Samvinnan - 01.08.1967, Qupperneq 9
Á tólf ára afmæli indverska lýðveldisins 1959 brá Nehru á leik og setti upp ýmis sérkennileg höfuðföt. Yzt til vinstri er hann með „fangelsis-
kolluna", sem hann bar að staðaldri, því næst með vefjarhött frá Raja stan-fylki, síðan með gullbryddaðan vefjarhött frá Mysore-fylki og loks
með höfuðbúnað Naga-ættbálksins í Assam-fylki.
er stéttavandamálið, sem reynzt hefur
afartorvelt viðureignar, þráttfyrir
stranga löggjöf gegn stéttamisrétti.
I utanríkismálum stóð Nehru jafnan
fremstur í fylkingu þeirra leiðtoga sem
leituðust við að vera óháðir hinum stóru
valdablökkum, og oft hallaðist hann á
sveif með kommúnistaríkjunum, ekki
sízt Kínverjum. Innrás þeirra í Indland
haustið 1962 olli honum því sárum von-
svikum og leiddi til þess að hann varð
að taka afstöðu sína í alþjóðamálum til
endurskoðunar. Það talar skýru máli um
stöðu Nehrus með þjóð sinni, að þrátt-
fyrir reiðina, vonbrigðin, auðmýkinguna
og ákærurnar, sem stefna hans gagnvart
Kínverjum vakti, beið orðstír hans ekki
neinn umtalsverðan hnekki.
Nehru var einatt ósamkvæmur sjálf-
um sér og kom mönnum gjarnan á óvart
með orðum sínum og athöfnum. í því
sambandi er ekki nema sanngjarnt að
hafa hugfast, að hann var barn síns tíma,
alinn og mótaður við mjög óvenjulegar
aðstæður. Hann gat ekki fremur en aðrir
flúið fortíð sína. Einsog allir þeir bylt-
ingarleiðtogar, sem börðust gegn ný-
lenduveldi Evrópurikja í Asíu og Afríku,
var hann einskonar brú milli fortíðar,
sem hlaut að móta allar hans gerðir, og
framtíðar sem mótast af nýjum mönn-
um með aðra reynslu og ólíka viðmiðun.
í þessu er sennilega fólgin nærtækasta
skýringin á stjórnmálamanninum Nehru.
En einstaklingurinn Nehru tók sára-
litlum breytingum frá árunum þegar
hann sat í fangelsum og gerði upp sakir
við sjálfan sig og umheiminn. Þráttfyrir
frægð, vinsældir, aðdróttanir, ásakanir
og sautján erfið ár við stjórnvöl fjöl-
mennasta lýðræðisríkis á jörðinni, var
hann sem fyrr einmana og innhverfur
hugsuður, einsog hann birtist í Sjálfs-
œvisögunni. Hann var alla tíð jafnná-
kominn hinum nafnlausa manngrúa Ind-
lands, sem örvaði hann og blés honum
í brjóst nýjum þrótti í sjálfstæðisbar-
áttunni. Ég heyrði hann eitt sinn tala
fyrir um 20.000 manna hópi í Bombay,
og það var engu líkara en hann yngdist
upp á ræðupallinum. Þó efast ég um að
meir en þriðjungur mannfjöldans hafi
fylgzt með því sem hann var að segja.
Fólkið kom fyrst og fremst til að vera
nálægt leiðtoganum — föðurímyndinni
— draga til sín blessun og kraft frá
honum. Þetta er sérkenni Indverja: þeir
hafa yfirleitt trúarlega afstöðu til leið-
toga sinna og nægir að vera í návist
þeirra. Nehru losnaði heldur aldrei við
annmarkana sem Gandhí gagnrýndi
hann fyrir, og eftir fráfall meistarans var
enginn til að hafa hemil á skapi hans,
ákefð og óþolinmæði. Mér er í fersku
minni frá því ég hitti hann í Nýju-Delhi
fyrir tæpum sjö árum, hve alúðlegur og
hispurslaus hann var í viðræðu, en svo
gat hann fyrirvaralaust rokið upp, þegar
ljósmyndarar eða blaðamenn gerðust of
nærgöngulir.
að er til marks um heiðarleika Nehrus
og raunsætt mat á sjálfum sér, að árið
1936 eða þarumbil skrifaði hann í hálf-
kæringi blaðagrein undir dulnefni, þar
sem hann sálgreindi sjálfan sig á mjög
opinskáan hátt og hugleiddi framtíðina.
Þar segir m. a.: „Við venjulegar aðstæður
væri hann einungis duglegur og farsæll
embættismaður, en á yfirstandandi bylt-
ingarskeiði liggur einræðið ævinlega við
dyrnar, og er ekki hugsanlegt að Jawa-
harlal eigi eftir að ímynda sér að hann
sé Sesar? í því felst hætta bæði fyrir
Jawaharlal og Indland“. í vissum skiln-
ingi rættist þessi spá. Hann varð nokk-
urskonar Sesar, bæði nefndur „göfugur
harðstjóri“ og „lýðræðislegur einræðis-
herra“. Hvorttveggja má til sanns vegar
færa. Hann þoldi illa gagnrýni og var
fyrir bragðið að mestu umkringdur já-
mönnum. Þetta var sennilega alvarleg-
asti brestur hans. í landi þar sem tugir
milljóna manna voru að berjast við sár-
ustu örbirgð og reyna að skapa sér mann-
sæmandi lífskjör gat enginn einn ein-
staklingur haft alla tauma í hendi sér,
hversu miklum hæfileikum sem hann
kynni að vera búinn. Vandamálin voru
of stór og ákvarðanir of margþættar
fyrir einn mann. Þegar ég var í Indlandi
var mér tjáð af ýmsum embættismönn-
um og erlendum erindrekum, að stjórn
landsins lamaðist og enginn áræddi að
taka mikilvæga ákvörðun, þegar Nehru
brygði sér frá höfuðborginni, hvort held-
ur væri til næstu borgar eða útlanda.
Hann talaði oft um framtíðina og gerði
jafnvel áætlanir langt fram í tímann,
en virtist sjaldan leiða hugann að því
hvað við tæki þegar hann væri allur.
Bæri málið á góma, kvaðst hann hafa
óbilandi trú á eðlisborinni lýðræðis-
hneigð þjóðarinnar, og má segja að í
því efni hafi léttúð hans eða bjartsýni
verið um skör fram.
Það varð hinsvegar gæfa Indverja að
við fráfall Nehrus valdist til forustu dug-
legur, gáfaður og göfugur maður, Lal
Bahadur Sjastri, sem stjórnaði landinu
af festu og mikilli lagni. Þegar hann féll
frá tók við hlutverkinu einkabarn
Nehrus, frú Indíra Gandhí, og naut hún
að sjálfsögðu töfraljómans sem leikur um
nafn föður hennar. Verður fróðlegt að
fylgjast með hvernig hún ávaxtar þann
mikla arf sem faðir hennar lét eftir sig.
s-a-m.
9