Morgunblaðið - 06.01.2008, Qupperneq 59
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6. JANÚAR 2008 59
neysla henni sífellt í klandur og
segja má að hún hafi átt fleiri
„comeback“ en gengur og gerist;
hvað eftir annað var hún rekin með
skömm, dró sig í hlé um tíma og
sneri svo aftur með látum. Eins setti
lakari heilsa strik í reikninginn og
þannig hætti hún að troða upp í
hálft ár eftir að hún fékk lifrarbólgu
haustið 1959. Hún tók svo upp þráð-
inn tvíefld vorið 1960 og 23. apríl
1961 hélt hún tónleika í Carnegie
Hall sem margir telja hápunkt ferils
hennar.
Tónleikarnir voru hljóðritaðir og
gefnir út þá um haustið sem Judy at
Carnegie Hall. Tónleikarnir þóttu
stórkostlegir og platan seldist met-
sölu og hefur selst vel alla tíð síðan,
ekki síst fyrir það að Judy Garland
er uppáhald homma og fyrir þeim er
þessi tvöfalda skífa lykill að góðu
plötusafni.
Fyrrverandi barnastjarna
Einn forvitnilegasti tónlistar-
maður síðustu ára er Rufus Wain-
wright sem á það sameiginlegt með
Judy Garland að vera kominn af
listafólki, hafa verið barnastjarna og
hafa glímt við fíkniefni árum saman.
Þegar við bætist að Wainwright er
hommi kemur ekki á óvart að hann
skuli hafa dálæti á Judy Garland og
þá sérstaklega á tvöföldu plötunni
hennar frá 1961 þó hann hafi ekki
kynnst henni fyrr en fyrir nokkrum
árum.
Rufus McGarrigle Wainwright er
sonur tónlistarmannanna Loudon
Wainwrights III. og Kate McGarr-
igle og ólst upp hjá móður sinni í
Kanada. Sex ára var hann farinn að
spila opinberlega sem píanóleikari
og hann lék í hljómsveit með systur
sinni þrettán ára, aukinheldur sem
hann samdi lög af kappi.
Fyrsta sólóplatan hét Rufus
Wainwright og kom út 1998, sú
næsta, Poses, kom 2001. Um það
leyti var Wainwright á kafi í eitur-
lyfjaneyslu, en náði áttum með að-
stoð góðra manna. Næstu plötur
voru svo Want One, sem kom út
2003, og Want Two, sem kom út
2004. Ný plata með Rufusi kom svo
út í maí sl., heitir Release the Stars,
og er fín plata í alla staði.
Geggjaður draumur
Eins og Rufus Wainwright rekur
söguna þá eignaðist hann eintak af
Judy at Carnegie Hall eftir árás-
irnar á Bandaríkin í september
2001, segir að sig hafi langað til að
hlusta á eitthvað upplífgandi. Hann
féll svo rækilega fyrir plötunni að
með honum kviknaði sú hugmynd að
endurtaka leikinn, þ.e. að endurgera
plötuna í Carnegie Hall, syngja öll
lögin á plötunni og gefa síðan út. Á
endanum lét hann þennan geggjaða
draum sinn rætast – hélt tvenna
tónleika í Carnegie Hall í New York
14.-15. júní á síðasta ári og gaf svo
út í byrjun desember sl.
Á tónleikunum var Rufus með
mikið undir, 36 manna hljómsveit,
fjölmennt lið í sviðsstjórn og sér-
staka búningahönnuði. Hann flutti
síðan sömu dagskrá og Garland, 26
lög úr ýmsum áttum eftir ýmsa höf-
unda, Ira Gershwin, Rodgers &
Hart, Irving Berlin og Johnny
Mercer, svo dæmi séu tekin; sum
leikhúslög, önnur tilfinningaþrungn-
ar ballöður, lög úr bíómyndum og
djassslagara.
Ekkert dregið undan
Á plötunni Rufus Does Judy At
Carnegie Hall eru upptökur frá tón-
leikunum og ekkert dregið undan,
mistök og klúður fær að fljóta með
til að krydda útgáfuna. Wainwright
er ekki eins mikill söngvari og Judy
Garland, nema hvað, en hann kemst
merkilega vel frá verkinu, ekki síst
fyrir það hve geislar af honum mikil
spilagleði. Gestir Wainwrights
gerðu síðan sitt til að skapa
skemmtilega stemmningu, móðir
hans, Kate McGarrigle, spilaði undir
á píanó í „Somewhere Over the Ra-
inbow“, Martha systir hans tekur
lagið með honum og Lorna Luft,
dóttir Judy Garland, syngur líka í
einu lagi.
Ekki var bara að Wainwright brá
sér í gervi Judy Garland í Carnegie
Hall, heldur fór hann víða um heim
með sömu dagskrá og sama dag og
diskurinn kom út kom og út DVD-
diskur með tónleikum í Palladium í
Lundúnum. Í viðtali í haust kom svo
í ljós að þrátt fyrir dálæti sitt á Judy
Garland hafi Wainwright verið bú-
inn að fá nóg af því að leika hana
þegar yfir lauk – hann hafi verið far-
inn að óttast um geðheilsu sína.