Morgunblaðið - 29.04.2007, Page 71
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29. APRÍL 2007 71
sem Árni hugðist stunda nám í arki-
tektúr.
Þau bjuggu í Kaupmannahöfn um
árabil, en þó með þriggja ára hléi,
þegar ævintýraþráin bar þau áfram
til Venesúela, þar sem Addi starfaði
sem arkitekt að loknu námi.
Heimili þeirra á Friðriksbergi
stóð ætíð opið vinum og vandamönn-
um, sem leið áttu til borgarinnar við
Sundið. Íbúð þeirra bar vott um fág-
aða smekkvísi húsráðenda, sem
bæði voru fagurkerar og þar gaf að
líta ýmislegt af því besta úr klass-
ískri, danskri hönnun.
Ótal góðar minningar um liðnar
samverustundir koma upp í hugann
þegar litið er til baka. Margar urðu
heimsóknir okkar Ástu og barna
okkar til þeirra á Harsdorffsvej,
einkum á Danmerkurárunum okkar.
Þar töfraði listakokkurinn Addi
fram dýrindismáltíðir með tilheyr-
andi vel völdum vínum og mikið var
spjallað og hlegið langt fram á nótt.
Þarna slæddust stundum inn
skemmtilegar listamannatýpur, sem
höfðu laðast að húsráðendum, og
krydduðu gjarnan samkomuna.
Ógleymanleg mér eru ferðalög
okkar og samvera með þeim Guð-
björgu og Adda á Sikiley fyrir rúm-
um áratug og hversu gagntekin
Guðbjörg var af öllum þeim fornu
listaverkum og minjum sem þar er
að finna.
Guðbjörg var mjög listfeng mann-
eskja, teiknaði afbragðsvel og mót-
aði myndir í leir. Við Ásta héldum á
sínum tíma að hún yrði myndlista-
maður að ævistarfi, hún hafði ótví-
rætt hæfileikana. Guðbjörg og Addi
nutu sín vel í Danmörku. Guðbjörg
starfaði lengst af á skrifstofu Flug-
leiða í Kaupmannahöfn og greiddi
þar ljúflega og fagmannlega götu
ótal Íslendinga, sem þar voru á
ferðalagi. Guðbjörg og Addi voru
bæði einbirni og þegar foreldrar
þeirra tóku að reskjast og þurftu á
stuðningi að halda ákváðu þau að
snúa aftur heim til Íslands, sem þau
gerðu árið 1985. Annað sem einnig
vó þungt í þeirri ákvörðun var að
gimsteinninn þeirra, einkadóttirin
Arna Björk, var að komast á skóla-
aldur. Guðbjörg bar ætíð hag vina
sinna mjög fyrir brjósti. Eitt sinn í
annríki dagsins, hringdi hún í Ástu
og spurði: „Veistu hvað þið hjónin
verðið að gera um páskana?“ Jú, jú
Ásta vissi það, vinna í skriffinnsku
og tiltekt á heimilinu ásamt fleiru.
„Nei, nei“, sagði Guðbjörg, „þið eruð
að fara í páskafrí til Sviss, ykkur
veitir ekkert af því að fá smá hvíld,
ég er búinn að taka frá miðana, það
var sérstakt tilboð“. Skemmst er frá
að segja að við fórum í páskaferðina
og komum endurnærð og þakklát til
baka. Þessi litla saga finnst mér lýsa
Guðbjörgu vel.
Hin seinni ár hafa verið Guð-
björgu erfið og hún átt við mikil
veikindi að stríða. Í þeirri baráttu
hefur Addi, sá mikli mannkostamað-
ur, staðið við hlið hennar eins og
kletturinn í hafinu. Jafnframt hafa
Arna Björk og hennar fjölskylda
verið henni ómetanlegur styrkur.
