Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2002, Page 62

Náttúrufræðingurinn - 2002, Page 62
Athygli mína vakti Alexander Jóhannes- son prófessor, sem þá var rektor og mikill forystumaður, já - ofurhugi. Hann bjó við Vonarstræti sem í þessu samhengi bar nafn með rentu. A mestu kreppuárum liðinnar aldar, þegar ísland missti helming útflutningstekna sinna vegna Spánar- stríðsins, stofnaði hann Happdrætti Há- skólans og reisti hina fögru aðalbyggingu skólans með aðstoð merkasta arkitekts landsins. Alexander breytti voninni í veruleika árið 1940. Hugvísindin og íslensk menning döfnuðu í hinu nýja húsi og rannsóknir í þágu atvinnuveganna hófust. Embættis- mannaskólinn breyttist í rannsókna- stofnun. Nú er Háskóli íslands hávísinda- stofnun sem við erum stolt af og treystum til mikilla og góðra verka. í aldarfjórðung hef ég starfað með Háskóla Islands. Það er hrein unun að fylgjast með því hvernig ungir fræðimenn hasla sér völl - ekki einungis á heimavelli heldur einnig á hálu svelli alþjóðavísinda, því að þótt við séum fámennir eyjar- skeggjar höfum við alltaf siglt á fjarlæg mið til frama. Við erum komin í þann eftir- sótta hóp vísindamanna sem mest er vitnað til á erlendri grund. Hlutverk háskólakennara er einnig að miðla þekkingu sinni til nemenda og fróðleiksfúsrar þjóðar sem enn les bækur. Nú reynir á hvort ég kem mínu hugðarefni til skila. Hugðarefni mitt er HELGI- STAÐUR ÞJÓÐARINNAR - ÞINGVELLIR frá sjónarhóli náttúrufræðings. Hafnar- háskóli, hinn forni háskóli íslendinga, og Háskóli íslands, ásamt Máli og menningu, standa að útgáfu bókar um undraheim Þingvalla og Þingvallavatns sem kemur út á næstunni. í skóla kenndi Pálmi rektor okkur landrekskenningu Wegeners. Erlendis var hún dæmd ómerk en á Fróni horfðum við á hana birtast okkur berum augum á Þingvöilum. Hvað einkennir Þingvallasvæðið um- fram aðra staði? Allir vita nú að Þingvellir eru á hátindi Atlantshafshryggjarins, á gliðnunarbelti milli tveggja heimsálfa. Er ykkur ljóst að vatnið sem hitar þetta hús á uppruna sinn í Langjökli, rennur í gjám undir Þingvalla- vatni, hitnar undir Henglinum þar sem það brýst upp á yfirborðið og er flutt þaðan til Reykjavíkur? Hvað haldið þið að það sé gamalt? Lindarvatnið er að jafnaði frá árdögum kaþólsks siðar á íslandi en hluti þess féll sem úrkoma á Langjökul fyrir þúsundum ára. Við Þingvallavatn mætast gróður og dýralíf tveggja heimsálfa - austurs og vesturs - og vatnið er vettvangur þróunar nýrra tegunda. Engan hafði órað fyrir því að fjórar bleikjugerðir hefðu þróast á 10 þúsund ára ferli vatnsins. Það er veraldarundur. Og nú ætla ég að skýra ykkur frá heims- viðburði á sviði náttúrufræði. í Þing- vallavatni hefur fundist áður óþekkt marfló sem hefur lifað þar af allar ísaldir, í hellum í berginu undir ísnum, hugsan- lega í 10 milljónir ára. Þetta er elsta dýr landsins og eina helladýr Norður- Evrópu. Samfelld saga lífs á svæðinu spannar því 10 milljónir ára. Gerið ykkur það ómak að hlusta á hvellan söng himbrimans á vatninu og horfa á láréttan foss Sogsins, þar sem straumöndin skoppar eins og korktappi. Hvaðan koma þessir fuglar til okkar? Alla leið vestan af Kyrrahafsströnd Norður- Ameríku. Og nú hið neikvæða! Níu erlendar tegundir barrtrjáa hafa verið gróðursettar í þjóðgarðinum og breiðast hratt út - mér liggur við að segja eins og eldur í sinu. Gerið ykkur ljóst að þau kæfa birkið og blómskrúð bláskóganna og menga Þing- vallavatn. Hver varð afleiðingin? Hún er sú að helgistaður þjóðarinnar á Þing- völlum er ekki þjóðgarður samkvæmt alþjóðlegum mælikvarða. Er það í sátt við þjóðina að forsmá lýsingu Ara fróða á helgistað þjóðarinnar og eyða því sem eftir er af bláskógunum? Oskar þjóðin þess að Þingvallavatn verði áfram blátt og tært eða að það verði með tímanum grænt og gruggugt og angi af ólykt rotnandi þörunga? 236

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.