur og síðar börnunum okkar
Baldri og Helgu vel í alla staði og var
þeim góður afi. Daníel var farsæll
verkstjóri hjá Eimskip í áratugi,
traustur og samviskusamur. 67 ára
lét hann af störfum hjá þeim. Eftir
það var sumarbústaðurinn sem þau
mamma byggðu sér á Engjunum í
landi Hallanda helsta áhugamál
þeirra.
Þau ljómuðu alltaf eins og sólir
þegar voraði og hægt var að vera á
Engjunum. Þar byggðu líka bústaði
systkini mömmu. Var þar oft glatt á
hjalla. Hundruðum trjáa var plantað,
og gras ræktað í kringum bústaðinn
sem varð til þess að sjaldan var dauð
stund yfir hádaginn.Var unnið við
slátt og trjáklippingar og annað við-
hald á sumarhúsinu og við að koma
öllu grasinu í burtu. Margar ferðirnar
voru farnar á Skóda Formann og
kerrunni góðu með hey og önnur að-
föng en Formanninn gafst upp nú í
haust á Hellisheiðinni blessaður.
Þegar kvölda tók fórst þú úr bláa
vinnugallanum þínum, sem var þinn
einkennisbúningur í sveitinni, og
settist í hornið þitt og fengum við
okkur stundum smáhressingu og
ræddum heimsmálin og sagðir þú
okkur frá tímunum fyrir og eftir stríð
og margt fleira. En kallið kom snögg-
lega, við hefðum viljað hafa þig ögn
lengur hjá okkur. Þökkum fyrir allar
góðu minningarnar sem við eigum
um þig í hjörtum okkar.
Hvíl þú í friði
Sævar og María.
Elsku afi minn, þegar ég frétti að
þú værir farinn fá okkur og að ég
væri búin að missa góðhjartaðan
mann og afa gat ég ekki annað en
grátið og minningarnar streyma.
Ég man alltaf þegar ég var í pöss-
un hjá þér og ömmu, mér fannst það
alltaf svo gaman. Ég og þú fórum oft
saman í göngutúr, útí sjoppu að taka
spólu, eða niður á sjó til að skoða hvað
var í fjörunni og tókum við hundinn
Gynnes oft með. Þú sagðir frá öllu
sem var á ferðinni í fjörunni og sér-
staklega fannst mér spennandi að
skoða marflærnar þær voru eitthvað
svo skrítnar og ógeðslegar. Oft fórum
við í kolaportið og fannst mér það nú
ekki verra. Þar gafstu mér alltaf
lukkupakka og síðan fórstu að kaupa
þér síld, þér fannst hún alltaf svo góð
að þú borðaðir hana bara beint uppúr
dósinni úti í bíl.
Svo voru það tímarnir sem við vor-
um í sumarbústaðnum. Þar var alltaf
nóg að gera og alltaf fannst mér gam-
an að hjálpa. Við slógum grasið og var
það nú mikið gras og fórum við alltaf
með það til hestanna.
Mér finnst mjög sorglegt að þú
sért farinn frá okkur svona snögg-
lega, hefði ég viljað hafa þig lengur.
Góði Guð, passaðu afa og líka hana
ömmu, því hún hefur misst mest.
Takk fyrir allt, elsku afi minn, og
segi ég bara eins og þú sagðir alltaf
við mig: Núna ert þú komin heim í
heiðardalinn.
Helga Sigurveig Sævarsdóttir.
Fallinn er frá föðurbróðir minn
Daníel Daníelsson. Óhætt er að segja
að flestum sem til þekktu kom það á
óvart þrátt fyrir að sigið væri á efri
árin hjá þessum heiðursmanni. Daní-
el var fæddur 18. mars 1924 og var
fjórði í röð átta barna þeirra hjóna
Jóhönnu Friðriksdóttur og Daníels
Kristjáns Oddssonar loftskeyta-
manns í Hlíðarhúsum í Reykjavík.
Eins og algengt var með krakka á
þessum árum var hann sendur í sveit
að Hvammi í Kjós þar sem hann lærði
að vinna eins og hann sagði sjálfur.