Barnabörnin þrjú, þau Daníel Bjart-
mar, Guðbjörg Birta og Emilía
Steinunn, voru sannarlega sólar-
geislarnir, sem vörpuðu birtu á til-
veru hennar og gerðu lífið bærilegra
þessi síðustu ár. Við Anna og fjöl-
skyldan öll vottum Adda, Örnu
Björk og allri fjölskyldu þeirra okk-
ar dýpstu samúð. Megi minningin
um þá yndislegu manneskju, sem
Guðbjörg var, verða þeim styrkur í
sorginni.
Ástráður B. Hreiðarsson.
Sól sendir geisla í glugga
sigur ber birtan af skugga.
Bros mitt er þar
– hugur og hönd –
hjarta mitt líka og elskunnar bönd.
rh
Á stundum er erfitt að skilja og
höndla hringrás lífsins og fyrirvara-
lausa atburði þess. Við hjónin voru
nýkomin til landsins eftir langa fjar-
veru, þegar okkur barst sú sára og
ótímabæra fregn að Guðbjörg Elín
Daníelsdóttir væri látin.
Hugur okkar leitaði afturábak til
ársins 1995, þegar við hittum Guð-
björgu og fjölskyldu hennar fyrst.
Við hjónin vorum boðin í fimmtugs-
afmæli hennar. Það heimboð kom til
af öðru og meiru því Sigurður sonur
okkar og Arna Björk, dóttir Guð-
bjargar Elínar og Árna, eftirlifandi
manns hennar, höfðu fundið ástina
og hamingjuna hvort með öðru, og
nú var ástæða til að fagna margfalt
og að tilvonandi tengdaforeldrar og
tengdabörn að hittust.
Aldrei voru þau kynni er hófust
þetta umrædda kvöld á jólaföstunni
1995 af Guðbjörgu nema á einn veg,
frá henni stafaði hlýja, samvisku-
semi og vandvirkni sem viðkom öllu
sem hún tók sér fyrir hendur, virðu-
leg kona og heiðarleg. Þessi kynni
okkar sem voru á eina lund, svo hlý
og ljúf, og sameinuðu okkur svo öll
yfir „litlu gullmolunum þrem“ sem
komu hjá Örnu og Sigga árin á eftir
og við svo hamingjusöm að mega
njóta slíkra fjársjóða sem barnabörn
okkar eru og amma Guðbjörg sem
lét sér annt um hvert „örstutt spor“
. Og „litlu gullmolarnir“, munu
minnast ömmu sem þeir áttu óskipa
athygli hjá og vöktu gleði og ham-
ingju, með gleði í hreinu barnsins
hjarta, ávallt.
Fá orð segja lítið og verða um-
komulaus á blaði þegar margs er að
minnast og þakka er leiðir skilja um
stund. Gleði okkar var að fá að
kynnast mikið góðri konu og minn-
ingin lifir með þökk.
Góðan Guð biðjum við að vaka yf-
ir, hugga og styrkja þau öll sem
sakna nú sárt og gefa þeim von og
trú að nýju.
Við mennirnir ályktum en Guð
ræður.
Guð blessi ykkur öll.
Aðalheiður og Valur.
Guðbjörg Elín Daníelsdóttir, sem
lést nýlega, var frænka mín, dóttir
móðursystur minnar, Guðbjargar
Elínar Guðbrandsdóttur. Mig lang-
ar að minnast hennar nokkrum orð-
um, ekki síst þar sem mér var
ómögulegt að fylgja henni síðasta
spölinn.
Mæður okkar voru úr stórum hópi
barna afa okkar og ömmu á Loftsöl-
um í Mýrdal. Alla tíð voru miklir
kærleikar með þeim Loftsalasystk-
inum og mikill samgangur milli
þeirra.
Móðir mín og fleiri systur bjuggu
um lengri eða skemmri tíma hjá
þeim Guðbjörgu eldri og Daníel
Gíslasyni í Sörlaskjólinu.
