Morgunblaðið - 18.02.2007, Síða 16

Morgunblaðið - 18.02.2007, Síða 16
16 SUNNUDAGUR 18. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ SÁLRÆNAR AFLEIÐINGAR KYNFERÐISOFBELDIS M eð kynferðislegri misnotkun er átt við að börn séu dregin inn í kynferðislegar athafnir, sem þau vegna aldurs síns og þroskaleysis, skilja ekki fyllilega, geta ekki komið sér út úr, eða skortir nægilega þekk- ingu og reynslu til að geta gefið samþykki til þátttöku í, eða sem misbjóða hinum félagslegu normum um hlutverk fjölskyldunnar. Þannig skilgreina bandarísku hjónin og geðlæknarnir Ruth og Henry heitinn Kempe kynferðislega misnotkun en þau njóta víð- tækrar virðingar fyrir störf sín að geðheil- brigðismálum barna. Valgerður Baldursdóttir geðlæknir á Reykjalundi, sem bæði hefur sérhæft sig á sviði barna- og fullorðinsgeðlækninga, segir að ofbeldi í barnæsku, að ekki sé talað um kyn- ferðislegt ofbeldi, hafi meiri áhrif á mann- eskju en nokkuð annað sem hún þarf að þola í lífinu. „Það er ekki hægt að veita barni meiri skaða en misnota það kynferðislega. Það gengur út fyrir allt annað. Auðvitað er skað- inn meiri því nær sem gerandinn stendur þol- andanum, s.s. ef foreldri á í hlut. Þar er rofið traust í mikilvægustu tengslum barnsins. Sé gerandinn utanaðkomandi aðili getur fjöl- skyldan gegnt lykilhlutverki við að hjálpa þol- andanum að vinna úr og jafna sig eftir áfallið. Á þessu tvennu er því töluverður munur. Þó má taka fram að börn sem verða fyrir kyn- ferðislegri misnotkun utan fjölskyldu búa oft- ar en börn almennt við erfiðar fjölskyldu- aðstæður.“ Fyrstu þrjú árin mikilvægust Valgerður segir ekkert tímabil mikilvægara í lífi okkar mannanna en fyrstu þrjú æviárin. Þar sé grunnurinn lagður að andlegu, fé- lagslegu og líkamlegu heilbrigði. „Þarna mót- ast okkar félagslega og tilfinningalega „ónæmiskerfi“. Rannsóknir hafa sýnt fram á að umhverfið ber genin ofurliði og því skiptir reynsla einstaklingsins af heiminum höf- uðmáli. Það eru aðstæðurnar en ekki genin sem ráða mestu um það hvað verður úr okkur. Þess vegna er mesti áhrifavaldur í lífi hvers barns sú fjölskylda sem það fæðist inn í. Næst á eftir kemur þjóðfélagið sem heldur utan um þá fjölskyldu.“ Hún segir börn sem búa við erfiðar fjöl- skylduaðstæður útsettari fyrir ofbeldi en önn- ur börn og oftar en ekki sé rót vandans að finna í aðstæðum fjölskyldunnar. „Ástæðan fyrir því að börn eru tekin af heimilum sínum endurspeglar væntanlega alltaf vangetu fjöl- skyldunnar til þess að sinna barninu, sem vissulega getur verið mjög krefjandi verkefni þegar um er að ræða t.d. hegðunar- eða þroskavanda. Það er krefjandi verkefni að ala upp barn og auðvitað tímabært að virða það sem slíkt. Þarna skipta álagsþættir á fjölskyld- una miklu máli varðandi hæfni hennar til að sinna sínu hlutverki. Rannsóknir hafa sýnt að álag á foreldra gengur alltaf niður til barnanna. Gildir þá einu af hverju álagið staf- ar. Álag getur valdið streitu og áhyggjum en það getur stafað af veikindum hvers konar, fjárhagsvanda og félagslegum erfiðleikum svo nokkuð sé nefnt.“ Þegar börn eru tekin frá foreldrum sínum eru rofin mikilvæg tengsl. Valgerður segir að börn tengist alltaf foreldrum sínum sterkum böndum jafnvel þó tengslin geti verið blandin sársauka. Það er ekki bara mannlegt eðli, heldur á sér stað hjá öllum æðri dýrateg- undum þar sem ungviðið er háð umönnun um lengri tíma til að lifa af. „Vegna þessa ætti ríkulegur stuðningur við fjölskylduna alltaf að vera fullreyndur áður en börnin eru skilin frá foreldrum sínum.