Hann hóf störf hjá Eimskipafélagi Ís-
lands 1941 og starfaði þar alla sína
starfsævi, fyrst sem lausamaður á
Eyrinni og síðar sem verkstjóri. Eftir
starfslok sín hjá Eimskip fylgdist
hann þó vel með því sem þar gerðist
og áleit það nánast starfsskyldu sína
að mæta á þá viðburði sem eldri
starfsmönnum félagsins buðust og
var einmitt nýkominn frá því að
skoða hina nýju vöruskemmu þegar
kallið kom.
Við Þórunn vorum svo heppin að
vera sambýlingar þeirra Daníels og
Helgu um nokkurra ára skeið á Þing-
hólsbrautinni og fengum þá tækifæri
til þess að kynnast þeim nokkuð náið.
Hjálpsemi þeirra á þessum árum var
ómetanleg. Starfsgleði Dalla voru
engin takmörk sett og í hvert sinn
sem eitthvað fór í gang við endur-
byggingu hússins var hann kominn
og áður en maður vissi af var hann
búinn að yfirtaka verkið sem vinna
þurfti og við enduðum sem aðstoð-
armenn hans. Það kom ekki til greina
að við fengjum að slá grasið eða moka
snjóinn af stéttum umhverfis húsið.
Þessi verk átti hann og var hans lík-
amsrækt eins og hann sagði.
Stóri Dalli eins og hann var oftast
kallaður af fjölskyldunni var af alda-
mótakynslóðinni og hafði því upplifað
miklar breytingar á sinni ævi. Hann
fylgdist alltaf mjög vel með þjóðmál-
um og var ávallt tilbúinn að ræða það
sem efst var á baugi hverju sinni.
Hann var sjálfstæðismaður af lífi og
sál og hafði unun af rökræðum um
stjórnmál. Aldrei þurfti hann að
hækka róminn í slíkum umræðum, til
þess taldi hann málstað sinn of sterk-
an. Ekki veit ég enn hvort hans mat
var að hann teldi sig kominn í rökþrot
eða að viðmælandinn væri gersigrað-
ur þá endaði hann alltaf slíkar um-
ræður með spurningunni um hvort
maðurinn hefði lesið Jónsbók. Ef ekki
þá var viðkomandi náttúrlega ekki
viðræðuhæfur um stjórnmál. Á
hverjum laugadagsmorgni kom hann
yfir til okkar, fyrst og fremst til þess
að fá sér kaffisopa, gera létt grín að
sjálfum sér, og ekki þótti honum
verra ef tækist að æsa kratann svolít-
ið upp og helst snúa honum. Það tókst
að lokum.
Nú þegar komið er að kveðjustund
viljum við þakka fyrir allar þær góðu
stundir og minningar sem stóri Dalli
gaf okkur. Við Þórunn vottum Helgu
og fjölskyldu dýpstu samúð okkar.
Megi góður Guð styrkja ykkur í sorg
ykkar.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Hannes Friðriksson.
Daníel Daníelsson
✝ Kristín Gunn-arsdóttir fædd-
ist á Hæðarenda í
Grindavík 3. sept-
ember 1926. Hún
lést á hjúkr-
unarheimilinu
Skjóli 7. nóvember
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Gunnar Magnús
Ólafsson, f. 13.11.
1898, d. 7.5. 1956
og Ólöf Jónsdóttir,
f. 2.3. 1897, d. 17.4.
1966. Systkini
Kristínar voru fjögur og eru tvö
þeirra látin: 1) Guðrún, f. 1924,
d. 1992, 2) Jóna Kristbjörg, f.
1927, d. 1999, 3) Bjarni Guð-
mundsson, f. 1930 og 4) Björgvin
Ólafur, f. 1936. Kristín kvæntist
ung Þórarni Leví Bjarnasyni, f.
8.11. 1909, d. 4.9. 1979. Þau slitu
samvistum. Kristín stofnaði síðan
heimili með Halldóri Lárusi Guð-
mundssyni, f. 1.4. 1909, d. 5.5.
1994. Hún eignaðist með honum
tvær dætur, þær eru: 1) Lára
leikskólakennari, f. 21.11. 1957.
Maki Sigurður Pét-
ur Eiríksson bíl-
stjóri, f. 29.5. 1955.
Börn þeirra eru
Þröstur Sigurðsson,
f. 16.5. 1979, Sunna
Sigurðardóttir, f.
