Heima er bezt - 01.12.1962, Blaðsíða 5
En brátt kom nýr óvinur til sögunnar — þreytan.
Hún færðist smátt og smátt um allan líkamann, fótmál-
in urðu styttri og styttri, og það var eins og sleðataug-
arnar kipptu þeim jafnlangt aftur á bak og fæturnir
þokuðu þeim fram. Þeim varð enn örðugra að halda
stefnunni, og öðru hverju hrakti þá af leið undan átök-
um vindsins. En jafnframt var sem hugsunin sljóvgaðist,
enda þótt hún knýði þá stöðugt áfram. Loks rauf Páll
þögnina. „Eg held ég komist ekki lengra, við skulum
reyna að grafa okkur í fönn, það er hvort sem er eina
úrræðið.“ Þeir tóku að leita fyrir sér eftir einhverjum
stað, sem gerði þeim fært að grafa sig niður og njóta
skjóls meðan yfir þá fennti. En í sama bili heyrðu þeir
eitthvert hljóð. Þeir hrukku við og fóru að hlusta. Gat
þetta verið vindhvinurinn, nei, eða var það þyturinn
úr Gljúfrafossi, það lét stundum svo einkennilega í
honum í illviðrum, eða heyrðu þeir ofheyrnir. Eitthvað
hvarflaði í hug þeirra um furðuhljóð, sem stundum
hefðu átt að heyrast á þessum slóðum. Ef svo væri, var
ekki líklegt, að þeir heyrðu það báðir í senn. Nei, það
var ekki um að villast, þetta var klukknahljóð, og ekk-
ert annað. Var hugsanlegt að þeir væru komnir heim
undir Velli? En hver gat verið að hringja klukkunum.
Um það hugsuðu þeir ekki. En það var eins og þreytan
hyrfi. Þeir gengu frá sleðanum, svo að hann mætti aft-
ur finnast, og reyndu síðan að taka stefnuna á hljóðið,
þótt það að vísu væri nærri beint móti veðrinu. Þeir
brutust áfram eins hratt og þreyttir fætur gátu borið
þá í áttina að hinu frelsandi hljóði. En nú þagnaði það.
Var þetta þá blekking eftir allt saman, þeim lá við að
hníga niður. Nei, nú kom það aftur, áfram, áfram....
Það var einkar notalegt í stofunni á Völlum. Það
skíðlogaði í ofninum, og Ijósið á lampanum brann með
jafnri, notalegri birtu, engir dyntir eða duttlungar voru
í því eins og stundum. Síra Steinar hallaði sér á legu-
bekkinn og las yfir jólaræðuna, sem hann hafði ný-
iokið við að semja. Þetta var fyrsta jólaræðan hans, og
honum var mjög í mun, að hún tækist vel. Hann hafði
komið í Vallaprestakall um vorið, beint frá prófborð-
inu að kalla, en fuilur áhuga og eldmóðs. Hann hafði
vonazt eftir að hitta fyrir fólk, sem tryði og væri lif-
andi í andanum, eða að minnsta kosti, að honum mætti
takast að vekja með því trúarlíf, ef það væri tekið að
dofna. En vonir hans höfðu brugðizt. Messuföllin voru
þegar orðin óhugnanlega mörg. Og þá sunnudaga, sem
messað var mátti oft heita talað yfir tómum bekkjum,
þegar frá voru taldir fyrstu sunnudagarnir, meðan for-
vitnin rak fólkið til kirkjunnar. En hvers var sökin?
Var hann sjálfur ófær, til að gegna því starfi, sem hann
frá bernsku hafði dreymt um, að hann væri kallaður til.
Eða voru hjörtu fólksins lokuð? Stundum hafði sitt-
hvað hvarflað í hug honum um forherðing hjartnanna,
er hann sá sóknarbörn sín sinna ónauðsynlegum störf-
um eða flykkjast í skemmtiferðir á helgum dögum.