“ Barnið tekur á sig ábyrðina Tilfinningatengsl við fullorðna eru börnum nauðsynleg og hafa þau gríðarleg áhrif á þroskaferil barnsins, þ.m.t. þróun persónu- leikans, sjálfsmyndarinnar, grunnþætti til- finningalífsins, siðferðiskenndarinnar, hæfi- leikans til að finna til samúðar með öðrum, samskiptafærni og svona má lengi telja. Valgerður segir að börnum sem verði fyrir illri meðferð af hálfu sinna nánustu sé óbæri- legt að lifa við að mikilvægustu umönnunar- aðilar þess séu í eðli sínu „vondir“ enda er barnið algjörlega háð þeim til að komast af. Barnið taki því á sig ábyrgðina á hegðun hins fullorðna og skýri hana fyrir sér þannig að það sé eitthvað að því sjálfu sem geri það að verkum að svona er komið fram við það. „Þetta hefur stundum verið orðað svo að fyrir barnið sé betra að vera syndari í himnaríki en engill í helvíti. Þetta verður síðan lífseigur kjarni í sjálfsmynd einstaklingsins, jafnvel æv- ina út. Hina ómeðvituðu heimsmynd barnsins mætti orða þannig: „Það getur ekki verið að heimurinn sé svona vondur, það hlýtur að vera eitthvað við mig eða mína hegðun sem veldur því að hann gerir svona við mig“.“ Rannsóknir á öðrum áföllum undirstrika, að sögn Valgerðar, mikilvægi þess að lifa í heimi sem stjórnað er af réttlæti, sé fyrirsjáanlegur og að maður sjálfur geti haft áhrif á eigin ör- lög. „Innihald misnotkunarinnar, þ.e. hvað er gert og hvernig, hefur áhrif á hvers konar og hve alvarlegur hinn sálræni skaði verður. Aðr- ir þættir sem hafa áhrif eru aldur barnsins, varanleiki misnotkunarinnar, notkun valdbeit- ingar og/eða hótana, fjölskylduaðstæður, við- brögð umhverfisins og fleira,“ segir Val- gerður. Hún segir kynferðislegt ofbeldi hafa áhrif á alla þætti mannlegrar tilvistar. „Lífsreynsla af þessu tagi hefur gagntækar afleiðingar í för með sér. Hún hefur víðtæk áhrif og eru sterk tengsl við andlega vanlíðan af ýmsu tagi. Svona áföll geta auðveldlega ógnað geðheilsu fólks. Birtingarformið er mjög mismunandi en það eru sterk tengsl við kvíða, þunglyndi, ým- iss konar persónuleikavanda, jafnvel geðrof, sjálfseyðileggjandi hegðun s.s. misnotkun vímuefna, átraskanir, áhættuhegðun og fleira. Þetta hefur líka áhrif á virkni fólks í hinu dag- lega lífi, samskipti þess við börn sín, maka og aðra. Síðast en ekki síst hafa rannsóknir leitt í ljós að kynferðisleg misnotkun í æsku hefur tölfræðilega séð tengsl við allar megindán- arorsakir á fullorðinsárum. Það er erfitt að negla niður orsakasamhengi í þessu sambandi en það hefur komið fram fylgni þarna á milli.“ Fram hefur komið í rannsóknum að umtals- verður hluti kvenna sem leggjast inn á geð- deildir, jafnvel allt að helmingur, hefur sögu um kynferðismisnotkun í æsku en stór hluti þeirra hefur orðið fyrir langvarandi og/eða alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Aldrei of seint að leita sér hjálpar Valgerður er þeirrar skoðunar að það sé aldrei of seint að rétta þolendum kynferð- islegs áreitis eða ofbeldis hjálparhönd. „Sú áfallahjálp sem talað er um að veita ára- tugum eftir að áfallið hefur átt sér stað, eins og í tilviki mannanna sem voru í Breiðavík, nær auðvitað aldrei að leysa allan vanda þeirra ein og sér. En það eru auðvitað yf- irþyrmandi sárar minningar sem eru að koma upp á yfirborðið. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að lausnin er ekki skjótfengin. Auðvitað er jákvætt ef þessi hjálp stendur til boða en það er langt og flókið ferli að vinna úr svona reynslu.“ Meðferð hlýtur, að mati Valgerðar, alltaf að vera einstaklingsmiðuð og í takti við þarfir og getu þess einstaklings sem á í hlut. Fólk sé misjafnlega tilbúið að ræða og vinna úr málum af þessu tagi þannig að sá sem ekki er tilbúinn í dag gæti verið það síðar. Hún tekur undir að sjálfshjálp skipi sinn sess í þessum málum sem öðrum en oft geti verið nauðsynlegt að leita til fagaðila sem hafa þekkingu og reynslu í með- ferð slíkra mála. Þá standi dyr Stígamóta fólki alltaf opnar. Valgerður segir að meðferð- arsambandið sé lykilatriði í þessu sambandi en á því byggist árangur meðferðar að stórum hluta þótt margir aðrir þættir spili auðvitað inn í þetta flókna ferli. Vitum ekki hvernig fólki líður Valgerður veit að úti í samfélaginu er fjöldi fólks sem orðið hefur fyrir kynferðislegu áreiti af einhverju tagi en talar ekki um það og leitar sér ekki hjálpar. „Það getur vel verið að þetta fólk virki ágætlega í samfélaginu en við vitum samt sem áður ekki hvernig því líður. Sumum virðist ganga allt í haginn en aðrir geta lent í endurteknum skipbrotum í lífinu og búið við mikla innri vanlíðan sem þeir jafnvel taka út í samskiptum við sína nánustu. Það getur haft miklar afleiðingar ef ekki næst að vinna úr djúpstæðum sársauka. En fólk verður að finna þetta hjá sér sjálft. Þú þvingar engan í sálræna meðferð. En ef fólk finnur að eitt- hvað íþyngir því og stendur því fyrir þrifum í tilverunni getur verið gagnlegt að skoða málin með því að leita sér hjálpar. Það getur verið gott að deila reynslu sinni og vanlíðan með öðrum. Í því felst engin yfirlýsing gagnvart sjálfum sér eða öðrum að fara eigi inn í lang- tíma vinnu. Með því að leita sér hjálpar er fólk einfaldlega að skoða möguleikana í stöðunni.