Andvari - 01.01.1997, Blaðsíða 38
36
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
ANDVARI
sér fara. Eftir náin kynni af því sem hafði verið ritað á íslensku á
fyrstu öldum bókmennta vissi hann betur en nokkur maður annar
hvað var hrein íslenska og miður hrein, og um það efni leiðbeindi
hann mörgum manninum, stundum með þeirri vinsemd og alúð sem
honum var lagið, en stundum með orðbragði og kárínum sem honum
var einnig lagið og menn rekur lengi minni til. Bækur Halldórs Lax-
ness hafa ekki versnað við að Jón las þær margar hverjar í handriti
og próförkum. En þótt hann hafi sniðið af þeim fáeina hnökra hefur
hann ekki hróflað við stílnum; stílinn á bókum sínum á Halldór sjálf-
ur.
Hrókur alls fagnaðar
Jón Helgason var ræðumaður með ágætum, frábær lesari bæði á ljóð
og óbundið mál, mikill skemmtunarmaður, jafnt á fundum og
mannamótum sem á vinnustað og á heimili sínu, spéfugl og háðfugl,
orðhvatur og stundum meinyrtur, svo að sumum þótti nóg um. Hann
var duglegur að sækja fundi í félagi Hafnarstúdenta og má segja að
hann hafi verið þar hrókur alls fagnaðar frá því að hann kom fyrst til
Hafnar og fram á elliár.
Kona Jóns, sem hann gekk að eiga 29. júní 1923, Þórunn Ástríður
Björnsdóttir frá Grafarholti (f. 25. mars 1895, d. 7. maí 1966) hygg ég
að hafi átt ólítinn þátt í að skapa þær aðstæður á heimili þeirra að
Jón gat sinnt áhugamálum sínum og störfum ótruflaður heima hjá sér
eins og hann sjálfur kaus. Að því er ég best veit sá hún að mestu um
allt veraldarvafstur fyrir heimilið, bæði fjármál og aðdrætti. Ég
kynntist henni sem hæglátri konu og hlýrri í viðmóti. Lengst af áttu
þau heima í einbýlishúsi á Kjærstrupvej 33 í Valby. Þar hafði Jón
rúmgott vinnuherbergi þar sem allir veggir voru þaktir bókum, en
auk þess var mikið bókasafn í kjallara hússins, og gekk sú saga að
sumir rithöfundar íslenskir bæru kvíðboga fyrir hvort bækur þeirra
mundu lenda í kjallaranum á Kjærstrupvej 33, eða hvort þeim hlotn-
aðist sá heiður að komast í hillur á efri hæðinni. En það var al-
kunnugt að Jón hafði lítið álit á sumum þeim rithöfundum og skáld-
um sem hvað mest var hampað hér heima á íslandi og einna helst til
mótvægis við Halldór Laxness.