Vonleysið hafði því oft hvarflað að honum, en samt
var of snemmt að leggja árar í bát. Hafði ekki meistar-
inn sagt: knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.
Og nú voru jólin að koma. Þá eða aldrei væru hugirnir
opnir, og því yrði honum að takast vel. Hann las og
breytti, en var allt annað en ánægður. Honum þótti
ræðan of innantóm. Of mikið af orðum, en andann
sjálfan skorta. Var starfið honum virkilega ofviða?
Innan úr bænum barst til hans ómur af hávaða og
skvaldri, sem truflaði hann. Hann gat ekki einbeitt hug-
anum. Breytingamar, sem hann gerði, voru gagnslaus-
ar. Og hann gat ekki byrjað á nýrri ræðu. Ósigurinn
var framundan. Skýjaborgir æskunnar og skólaáranna
voru að hrynja.
Allt í einu flaug honum kirkjan í hug. Hann hafði
mælt svo fyrir, að hún yrði þvegin og prýdd eins og
föng væru á fyrir hátíðina. Hann vissi, að unnið hafði
verið að því í dag, en hafði það verið gert svikalaust?
Hann varð að fara út í kirkju og gæta að því. Enn væri
tími til að kippa því í lag, sem áfátt kynni að vera. Og
kannske opnaðist honum nýr möguleiki á einverustund
úti í kirkjunni. Hann spratt upp og gekk fram. Þegar
hann opnaði bæjarhurðina gaus ísköld hríðarstrokan í
fang honum. Svo mjög hafði hann verið fanginn af
verkefni sínu, að hann hafði ekki veitt veðrabrigðun-
um athygli. Honum flaug í hug að snúa aftur inn.
„Hvað mundi fólkið hugsa, ef hann þyti út í þetta
veður.“ Það mátti hugsa hvað sem það vildi. Senni-
lega liti það á þetta sem einhverja sérvizku. Hann hafði
ekkert kynnzt því og fannst jafnvel eins og það frem-
ur sneiddi hjá sér. Síra Steinar setti höfuðið í veðrið
og hljóp út. Hann saup hveljur, og fannst í fyrstu sem
veðrið mundi lemja hann niður. En út í kirkjuna skyldi
hann komast hvað sem það kostaði, hvernig svo sem
hann kæmist inn aftur.
Síra Steinar lokaði kirkjuhurðinni á eftir sér og
kveikti á kerti. Ósköp var Ijósið lítið og veiklulegt. I
kringum þennan litla flöktandi ljósblett var hálfrökkur,
sem sortnaði eftir því sem fjar dró en í mestum hluta
kirkjunnar var svartamyrkur. Var þetta ekki myndin
af umhverfi hans og starfi, var hann ekki jafnmáttvana
að veita söfnuði sínum birtu og yl og þetta litla Ijós
að lýsa innan kirkjuna? Það setti að honum hroll við
tilhugsunina. Hann gekk innar eftir kirkjunni og lýsti
í hvern krók og kima. Hreingerningin var óaðfinnan-
leg og kerti voru í öllum Ijósastikum. Kirkjan var lítil
og lág undir bita. Gluggarnir fáir og smáir. Hann
minntist þess að jafnvel á hásumardegi var þar aldrei
bjart. Uppi í rjáfrinu var kirkjan ómáluð, og skein þar
í bera súðina dökka af elli og fúa. Það marraði drauga-
lega í slitnu gólfinu, þegar hann gekk inn eftir því, og
allt húsið nötraði í verstu byljunum. Aldrei hafði
síra Steinari sýnzt kirkjan jafnlítil og fátækleg. Var
það nokkur furða, þótt fólkið væri eins og honum kom
það fyrir sjónir. Flest bjó það í þröngum og dimmum
torfhýsum, og var bundið af striti fyrir daglegu
brauði. Ekkert beindi hug þess til hæða. Sjálf kirkjan
var ekki öllu veglegri en skemma og drjúgum fátæk-
legri en vörugeymslur kaupmanna á Langeyri. Var
Heima er bezt 405