24.3. 1987 og Dag-
ur Sigurðsson, f.
20.5. 1990. 2)
Hanna leikskóla-
kennari, f. 31.7.
1961. Maki 1) Sig-
urður Hjálmar
Ragnarsson húsa-
smíðameistari, f.
12.9. 1960. Þau slitu samvistum.
Börn þeirra eru: Hera Sigurð-
ardóttir, f. 5.2. 1980, Lára Sig-
urðardóttir, f. 5.12. 1985 og
Númi Sigurðarson, f. 20.5. 1987.
Maki 2) Kristín Jóna Þorsteins-
dóttir grafískur miðlari, f. 20.8.
1967. Kristín vann hin ýmsu
störf en var lengst af starfs-
maður á leikskólum hjá Reykj-
arvíkurborg.
Kristín verður jarðsungin frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.
Við kveðjum þig elsku mamma
með uppáhalds ljóðinu þínu,
Komdu, litli ljúfur,
labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur
dvelja inni’ um sinn,
– heiður er himininn.
Blærinn faðmar bæinn,
býður út í daginn.
Komdu, kalli minn.
Hér bjó afi og amma
eins og pabbi og mamma.
Eina ævi og skamma
eignast hver um sig,
– stundum þröngan stig.
En þú átt að muna,
alla tilveruna,
að þetta land á þig.
Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
Mundu, mömmu ljúfur,
mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt.
(Guðm. Böðvarsson.)
Þínar dætur
Lára og Hanna
Elsku tengdmóðir.
Auðvitað veit ég hver hún Kristín
er, ég hef nú snýtt henni og skeint.
Með þessum orðum bauðst þú mig
velkomna inn í fjölskyldu þína sem
tengdadóttir þín.
Þú passaðir mig sem barn og varst
mér sem móðir síðastliðin 10 ár.
Setið á verönd hins nýja lífs
sólin hefur þerrað döggina
sem lá á greinum trjánna
glitrandi sem gimsteinar
niður vatnsins heyrist frá ánni
er vatnið rennur viðstöðulaust
eitthvert áfram
eitthvað svo langt áfram
án þess að vera að fara
nokkuð sérstakt
bara lætur sig fljóta
Frostið hefur fangað döggina
sem lá á grasinu
fangað hana og hneppt í hvítt þang
gimsteinn sem liggur á jörðinni
fangi þar til sólin hefur brætt frostið
svo vatnstraumar renna niður hlíðina
markmiðið er áin
sem flýtur
flýtur niður að sjó
og enginn veit að þar flýtur döggin
sem var einu sinni fangi
en er nú frjáls
og flýtur og flýtur
Góða ferð, þín nafna
Kristín Jóna Þorsteinsdóttir.
Amma, áttu mysing? Amma, meg-
um við fara í bað? Amma, megum við
mála grindverkið? Amma, viltu baka
ástarpunga? Amma, megum við
elda? Manstu þegar við nenntum
aldrei að þurrka okkur eftir bað
heldur hlupum um eins og sturluð til
að þorna? Manstu þegar við földum
okkur alltaf undir rúmi hjá afa þegar
við áttum að fara heim? Manstu þeg-
ar við fengum að vera inni í búri í
vinnunni hjá þér og horfa á þig
vinna? Manstu þegar við gátum dúll-
að okkur við að klæða upp dúkkulís-
ur klukkustundum saman? Manstu
þegar þú prjónaðir jólakarlana fyrir
okkur? Það voru ein bestu jól sög-
unnar. Manstu þegar við þurftum að
pissa í grænu fötuna í eldhúsinu þeg-
ar afi var í baði? Manstu þegar við
lágum í flatsæng í litla herberginu og
við skiptumst á að lesa okkur í svefn?
Allt sem þú gerðir fyrir okkur og allt
sem þú gafst okkur er ómetanlegt.
Þú veittir ungum mæðrum okkar
styrk og stuðning og gekkst okkur í
móðurstað þegar á þurfti að halda.
Amma Kristín er fyndnasta amma
allra tíma. Í seinni tíð var hún ófeim-
in við að láta okkur vita af því ef kíló-
in voru farin að hlaðast utan á okkur
og hún hikaði ekki við að sleikja
tissjú og þurrka manni um munninn.
