Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 12

Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 12
hljóðfæri, og gengust fyrir stofnun söngfélaga í sveit- um sínum. Þau félög stofnuðu blandaða kóra og leituð- ust við að bæta kirkjusöng hvert í sinni sveit. Auk þess var sungið á öllum skemmtisamkomum og oft brugðið sér milli bæja til að „taka eitt lag“. I Laxárdal voru það þeir mágarnir faðir minn og Hólmgeir Þorsteinsson (seinna bóndi í Vallakoti), sem forustu höfðu um þessi mál. Pabbi okkar átti töluvert mikið af nótum, bæði fyrir hljóðfæri og kóra, sænsk- ar, norskar, danskar nótnabækur, bæði kirkjusöngsbæk- ur og algeng sönglög. Unnur var sönghneigð og lærði sand af lögum á uppvaxtarárum sínum. Það gerðum við allar systur, og oft skemmtum við okkur við að syngja saman uppáhaldsljóðin okkar. Bezt minnist ég síðsum- arkvöldanna — þegar blítt var veður — blækyrrt, há- skýjað og oft dimmbláskýjað suðurloftið — utar heið- ríkt hvel — en yfir fellunum við dalbotninn í norðri eldur og gull upp af sólsetrinu. Áin niðaði rólega, spegildökk með gullnum glampa yfir lygnum og hylj- um. Að baki var máske erfiður þurrkdagur — og lúinn sagði til sín, svo ekki var lagt í gönguför, út um hlíð- ar og gil og grundir, nei — við settumst oft utan við bæinn, gáfum okkur á vald friðartöfrum kvöldsins, lét- um fegurð og ró fylla hug og sál, og kveldsvalann reka burt lúann, eða við sungum nýlærð heillandi lög, eða mösuðum um allt og ekki neitt, þangað til svefninn kallaði til hvíldar. Enginn má nú samt ætla, að öll uppvaxtarár okkar systra væru tómur leikur og dagdraumar. Frá því við komumst nokkuð á legg tókum við þátt í öllum störf- um heimilisins, — utan húss og innan. Fyrst að eltast við búféð, gæta kvíaánna og kúnna á sumrin, eltast við hesta, fara sendiferðir milli bæja, o. s. frv. Færa mat á engjar, teyma heim hesta undir heybandi og strax á unglingsárunum mjalta kýr og kindur með fullorðnu stúlkunum, og ganga að heyvinnu og annarri útivinnu. Unnur var fremur veikbyggð og ekki hraust, svo henni var að jafnaði fremur hlíft við erfiði en okkur eldri systrunum. Samt tók hún þátt í flestum daglegum störfum með öðrum. Þá þótti það mikill heiður að kunna öll algeng nauð- synleg verk til hlýtar. Það var mikið hrós þegar sagt var um fólk, að það væri vel verki farið, eða að það væri áhugasamt og laghent við verk. Hverri árstíð til- heyrðu viss vinnubrögð, svo inni sem úti. Á vorin eft- ir sauðburð ávinnslan á túnum, hreinsun á engjum, rúning á fé, ullarþvottur, þvottur á húsum. Þá komu fráfærur, lambaseta og rekstur. Og svo mjólkurhirðing og úrvinnsla. Þá voru búverkin vandasöm verk. Ég dá- ist oft að því nú, síðan öll þessi vinnubrögð eru horfin, hve alþýðuhúsmæður höfðu náð þar meistaralegum tökum á vandasömum verkum. Öll mjólkurílát voru þá úr tré, og það var ekki leikur einn að hirða þau svo mjólkin þyldi að vera „þrídægruð“, sem kallað var — þ. e. standa í þrjú dægur í mjólkurbökkunum án þess að súrna. Þá var rjóminn strokkaður, en undanrennan notuð í skyr og mjólkurmat. Eftir mikinn þvott var mjólkurbökkum og fötum hvolft á trégrindur yfir sjóðandi vatnspott og gufuhreinsuð, að því búnu bor- in út og sólþurrkuð þegar mögulegt var, annars hvolft á bekki í mjólkurhúsinu. Á haustin komu svo sláturstörfin og annar undir- búningur undir veturinn. Með vetrinum byrjaði svo ullarvinnslan. Móðir okkar var ágæt tóskaparkona og á hverjum vetri var unnið heima úr ullinni í klæðnað, bæði karla og kvenna, vaðmál í undirrekkjuvoðir, og svo auðvitað sokkaplögg og nærföt. Prjónavél var kom- in í sveitina nokkru fyrir aldamót. Einnig var ofið úr tvisti, bæði hvítum og mislitum. Þá voru tóvinnuvélar á Halldórsstöðum hjá Magnúsi Þórarinssyni, bæði kembi- og spunavélar, og léttu þær mjög tóvinnu heim- ilanna. Öll þessi verlt lærðum við systur að vinna: spinna band, vefjarþráð og ívaf, verka ull og prjóna sokka og vettlinga, og síðan með hjálp móður okkar að sauma flíkur úr voðunum. Sjálf litaði mamma dúka sína og band, bæði úr útlendum lit og ísl. jurtum — mosa og lyngi mest. Eg held, að þessi sjálfsagða þátttaka í lífsnauðsynleg- um störfum heimilanna hafi verið eitt veigamesta upp- eldisatriði til að gera einstaklingana að ærukærum, dug- andi mönnum, bæði karla og konur. Víst áttum við, sem þá vorum að vaxa upp, oft erfitt og máttum leggja hart að okkur og óskuðum eftir meira frelsi og leik, lengri hvíld o. s. frv. En mikil var líka vinnugleðin, bæði við inni- og útivinnu. „Ein þegar vatt og önnur spann iðn- in hvatti vefarann, þá var glatt í góðum rann, gæfan spratt við arin þann,“ segir Ólína Andrésdóttir. Það er sannleikur. Og sjálfstraust og öryggi veitir það hverj- um manni að vita sig færan um að vinna hvert það verk, sem nauðsynleg eru til góðrar, efnalegrar og dag- legrar afkomu. Unnur Benediktsdóttir átti eftir að taka við og stjórna stóru heimili, sem fjöldi gesta heimsótti. Það var allra mál, að henni færi það vel úr hendi. Hvort sem hún var heil heilsu eða sjúk, stjórnaði hún heimili sínu af röggsemi og festu, og leitaðist eftir megni við að láta þar öllum líða vel, mönnum og málleysingjum, heimafólki og gestum. Sú viðleitni hennar og geta var arfur úr föðurgarði og frá þeirri menningu, sem þá bar uppi líf alþýðu í héraði hennar. Ég hef stundum verið spurð að því, hvort hún hafi nokkurn tíma unnið venjuleg dagleg störf. Sannarlega gerði hún það, bæði sem ung stúlka og gift kona. Hannyrðir lék henni jafnt í höndum sem dagleg hirðu- brögð, matseld og öll heimilisumhyggja. En heilsa hennar bilaði snemma, og fáir vissu hvað hún, lítil og fínbyggð, átti í ströngu að stríða við heilsubrest sinn, og hvað hún var búin að berjast hetjulega áður en síð- ustu úrslitin komu. 412 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.