Náttúrufræðingurinn - 2001, Side 4
Rammaáætlun
UM VIRKJUNARKOSTI
Unnið hefur verið að „Rammaáætlun um
nýtingu vatnsafls og jarðvarma“ síðustu
tvö ár á vegum iðnaðarráðherra, í samráði
við umhverfisráðherra og í samræmi við
framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í
umhverfismálum. Markmiðið með þessari
vinnu er eins konar flokkun eða einkunna-
gjöf fjölmargra virkjunarkosta með tilliti til
virkjunar- og verndargildis. Flokkun af
þessu tagi er talin geta auðveldað stjórn-
völdum að taka ákvarðanir um forgangs-
röðun virkjana og meðferð hugsanlegra
virkjunarsvæða. Litið er til gildis náttúru-
verndar og þjóðminja, útivistar og ferða-
útvegs, hefðbundinna nytja og orkulinda.
Gengið er til þessa verks vegna brýnna
þarfa orkugeirans og umtalsverðrar hættu á
umhverfisröskun af völdum virkjunar-
framkvæmda og mannvirkja. í sjálfu sér
hefði eins vel mátt nálgast það út frá hinum
gildunum, eða sjónarmiðum landnýtingar
almennt, t.d. innan ramma skipulags. Sú
nálgun sem valin er, frá orkuöflunarhliðinni,
veldur því að útkoman verður eins konar
mat á röskun umhverfis og annarri land-
nýtingu í samanburði við arð og hag af
virkjun orkulindanna. Þar mun fylgja sumum
kostunr mikill hagur og lítil röskun, öðrum
lítill hagur og mikil röskun; enn aðrir liggja
þar mitt á milli.
Vinnu er svo háttað að fjölskipuð
verkefnisstjórn fer með yfirstjórn undir
forsæti Sveinbjarnar Björnssonar, fyrr-
verandi háskólarektors og núverandi yfir-
manns auðlindamála á Orkustofnun. Fjórir
faghópar vinna að því að leggja mat á
framangreind gildi, en til fróðleiks og
gamans skal þess getið að í forsvari fyrir
faghóp um náttúru- og minjavernd er Þóra
Ellen Þórhallsdóttir, prófessor og fyrr-
verandi formaður HIN, en auk hennar eru í
hópnum núverandi formaður HÍN og Eyþór
Einarsson, einnig fyrrverandi formaður HÍN.
Nauðsynlegt þótti að leggja mikla vinnu í
þróun matsaðferða, enda var þar á flestum
sviðum verið að byrja nánast frá grunni,
einkum í ljósi sérstakra náttúrufars-
aðstæðna hér á landi. Þeirri vinnu hefur þó
miðað vel og er nú stefnt að því að leggja
fram mat á fyrstu virkjunarkostum um næstu
áramót, þó svo að það verði einungis til
bráðabirgða, en í lok ársins 2002 á að liggja
fyrir fyrsta mat á um 25 kostum. Það er og
verður til verulegra vandræða við matið að
ekki liggur fyrir sæmilegt yfirlit um náttúru-
far landsins, einkum hálendisins, en á
þennan vanda hefur HÍN bent um áratuga
skeið.
Fyrstu niðurstöður rammaáætlunar munu
ekki leysa allan vanda, hvorki varðandi
ákvarðanir um vemdun eða virkjun né um
forgangsröðun virkjunarkosta. Til þess
skortir enn bæði gögn og forsendur sem og
reynslu af svona mati og ákvarðanatöku á
grundvelli þess. Úr því öllu má bæta í
framhaldinu. Hins vegar munu niður-
stöðurnar auðvelda lausn vandans til mikilla
muna og því koma strax að miklu gagni, þó
að eitthvað vanti á að þær verði fullkomnar.
Með gerð rammaáætlunar er því ótvírætt
stigið stórt framfaraskref. Ekki síst skiftir hér
meginmáli sú framsýni stjórnvalda að taka á
þennan hátt á málinu og stefna með því móti
að svo góðri sátt um ákvarðanir þeirra sem
verða má, landi og lýð til sem mestra heilla.
Freysteinn Sigurðsson, formaður FÍN.
82