Andvari - 01.01.1997, Blaðsíða 26
24
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
ANDVARI
Á vegum Árnanefndar (Kommissionen for det Arnamagnæanske
Legat) gaf Jón út íslenzk miðaldakvœði, annað hefti fyrsta bindis
1936 og annað bindi 1938, samtals 804 blaðsíður. Þetta er undir-
stöðuútgáfa með fullkominni greinargerð fyrir varðveislu kvæðanna
og kvæðin prentuð stafrétt eftir handritunum. Hugmyndin var að
þessi útgáfa yrði þrjú bindi og framhald af Den norsk-islandske
skjaldedigtning, sem Finnur Jónsson gaf út í tveimur stórum bindum
1908-15, en því miður tókst Jóni ekki að ljúka þessari útgáfu. Eg veit
þó ekki betur en það sem á vantar hafi verið að mestu leyti tilbúið til
prentunar þegar hann lést. Væntanlega hefur hann einnig hugsað sér
að Byskupa sggur, 1. hefti, sem kom út hjá Det Kongelige nordiske
oldskriftselskab í Kaupmannahöfn 1938, yrði upphaf að nýrri útgáfu
á Biskupa sögum. í því hefti eru ‘Byskupa ættir’, gefnar út stafrétt
eftir AM 162 fol., fragm. m, með inngangi um handritið og sjálfar
ættartölurnar, ‘ísleifs þáttr’, einnig með inngangi þar sem m. a. er
gerð grein fyrir handritum þeim sem voru notuð við útgáfuna; text-
inn er prentaður stafrétt eftir Flateyjarbók, en lesbrigði neðanmáls
úr öðrum handritum. Þriðja ritið í þessu hefti er Hungurvaka, saga
fyrstu biskupanna á Islandi, sem einungis hefur varðveist í eftirritum,
hinum elstu frá upphafi 17. aldar. í þessu hefti er Hungurvaka í fyrsta
sinni gefin út þannig að ekki verður um bætt, nema svo ólíklega vilji
til að betri handrit komi í leitirnar en áður eru þekkt.
Annar ávöxtur af rannsóknum Jóns á handritum Hungurvöku, og
sá sem fleiri kannast við en sjálfa útgáfuna, er kvæði hans: Til höf-
undar Hungurvöku:
Hér stíg ég enn mínum fæti á fold
og fylli lungun í blænum,
en þú ert örlítil ögn af mold
undir sverðinum grænum.
Það féll í hlut minn að hyggja um sinn
að handaverkunum þínum,
mér fannst sem ættir þú arfinn þinn
undir trúnaði mínum.
En lengi dróst að annað hefti þessa fyrsta bindis Byskupa sagna
kæmi á prent. Það var gefið út sem þrettánda bindi í ritröðinni Edi-
tiones Arnamagnœanœ, Series A, 1978. í því eru prentaðir textar
Þorláks sögu helga ásamt jarteinabókum og Páls saga byskups.