Guðbjörg Elín var nokkuð eldri
en ég og hef ég þekkt hana alla mína
tíð. Að mörgu leyti var hún mér sem
stóra systir þegar ég var að alast
upp og fram eftir aldri. Margar mín-
ar fyrstu minningar tengjast Guð-
björgu Elínu og foreldrum hennar
og heimilinu í Skjólunum. Við móðir
mín bjuggum þar m.a. um tíma.
Einnig eru margar ljúfar
bernskuminningar tengdar dvöl
okkar á Loftsölum, ýmist með Guð-
björgu Elínu einni eða með foreldr-
um hennar. Það voru alltaf miklar
ánægjustundir þegar þau komu
austur, sem gert var hvert sumar.
Guðbjörg Elín var falleg og blíð-
lynd stúlka sem stundum passaði
mig lítinn. Það var þó í henni mikill
töggur sem ég minnist þegar hún og
Edda vinkona hennar drösluðu
drengnum með sér á kvenskátafund.
Reyndu þá ribbaldar í nágrenninu
að komast inn en þær valkyrjurnar
vörðust af kappi og höfðu fullan sig-
ur.
Flest aðfangadagskvöld æsku
minnar vorum við móðir mín og
systir gestir í Skjólunum og voru
það miklar ánægjustundir og voru
mér jólin ekki söm eftir að það
breyttist. Kom það í hlut Guðbjarg-
ar Elínar að hafa ofan af fyrir okkur
börnunum meðan beðið var jólanna
og pakkanna.
Guðbjörg Elín varð síðan glæsileg
kona og ávallt í miklum metum okk-
ar ættingja hennar. Urðu margir
órólegir þegar spurðist að ungur
maður væri kominn í spilið en fljót-
lega róuðust ættingjar þegar þeir
kynntust þeim ágætismanni Árna
Þórólfssyni sem frænka mín síðan
giftist. Hefur hann reynst okkur öll-
um ættingjum styrk stoð og þá ekki
síst henni Guðbjörgu Elínu.
Þau fóru ung til Danmerkur, Árni
í nám en frænka til starfa hjá Flug-
félagi Íslands.
Voru þau miklir ferðalangar og
hafa ferðast víða.
Það þótti nokkuð djarft hjá þeim
þegar þau tóku því með ljúfmennsku
að til þeirra kæmi ungur frændi og
félagi hans til að eyða fermingar-
peningum sínum í Kaupmannahöfn.
Það þykir sjálfsagt ekki mikið í dag
en var stórmál þá. Vorum við fé-
lagarnir í góðu yfirlæti hjá þeim í
hálfan mánuð og skemmtum okkur
konunglega. Fann ég þá vel hversu
elskulega og góða manneskju ég átti
að í Guðbjörgu minni Elínu. Ekki
síður í Árna.
Ég átti síðan eftir að koma oft til
Kaupmannahafnar og hitta þau og
alltaf var viðmótið jafn hlýtt. Enda
var gestkvæmt hjá þeim og húsið
alltaf opið ættingjum og vinum.
Þau eignuðust dótturina Örnu
Björk sem var mikill augasteinn
þeirra. Eins barnabörnin þrjú.
Eftir að Guðbjörg Elín og Árni
fluttu heim vann frænka mín hjá
Flugleiðum. Var það svo að sjaldan
fór ég í ferðir til útlanda án þess að
hafa Guðbjörgu Elínu með í ráðum.
Reyndust þau ráð mér vel.
Á meðan Loftsalasystkinin lifðu
héldu þau og afkomendur þeirra
mikið saman og voru mörg tilefni til
samveru og alltaf var Guðbjörg Elín
þar mikilvægur hlekkur.
Í seinni tíð eins og vill oft verða
hefur minna verið um samveru en
alltaf var gott að hitta þau Guð-
björgu Elínu og Árna.
Í seinni tíð átti Guðbjörg Elín mín
við nokkra vanheilsu að stríða. Vildi
ég gjarnan að ég hefði getað orðið
henni að liði.