“ Fyrsta skrefið getur vel verið, að mati Val- gerðar, að lesa bækur um efnið því aukið innsæi er styrkjandi í sjálfu sér. „Það er ekk- ert víst að fólk þurfi á sálfræðingi eða geð- lækni að halda en ef það kynnir sér málið er það betur í stakk búið að taka afstöðu til þess.“ Valgerður hefur að mestu leyti unnið á stofnunum og segir ráðrúm til að vinna á dýpt- ina með sjúklingum minna þar en utan stofn- ana. Eigi að síður hefur hún allan sinn starfs- feril haft mál þolenda kynferðisofbeldis á sínu borði, bæði í sambandi við börn og fullorðna. „Það leita býsna margir til okkar hérna á Reykjalundi sem ekki hafa búið við nægilega góð skilyrði í uppvextinum með þeim afleið- ingum að mínu mati og margra annarra að möguleikar þeirra og geta til að takast á við áföll síðar í lífinu er skert. Fólk með erfiðan bakgrunn bognar og jafn- vel brotnar þegar þeir sem hafa sterkari grunn að standa á komast í gegnum áföllin. Þetta er í mörgum tilvikum fólk sem hefur verið að streða við sitt líf lengi.“ Valgerður segir ljóst að ofbeldi og van- ræksla gagnvart börnum hafi afleiðingar fyrir samfélagið í kynslóðir. „Við heyrum að ör- yrkjum sé stöðugt að fjölga vegna geðrask- ana. Ég sé mjög sterkt samhengi þarna á milli. Fólk sem hefur veikari forsendur til að vinna sig út úr álagi og áföllum getur átt erfitt með að takast á við þau verkefni sem mæta okkur öllum í lífinu.“ Fyrirgefning ekki útilokuð Valgerður gagnrýnir stjórnvöld fyrir skiln- ingsleysi gagnvart þessum málaflokki. „Það er vissulega stundum leitað eftir áliti fagaðila. Það vantar ekki. En svo er alltof algengt að ekkert sé gert með það álit. Þetta sjáum við í bæði í Byrgis- og Breiðavíkurmálinu. Ekki var tekið mark á því fólki sem gefið hefur álit á hvernig þessi þjónusta eigi að vera. Þetta er mikill veikleiki í kerfinu. Kannski stafar þetta af smæð samfélagsins að einhverju leyti. Leið stjórnmálamanna að ákvörðuninni er kannski of stutt og álit sérfræðinga oft afgreitt út af borðinu með þeim rökum að þeir beri ekki al- mannahag fyrir brjósti heldur hagsmuni sinn- ar stofnunar.“ Að áliti Valgerðar er ekki útilokað að þol- andi kynferðislegs áreitis geti á einhverjum tímapunkti sæst við gerandann og jafnvel fyr- irgefið honum, enda getur það verið hluti af úrvinnsluferli einstaklingsins. „Auðvitað hverfur örið eftir þessa reynslu aldrei alveg en góð meðferð getur hjálpað til að vinna úr sársaukanum. Iðrun og ábyrgð geta skipt þol- andann miklu máli og hjálpar honum að gera sér grein fyrir alvarleika brotanna sem hann varð fyrir. Það er á þessum forsendum sem biðja þyrfti mennina sem máttu upplifa ofbeldi og niðurlægingu í Breiðavík afsökunar.“ ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ VEITA BARNI MEIRI SKAÐA Skaðinn meiri því nær sem gerandinn stendur þolandanum, s.s. ef foreldri á í hlut Morgunblaðið/Brynjar Gauti Geðlæknirinn „Innihald misnotkunarinnar, þ.e. hvað er gert og hvernig, hefur áhrif á hvers konar og hve alvarlegur hinn sálræni skaði verður. Aðrir þættir sem hafa áhrif eru aldur barnsins, varanleiki misnotkunarinnar, notkun valdbeitingar og/eða hótana, fjölskyldu- aðstæður, viðbrögð umhverfisins og fleira,“ segir Valgerður Baldursdóttir. » Fram hefur komið í rannsóknum að umtalsverður hluti kvenna sem leggjast inn á geðdeildir, jafnvel allt að helmingur, hefur sögu um kynferðismisnotkun í æsku en stór hluti þeirra hefur orðið fyrir langvarandi og/eða alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. orri@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.