Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 4

Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 4
GESTUMBLINDI: KLUKKNAHLJÓÐ (JÓLASAGA) Veturinn hafði gengið snemma í garð. Snjón- um hlóð niður með fádæmum, og sjaldnast viðraði, svo að fært væri milli bæja, hvað þá lengra. Gömlu mennirnir spáðu hví, að breyt- ast mundi til batnaðar með hverjum kvartilaskiptum, en þær spár brugðust, og vonirnar, sem vöknuðu með hverju hríðarupprofi, dóu jafnskjótt. Þá var engin veð- urstofa til að segja fyrir um næsta dag, hver og einn treysti á gamla reynslu og gamla trú — eða hjátrú. Lengi héldu menn í vonina um að batna mundi með jólaföstunni, en allt kom fyrir ekki. Loks var jóla- tunglið eitt eftir. Það kviknaði í suðri, og enginn mundi eftir því, að það hefði brugðizt. Og það brást ekki heldur. Með jólatunglinu, sem kviknaði viku fyrir jól, hlánaði rækilega, síðan frysti og gerði rifahjarn. Það var sem fargi létti af allri sveitinni. Menn brugðu við og fóru í kaupstaðinn, til þess að sækja til jólanna, og koma prjónlesinu, sem unnið hafði verið í skamm- deginu í verð. Sumir höfðu náð í nokkrar rjúpur milli byljanna, og þær voru góð verzlunarvara fyrir jólin. Straumurinn lá óslitinn niður á Langeyri og þaðan aft- ur. Sumir voru með hest og sleða, aðrir óku varningn- um á sjálfum sér, en margir létu sér nægja, það sem þeir gátu borið á bakinu. Þeir bændur, sem leyfðu sér þann munað að ala reiðhesta, slepptu ekki tækifærinu að liðka gæðingana. ísar og hjarnbreiður dunuðu af hófataki. Og tunglið unga varpaði daufu geislagliti sínu inn í heldökkva skammdegisnæturinnar. Á „Eyr- inni“ var ösin rétt eins og í sumar- eða haustkauptíð, og margur búðarmaðurinn gekk þreyttur til hvíldar þessi kvöld. Páll í Seli varð síðbúnastur bænda í Staðarsveit að fara í kaupstaðinn að þessu sinni. Það var alltaf eitt- hvað, sem tafði og seinast var það smábandið. Það var því eltki fyrr en á Þorláksmessu, sem hann lagði í jóla- ferðina ásamt Sveini vinnumanni. Veðrið á Þorláksmessumorgun var gott eins og und- anfarna daga. Logn, frost nokkurt en heiðskírt. En blika til hafsins spáði engu góðu. Kona Páls bað hann að fara varlega og vera ekki seint á ferð. Þeim félögum gekk greiðlega í kaupstaðinn, en þar varð margt til tafar. í mörgu var að snúast fyrir mann- margt heimili. Páll var vinmargur og varð skrafdrjúgt við kunningjana, sem hann hafði ekki hitt síðan um haustið. En dagurinn í skammdeginu líður fljótt og bíður ekki þeirra, sem birtu hans þurfa að njóta. Það var því komið nær dagsetri, er þeir félagar lögðu af stað heimleiðis. Enn hélzt veðrið, en þó var ljóst, að skammt mundi að bíða breytingar. Grá blika hafði breiðzt um allt loftið, svo að lítt sá til tungls og stjarna. En í norðri dró upp kolsvartan hríðarbakka, sem hækkaði óðum, og upp úr honum skaut óteljandi þokukúfum og klökk- um. Utan frá firðinum drundi við þungt brimhljóð. Forboði þess, sem í vændum var. Þeir Páll fóru röskan. Þeir drógu sleða með nokkr- um farangri, en ekld svo, að hann þyngdi þeim göng- una verulega, þar sem færi var gott og þeir léttleika- menn. Þeir gerðu sér vonir um að ná háttum heim til sín, því að leiðin var ekki löng, en vandrötuð vegna flatneskju. Bakkinn í norðrinu hækkaði, og ekki höfðu þeir fé- lagar farið alllengi, þegar fyrstu snjókornin féllu, og fyrr en varði var komin þétt logndrífa. „Hann er skolli óálitlegur,“ sagði Sveinn. „Ég er ékki viss um að rata, ef svona heldur áfram, og ef hvess- ir er kominn blindbylur, ættum við ekki að snúa heim á einhvern bæinn og sjá hvað setur?“ „O svei því korninu,“ svaraði Páll, „þetta verður varla nema él, og við ættum í lengstu lög að rata fram með ánni. Ég vil ekki gera fólkið hrætt að óþörfu með því að koma ekki heim í kvöld.“ Páll hafði naumast sleppt orðinu, þegar fyrsta vind- hviðan reið yfir. Og jafnsnöggt og hendi væri veifað var stórhríðin skollin á, ógnþrungin og miskunnarlaus. Stormurinn hamaðist, fannkoman var afskapleg og frostið herti óðfluga. Ekkert sást út úr augunum, ekk- ert heyrðist nema vindhvinurinn, sem ýlfraði líkt og óargadýr, sem ræðst á bráð sína. Þeir höfðu storminn á hlið, og gerði það þeim enn örðugra en ella að halda stefnunni. Færðin þyngdist brátt, og sleðinn rann illa í nýsnævinu. Engu að síður brutust þeir áfram, og reyndu að halda í horfi, þótt veðurhæðin væri svo mikil, að hvað eftir annað lá við að þeim kastaði flötum. Brátt kom þar, að þeir vissu ekki hvar þeir fóru. En áfram héldu þeir í þeirri veiku von að reka sig á eitthvert kennileiti, sem þeir mættu átta sig á. 404 Heima er bezt \

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.