Dauða hennar bar þó óvænt og
skjótt að og er hún nú farin í síðustu
ferðina. Ég veit að vel verður tekið á
móti henni af foreldrum og ættingj-
um. Við hin sitjum eftir sorgmædd
en minningin um góða og fallega
manneskju lifir.
Ég vil þakka henni allar góðu
stundirnar og minningarnar sem og
velvilja í minn garð og minna.
Ég og mín fjölskylda vottum þeim
Árna, Örnu Björk og barnabörnum
Guðbjargar Elínar okkar innileg-
ustu samúð.
Guðbrandur Elling Þorkelsson.
Góð vinkona og frænka er fallin í
valinn fyrir aldur fram. Að heilsast
og kveðjast er lífsins saga og örlögin
verða ekki umflúin, þó að við sem
eftir stöndum með söknuð og trega
vildum það svo gjarnan.
Kynni okkar hófust þegar þær
mæðgur komu að Loftsölum til sum-
ardvalar. Við kynntumst því báðar
afa okkar Guðbrandi Þorsteinssyni
vitaverði, en hann lést þegar Guð-
björg yngri var á sjötta ári en und-
irrituð á því níunda. Það var fyrsta
alvarlega lífsreynsla okkar þegar
afi, sem var svo góður og hlýr, var
frá okkur tekinn. Guðbjörg minnti á
ljósálf þegar hún var að koma í
sveitina, ljós yfirlitum með hrokkna
lokka, glaðvær og kát. Við urðum
góðar vinkonur og reyndum saman
bæði súrt og sætt. Gerðum allt í fé-
lagi, sóttum og rákum kýrnar í hag-
ann, byggðum bú í klöppunum norð-
an við bæinn, þangað fannst okkur
langt að fara, enda skrefin stutt.
Þegar árunum fjölgaði tókum við
þátt í heyskapnum. Að vísu voru af-
köstin ekki mikil á þeim árum hjá
tveim telpuhnátum, en við vildum
standa okkur vel. Guðbjörg drífandi
og dugleg, kjörkuð og ósérhlífin.
Bernskubrekin voru þó ekki langt
undan og það gleymdist stundum í
hita leiksins að vinna eins og hitt
fólkið. Við hjálpuðum til að skola
þvottinn í læknum, klappa hann á
steini og bera heim aftur, duttum
stundum í lækinn, lögðumst á mag-
ann til að drekka úr Máríulæknum
þar sem tært og ískalt vatnið bullar
upp úr sandinum. Að fara á fýlaveið-
ar seinnipart sumars með prik á
leiruna var eitt af því sem tilheyrði
sumardvölinni í Mýrdalnum. Ég
minnist þess samt ekki að frænka
mín hafi notað slíkt áhald í alvöru,
það kom fljótt í ljós að það var ekki
hennar stíll að veiða saklausa fýl-
sunga.
Okkur var kennt að aka dráttar-
vélum, sem voru nýtísku landbún-
aðartæki í þá daga. Við höfðum ekki
á móti slíkri vegsemd, enda gætnir
og færir kennarar sem móðurbræð-
ur okkar voru. Guðbjörg hjálpaði
Þorsteini að heyja á Dyrhólaey, ók
hún dráttarvélinni þar upp og niður
eins og alvanur ökumaður. Stundum
var hún send heim af engjum á trak-
tornum til þess að „senda veðrið“ en
Þorsteinn frændi okkar var veðurat-
hugunarmaður. Að senda veðrið
fólst í því að lesa langa talnarunu í
gegnum símann til Veðurstofunnar.
Þetta fannst Guðbjörgu mikið
ábyrgðarstarf, sem hún skilaði af
samviskusemi. Þetta og fleira sem
henni var minnisstætt frá Loftsölum
rifjaði hún upp og sagði frá með sínu
lagi, stutt í húmorinn og grínið.
