Menntamál - 01.04.1961, Qupperneq 20
10
MENNTAMÁL
er enn í fullu fjöri, og við arftakar hennar horfum til henn-
ar með öfund og aðdáun yfir óbrúanlegt djúp tveggja ára-
tuga.
Því nú er öldin önnur. Þeirri sjálfstæðisbaráttu, sem
var eitt langt heljarátak, er nú lokið. Kynslóð fullveldis-
ársins er að verða miðaldra. Kynslóð lýðveldisársins kom í
menntaskólana í haust. Sú sjálfstæðisbarátta, sem enn er
eftir, er endalaust stríð smáþjóðar fyrir því sjálfstæði,
sem smáþjóð getur haft, ekki ein stórorusta, sem býður
upp á lokasigur. Við þurfum ný viðhorf, nýjan skilning
á baráttunni, nýjar baráttuaðferðir. En við stöndum
stirðnaðir í stellingum einvígis, sem er gengið um garð.
Við höfum til dæmis varla gert okkur fyllilega ljósa þá
alls óvæntu kaldhæðni, að ísland fékk fullt sjálfstæði ein-
mitt um það bil, sem smáþjóðir hættu að geta verið sjálf-
stæðar í þeim skilningi, sem lagður var í það orð fram á
okkar daga.
Við erum búnir að ná því marki, að jafnast við aðrar
þjóðir í efnalegri vellíðan. Við búum nú betur en flestar
þjóðir heims. En nú liggja vandamálin heldur ekki beint
fyrir. Við þyrftum að velja og hafna, en í stað þess sitj-
um við fastir í þeim vana að fagna öllu, sem að utan kem-
ur, og girnast það allt, í þeirri trú, að okkur hljóti að vera
allt til góðs, sem við höfum ekki, hvort heldur það er nú
fegurðarsýningar eða sjónvarp eða hvorttveggja.
Við erum nú betur menntaðir en nokkru sinni fyrr og
ekki skal ég hika við að fagna því. En ber menntunin þann
arð, sem hún áður bar? Ef ekki, hvers vegna þá ekki? Ef
til vill sést hvergi betur en í menntamálunum sú gífurlega
breyting, sem orðið hefur á byggingu íslenzks þjóðlífs.
Áður tvinnaðist hvað við annað, svo að varla varð greint
milli stjórnmála, efnahags og menntunar. Nú er fjölbreyti-
leikinn orðinn svo mikill, aðskilnaður þjóðlífsþáttanna
svo algjör, að við getum ekki einu sinni treyst því, að
fjölgun skólanna auki menntunina í landinu. Menn eru