Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 10
Auðnabcerinn.
heimilisfólkinu til. Oft var gripið til þeirra, þegar þurfti
að lækna einhverjar smáar, andlegar meinsemdir, sem
þurftu að batna og gleymast.
II.
Litla stúlkan grætur. Máske hefur hún meitt sig —
eða eitthvað hefur skapraunað henni — eða hún er
þreytt eða lasin — huggunin er alltaf sú sama: Mildar
hendur taka hana og halla henni að hlýjum barmi, eða
setja hana á kné annað hvort mömmu eða fóstru — tár-
in eru þerruð — en meðan geðið kyrrist og sársaukinn
líður hjá, byrjar róleg rödd að raula vísu — lágum sef-
andi rómi — máske Fljúga hvítu fiðrildin eða Lóan
syngur bí bí bí eða einhverja aðra af öllum þeim ótelj-
andi sæg af lausavísum og stökum, sem jafnan hafa
flögrað um huga íslenzkrar alþýðu, legið í loftinu
kringum hana, hvíslað í eyra henni og orðið henni í
senn trúnaðarvinir og útlausn eigin hugsana og tilfinn-
inga — við ótal tækifæri, bæði í sorg og gleði — orðið
huggari og félagi, en smeygir sér líka stundum fram í
hugann — eins og vopn sé lagt í hönd — til vamar eða
sóknar. Vísan átti heima á hverjum bæ — fylgdi fólk-
inu að störfum og létti því erfiðið, átti í fórum sínum
flest geðbrigði mannlegrar sálar — og svipmót náttúr-
unnar og alls umhverfisins.
Það voru margar vísur til heimilis hjá foreldrum
okkar. Vísur, sem áttu heima á vörum fólksins — vísur
í bókum — vísur, sem áttu viss lög, eða lög sem áttu
vissa vísu — stuttar vísur og langar vísur, glaðar og
bjartar vísur, dimmar og kaldar vísur, vísur, sem grétu
— vísur, sem ærsluðust, og prúðar, settlegar vísur. Allar
flögruðu þær eins og mislit fiðrildi eða smá söngfugl-
ar um hugi okkar systra, — auðguðu hvem dag og
vöktu nýjar hugsanir, leiddu ævintýramyndir fyrir
augun, eða urðu að fljúgandi klæði ævintýrsins, sem
fyrr en varði var flogið af stað með hugann út í lönd.
Svo voru það þulurnar. Þegar kalt var úti, eða við
vorum lasnar, lá leiðin ævinlega til fóstru gömlu: „Æ,
segðu okkur nú sögu.“ „Ég er búin að segja ykkur all-
ar sögur sem ég kann.“ „Þá þulu eða einhverja vísu.“
Og ævinlega fengum við einhverja úrlausn.
Svo kom lestrarnámið. Móðir okkar kenndi okkur
sjálf að lesa. Það var auðvelt og yndislegt nám, og
mikil var sú gleði, þegar bækurnar hans pabba fengu
allt í einu málið og töluðu við þann, sem tók sér þær í
hönd og opnaði þær. Fyrst og fremst Ijóðabækurnar.
Steingrímur Thorsteinsson, Grímur Thomsen, Jón
Thoroddsen, Matthías — Svanlu'ít, Svava, Friðþjófs-
saga og margt fleira. Og svo þjóðsögurnar. Frá átta ára
aldri og fram til 13—14 ára drakk Unnur óspart af öll-
um þessum lindum, og raunar við allar systur.
Þegar Unnur var tíu ára tók faðir okkar heimilis-
kennara (Júlíus Ólafsson) í 3—4 mánuði. Þá fengum
við góða tilsögn í íslenzku, dönsku, landafræði, sögu
og reikningi. Eftir þann vetur fórum við að lesa bækur
á dönsku og norska ríkismálinu. Oft þurfti að grípa til
orðabókar fyrst í stað, en fljótlega liðkaðist um lestur-
inn. Bókakostur var góður á heimilinu að þeirra tíma
hætti, því auk bóka föður okkar voru þá komnar bæk-
ur „Bókafélags Þingeyinga“ — norsku öndvegisskáldin,
sem öllum eru nú kunn, auk þeirra tímarit og blöð og
danskar þýðingar á enskum og þýzkum bókum. Svo
fékk faðir minn oft lánaðar bækur frá Amtsbókasafn-
inu á Akureyri. Bókavörður þess hét Björn Árnason.
Þeir faðir minn og hann voru kunningjar og skrifuðust
410 Heima er bezt