Guðbjörg Elín var fáguð í fram-
komu, listræn og mikill fagurkeri,
sem glæsilegt heimili þeirra í Sörla-
skjóli 20 ber vitni um. Þar bjuggu
saman þrjár kynslóðir og þegar tók
að halla undan fæti önnuðust Guð-
björg og Árni foreldra sína af elsku
og umhyggju. Barnabörnin, auga-
steinar ömmu og afa, komu í heim-
inn eitt af öðru, Daníel Bjartmar,
Guðbjörg Birta og yngst Emilía
Steinunn.
Ég þakka frænku minni hjartan-
lega fyrir áralanga vináttu, góðvild
og gleðistundir, minningar um ynd-
islega manneskju og tryggan vin
munu lifa.
Ég votta Árna, Örnu Björk og
fjölskyldu mína dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Guðbjargar El-
ínar.
Stella.
Hann Einar bróðir
minn er látinn. And-
látsfregnin kom ekki á
óvart þótt aldurinn
væri ekki hár. Hann
barðist við krabba-
meinið í á fjórða ár. Þá tegund
krabbameins sem venjulega dregur
fólk til dauða á innan við einu ári.
Slíkur var krafturinn og lífsviljinn.
Á skilnaðarstundu hrannast
minningarnar upp. Allt frá því að ég
sá litla bróður minn ganga fyrst þar
til ég kvaddi hann í byrjun mars-
mánaðar, þegar við hjónin fórum til
útlanda. Skilnaðarstundin var mér
erfið. Hún minnti mig illa á skiln-
aðinn þegar faðir okkar dó, úr
krabbameini, 50 ára að aldri og einn-
ig á skilnaðarstundina þegar systir
okkar dó, úr krabbameini, aðeins 41
árs að aldri. Aldrei var þó um sömu
tegund þessa illvíga sjúkdóms að
ræða.
Þótt andlát föður okkar hafi verið
mér 16 ára unglingnum erfitt var
það Einari bróður mínum enn erf-
iðara en hann var þá aðeins 10 ára
að aldri og háður föður okkar og
voru þeir saman öllum stundum á
sama hátt og verið hafði þegar ég
var á þeim aldri. Ég held að þessi
skilnaður hafi sett sitt mark á Einar
allt hans líf.
Vegna aldursmunar okkar bræðra
vorum við kannski aldrei neinir leik-
félagar og þremur árum eftir andlát
föður okkar hafði ég stofnað til
minnar eigin fjölskyldu. Einar var
því mikið einn með móður okkar og
var henni mjög náinn og góður. Á
þeim tíma varð móðir okkar, sem
hafði orðið ekkja aðeins 37 ára, að
fara út á vinnumarkaðinn þannig að
Einar varð að vera sjálfum sér nóg-
Einar J. Sigurðsson
✝ Einar J. Sig-urðsson fæddist
í Reykjavík 1. des-
ember 1947. Hann
lést á Landspítal-
anum við Hring-
braut 1. apríl síðast-
liðinn og var útför
hans gerð í kyrrþey.
ur og bjarga sér einn
yfir daginn. Eftir að
hann tók bílpróf var
hann mjög iðinn við að
aka móður okkar út
um allar trissur en
sérstaka ánægju hafði
hann af því að aka nið-
ur á Reykjavíkurhöfn
en þá var hann að rifja
upp ferðirnar þangað
með pabba.
Ungur hóf Einar
nám í málaraiðninni
en varð fljótlega að
hætta námi vegna
psoriasis-sjúkdómsins sem hann átti
við að stríða allt sitt líf. Eftir það hóf
hann störf hjá Trésmiðjunni Víði,
fyrst við lagerstörf en síðar við út-
keyrslu. Á þeim árum kynnist hann
svo henni Sillu sinni sem síðar varð
eiginkona hans til 37 ára. Ég minnist
þess hvað hann var stoltur þegar
hann kynnti mig fyrir konuefni sínu.
