Samvinnan - 01.10.1967, Side 13

Samvinnan - 01.10.1967, Side 13
F. D. Roosevelt var aðstoðarflotamálaráðherra á árunum 1913—1920. Þessi mynd var tekin 1914 í Washington og sýnir m. a. William Jennings Bryan utanríkisráðherra (t. v.), Wilson forseta (í dökkum jakka og hvítum buxum) og Roosevelt yzt til hœgri. alríkisins sem námu samtals þremur milljöröum dollara. En það var aðeins byrjunin. Stjórnin í Washington kom á fót fjölda opinberra stofnana til að skapa atvinnuleysingjum vinnu, láta menn leggja vegi, reisa brýr, stíflur, skóla, búa til almenningsgarða, setja kvenfólk í fatasaum og kennslustörf við smábarna- skóla. Unglingar nýkomnir úr skóla voru látnir þurrka mýrlendi, ryðja skóga, gróð- ursetja tré og berjast við uppblástur landsins. Tónlistarmenn voru látnir halda hljómleika, málarar mála myndir, leikarar koma upp leiksýningum, höf- undar semja bækur. Fjöldi bænda hafði misst jarðir sínar vegna ógreiddra veð- skulda, en tveimur vikum eftir valdatök- una hraðaði Roosevelt lagabálki gegn- um þingið, sem létti byrðar bænda og gerði þeim sem enn börðust í bökkum fært að halda áfram. Svipuð lög voru sett til að vernda húseigendur, og þannig mætti lengi telja. Sennilega var um- fangsmesta og varanlegasta afrek Roose- velts hið geysimikla orkuver í Tennessee- dalnum, sem hafizt var handa um skömmu eftir að hann tók við völdum. Það kom sjö fylkjum til góða og varð upphaf víðtækra framkvæmda á mörg- um sviðum, sem bandaríska þjóðin býr að um alla framtíð. Fyrstu hundrað dagarnir í valdatíð Roosevelts (marz—júní) voru einskonar hveitibrauðsdagar. Hann varð þjóðhetja, bjargvættur. Afburðahæfileiki hans til að skýra málin á einfaldan og sannfærandi hátt í skemmtilegum rabbtóni gerði viku- lega útvarpsþætti hans öflugustu vopnin sem hann réð yfir. Hann náði til sérhvers bandarísks heimilis. f fyrstunni voru þingmenn líka sem dáleiddir af honum, þannig að hver lagabálkurinn af öðrum fór gegnum þingið mótstöðulaust. Ráð- herrarnir og forstjórar hinna nýju stofn- ana smituðust af eldmóði forsetans og einbeitni. Hann var óþreytandi, gunn- reifur, glaðbeittur og harðskeyttur ef því var að skipta. Þegar nefndir voru ósam- mála skipaði hann þeim að loka sig inni þangaðtil niðurstaða væri fengin. Hveitibrauðsdagar endast ekki jafnað- arlega lengur en góðu hófi gegnir, og á árunum 1934 og 1935 tók að gæta vaxandi andstöðu við Roosevelt. En hann lét eng- an bilbug á sér finna og keyrði hvern lagabálkinn á fætur öðrum gegnum þing- ið. Sumar ráðstafanir hans orkuðu raunar tvímælis, t. d. landbúnaðarstefn- an. Til að koma í veg fyrir offramleiðslu, sem hafði lækkað svo mjög verðlag í kreppunni, greiddi stjórnin bændum nú fé fyrir að rækta ekki ákveðin landsvæði og tók lendur á leigu til að „bjarga“ þeim frá ræktun. Siðferðilega var þetta tæplega réttlætanlegt í sveltandi heimi, en það hafði tilætluð áhrif, þótt batinn væri hægur. Árið 1935 var komið á almannatrygg- ingum fyrir allt ríkið, sem tryggðu menn gegn atvinnuleysi, ellihrumleik, blindu, bæklun og örbirgð (sjúkrasamlög eru enn ekki lögfest í Bandaríkjunum). Á þessu sama ári voru samþykkt skattalög sem lögðu nýjar byrðar á eignamenn og auð- kýfinga, og tryggðu Roosevelt