Amma sagðist oft hafa skeint og
snýtt hálfri Reykjavík, hún átti sitt í
öllum stóru körlunum. Þegar við
skoðum gamlar myndir af þér,
amma, þá fyrst sjáum við hversu
mikil díva þú hefur verið. Það fór
ekki fram hjá neinum þegar amma
Kristín gekk inn í herbergið, þarna
var mikil drottning á ferð.
Styrkurinn sem þú sýndir síðustu
árin var ótrúlegur. Læknarnir
kepptust við að kalla þig gangandi
kraftaverk og við sáum það greini-
lega að þú vafðir þessum ungu mynd-
arlegu mönnum um fingur þér.
Orð fá varla lýst söknuði okkar
frændsystkinana. Einn máttarstólpi
lífs okkar hefur fallið frá og nú þurf-
um að gjöra svo vel að standa á eigin
fótum.
Amma okkar, við vitum að þú og
afi fylgist með okkur og munið fylgja
okkur um ókomna framtíð. Vonandi
líður ykkur eins og sönnum konungs-
hjónum á þeim stað þar sem þið eruð
núna.
Sæl að sinni elsku amma, þínir
stóru krakkar,
Þröstur (Töddi) og Hera.
Elsku amma Kristín.
Við munum ávallt minnast þín með
gleði í hjarta, þú sem varst okkur
alltaf svo góð. Þegar við leiðum hug-
ann til þín koma upp margar minn-
ingar. Eins og þegar við fengum að
sitja í búrinu í Efrihlíð meðan þú
varst að vinna, þegar þú tókst okkur
strákana með þér í gamla Kolaportið
og gafst okkur tombólumiða sem
gáfu misskemmtilegar gjafir en það
skipti okkur engu máli því það var
alltaf svo gaman með þér. Eða þegar
við stelpurnar fórum á Laugaveginn
og þú keyptir handa okkur límmiða í
Tokyo og jafnvel heitt kakó.
Þegar það kom sá tími að við feng-
um að gista hjá þér heila helgi þá
voru það bestu helgarnar sem við
gátum upplifað. Við munum enn eftir
gömlu þunnu hippadýnunum sem við
sváfum alltaf á, hlustuðum á Jónas á
Rás 1, þú sagðir okkur söguna um
fluguna Mola sem flaug í gegnum
skráargatið og við sungum saman úr
Fljúga hvítu fiðrildin. Þá fengum við
að spila andarspilið eða olsen olsen
eftir þínum reglum. Síðan þegar við
fórum í búðina renndum við okkur í
öllum rennibrautum sem við sáum á
leiðinni. Það var líka alltaf jafn gam-
an að fá að baka með þér á sunnu-
dagsmorgnum áður en við vorum
sótt, en það var einmitt það leiðinleg-
asta við helgarnar, að fara frá þér.
Það er skrýtið að hugsa til þess að við
getum ekki lengur komið í heimsókn
og fengið ristabrauð sem þú skarst
alltaf í fjóra hluta, eggjasúpu eða sí-
trónubúðing. Sama hvað maður
reyndi heima þá varð það aldrei eins
gott og hjá þér.Við eigum heldur
aldrei eftir að gleyma því þegar þú
last fyrir okkur Einars Áskels bæk-
urnar, sagðir okkur sögur frá gamla
tímanum og sýndir okkur myndir.
Þú hefur gert æsku okkar allra
betri og við munum sakna þín mikið.
Við verðum að eilífu þakklát fyrir að
hafa átt þig, þú ert nefnilega besta
amma í heimi.
Hvíl í friði, amma Kristín.
Þín barnabörn
Lára, Númi, Sunna og Dagur.
Kristín Gunnarsdóttir
Morgunblaðið birtir minning-
argreinar alla útgáfudagana.
Skil | Greinarnar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is – smella á reitinn Senda efni
til Morgunblaðsins – þá birtist val-
kosturinn Minningargreinar ásamt
frekari upplýsingum.
Skilafrestur | Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún
að berast fyrir hádegi tveimur
virkum dögum fyrr (á föstudegi ef
útför er á mánudegi eða þriðju-
degi). .
Minningargreinar