Hann var ekki síður stoltur þegar
börnin komu síðan eitt af öðru og
barnabörnin veittu honum mikla
gleði. Hún Silla sagði mér frá því
þegar hann náði að brosa í síðasta
sinn, nokkrum dögum fyrir andlátið,
þegar hann sá hana Ísabellu litlu ný-
komna heim frá Ameríku þar sem
Einar Þór, faðir hennar, hefur verið
við nám. Í um 16 ár stundaði Einar
sendibílaakstur á eigin bíl en hóf síð-
an störf hjá Búnaðarbanka Íslands
1997, þar sem hann starfaði þar til
hann varð að láta af störfum vegna
veikinda árið 2004. Ég held að ég
geti sagt að Einar hafi staðið sig vel
í því starfi og varð vinsæll bæði af
föstum viðskiptavinum og starfs-
mönnum bankans. Útibússtjórinn,
Þorsteinn Ólafs, reyndist Einari af-
ar vel í veikindum hans og þá ekki
síður annar samstarfsmaður hans,
Jóhann Ágústsson, sem heimsótti
hann mjög oft árin sem Einar var
veikur og seinustu vikurnar má
segja að varla hafi fallið úr dagur.
Sú hugulsemi verður seint fullþökk-
uð.
Einar var handlaginn og hafði
mikla ánægju af því að laga, bæta og
breyta í kringum sig og fjölskyld-
una. Á síðari árum fékk Einar mik-
inn áhuga á ættfræði og eftir að
hann varð að láta af störfum sat
hann mikið við ættfræðigrúsk á
meðan heilsan leyfði.
Elsku Silla, við hjónin og fjöl-
skylda okkar vottum þér og allri
fjölskyldunni okkar innilegustu
samúð. Guð blessi ykkur öll.
Sólon.
Þegar ég kom heim af sjó í morg-
un gengu hlutirnir fyrir sig eins og
venjulega og seinnipart dags tók ég
blaðabunka undanfarinna tveggja
vikna og renndi hann augum. Þá
rakst ég á minningargrein um æsku-
félaga minn og vin í fyrstu 16 ár ævi
minnar, Einar Sigurðsson. Við ól-
umst upp í Laugarneshverfinu, báð-
ir á Silfurteignum, hann á 5 en ég á
3.
Einar var sérstakur vinur, hann
var dulur, tilfinningum sínum var
hann ekki að flíka. Ég man vel
fyrsta áfall hans, það var þegar faðir
hans, Sigurður Sólonsson, lést, þá
vorum við á ellefta ári og Einar átti
mjög erfitt þá. Faðir hans var sér-
stakur við okkur krakkana sem kom
fram í ýmsum myndum. Ég man
margar ferðir á gamla Melavöllinn
með þeim feðgum að horfa á fótbolta
enda var fótbolti aðaláhugamálið í
þá daga, þetta er fyrir tíma sjón-
varpsins. Það var gott að alast upp í
Laugarneshverfinu, mikið af krökk-
um og mikið um leiki sem eru fátíðir
í dag, þar sem nú er leikskóli við
Laugarnesskólann spiluðum við fót-
bolta á mölinni eins og var algengt
þá. Innileiki stunduðum við líka;
járnbrautarlestir, búnar til hallir úr
SÍBS-kubbum að ég tali ekki um bíl-
ana sem við notuðum. Það er eins og
það hafi alltaf verið sól í kringum
okkur. Við fórum svo hvor í sína átt-
ina þegar við fluttum en héldum
sambandi svona slitrótt, sérstaklega
þegar Einar var að læra málaraiðn-
ina. Síðast hitti ég hann á afmæl-
isdaginn hans 1999, ég mundi alltaf
daginn hans og hann var hissa þegar
ég óskaði honum til hamingju með
afmælið. Ég votta aðstandendum
öllum mína dýpstu samúð.
Guðjón H. Finnbogason.