ævilanga óvild íhaldsmanna og einstaklingshyggju- prédikara. Wagner-lögin frá sama ári stórbættu aðstöðu verkalýðsfélaga og lögðu grundvöllinn að síðari velgengni þeirra vestanhafs. Kaupsýslumenn og iðjuhöldar snerust öndverðir gegn Roose- velt; Hearst-blaðahringurinn hamaðist gegn honum; A1 Smith, fyrirrennari hans sem fylkisstjóri í New York og forseta- efni Demókrata, sakaði hann um sósíal- isma; lýðskrumarar einsog Huey Long einvaldur í Louisiana og séra Coughlin útvarpsprestur í Detroit (sem áður hafði líkt Roosevelt við Krist) rpðust harka- lega á hann. Ein meginorsök þessara óvinsælda var, þó undarlegt megi telj- ast, herferð Roosevelts gegn bandarískum auðmönnum og forréttindum þeirra; jafnvel ýmsir almúgamenn áttu bágt með að sætta sig við að auðsöfnun væri fyrirlitleg. Önnur orsök óvinsældanna var hið stóraukna vald sem löggjöf Roosevelts færði alríkisstjórninni í Washington gagnvart fylkisstjórnunum sem löngum höfðu gætt réttar síns af mikilli árvekni og tortryggni. Þarvið bættist að mörg- um virtist forsetinn vera orðinn óþarf- lega ráðríkur við þjóðþingið og hæsta- rétt, en stjórnarskráin gerir ráð fyrir al- geru jafnræði framkvæmdavalds (for- setaembættis), löggjafarvalds (þjóð- þings) og dómsvalds (hæstaréttar). Orð- rómur um „einræðistilhneigingar" for- setans gerðist æ háværari eftir því sem nær leið kosningunum 1936. Hann var endurkosinn af 523 kjör- mönnum gegn 8, en þingið var ekki leng- ur á þeim buxunum að láta hann segja sér fyrir verkum, og það sem verra var: hæstiréttur, skipaður níu dómurum sem standa áttu vörð um stjórnarskrána, var farinn að dæma ýmsar ráðstafanir hans ólögmætar. Á árinu 1935 var hvert laga- frumvarpið af öðru dæmt ógilt. Eftir kosningarnar 1936 lagði Roosevelt fyrir þingið frumvarp um að forsetinn hefði heimild til að skipa nýjan dómara fyrir hvern dómara hæstaréttar sem ekki legði niður störf við sjötugsaldur (þó ekki fleiri en sex dómara). Hér gekk hann skrefi of langt og vakti almenna tortryggni. En á árinu 1937 snerist einn af dómur- unum níu á sveif með Roosevelt, þannig að í stað hlutfallsins 5:4 gegn honum varð hlutfallið 5:4 honum í vil og leiddi til þess að löggjöfin um almannatrygg- ingar og verkalýðsfélög gekk í gildi. Hins- vegar vildi þingið ekki lita við tillögum hans um breytingar á dómsmálaskipun- inni, þannig að raunvorulega sigraði hann og tapaði í senn. Roosevelt átti ekki aðeins í erfiðleik- um vegna hæstaréttar. >að var einsog andinn frá 1933 væri hfirfinn. Þá fagnaði þjóðin hverskonar aðgerðum, aðeins ef hafizt var handa. En þegar ný viðskipta- kreppa herjaði á Bandaríkin 1937—’38, virtist forsetinn breyttur maður; einn daginn talaði hann um stórkostlegar fjár- veitingar til framkvæmda, en næsta dag um sparnaðarráðstafanir til að jafna halla fjárlaganna. Hann hlustaði enn sem fyrr á sundurleita og ósammála sér- fræðinga, en gat ekki lengur beitt hug- boði sínu af sömu snilld og fyrrum. Þing- ið var óánægt: blöðin voru á móti hon- um; John Lewis, voldugasti verkalýðs- foringi Bandaríkjanna sem hafði stutt forsetakjör hans 1936, réðst harkalega að honum fyrir hlutleysi í verkföllunum 13

x

Samvinnan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.