Andvari - 01.01.1987, Qupperneq 81
ANDVARI
f LEIT AÐ EIGIN SPEGILMYND
79
máluðu öðru fremur sitt innra líf, hið hugverulega og ósegjanlega, og sum
hver, þau sem lengst gengu, reyndu að skapa abstrakta veröld úr orðum,
veröld sem sneydd væri hlutlægri vísun og hefði gildi í sjálfri sér. í þessu og
fleira áttu skáldin samleið með abstraktmálurum, höfðu og mörg hver náið
persónulegt samband við þá, einkum í gegnum tímaritið Birting sem fyrst
kom út árið 1955, en í það skrifuðu menn eins og Hörður Ágústsson,
Þorvaldur Skúlason, Einar Bragi og Thor Vilhjálmsson. Skoðanir þeirra riðu
í þverbága við arfbundin viðhorf til lista og bókmennta hérlendis — viðhorf
sem kröfðust natúralisma í myndlist og stælingar í skáldskap. Samkvæmt
þeim áttu listaverk að líkja eftir hinum þekkta og samþykkta; fráleitt var að
hefðbundin táknkerfi væru dregin í efa eða sýnd undir nýju sjónarhorni.
„Skáldið er ekki kennari heldur sjáandi og goðsagnasmiður“3, var sagt í
Birtingi á þessum tíma. Áður höfðu langflestir rithöfundar samþykkt hina
bókmenntalegu fortíð nær umhugsunarlaust. Sérstaðan takmarkaðist við
einstök stílbrögð, duttlunga í orðfæri, leik að sjónarhornum, hugmyndaleg
blæbrigði, hugsunin að meira og minna leyti ómeðvituð endurtekning, líkust
bergmáli. Ritháttur þessara höfunda mótaðist af samskonar siðgæði, sams-
konar viðhorfi til eigin hlutverks, markmið þeirra þríþætt: skrifa vel, þ.e. í
samræmi við viðurkenndar málvenjur, lýsa mannlífinu á beinan og röklegan
hátt, koma siðferðilegu/heimspekilegu erindi á framfæri. Um og eftir 1950
lætur þetta þríþætta boð fyrst undan síga svo um munar. Ný fagurfræði varð
til, ný siðfræði líkt og í málverkinu. Framan af mætti hún mikilli andstöðu eins
og kunnugt er, talað var um klessuverk og atómljóð, árásir á íslenska
menningu. Engu að síður sló hún í gegn með furðu skjótum hætti. Það sem í
upphafi var sérviska fáeinna skringimanna varð aðnormi, sérvisku tímans —
6ta áratugarins. Sú skoðun fagnaði sigri — a.m.k. um stundarsakir—að listin
væri ekki sníkill á ytri veruleika heldur byggi hún sjálf yfir sérstæðum og
fullvirkum veruleik; ennfremur að rannsóknargildi hennar skipti meira máli
en sýnigildið, þ.e. hæfi hennar til að kanna áður óþekkt svið og túlka hið
innsta í mannssálinni. Það má því með réttu staðhæfa að ákveðin bylting hafi
átt sér stað: menn gerðu upp við fyrirmyndir, ortu og máluðu í þeirri trú að
þeir væru eigin herrar í list sinni; nýsköpun varð að meginmarkmiði, bæði í
málverki og skáldskap. Á báðum sviðum var risið af mikilli frekju gegn
hinum hvimleiða þriðja aðila sem áður hafði gefið verkum listamanna lit og
lögun. „Veruleiki ljóðs er ekki yrkisefnið sjálft, heldur mynd þess“ segir
Einar Bragi í Birtingi 1955: „í góðu ljóði hverfur yrkisefnið í mynd sína,
verður hún“4. Og á sama vettvangi skömmu áður gengur Þorvaldur Skúlason
enn lengra: „Nonfígúratívt málverk er [... ] eingöngu bygging lita og forma.
Milli verksins og listamannsins er enginn þriðji aðili, ekkert mótív handan við
myndina“5. Listaverkið átti að vera sérstakur, sjálfstæður formheimur, byggt
á milliliðalausri tjáningu; viðleitnin byltingarkennd í íslensku samhengi.