Andvari - 01.01.1997, Blaðsíða 11
ANDVARI
FRÁ RITSTJÓRA
9
deilu við Einar H. Kvaran rúmum áratug fyrr. Nordal vildi hreinni línur,
ákveðnari boðskap, harðari kröfur, og hefði þá átt að fella sig betur við
nýrétttrúnaðinn. Hefur hann þó líka sætt gagnrýni, einmitt fyrir að leggja
of mikið upp úr játningum og helgisiðum og hafa of myrka sýn á manninn,
andstætt bjartsýni aldamótaguðfræðinnar. Eg held þó vafalaust að nýrétt-
trúnaðurinn svari mun betur til hugmynda þeirra kynslóða sem lifað hafa
gildishrunið eftir seinni heimsstyrjöld og alist upp við heimsendasýn kjarn-
orkuógnarinnar.
Raunverulega kom þessi stefna furðu seint til Islands. Það á líka við um
aðrar hræringar í andlegu lífi, svo sem listum og bókmenntum, að þær ná til
Islandsstranda um það bil sem þær eru að hníga annars staðar. Þetta kann
þó að vera að breytast vegna greiðari samgangna við umheiminn en fyrr, í
öllum skilningi. A vettvangi kirkjumála má vera að ný „aldamótaguðfræði“
sem tekur meira mið af félagslegum sjónarmiðum eigi eftir að verða sterk-
ari við upphaf næstu aldar. Mátti heyra óm af henni í aðdraganda biskups-
kjörs þar sem var málflutningur séra Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur (kvenna-
guðfræði) og séra Gunnars Kristjánssonar (félagsleg gagnrýnin guðfræði)
en raddir þeirra máttu sín ekki mikils meðal kirkjunnar þjóna í biskups-
kjörinu nú, hvað sem seinna verður.
Hin voðfellda „bjartsýna“ nýguðfræði, sem leitaðist við að vefja kirkju-
kenningarnar í slæður svo varla glitti í fastan kjarna, rann sitt skeið. í henni
var ekki hald þegar á reyndi. Það er ekki þar með sagt að afkristnun þjóð-
arinnar eða „afhelgun“ (sekúlarísering) samfélagsins hefði orðið minni eða
hægari, ef öðru vísi hefði verið brugðist við. Reynsla annarra þjóða bendir
ekki til þess. En það er býsna skammt á milli virðingarverðs frjálslyndis og
háskalegrar undanlátssemi. Þess sjást æ skýrari merki í samfélaginu. Það er
til dæmis alveg ljóst að agalaust uppeldi er farið að koma okkur illilega í
koll. Aðhaldslausir unglingar, aldir upp við myndbönd og tölvuleiki og á
götunni, standast ekki atlögur gróðamanna og glæpalýðs sem sá dauða og
kvöl í samfélaginu, eitri og ólyfjan. Þeir sem eru andlega vannærðir grípa
tíðum til svikanæringar til að fá eitthvert inntak í líf sitt.
Hvernig getur kirkjan verið „fleinn í holdi samfélagsins“ eins og klerkar
segja að hún eigi að vera? Blátt áfram með því að boða trúardaufum sam-
tíðarmönnum hreinan og ómengaðan kristindóm í orði og verki. Geri hún
það ekki hefur hún engu hlutverki að gegna og sálfræðingar og félagsráð-
gjafar gætu þá alveg tekið við sálgæslunni. Hinn nýi biskup, séra Karl Sig-
urbjörnsson, hefur réttilega lagt áherslu á þetta. Hann sagði í blaðaviðtali
(DV13. sept. 1997) að kirkjan þurfi að tala „skýrar máli fagnaðarerindisins
í samtíðinni. Hún verður að vera boðandi kirkja. Vera sterkari farvegur
fyrir kærleiksþjónustu af ýmsu tagi, þjónustu við hina bágstöddu og líðandi.